Erum að komast á jörðina eftir alveg hreint frábæra helgi. Við notuðum laugardagsmorguninn til að græja salinn fyrir fermingarveisluna, röðuðum upp borðum, dekkuðum og skreyttum. Ég var búin að gæla alvarlega við það að fara í Flóahlaupið en var ekki viss um að það tækist að pota því inn í dagskránna. Ákvað á endanum að ef allt væri orðið klárt klukkan hálf tólf þá myndi ég láta vaða og það varð úr. Gummi fékk far hjá mér og var svo sætur að keyra austur, lúxus á frúnni og ekki nóg með það, hann ætlaði að hlaupa á 4:00 pace sem passaði akkúrat fyrir mig í fyrstu atlögu að sub 40.
Veðrið var fallegt en það var töluverður vindur eins og venjulega í Flóanum. Fystu 2,5 km var hliðavindur, næstu 2,5 fengum við meðvind, aðeins hliðarvindur og síðustu 3 km var frekar sterkur mótvindur. Allt gekk samkvæmt plani fystu 7 km og við vorum akkúrat á pari þar en þá fór ég að síga aftur úr. Náði ekki að hanga í hælunum á Gumma sem þýddi að ég þurfti að berjast í vindinum ein og missti mikinn hraða. Endaði á tímanum 40:58 (glöð að vera undir 41 :), fyrsta kona í mark og 8. í heildina. Góð tilraun og fer í reynslubankann. Kökurnar í Flóanum klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn og allt til fyrirmyndar hjá þeim Flóamönnum eins og venjulega.
Sigurvegarar í 10 km hlaupinu, Moi og Bjössi.
Brunuðum í bæinn og rétt hafði tíma til að skvísa mig upp og næra áður en við Mamma og Lalla frænka frá Ameríku héldum í Hörpu til að njóta þess að horfa og hlusta á La bohème. Frábær sýning.
Á sunnudagsmorguninn var svo komin tími til að rigga upp Rice Krispís kransakökunni, skreyta og leggja lokahönd á allan fermingarundirbúining. Við fengum pössunarpíu til að sjá um stelpurnar á meðan messan var og þær komu ferskar og fínar beint í veisluna. Það þýddi að við Þórólfur gátum slakað á og notið þessarar stóru stundar í lífi stráksins okkar. Hann var svo flottur. Veislan var góð og við erum svo þakklát þeim sem gátu deilt þessum degi með okkur og glatt strákinn okkar með nærveru og góðum gjöfum. Gamla hélt meira að segja ræðu í tilefni dagsins. Var búin að lofa stráknum að láta ekki eins og asni eða að fara að grenja og ég stóð við það (vörin titraði bara pínu). Mér finnst erfitt að halda ræður og lít á það sem áskorun sem ekki er hægt að skorast undan og jú það verður auðveldara með hverju skiptinu. Þórólfur náði síðustu hálfu mínútunni á vídeó.
Og svo eru hérna nokkrar myndir úr fermingarmyndatökunni:
Engin ummæli:
Skrifa ummæli