Hélt að ég hefði heldur betur gert í buxurnar á mánudaginn. Eftir Gamlárshlaupið fór ég of geyst af stað, tók langa æfingu daginn eftir og sprett æfingu daginn þar á eftir. Tognaði í lærinu og var frá alvöru æfingum í 6 vikur. Sór og sárt við lagði að læra af reynslunni og setti meira að segja miða upp á ísskáp sem segir til um hversu marga daga Recovery maður þarf eftir mismunandi keppnishlaup miðað við aldur. Já, finn að með aldrinum þarf ég lengri tíma að jafna mig, gat keppt þrisvar í viku í denn án þess að finna fyrir því. En alla vega eftir Flóahlaupið hvíldi ég alveg á sunnudaginn og svo ákvað ég bara að kíkja á æfingu á mánudag en ekki taka sprettæfinguna, bara upphitun og eitthvað dútl. Svo vorum við allt í einu komin á brautina og svo var bara svo gaman í góða veðrinu og svo fékk ég allt í einu sting í vinstra lærið!!! ARRRRGHHHH.... Stoppaði í skrefinu, labbaði og teygði og blótaði mér í sand og ösku. Lullaði heim og hugsaði með mér hvurslags endemis grasasni ég gæti verið, FJÓRIR KOMMA TVEIR DAGAR Í RECOVERY EFTIR KEPPNI ÞEGAR MAÐUR ER 40+ OG ÞÁ MÁ MAÐUR TAKA EASY WORKOUT.
Var ennþá stíf í lærinu á þriðjudaginn og fór með skottið á milli lappanna til hans Rúnars sjúkraþjálfara. Nema hvað, af því að ég stoppaði strax þá slapp ég við tognun og var bara súr og stíf í lærinu. Hjóla einn dag, skokka næsta og ég má blasta á mánudaginn, á að vera orðin full frísk þá. Hjúkkit og ég lofa, lofa, lofa að láta ekki eins og kjáni aftur.
Í dag var Víðavangshlaup ÍR og ég var með leyfi frá Rúnari til að skokka það en ekki taka á því. Veit alveg hvernig ég er og til að geta verið með án þess að missa mig þá ákvað ég að nota tækifærið og hlaupa með Sonju í hlaupakerrunni, sjá hvað við gætum gert saman. Við byrjuðum alveg aftast og fyrsta km notaði ég til að lauma mér fram hjá eins mörgum og ég gat. Eftir 2-3 km var aðeins auðveldara að komast áfram og við vorum komnar á fínt skrið. Það eru þrenns konar viðbrögð sem maður fær þegar maður hleypur fram úr fólki með barn í kerru. A) Vááá flott hjá þér!!! B) Ertu að grínast í mér, andsk... C) Segja ekki orð en taka sprettinn á eftir manni og endast í svona 100m og hviss bang búmm... Síðasta km hljóp ég á 4:04 pace, frekar ánægð með það en lokatíminn okkar var 22:25. Við fórum fram úr 321 hlaupara og komum í mark númer 125 af öllum, 15. kona í mark. Þórólfur var 12. á sínum besta tíma 16:39, frábært hlaup hjá honum. Tengdapabbi og Lilja tóku á móti okkur í markinu og eftir hlaupið bauð tengdapabbi okkur í brunch.
Á fleygiferð á endasprettinum.
Í dag: 'Lilja, veistu hvað ríkasta kona í heimi heitir?' 'Já mamma...., hún heitir Eva'. :)
Lilja fékk bikiní í sumargjöf og það kom ekki annað til greina en að skella sér í sund í góða veðrinu í endurbætta Laugardalslaug. Frábær dagur í safnið hjá okkur og við hlökkum til sumarsins og ævintýranna sem bíða handan við hornið.