8. mar. 2012

Síðasta Powerade í bili

Powerade er svona gott/vont.  Alltaf svo gott þegar það er búið og oft soldið vont áður en maður kemur sér af stað.  Já, já og í dag er það alveg eins og venjulega, maður er eitthvað óvenju syfjaður, það er voða mikill snjór eitthvað, spáin segir rok í kvöld, bla, bla, bla...   Og svo mætir maður á staðinn, hleypur smá upphitun og er voða þungur á sér og líst ekkert svakalega vel á þetta og svo gerist eitthvað um leið og maður hleypur af stað gerast töfrarnir!  Allt í einu hrekkur maður í gírinn, skrefin verða létt og endorfínið kikkar inn.  Ég hef oft hugsað á löngu æfingunum mínum þegar 2-3 km eru eftir, ohhh hvað það væri gott að vera komin heim núna en það gerist aldrei í Powerade.  Það er svo fjölbreytt hlaupaleiðin að maður er alltaf bara með hugann við næsta legg, nota fyrstu til að koma sér í takt, klára brekkuna, rúlla niður allan dalinn, halda á slétta kaflanum, bíta á jaxlinn yfir stokkinn og undirbúa sig undir Rafstöðvarbrekkuna, verða svo glaður að komast upp á stíginn og þá byrjar niðurtalningin, bara 1 km eftir.  

Eftir hlaupið í kvöld tekur við hvíldarvika hjá okkur hjónum, langþráð hvíldarvika.  Við erum búin að vera rosalega dugleg að æfa síðustu vikurnar og nú finnur maður að það er komin þreyta í skrokkinn.  Ég ætla svoleiðis að njóta þess að slaka á.  Hvíldarvika þýðir nú samt ekki að maður geri ekki neitt og sitji upp í sófa með tærnar upp í loft, vá þá yrðum við örugglega brjáluð...  Hvílarvika þýðir að maður tekur sér alla vega tvo hvíldardaga frá hlaupunum, tekur í mesta lagi eina sprettæfingu í vikunni en ekki á fullu blasti, styttir önnur hlaup  og hleypur hægar en venjulega og syndir svo kannski bara þegar hreyfingarþörfin er að drepa mann.  

Sonjan mín var bara tveggja mánaða þegar ég hljóp fyrsta hlaupið í þessari seríu.  Með hverju hlaupinu hef ég styrkst og bætt mig, ja fyrir utan janúarhlaupið sem ég þurfti að taka rólega vegna tognun í læri.  Nú er hún Sonja mín orðin 7 mánaða, komin með tvær tennur, farin að borða mat og er að æfa sig að sitja sjálf.  Á laugardaginn verður svo uppskeruhátíð og það verður gaman að sjá hvernig þetta fer allt saman og fagna með félögunum.


Sonja daginn sem fyrsta Powerade hlaupið var í vetur :)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli