23. mar. 2012

Dánarfregnir og jarðarfarir

Mér finnst svo skemmtilegt að finna merki um að ég sé að eldast, er flissandi með sjálfri mér þegar ég uppgötva að ég er farin að gera eitthvað nýtt sem 'gamalt fólk' gerir.  Fyrir svona fimm árum áttaði ég mig á að ég var farin að stilla af Bylgjunni yfir á Rás 2, pjúff hugsaði ég þetta er aldurinn.  Nú er svo komið að ég er oftar og oftar farin að stilla á RÚV í staðinn fyrir Rás 2 þegar graðhesta-rokkið er æra mig.  Rankaði við mér um daginn en þá kaus ég frekar að hlusta á upplestur dánarfregna og jarðarfara en síbyljuna.  Það er endanlega staðfest að ég er orðin miðaldra!

En ég er frísk og spræk miðaldra og ánægð með lífið og minn stað í því.  Í gær var lokahlaupið í  Atlantsolíu/FH  5 km hlaupaseríunni og ég stóð mig að því að dæsa oftar en einu sinni yfir rokinu þegar  leið á daginn.  Á leiðinni í Hafnarfjörðinn var ég að gæla við þá hugsun að skokka bara einhvern góðan hring og sleppa þessu en þegar nær dró og ég sá hlaupara hita upp, þá var það ómótstæðilegt að vera með.  Ég fann mig vel frá upphafi hlaups og þetta var alveg svakalega gaman (auðvitað) þrátt fyrir hífandi rok.  Notaði skynsemina og fann mér skjól í verstu kviðunum en annars rúllaði ég bara létt og sterk.  Í þetta sinn átti ég nóg eftir síðasta km og við síðustu beygju náði ég konu nr. 2, alveg eins og í síðasta mánuði, þá náði ég ekki að hanga í henni.  Í þetta sinn hafði ég betur og var 2. kona í mark á 19:45 og eina konan á undan mér gæti hæglega verið dóttir mín :).  Veit að ég er komin í mitt besta form og það hefði verið svo gaman að taka PB í aðeins lygnara veðri en það bíður betri tíma.  Ef ég fæ ekki veðrið þá ætla ég bara að vera komin í svo gott form að það skiptir ekki máli í sumar!


Tekið á því á endasprettinum :)

Framundan skemmtileg helgi hjá okkur hjónum.  Annað kvöld er árshátíð hjá bónda mínum með tilheyrandi tjútti og á sunnudagskvöldið er hann búin að bjóða mér út að borða á Goodness, sem er pop-up veitingastaður í tengslum við 'Hönnunar mars'.  Var alveg hoppandi glöð með það, spennandi að smakka á ljúffengu heilsufæði og læra kannski eitthvað nýtt í leiðinni.  Pop-up veitingastaðurinn er hugmynd Elettru Wiedeman en það vill svo skemmtilega til að fyrir nokkrum árum þá hafði stjúpa hennar samband við mig og fékk hjá mér maraþon prógramm og við höfum verið í smá samskiptum síðan, erum FB vinkonur.  Á sínum tíma minnir mig að hún hafi stefnt á 3:20 sem  hún rúllaði upp.  Hún lét ekki þar við sitja, er komin fram úr mér og á 3:03, respect.

1 ummæli:

  1. Ég fékk Goodness eftirrétt í gær sem var súkkulaði hnetusmjörs eitthvað .. svaðalega gott JÖMMÍ!!!

    SvaraEyða