Ég var heppin að vera á braut með Nönnu, við erum að vinna saman og ég var vön að synda með henni á æfingum fyrir óléttu. Stefndi á að reyna að hanga í henni eins og ég gæti. Í upphituninni kom smá babb í bátinn. Íþróttatoppurinn sem ég var í var víst orðin heldur stór á mig (eftir að ég hætti næturgjöfunum... ehemm...) og ég hringdi í ofboði í bóndann sem ætlaði að koma með stelpurnar og hvetja. Hann fann fyrir mig annan topp og kom hlaupandi með toppinn, eina mínútu í start! Ég hljóp út í horn og snéri mér að veggnum og skipti um topp í hvelli, eins gott að maður er komin með mjög vankaða blygðunarkennd! Við vorum bara 3 á okkar braut, enginn troðningur og mjög afslappað andrúmsloft. Sundið gekk eins og í sögu, náði að hanga alla leið. Við stelpurnar höfðum æft okkur fyrir keppnina í að komast upp á bakkann þannig að það var allt í góðu. Verð samt að segja að Nanna var mun þokkafyllri, gamla fimleikakonan teygði bara annan legginn upp á bakkann og trítlaði af stað meðan gamla notaði meira svona krafla sig uppá, leika sel og dröslast á fætur...
Smá upphitun
Tvær mínútur í start og ég ennþá í stóra toppnum að líta eftir Þórólfi
Dröslast upp úr lauginni...
Var búin að stilla upp hlaupadótinu mínu eins og ég vildi hafa það en þegar ég hljóp í átt að körfunni minni þá var þar heljarinnar hindrun í mannslíki. Gaur sem var að krúttast við að taka myndir af öðrum keppendum sem voru komnir upp úr stóð beint yfir dótinu mínu!!! Í adrenalín rússi gargaði ég á aumingjans manninn um að koma sér í burtu, sem hann og gerði fljótt og vel... :þ Annars gekk allt smurt í skiptingu, hljóp inn í sal og fann mér bretti og ekkert mál að keyra það upp. Var 7. kona eftir sund og skiptingu.
Fyrir keppnina var ég búin að ákveða að hlaupa á 15, eða 4:00 pace. Ég hef ekki getað haldið þeim hraða áður í svona keppni þannig að mér fannst það krefjandi en raunhæft miðað við form. Skemmst frá því að segja að hlaupið gekk eins og í sögu, beið eftir að þreytast en þetta var bara ekkert mál. Þegar kílómeter var eftir hækkaði ég í 16 og síðustu 500m hljóp ég á 17,1 - heildartími á hlaupunum 19:44. Eftir á að hyggja þá hefði ég mátt hækka hraðann miklu fyrr, jafnvel eftir fyrsta km en svona lærir maður bara af reynslunni og þetta fer í bankann.
Hrikalega einbeitt.
Á endasprettinum :)
Var þriðja kona í heildina eftir hlaupið á tímanum 30:24 sem er lang besti tíminn minn í þessari þraut. Stefnarn er klárlega sett á sub 30 í næstu. Önnur í flokki eldir kvenna (thíhí...) eða 40 ára plús. Að launum var fallegur silfurpeningur og dekur í Laugum Spa fyrir tvo, hlakka til að bjóða elskunni minni með mér. Þórólfur var frábær á hliðarlínunni, veit alveg hvernig er best að hvetja sína konu, þ.e. bara að láta vita af sér en ekkert að vera að skipta sér af og gott að geta knúsað stelpurnar að þraut lokinni. Hérna eru öll úrslitin, skrolla niður fyrir karlana.
Frábær dagur og stolt af mínu fólki í Ægi Þríþraut, þau stóðu sig með prýði í keppnihaldinu og skipulagi. Sportís sá um að galla mig upp í Asics og Casall fatnað, takk fyrir það. Artasan um næringuna fyrir og eftir keppni. Topp vörur frá EAS, mæli sérstaklega með Mass Factor sem ég nota sem recovery drykk enda hrikaleg áríðandi að næra sig eins fljótt og hægt er eftir átökin. Svo er náttúrulega bara dásamlegt að fá sér einn Double Chocholate Crisp EAS bar með. Þetta er að sjálfsögðu bara til að brúa bilið þangað til maður kemst í almennilegan mat en kemur ekki í staðinn fyrir hann!!! .
Fyrstu þrjár konur, Guðrún Fema, Birna og Eva.
Myndirnar voru teknar af Fjalari Jóhannssyni (fleiri myndir hér) og Þórólfi. Enn einn frábær dagur í safnið, takk fyrir mig!
hvenig væri að birta allar athugasemdir
SvaraEyðaÁ þá ekki að kæra úrslitin, það hefur ekkert svindl verið í gangi núna.
SvaraEyðaSvei mér þá, ég veit ekki um neitt svindl í þessari keppni og ég birti nú yfirleitt bara athugasemdir undir nafni en þú ert svo krúttleg-ur að ég leyfi þér að hanga inni. Ég tók einmitt sérstaklega eftir því að nú voru sendar út keppnisreglur, það er bara gott mál og sannarlega til bóta, vel gert. Sem sagt engir útreiknaðir, áætlaðir, ef til vill tímar sem ég veit um, styttingar eða lengingar á leið eða synt/hlaupið út úr braut. Sumir á staðnum voru reyndar jafn krumpaðir og venjulega, óánægðir með lífið og tilveruna en það er ekki DQ ástæða, nema þá að þeir stimla sig sjálfir út úr því að njóta lífsgleðinnar eins og við hin en það er önnur og sorglegri saga. Óska þér alls hins besta og hver veit, einn daginn eignastu kannski nóg hugrekki til að skrifa undir nafni. Þangað til mæli ég með að þú lesir 'Elsku Míó minn' reglulega, er viss um að það geti hjálpað.
SvaraEyða