3. feb. 2012

Já hann flýgur!

Sonja mín orðin 6 mánaða, er þetta satt?  Jú, það er víst þannig og nýjustu tölur úr ungbarnaeftirliti segja að daman dafni alveg sérdeilis vel, 68 cm og 7,3 kg.  Í síðustu viku fékk hún að smakka mat í fyrsta sinn og líkaði vel.  Nú hef ég svo góðan tíma að ég hef útbúið allan mat fyrir hana sjálf, gufusoðið ávexti og grænmeti en það var ekkert svoleiðis dekur á hinum krökkunum, allt keypt.  Hún er aðeins farin að súpa vatn úr stútkönnu en annars erum við svo heppnar að ég á alltaf nóg af mjólk og ég stefni á að hafa hana á brjósti fyrsta árið að minnsta kosti eins og hina ungana mína.

Ég fjárfesti í matvinnsluvél um daginn og hún kemur sér vel í barnamatsstússinu og svo er ég orðin hálfpartinn húkkt á hráfæði og annars konar heilsufæði sem gott er að græja í svona vél.  Ég hef aldrei borðað eins mikið og jafn hollan mat en afleiðingarnar eru þær að ég hef aldrei verið léttari eða í betra líkamlegu formi á fullorðinsaldri.  Hrikalega gaman að upplifa breytingarnar við að taka enn eitt skrefið í áttina að hollara líferni.    

Annars eru mikil tímamót í dag, Sonja flutti inn til stóru systur og nú ætlar hún að láta sér nægja að borða bara á daginn (hún veit það ekki ennþá en þannig verður það!).  Þórólfur tekur við næturkeflinu og ætlar að hjálpa henni í gegnum þessar breytingar.  Stóð sig eins og hetja með Lilju í denn og efast ekki um að honum farist það vel úr hendi í þetta sinn líka.  Fyrir mig eru þetta ekki síður stórkostlegar breytingar en mér reiknaðist til að það séu ca. 15 mánuðir síðan ég svaf meira en 3 tíma samfleytt, zzzz...    Ég byrjaði á þessu blessaða óléttupisseríi mjög snemma á meðgöngunni og síðustu mánuðina átti ég bara virkilega erfitt með svefn án þess að það væri nokkuð að plaga mig.  Bara glaðvakandi heilu og hálfu næturnar.  Þær nætur sem Sonja hefur sofið í meira en 3 tíma í senn þá hef ég samt sem áður vaknað, af vana, til að tékka á henni.  Reikna með að þurfa eina tvær vikur til að aðlagast því að fá að sofa, sofa, sofa og sofa meira.  Mmmmm...

Lilja litli snillingur sem er nýorðin fimm og alveg að verða tvítug, er búin að taka tvö risaskref í þroska og hæfni á síðustu viku.  Hún kann að flauta og lesa!   Allt í einu kom flaut og nú flautar hún daginn út og inn eins og herforingi.  Hún er löngu búin að læra stafina en síðustu vikur þegar ég hef lesið fyrir hana, fyrir svefninn, hef ég látið hana stafa fyrir mig (eftir upplestri) eitt orð á hverri síðu og það var alveg fyndið þegar hún fattaði samhengið á milli stafanna og hljóðanna.  Hún fann fram gamlan tölvuleik frá því Gabríel var lítill, Glói geimvera á Lestrareyju   og nú les hún sjálf og leysir þrautir (flautandi) og kallar upp með reglulegu millibili (og smá vantrú í röddinni), 'Mamma, mamma, ég kann í alvörunni að lesa!!!   L-e-s-a, h-e-s-t-u-r, l-ó-a....

Við Sonja í mömmuhitting í vikunni

Ég segi það nú örugglega ekki nógu oft, þó ég segi það satt að segja mjög oft...  Ég er óendanlega þakklát fyrir að eiga hana mömmu mína.  Orð fá því ekki lýst hversu miklu máli hún skiptir mig og hversu vænt mér þykir um konuna sem puðaði mér út í heiminn og hefur alltaf staðið með mér.  Síðustu árin hef ég fengið að klippa hana, blása og lita augabrúnir þegar þess þarf og það eru notalegar stundir hjá okkur.  Þá vil ég helst fá alveg frið og við spjöllum og leysum lífsgáturnar.  Í dag kom mamma og passaði Sonju á meðan ég skaust í búðina.  Ég setti svo Sonju út í vagn, skvísaði kelluna aðeins upp og hafði rænu á að taka sæta mynd af henni á eftir.  Þetta er hún mamma mín, sem ég elska út fyrir endimörk alheimsins:

4 ummæli:

  1. Elsk... :*

    Og vá, hvað hún er fín!

    SvaraEyða
  2. Til hamingju með allar þessar duglegu stelpur/konur í þínu lífi...og strákana auðvitað líka:)

    SvaraEyða
    Svör
    1. Takk Sóla, þú þekkir þetta :) Er ekki að koma tími á annan kaffisopa og að knúsa Ástu?

      Eyða