24. feb. 2012

Hlaupasería FH og Atlantsolíu #2

Var pínu spennt í vikunni að taka þátt í 5 km hlaupi FH og Atlantsolíu sem fór fram í gær, fann að ég var heldur góð við mig á laugardaginn og langaði að taka almennilega á því til að bæta það upp.  Ég ákvað nú samt að halda æfingaplaninu mínu og pota hlaupinu bara inn ef ég væri í stuði og veðrið væri skikkanlegt.  Erfiðar sprettæfingar á mánudag (3000/2000/1000) og miðvikudag (12 * 400) þannig að það var ekkert hvílt en gott að fá mynd af grunnforminu.  

Það rættist úr veðrinu um miðjan dag og ég ákvað að láta vaða, Þórólfur græjaði fyrir mig miða og ég flýtti kvöldgjöfinni hjá Sonju um klukkutíma og rauk svo af stað.  Náði að hita upp rúma 2 km og fann að ég var of mikið klædd.  Úr ullarbolnum, húfunni og hönskunum og þá var allt klárt.  Stefnan var að reyna að vera nálægt 3:50 pace og alla vega fara undir 20, helst PB sem ég hélt reyndar að væri 19:42 en fann svo út eftir hlaupið að ég átti 19:34 frá því 2010 sem ég var búin að steingleyma.  

Hlaupið gekk eins og í sögu, leið ótrúlega hratt fyrstu 3,5 km en þegar km var eftir fór ég að finna fyrir þreytu átaka liðinnar viku og þurfti aðeins að bíta á jaxlinn til að halda og klára.  Fór fram úr Trausta sem hvatti mig til dáða þegar rúmur km var eftir og þá sá ég í skottið á henni Birnu, 2. konu.  Þá var bara að reyna að hanga og nota öll trikkin í bókinni til að halda kollinum í réttum gír.  Notaði allt bensínið á tanknum og það skilaði mér í mark á 19:38 sem er bara 4 sek frá mínu besta (hélt reyndar að ég hefði sett PB þangað til ég kom heim og fann hinn tímann og náði góðu fagni í 2-3 klukkutíma, hahahahha... :).  Samkvæmt Garmin var ég 19:20 með 5 km en hann mældi brautina 5,07.

Lapparnir mínir skv. Garmin:
1. km 3:51
2. km 3:52
3. km 3:54
4. km 3:53
5. km 3:50
77 m 00:18

En alla vega, er alveg svakalega sátt og ætla klárlega að bæta mig í ÍR hlaupinu á Sumardaginn fyrsta, gera þetta þá eftir bókinni og undirbúa mig eins og fyrir keppni.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli