29. feb. 2012

Fyndið...

Það er búið að krauma í mér blogg í nokkra daga.  Ég hef fylgst með umræðunni um dónakarla, bæði hérlendis og erlendis, eins og þorri þjóðar og skoðanir almennings á viðbrögðum þolenda.  Kannski með meiri áhuga en margir, það er nefnilega þannig að ég á mína eigin dónakarla sögu.

Þegar ég var rúmlega tvítug fór ég í gegnum dökkt tímabil, var vansæl og ringluð, gekk illa að átta mig á afleiðingum þess að alast upp í alka fjölskyldu og öllu sem því fylgir.  Þetta var nokkrum árum eftir að pabbi minn hætti að drekka og við vorum farin að átta okkur á að vinnan við að laga allt sem úrskeiðis hafði farið tæki langan tíma.  Ég ákvað með stuðningi foreldra minna að fara til sálfræðings sem hafði verið með nokkra fjölskyldumeðlimi í viðtölum og þekkti aðeins okkar sögu.  Í einu viðtalinu spyr sálfræðingurinn mig hvort ég hafi einhvern tíma orðið fyrir einhverju sem gæti flokkast undir kynferðislegt ofbeldi sem barn.  Ég var fljót að svara nei, nei en ég lenti reyndar einu sinni í soldið fyndnu atviki...   Hann bað mig endinlega að segja frá og ég byrjaði:

Ég var svona 12 eða 13 ára þegar ég vakna í rúminu mínu eina nóttina við einhvern umgang.  Hálf sofandii og gleraugnalaus (ég var mjög nærsýn með - 6) þá greini ég manneskju í myrkrinu í dyragættinni.  Herbergið mitt var við hliðina á herbergi foreldra minna og í fyrstu hélt ég að þetta væri mamma.  Manneskjan kemur aðeins nær og þegar ég píri augun sé ég að þetta er karlmaður, nú þá hlítur þetta að vera pabbi.  Þá beygir manneskjan sig fram og ég sé hreyfinguna þegar hártoppurinn fellur fram á ennið og þá verð ég hrædd.  Pabbi minn er sköllóttur.  Maðurinn losar beltið og klæðir sig úr buxunum.  Ég finn hvernig ég lamast af ótta, það ókunnur maður inní herberginu mínu um miðja nótt, komin úr buxunum.   Hann gengur að rúminu mínu og leggst upp í það.  Á einhvern ótrúlegan hátt tekst mér að troða mér undan honum, stökkva úr rúminu mínu, rífa sængina með mér og hlaupa inn til mömmu og pabba.  Ég get varla andað en næ að vekja mömmu og á milli ekkasoganna segi ég: 'Mamma, mamma, það er maður í rúminu mínu!'.  Mamma hélt að mig hefði verið að dreyma illa en ég segi aftur og aftur: 'Það er maður í rúminu mínu, í alvöru!!!'.   Pabbi vaknaði líka og fór athugaði málið og jú, þarna var hann ennþá.  Hann lá blindfullur, í hnipri á nærbuxunum í rúminu mínu.  

Og þarna fór ég aðeins að hlægja og sálfræðingurinn horfði á mig eins eitt stórt spurningarmerki.

Ja, þetta var sko Njáll frændi.  Hann hafði komið fullur heim til okkar eftir eitthvað skrall til að fá að sofa úr sér áður en hann færi heim til sín.  Ekkert mál að láta konuna sækja sig daginn eftir ef hann var bara að gista hjá frænda sínum en ekki einhvers staðar út í bæ, hehe...

Ég hlæ pínu meira en líður asnalega núna því sálfræðingurinn horfir mjög undarlega á mig og spyr svo hvað gerðist næst?

Mamma segir að ég hafi sennilega fengið taugaáfall, því ég var með skjálftakippi um allan kroppinn og grét í marga klukkutíma.  Ég fékk að vera uppí hjá henni restina af nóttinni og hún hélt utan um mig og huggaði mig. 

Þarna er ég hætt að hlægja.  En maðurinn, hvað var gert við hann?  Var hringt á lögregluna? Var hann handtekinn?

Nei, nei, þau náðu í sæng fyrir hann og leyfðu honum bara að sofa í rúminu mínu þangað til hann vaknaði.  Þá fékk hann kaffi og svona áður en konan kom að sækja hann.  Ég faldi mig inní herbergi hjá mömmu og pabba þangað til hann fór.  Þau sögðu aldrei neitt við hann og það var alltaf bara hlegið að þessu heima hjá mér.  'Muniði þegar Njáll frændi fór óvart upp í rúm til Evu, blindfullur og vitlaus.  Hann hélt örugglega að hann væri bara heima hjá sér, hahahhahaha...'   'Og díhhh hvað Eva var hrædd maður, næstum búin að pissa á sig af hræðslu, allt einn stór misskilningur...'

Ég á aldrei eftir að gleyma svipnum á sálfræðingnum.  Hann varð brjálaður af reiði.  Reiði fyrir mína hönd.  Hann gat ekki einu sinni talað í nokkrar mínútur.  Svo hrækti hann orðunum út úr sér.  

Ertu að segja mér að þegar þú upplifðir þá mestu ógn sem þú hafðir upplifað á ævinni, þá var hún ekki fjarlægð af þeim sem standa þér næst, heldur er hlúð að henni og ofbeldið gert að brandara?

Þarna var vörin farin að titra.  10 árum eftir atburðinn varð loksins einhver reiður fyrir mína hönd.  Og svo fór ég að hágráta.  Svo varð ég reið.  Alveg brjáluð. Brjáluð út í mömmu og pabba.  Brjáluð út í helvítis Njalla frænda sem hræddi næstum því úr mér líftóruna.  Brjáluð yfir því að vegna þess að hann var svo fullur greyið þá var þetta bara óvart og það var aldrei talað um þetta við hann.  Brjáluð yfir öllum skiptunum sem ég fór og faldi mig inní herbergi þegar hann mætti í kaffi eins og ekkert væri.

Ég fór beint heim og 'ræddi', ef það er hægt að nota það orð..., þetta við foreldra mína og fékk þeirra sýn á málið.  Og í gegnum árin höfum við rætt þetta oft og mörgum sinnum.  Og auðvitað hefðu þau brugðist öðru vísi við í dag og þau áttuðu sig strax á hversu fáránlegt þetta var allt saman.  Það voru bara allir svo gegnsýrðir af meðvirkni heima hjá mér að þau kunnu ekkert annað en að breiða yfir það sem var óþægilegt, í orðsins fyllstu merkingu.  Það að gera atvikið að brandara átti að gera mig minna hrædda.  Látum bara eins og þetta sé fyndið og þá verður þetta allt í lagi.

Ég er löngu búin að fyrirgefa foreldrum mínum.  Ég hef enga löngun til að hitta eða ræða við Njalla frænda.  Það eru meira en 25 ár síðan þetta gerðist, allt saman löngu fyrnt og ég hugsa mjög sjaldan um þetta.  Ég hef alveg talað um þetta við nokkra í gegnum árin, sérstaklega þegar einhver mál sem ég tengi við eru mikið í umræðunni.  Ég hef aldrei áður haft þörf til að skrifa um þetta.  Það var í rauninni annars vegar grein í Nýju Lífi og svo hins vegar Facebook status hjá henni Sóleyju Tómasdóttur sem triggeraði eitthvað í mér, sem gerði það að verkum að ég skrifa þessa reynslu niður núna.    

Statusinn var svona:

Mikið finnst mér merkilegt hvað það er til mikið af fólki sem vill stjórna því hvort og þá hvernig þolendur kynferðisafbrota tjá sig um reynslu sína.

24. feb. 2012

Hlaupasería FH og Atlantsolíu #2

Var pínu spennt í vikunni að taka þátt í 5 km hlaupi FH og Atlantsolíu sem fór fram í gær, fann að ég var heldur góð við mig á laugardaginn og langaði að taka almennilega á því til að bæta það upp.  Ég ákvað nú samt að halda æfingaplaninu mínu og pota hlaupinu bara inn ef ég væri í stuði og veðrið væri skikkanlegt.  Erfiðar sprettæfingar á mánudag (3000/2000/1000) og miðvikudag (12 * 400) þannig að það var ekkert hvílt en gott að fá mynd af grunnforminu.  

Það rættist úr veðrinu um miðjan dag og ég ákvað að láta vaða, Þórólfur græjaði fyrir mig miða og ég flýtti kvöldgjöfinni hjá Sonju um klukkutíma og rauk svo af stað.  Náði að hita upp rúma 2 km og fann að ég var of mikið klædd.  Úr ullarbolnum, húfunni og hönskunum og þá var allt klárt.  Stefnan var að reyna að vera nálægt 3:50 pace og alla vega fara undir 20, helst PB sem ég hélt reyndar að væri 19:42 en fann svo út eftir hlaupið að ég átti 19:34 frá því 2010 sem ég var búin að steingleyma.  

Hlaupið gekk eins og í sögu, leið ótrúlega hratt fyrstu 3,5 km en þegar km var eftir fór ég að finna fyrir þreytu átaka liðinnar viku og þurfti aðeins að bíta á jaxlinn til að halda og klára.  Fór fram úr Trausta sem hvatti mig til dáða þegar rúmur km var eftir og þá sá ég í skottið á henni Birnu, 2. konu.  Þá var bara að reyna að hanga og nota öll trikkin í bókinni til að halda kollinum í réttum gír.  Notaði allt bensínið á tanknum og það skilaði mér í mark á 19:38 sem er bara 4 sek frá mínu besta (hélt reyndar að ég hefði sett PB þangað til ég kom heim og fann hinn tímann og náði góðu fagni í 2-3 klukkutíma, hahahahha... :).  Samkvæmt Garmin var ég 19:20 með 5 km en hann mældi brautina 5,07.

Lapparnir mínir skv. Garmin:
1. km 3:51
2. km 3:52
3. km 3:54
4. km 3:53
5. km 3:50
77 m 00:18

En alla vega, er alveg svakalega sátt og ætla klárlega að bæta mig í ÍR hlaupinu á Sumardaginn fyrsta, gera þetta þá eftir bókinni og undirbúa mig eins og fyrir keppni.

20. feb. 2012

Tvíþraut í Laugum 2012

Hrikalega gaman hjá mér á laugardaginn, topp dagur í góðum félagsskap!   Sigrún vinkona mín kom og sótti mig, alltaf gott að hafa einhvern með sér og deila spenningnum og gleðinni.  Í Laugum hittum við svo fleiri vini og kunningja, allir glaðir og spenntir fyrir þrautina.

Ég var heppin að vera á braut með Nönnu, við erum að vinna saman og ég var vön að synda með henni á æfingum fyrir óléttu.  Stefndi á að reyna að hanga í henni eins og ég gæti.  Í upphituninni kom smá babb í bátinn.  Íþróttatoppurinn sem ég var í var víst orðin heldur stór á mig (eftir að ég hætti næturgjöfunum... ehemm...) og ég hringdi í ofboði í bóndann sem ætlaði að koma með stelpurnar og hvetja.  Hann fann fyrir mig annan topp og kom hlaupandi með toppinn, eina mínútu í start!  Ég hljóp út í horn og snéri mér að veggnum og skipti um topp í hvelli, eins gott að maður er komin með mjög vankaða blygðunarkennd!  Við vorum bara 3 á okkar braut, enginn troðningur og mjög afslappað andrúmsloft.  Sundið gekk eins og í sögu, náði að hanga alla leið.  Við stelpurnar höfðum æft okkur fyrir keppnina í að komast upp á bakkann þannig að það var allt í góðu.  Verð samt að segja að Nanna var mun þokkafyllri, gamla fimleikakonan teygði bara annan legginn upp á bakkann og trítlaði af stað meðan gamla notaði meira svona krafla sig uppá, leika sel og dröslast á fætur...  

Smá upphitun
Tvær mínútur í start og ég ennþá í stóra toppnum að líta eftir Þórólfi
Dröslast upp úr lauginni...

Var búin að stilla upp hlaupadótinu mínu eins og ég vildi hafa það en þegar ég hljóp í átt að körfunni minni þá var þar heljarinnar hindrun í mannslíki.  Gaur sem var að krúttast við að taka myndir af öðrum keppendum sem voru komnir upp úr stóð beint yfir dótinu mínu!!!  Í adrenalín rússi gargaði ég á aumingjans manninn um að koma sér í burtu, sem hann og gerði fljótt og vel... :þ   Annars gekk allt smurt í skiptingu, hljóp inn í sal og fann mér bretti og ekkert mál að keyra það upp.   Var 7. kona eftir sund og skiptingu.

Fyrir keppnina var ég búin að ákveða að hlaupa á 15, eða 4:00 pace.  Ég hef ekki getað haldið þeim hraða áður í svona keppni þannig að mér fannst það krefjandi en raunhæft miðað við form.  Skemmst frá því að segja að hlaupið gekk eins og í sögu, beið eftir að þreytast en þetta var bara ekkert mál.  Þegar kílómeter var eftir hækkaði ég í 16 og síðustu 500m hljóp ég á 17,1 - heildartími á hlaupunum 19:44.  Eftir á að hyggja þá hefði ég mátt hækka hraðann miklu fyrr, jafnvel eftir fyrsta km en svona lærir maður bara af reynslunni og þetta fer í bankann.  
Hrikalega einbeitt.
Á endasprettinum :)

Var þriðja kona í heildina eftir hlaupið á tímanum 30:24 sem er lang besti tíminn minn í þessari þraut.  Stefnarn er klárlega sett á sub 30 í næstu.  Önnur í flokki eldir kvenna (thíhí...) eða 40 ára plús.  Að launum var fallegur silfurpeningur og dekur í Laugum Spa fyrir tvo, hlakka til að bjóða elskunni minni með mér.  Þórólfur var frábær á hliðarlínunni, veit alveg hvernig er best að hvetja sína konu, þ.e. bara að láta vita af sér en ekkert að vera að skipta sér af og gott að geta knúsað stelpurnar að þraut lokinni.  Hérna eru öll úrslitin, skrolla niður fyrir karlana.  

Frábær dagur og stolt af mínu fólki í Ægi Þríþraut, þau stóðu sig með prýði í keppnihaldinu og skipulagi.  Sportís sá um að galla mig upp í Asics og Casall fatnað, takk fyrir það.  Artasan um næringuna fyrir og eftir keppni.  Topp vörur frá EAS, mæli sérstaklega með Mass Factor sem ég nota sem recovery drykk enda hrikaleg áríðandi að næra sig eins fljótt og hægt er eftir átökin.  Svo er náttúrulega bara dásamlegt að fá sér einn Double Chocholate Crisp EAS bar með.  Þetta er að sjálfsögðu bara til að brúa bilið þangað til maður kemst í almennilegan mat en kemur ekki í staðinn fyrir hann!!! .

Fyrstu þrjár konur, Guðrún Fema, Birna og Eva.

Myndirnar voru teknar af Fjalari Jóhannssyni (fleiri myndir hér) og Þórólfi.  Enn einn frábær dagur í safnið, takk fyrir mig!

16. feb. 2012

Margt sem gleður gamla konu

Fyrst ber að nefna að yngri dóttir mín tók sig til í dag og gerði stykkin sín í klósettið, takið eftir, ekki koppinn, í fyrsta sinn og hlaut að launum mikið lófatak og fögnuð.  Ja, hún er nú orðin rúmlega 6 mánaða!  Mamman var svo spennt yfir þessu að dásemdinni var ekki sturtað niður fyrr en pabbinn kom heim úr vinnunni (sem betur fer bara 10 mínútum síðar) til þess að leyfa honum að votta og taka þátt í gleðinni :)

Við Lilja erum að lesa Elsku Míó minn, hún les öll kaflaheitin sjálf og velur sér setningar hér og þar.  Að fara í háttinn er spennandi, getum varla beðið eftir að dagurinn líði og við fáum að komast að því hvaða ævintýrum Míó, Jum-Jum, Nonnó, Miramis og allir hinir lenda í næst.  

Þegar stelpurnar eru komnar í ból tekur við nudd rútína hjá okkur hinum.  Við Þórólfur og Gabríel skiptumst á að nudda mjaðmir, læri og kálfa hjá hvort öðru eftir æfingar dagsins.  Allir græða og góð leið til að 'bond-a' við unglinginn okkar.  Hann fékk frábæra umsögn í foreldraviðtali í vikunni, kom svo sem ekkert á óvart en alltaf gaman að heyra fallega talað um ungann sinn.

Svo eigum við krúttlegt lán hjá Frjálsa sem var tekið til að fjármagna kaup á risinu.  Jahhh, það var ekki hátt risið á manni þegar maður skoðaði stöðuna 2009 og 2010 á þessu blessaða, já og nú get ég sagt blessaða láni.  En eins og einhver sagði, allir hlutir hafa tilhneygingu til að enda heldur vel!

Spennandi helgi framundan með háleitum markmiðum.  Ég ætla að taka þá í Tvíþraut í Laugum, samanstendur af 500m sundi og 5 km hlaupi.  Meginmarkmiðið er að vera ekki síðust upp úr lauginni í fyrsta sinn í þessari keppni!  Aukamarkmið eru að synda undir á undir 10 mínútum og hlaupa á undir 20 mínútum.  Jæks, þar hafið þið það, ekkert verið að gefa sér neinn afslátt og nú er að sjá hvað gamla gerir þegar á hólminn er komið. 

10. feb. 2012

Powerade #5 - 2012

Ég hafði engan tíma til að velta mér upp úr veðri eða öðru fyrirfram í þessu Powerade hlaupi sem reyndist á endanum vera eitt það skemmtilegasta sem ég hef hlaupið.

Dagurinn hjá mér var svona:
  • 6:20 vaknaði til að gefa Sonju
  • 6:45 skokkaði niðrí Hreyfingu
  • 7:10 HD Fitness hjá Guðbjörgu
  • 8:05 skokkaði heim úr Hreyfingu
  • 8:15 fékk mér Himneskan hafragraut
  • 8:30 gaf Sonju morgunmat og brjóst á eftir
  • 9:00 setti Sonju út í vagn
  • 9:50 tók á móti mömmu sem kom að passa
  • 9:55 náði að henda í mig einni brauðsneið
  • 10:00 í sund, synti 200m rólega. 100m hratt (1:48 jeiii..) og svo aftur 200m rólega
  • 11:00 verslaði í matinn í Víði, kom við í 66° norður til að skipta jólagjöf, urfti að fara niðrí Bankastræti  til að fá rétta stærð og bruna heim til að leysa mömmu af
  • 12:00 tók á móti manni sem var að kaupa skó af mér
  • 12:30 gaf Sonju hádegismat og brjóst
  • 13:00 fékk mér að borða hádegismat
  • 13:30 kom Sonju út í vagn að sofa
  • 14:00 tók á móti fólki sem kom að kaupa hoppurólu hjá mér
  • 14:30 keyrði í Hafnarfjörðinn
  • 15:00 hélt fyrirlestur hjá Actavis
  • 16:15 fékk mér smá snarl
  • 16:30 gaf Sonju og tók á móti Lilju úr leikskólanum
  • 17:00 tók á móti konu sem var að kaupa óléttuföt
  • 17:50 fékk mér hefðbundinn keppnismat, tvö glös af vatni, beyglu með hnetusmjöri og sultu og kaffibolla
  • 18:10 gaf Sonju kvöldmat
  • 18:45 gaf Sonju brjóst fyrir nóttina
  • 19:00 tók á móti mömmu sem passaði (aftur) fyrir okkur
  • 19:15 kom mér í hlaupagallann og brunuðum upp í Árbæ
  • 19:35 hitaði upp fyrir Powerade
  • 20:00 hljóp eins og vindurinn í orðsins fyllstu merkinu.  Hífandi rok, fann mér stóra karla til að skýla mér í mótvindinum og lét mig svo fjúka í meðvindinum niður brekkurnar.  Hrikalega skemmtilegt hlaup!
  • 20:30 náði fyrstu konu, henni Arndísi Ýr, við stokkinn og var svo glöð að ég hefði allt eins verið búin að vinna hlaupið.  Elti hana að rafstöðvarbrekkunni þar sem hún setti í annan gír og kvaddi :)
  • 20:42:55 kláraði Powerade, önnur kona í mark, jeeehawww...
  • 21:15 recovery drykkur, sturta og hlý föt
  • 21:30 poppaði fyrir okkur gömlu hjónin
  • 21:35 brenndi poppið af því ég var með annan pott en venjulega og að gera einhverja fjóra hluti í einu
  • 21:40 byrjaði upp á nýtt að poppa, í réttum potti og vaskaði hinn upp á meðan
  • 22:00 datt upp í sófa með bónda mínum með popp og sódavatn.  Í því kom Gabríel kom heim frá vini sínum, smá spjall fyrir svefninn
  • 22:50 bursta, pissa og koma sér í bólið
  • 23:00 hugsa um hversu frábær þessi dagur var og hvað ég er heppin að vera þátttakandi í lífinu, ekki bara áhorfandi.
  • 23:00 kyssti bóndann góða nótt
Dásamlegt að vera í barneignar-"FRÍ-i", thíhí...

Matartími með Sonju <3

3. feb. 2012

Já hann flýgur!

Sonja mín orðin 6 mánaða, er þetta satt?  Jú, það er víst þannig og nýjustu tölur úr ungbarnaeftirliti segja að daman dafni alveg sérdeilis vel, 68 cm og 7,3 kg.  Í síðustu viku fékk hún að smakka mat í fyrsta sinn og líkaði vel.  Nú hef ég svo góðan tíma að ég hef útbúið allan mat fyrir hana sjálf, gufusoðið ávexti og grænmeti en það var ekkert svoleiðis dekur á hinum krökkunum, allt keypt.  Hún er aðeins farin að súpa vatn úr stútkönnu en annars erum við svo heppnar að ég á alltaf nóg af mjólk og ég stefni á að hafa hana á brjósti fyrsta árið að minnsta kosti eins og hina ungana mína.

Ég fjárfesti í matvinnsluvél um daginn og hún kemur sér vel í barnamatsstússinu og svo er ég orðin hálfpartinn húkkt á hráfæði og annars konar heilsufæði sem gott er að græja í svona vél.  Ég hef aldrei borðað eins mikið og jafn hollan mat en afleiðingarnar eru þær að ég hef aldrei verið léttari eða í betra líkamlegu formi á fullorðinsaldri.  Hrikalega gaman að upplifa breytingarnar við að taka enn eitt skrefið í áttina að hollara líferni.    

Annars eru mikil tímamót í dag, Sonja flutti inn til stóru systur og nú ætlar hún að láta sér nægja að borða bara á daginn (hún veit það ekki ennþá en þannig verður það!).  Þórólfur tekur við næturkeflinu og ætlar að hjálpa henni í gegnum þessar breytingar.  Stóð sig eins og hetja með Lilju í denn og efast ekki um að honum farist það vel úr hendi í þetta sinn líka.  Fyrir mig eru þetta ekki síður stórkostlegar breytingar en mér reiknaðist til að það séu ca. 15 mánuðir síðan ég svaf meira en 3 tíma samfleytt, zzzz...    Ég byrjaði á þessu blessaða óléttupisseríi mjög snemma á meðgöngunni og síðustu mánuðina átti ég bara virkilega erfitt með svefn án þess að það væri nokkuð að plaga mig.  Bara glaðvakandi heilu og hálfu næturnar.  Þær nætur sem Sonja hefur sofið í meira en 3 tíma í senn þá hef ég samt sem áður vaknað, af vana, til að tékka á henni.  Reikna með að þurfa eina tvær vikur til að aðlagast því að fá að sofa, sofa, sofa og sofa meira.  Mmmmm...

Lilja litli snillingur sem er nýorðin fimm og alveg að verða tvítug, er búin að taka tvö risaskref í þroska og hæfni á síðustu viku.  Hún kann að flauta og lesa!   Allt í einu kom flaut og nú flautar hún daginn út og inn eins og herforingi.  Hún er löngu búin að læra stafina en síðustu vikur þegar ég hef lesið fyrir hana, fyrir svefninn, hef ég látið hana stafa fyrir mig (eftir upplestri) eitt orð á hverri síðu og það var alveg fyndið þegar hún fattaði samhengið á milli stafanna og hljóðanna.  Hún fann fram gamlan tölvuleik frá því Gabríel var lítill, Glói geimvera á Lestrareyju   og nú les hún sjálf og leysir þrautir (flautandi) og kallar upp með reglulegu millibili (og smá vantrú í röddinni), 'Mamma, mamma, ég kann í alvörunni að lesa!!!   L-e-s-a, h-e-s-t-u-r, l-ó-a....

Við Sonja í mömmuhitting í vikunni

Ég segi það nú örugglega ekki nógu oft, þó ég segi það satt að segja mjög oft...  Ég er óendanlega þakklát fyrir að eiga hana mömmu mína.  Orð fá því ekki lýst hversu miklu máli hún skiptir mig og hversu vænt mér þykir um konuna sem puðaði mér út í heiminn og hefur alltaf staðið með mér.  Síðustu árin hef ég fengið að klippa hana, blása og lita augabrúnir þegar þess þarf og það eru notalegar stundir hjá okkur.  Þá vil ég helst fá alveg frið og við spjöllum og leysum lífsgáturnar.  Í dag kom mamma og passaði Sonju á meðan ég skaust í búðina.  Ég setti svo Sonju út í vagn, skvísaði kelluna aðeins upp og hafði rænu á að taka sæta mynd af henni á eftir.  Þetta er hún mamma mín, sem ég elska út fyrir endimörk alheimsins: