29. jan. 2012

Strýheil og gaman að lifa

Þegar líður svona langt á milli blogga þá missir maður aðeins móðinn, það er frá svo mörgu að segja.  Þá verður maður bara að ákveða nýjan núll punkt og sleppa því sem liðið er til að detta aftur í gírinn.

Frábærar fréttir af musteri sálarinnar (er það ekki líkaminn annars?), er algjörlega orðin góð í lærinu og nýt þess að geta gefið aðeins í á hlaupunum aftur.  Reyndar naut ég þess kannski full mikið þessa vikuna og fór yfir 70 km og fann á seinnihlutanum á sunnudags hjóna skokkinu að nú var komið nóg í bili, tími til að slaka aðeins á og njóta.  Ég hoppaði inn í æfingarnar á sama stað og ég hoppaði út í upphafi árs og það þakka ég hjólreiðunum, sundinu og HD fitness leikfiminni minni.  Trúði ekki minni eigin klukku/kroppi á fyrstu sprettæfingunni minni, var eins og ég hefði ekkert stoppað.  Jibbíkæjeiiii...

Lilja er komin á fullt í frjálsarnar, farin að æfa með ÍR og finnst svoooo gaman.  Hún tók þátt fyrir hönd fjölskyldunnar í Stórmót ÍR í gær og við gömlu hjónin fylgdust stolt með dömunni.

Það vantar ekki einbeitinguna í langstökkinu! 
Tilvonandi langhlaupari eða hvað? 
Teinrétt að taka á móti verðlaununum :) 
Flottir krakkar!

Gabríel var líka að keppa í körfunni um helgina á Flúðum og gekk vel hjá honum.  Já hver hefði trúað því hérna fyrir 20 árum að lífið mitt myndi snúast um íþróttir, íþróttir og aftur íþróttir...  :)  


17. jan. 2012

Í góðum málum

Fékk súper einkunn frá sjúkraþjálfaranum fyrir ofur-skynsemi og það hjálpaði kannski til að ég fór með nokkur Prins Polo til að mýkja hann...   En alla vega greiningin er smá tognun í ytra lagi lærvöðvans þarna rétt eftir Gamlárshlaupið.  Það tekur 3 vikur fyrir svona lagað að gróa sem þýðir að eftir 1 viku er ég orðin heil aftur og má fara að hlaupa hratt.  Ég má strax fara að skokka, allt gott í heiminum!  

Litla skottið okkar þroskast og dafnar eins og vera ber og síðustu vikur hefur hún lært að snúa sér á alla kanta og vill helst liggja á maganum og skoða heiminn þannig.  Hún fékk fyrsta grautinn sinn fyrir 3 dögum og í gær gúffaði hún í sig eins og pro, fyrir hann pabba sinn.  Stór stund fyrir okkur mæðgur, nú verður mamman ekki eins lífsnauðsynleg og áður (jeiii, buhuuuu... ).

Hérna er hægt að smella á link og skoða þegar Sonja fær sér snúning!

Veit ekki hvor er spenntari...

16. jan. 2012

Powerade #4 - 2012

Þetta var nú skrýtnasta Powerade hlaup sem ég hef farið í.  Fór af stað með það í huga að ef ég fyndi til í lærinu á leiðinni þá myndi ég hætta.  Ég kom mér fyrir í aftasta hópnum og það var kannski full 'conservative'...   Var 6:08 með fyrsta km, aðeins hraðari næsta og sem betur fer fann ég ekkert fyrir og gat aðeins aukið hraðann þegar á leið.  Það skemmtilegasta við að byrja svona rólega og aftarlega er að maður er allt hlaupið að taka fram úr öðrum hlaupurum og það er svoooo gaman!   Eina markmið kvöldsins var að halda okkar sæti í Parakeppninni og við gerðum betur en það, fengum flest stig og bónus að vera í topp 10 þrátt fyrir lullið í byrjun.

Ég var frekar stíf daginn eftir hlaup en nú er ég búin að rúlla, nudda og hjóla heilmikið og staðan þannig að ég finn ekkert fyrir lengur.  Ég veit nú samt að ég þarf að gefa þessu ca. 3 vikur til að jafna sig alveg 100% áður en ég fer að spretta aftur en ég reikna með að fara að geta hlaupið aftur á morgun.  Fer til hans Rúnars sjúkraþjálfara og læt hann meta þetta með mér til að vera alveg viss.

11. jan. 2012

Smá de-tour...

Á fyrstu sprettæfingunni eftir Gamlárshlaupið fann ég smá tak aftan í lærinu, sennilega verið of snemmt fyrir átök ofan í átök.  Ég hætti í sprettunum og fann ekkert meira í bili.  Á næstu sprettæfingu stífnaði ég upp í lokasprettinum og nú er ég búin að láta sprettina vera í viku eða svo og einbeitt mér að því að gera eitthvað annað skemmtilegt eins og að hjóla og synda.  Prófaði aðeins að fara upp á keppnis pace í dag í ræktinni og eftir nokkrar mínútur fann ég fyrir lærinu og nú ætla ég að taka mér alla vega tveggja vikna pásu áður en ég prófa aftur.  Ég get vel hlaupið, finn bara fyrir þessu þegar ég eyk hraðann og fer vel undir 4:30 pace og ég er staðráðinn í að klúðra ekki meiru en komið er.  Að því sögðu verður dekurhlaup hjá mér í Powerade á morgun :)

Næstu 4-6 vikurnar ætla ég að fara á HD fitness námskeið, hjóla og synda með hlaupunum og nýta þennan tíma í  að auka styrk og liðleika.  Svo er það líka markmið hjá mér að ná almennilega tökum á snúningum í sundinu þannig að þeir verði jafn afslappaðir og þeir líta út fyrir að vera hjá 'alvöru' sundfólki.  Nú er bara að liggja yfir YouTube og drekka í sig fróðleikinn.  Aldrei að vita nema þetta tak í lærinu verði til þess að ég dembi mér út í þríþrautina aftur af fullum krafti og það er nú ekki leiðinlegt.  Tek stöðuna aftur í lok mars og ákveð þá hvort það er sub 40 eða þríþrautin sem verður ofan á.


10. jan. 2012

Ein í sundi!

Mamma kom og passaði fyrir mig í morgun en hún kemur eftir sundleikfimina hjá sér og í dag var hún sú eina sem mætti.  Ég notaði sprikltímann minn til að fara í sund í Laugardalslauginni og ég get svarið það, ég var ein í útilauginni.  Eftir mína 1000 m fór ég í stóra steina pottinn og jábbs, ég var ein þar líka.  Pínu skrítið að eiga þetta allt út af fyrir sig í brjáluðu óveðri...

Í dag var líka hefðbundin stelpudagur hjá okkur Lilju og jú, við fórum í sund eins og svo oft eftir leikskóla.  Í þetta sinn fórum við í Ásvallalaugina til að flýja undan veðrinu og þar var fullt af fólki.  Ég fór 20 ferðir með henni í rennibrautina sem er PB.  Hún fór svo aðrar 13 sjálf!  Pulsaði hana upp á heimleiðinni sem var eins gott því hún rétt náði að koma sér í náttfötin áður en hún datt út af :)

1. jan. 2012

Gamlárshlaup og Gleðilegt ár!

Tölvunni var pakkað niður fyrir jól og ekki sett upp aftur fyrr rétt fyrir áramót, þ.a.l. gott blogg jólafrí.  Maður lærir sem maður lifir og ég get sagt það fullum fetum að þetta eru bestu jólin mín hingað til.  Það fór ótrúlega lítið fyrir hreingerningu, jólakortaskrifin voru minimalistísk og aðventan var nýtt að fullu í að hafa það kósý með sínum.  Við skreyttum, bökuðum, fórum á skíði og höfðum það notalegt.  Við hjónin fengum meira að segja að spóka okkur í miðbænum á Þorláksmessukvöld og Gabríel passaði litlu systur sínar!

Kláraði húfuna við gallann góða og Sonja sýnir sín mörgu andlit sem fyrirsæta!
 
Gabríel stóð sig líka vel í handavinnunni og færði mömmu sinni þennan forláta púða sem fékk heiðursstað í stofunni. 
Við fórum á jólaball, þarna glittir í Lilju og pabba hennar.
Svipmyndir frá aðfangadagskvöldi hjá okkur.

Þann 30. desember afrekaði ég það að vera í náttfötunum allan daginn, án þess að vera veik eða eitthvað svoleiðis.  Vaknaði bara þannig stemmd, 'Today I don't feel like doing anything, dahhhdahraddadahhh...'.
Náttfatamæðgur.

Gamlársdagur var líka hefðbundin hjá okkur.  Gamlárshlaupið er fastur liður hjá okkur hjónakornum og í ár gekk alveg sérstaklega vel hjá frúnni.  Ég náði fínum tíma, 41:22 og fór vel undir þau markmið sem ég hafði sett mér á þessu ári.  Ég var fjórða konan í heildina og náði með þessu hlaupi að smeygja mér inn á topp 10 í ársbesta í 10 km, vúhúúú...

Uppáhaldsmáltíð ársins fæ ég hjá henni Röggu mágkonu minni á Gamlárskvöld og ég tók vel á því...  Vorum komin heim fyrir tíu og svei mér þá, fundum tíma til að kíkja á fyrstu jólakortin okkar áður en Skaupið byrjaði, gott að maður lætur sér ekki leiðast!   Við vorum mjög lágstemmd í flugeldakaupum í ár, frúnni hreint og beint ofbauð verðið og vildi bara stjörnuljós í staðinn fyrir hefðbundnu áramótabombuna sína.  Díhhh tíu þúsund kall fyrir smá rakettu, ertu að djóka?   

Fjölskyldan mín <3

Nýja árinu var startað í takt við hlaupárið sem það er og bóndinn dró spúsu sína stóran hring í kringum bæinn, rúma 18 km, í yndislega fallegu veðri og fínustu færð.  Veit á gott.  Er komin 'up to date', yfir og út.