Þriðja Powerade hlaupið fór fram á fimmtudagskvöldið. Ég var í fínu stuði fyrir hlaupið, hlakkaði bara til. Veðrið hafði skánað, ekki eins svakalega kalt en í staðinn fengum við verra færi á hluta leiðarinnar. Það var snjór á allri brautinni og maður fann strax á fyrsta km að þetta yrði heilmikið púl, spólandi í snjónum.
Ég fór skynsamlega af stað og á öðrum km fór ég að renna fram úr fólki. Eftir 3 km sá ég í skottið á henni Sibbu, æfingafélaga mínum og ég reyndi að negla mig á hælana á henni eins lengi og ég gat. Yfirleitt finnst mér auðvelt að rúlla niður brekkurnar en í snjónum þá hleypur maður öðruvísi og er stífari, alltaf að passa að renna ekki til. Eftir 7 km dróst ég aftur úr og varð bara að einbeita mér að klára sómasamlega og láta engan ná mér.
Eftir stokkinn kom versti hluti hlaupsins, blautt og hált, spól alla leið upp fyrir Rafstöðvarbrekku. Þvílíkur léttir að komast upp á stíg og maður var alsæll að trítla restina í snjónum, alla vega flatt og ekki eins blautt. Tíminn 44:27 sem var bara ágætt miðað við aðstæður. Ég var á undan nokkrum sem tóku mig í síðasta hlaupi og er búin að minnka bilið töluvert á þá sem eru á undan mér. Ég var þriðja kona í mark í heildina og nú er þetta farið að vera spennandi í stigakeppninni. Við Þórólfur erum komin í forystu í parakeppninni, ég er í öðru sæti í aldursflokki, einu stigi á eftir fyrstu og nú er ég komin í fjórða sæti í heildina.
Var alveg svakalega þreytt eftir þetta hlaup, hvíldi á föstudaginn en var lúin alla helgina. Þá fór ég smá hring niðrí bæ og í kringum Tjörnina, skít kalt úti og rok, var svooo fegin að komast heim aftur. Á sunnudaginn var svo hefðbundið hjónahlaup, fórum rúma 17 km og það var sama sagan, þreyta í kroppnum og gott að komast heim. Í gær var sprettæfing í Höllinni og þá fann ég að ég var alveg búin að ná mér, gekk mjög vel. Næst á dagskrá er svo Gamlárshlaupið, mikið væri ég til í bongó blíðu og auða braut, takk fyrir!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli