Ég á þrettán ára strák sem ég elska út fyrir endimörk alheimsins en á laugardagsmorgun fékk ég hnút í magann þegar ég las samræður hans við félaga sinn á Facebook. Þeir voru nú bara að tala um að taka á því í ræktinni og að metast um hvor væri sterkari. Þetta var rosalega fyndið, sérstaklega þar sem minn maður er miklu yngri og minni en hinn, en fór mikinn. Þangað til að ég hnaut heldur betur um eina setninguna. 'Ég nauðga þér í bekkpressu...', í merkingunni ég 'tek þig', 'rústa þér' eða eitthvað í þá áttina. Sæll, hvaðan kom þetta? Hann hefur alla vega ekki heyrt þetta heima hjá sér, það er alveg ljóst. Ég fór út að skokka að venju og hugsaði um hvernig ég gæti sent honum skýr skilaboð um að þessi orðnotkun væri ekki í lagi.
Áhrifamesta mynd sem ég hef séð um nauðgun er 'The Accused' með Jodie Foster. Þegar ég kom heim fann ég hana á Skjánum og planaði bíókvöld, eftir að stelpurnar voru farnar í ból, skyldumæting. Ef maður er nógu gamall til að nota orðið 'nauðgun' þá er maður nógu gamall til að fá að vita hvað það þýðir í raun og veru. Við horfðum saman á myndina og þegar hún var búin ræddum við hana og svo sagði ég sögu af sjálfri mér, þegar ég komst virkilega í hann krappann.
Ég var tvítug Au Pair stelpa í Bandaríkjunum og eins heimskulegt og mér finnst það í dag, þá ákváðum við vinkonurnar eitt sinn að fara með hópi fólks sem við þekktum ekki neitt, í partý eftir djamm. Við djúsuðum og dönsuðum og létum örugglega eins og fífl. Allt í einu átta ég mig á að vinkona mín er horfin eitthvað á spjall og ég er ein eftir með fullt af gaurum í stofunni. Einn þeirra gerist heldur ágengur og þetta er ekkert fyndið lengur. Ég bið hann að láta mig í friði og hreyti einhverju í hann. Áður en ég veit af er hann búin að snúa mig niður á hnén, með hendur fyrir aftan bak og segist ætla að kenna mér að haga mér, voða fyndið og allir hlægjandi... Það var mér til happs að eigandi íbúðarinnar áttaði sig á því hvað var að gerast og tók í taumana. Hann rak alla út úr íbúðinni og beindi þeim í annað partý, fann vinkonu mína og hringdi á leigubíl fyrir okkur. Ég man að ég var skjálfandi á beinunum og dauðskammaðist mín. Ef það hefði farið verulega illa þá hefði mín saga ekki verið féleg. Búin að drekka, fór heim með fólki sem ég þekkti ekkert, ég hefði ekki einu sinni getað sagt hvert heimilisfangið var... Ég sór þess dýran eið að setja mig aldrei aftur í þess konar aðstæður og prísaði mig sæla að hafa sloppið með lexíu fyrir lífið. Ég skammaðist mín svo fyrir 'minn þátt' í þessari uppákomu að það liðu mörg ár þar til ég sagði nokkrum manni frá þessari óskemmtilegu reynslu.
Við ræddum líka um hvernig það væri fyrir einhvern sem hefði orðið fyrir því ofbeldi sem nauðgun er, að sjá orðið notað svona. Ég hef líka tekið eftir og man sjálfsagt sjálf eftir því líka, hvað unglings stelpum er tamt að kalla aðrar stelpur 'mellur' og 'hórur', við fórum aðeins yfir það líka. Konur/stelpur eru dætur, mömmur, systur, vinkonur, frænkur o.s.frv., ekki gleyma því. Statusinn var strokaður út og ég held að ég hafi náð í gegn með minn boðskap. Ég vona það alla vega.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli