7. des. 2011

Fjórði þáttur - Black and White Rules

Ég á kannski ekkert að vera hissa hvað ég kannast við allt sem hann Bevan vinur minn talar um.  Ég er jú búin að ná árangri í þyngdarstjórnun og heilbrigðu líferni og eyða svipað löngum tíma og hann (talar um 13-14 ár) í að finna út hvað virkar og hvað ekki.

Ég á mér ótal margar svart/hvítar reglur, bæði varðandi heilsu og matarræði.  Ég hef bætt við reglum sem henta mér en ég hef líka hent þeim út í gegnum árin.  Fyrstu reglurnar sem ég setti mér voru varðandi reykingar og gosdrykkju fyrir 14 árum og enn þann dag í dag læt ég hvoru tveggja alveg eiga sig.  Það er ekkert erfitt, hugsa aldrei um þetta.  Í gegnum árin bættust fleiri reglur við eins og td. skyndibiti, djúpsteiktur matur, kartöfluflögur og sælgæti (annað en súkkulaði n.b. :).   Ekkert af þessu freistar mín nokkurn tímann, það er eins og þetta sé ekki til í mínum heimi.  Ég er líka með reglu um að borða 5 - 6 sinnum á dag, alltaf og reglur varðandi skammtastærðir.  Ég hreyfi mig 5-6 sinnum í viku og þannig er það bara.

Í nokkur ár hætti ég alveg að borða smjör eða annað viðbit á brauð.  Það var á tímabilinu sem ég var fitufælin út í öfgar, borðaði t.d. ekki hnetur og annað hollt, ef það var feitt.  Þegar ég var ólétt af Lilju þá bætti ég viðbiti aftur inn og hef ekkert tekið það út aftur.  Eins þegar ég lærði hvað það skiptir okkur miklu máli að borða passlega mikið af góðri fitu, þá duttu hnetur og fræ og annað inn aftur, nammi namm.  Það er líka miklu auðveldara að stjórna þyngdinni ef maður borðar passlega mikið af fitu, ég er ekki að grínast.

Ég er líka með svart/hvíta reglu sem tekur á því ef ég kýs að brjóta svart/hvíta reglu eins og t.d. kökuregluna.  Ég fæ mér oft kökusneið eða eitthvað sambærilegt um helgar en sleppi kökum annars.  Ef ég fengi mér alltaf kökur þegar þær væru í boði (þú, þú ert nú svo grönn, þú mátt nú alveg... döhhh), þá væri það á hverjum degi nánast, alltaf einhver sem á afmæli í vinnunni eða eitthvað í gangi.  En... ef mig langar til að breyta út af og fá mér köku á öðrum degi en laugardegi eða sunnudegi, þá er það svart/hvít regla að ég tek aukaæfingu á móti.  Málið er að þegar maður er að æfa eins mikið og ég, þá er ekkert sjálfsagt að taka aukaæfingar þannig að ég hugsa mig vel um áður en ég ákveð mig.  Nenni ég að hlaupa auka hring í dag fyrir þessa köku?  Stundum er svarið já, oftast nei, ég er líka frekar kresin á kökur nú til dags.   

Eftir að hafa hlustað á þáttinn og söguna um skyndibitastaðina þá fór ég að hugsa um morgunmatinn minn en ég hef í mörg ár borðað hafragraut og elska grautinn minn.  Þegar ég var ófrísk þá missti ég lystina á grautnum og skipti yfir í Special K og það var allt í góðu.  Eftir að ég átti Sonju þá hélt ég áfram að borða Special K og seldi mér að það væri svo gott fyrir mig að fá mjólkina.  Í raun og veru þá var það sykurinn í Special K sem ég var sólgin í, ekki mjólkin, mig langaði aldrei í mjólk annars.  Ég ákvað, med det samme, að skipta aftur yfir í grautinn minn.

Það sem gerðist í framhaldinu var að ég léttist um tvö kíló á næstu vikum án þess að hafa fyrir því og ég meina það, eina sem ég breytti var að borða graut í staðinn fyrir Special K. Skýringin er sú að ef maður byrjar daginn á sykri þá er maður sólginn í sykur allan daginn og þar sem maturinn minn inniheldur ekki mikinn sykur þá hef ég verið að borða meira í einu.  Sykurinn virkar eins og fíkniefni, að byrja daginn á sykri er eins og fyrir nikótín fíkil/alka að leyfa sér að fá sér eina einustu sígarettu/einn drykk á morgnana.  Þá fer allur dagurinn að snúast um hvenær maður megi fá sér næst og það hefur áhrif á alla þína hegðun.


3 ummæli:

  1. Þarf svo að ná þessum fókus og hætta ýmsum löstum, einmitt setja svona svart/hvítar reglur ;)

    SvaraEyða
  2. Mundu bara að taka þetta í smáum, vel hugsuðum skrefum. Annars endist það ekki :)

    SvaraEyða
  3. Sæl Eva, alltaf svo gott að lesa bloggið þitt.
    Ég er sjálf kannski búin með 5 ár af þessum 13/14 í að finna hvaða reglur ég má ekki brjóta og hvernig ég á að tækla það þegar ég fer út af beinu brautinni... (bévítans snjóboltaáhrif alltaf þegar maður er dottinn út af...). Það er bara æðislegt að vita af þér, sem ert komin dálítið lengra en ég! Ég vil eins og þú vinna vel í þessum málum og lifa lífinu á réttan hátt svo mér líði líka sem best :) Við erum auðvitað ekkert nema þeir vanar sem við temjum okkur og þá þarf auðvitað að haga málum þannig að góðu vanarnir séu nokkuð fleiri en þeir síðri :)

    SvaraEyða