13. des. 2011

Fimmti þáttur - A different way of looking at goals

Held að þetta sé uppáhaldsþátturinn minn hingað til.  Ég er nefnilega afskaplega óSMART.  Ég hef alveg reynt að gera þetta eftir (sjálfshjálpar-) bókinni en einhvern veginn þá endist ég ekki við það.  En það er samt alls ekki þannig að ég viti ekki hvað ég vil.  Ég held bara að ég viti það svo vel að ég þarf ekki að skrifa það niður til að ná mínum markmiðum.  Já einmitt, ég er mjög meðvituð (aware) um hver ég er, hvar ég er stödd og hvert ég stefni.  Einu markmiðin sem eru niðurskrifuð eru sennilega þyngdarmarkmiðin mín og ég er með ritara sem sér um þau skrif ;)   Já og fyrir utan að þau eru ekki beint samkvæmt formúlinni þar sem ég er ekki að reyna að ná einhverju markmiði heldur að viðhalda árangri, en jú getur sennilega samt sem áður flokkast nokkuð SMART.

Mér fannst mjög áhugavert að heyra hvernig Bevan lýsir því að til að ná ákveðnu markmiði hafi hann ýtt til hliðar öllu öðru, líka því sem var í raun og veru mikilvægara en markmiðið.  Ég held nefnilega að ég hafi uppgötvað þetta jafnvægi frekar snemma og áttað mig á því hvað skiptir mig mestu máli hér í lífinu og hef verið nokkuð góð í að forgangsraða.  Ég hef t.d. aldrei litið á hlaupin og árangur þar sem upphaf og endi alheimsins, það er svo ótal margt annað sem er mér mikilvægara.  Ég hef samt mjög gaman af því að sjá hversu langt ég get náð miðað við þann tíma sem ég get hugsað mér að nýta í þetta hobbý, því já á endanum er þetta einungis hobbý ekkert meira eða minna en það.  

Mikilvægasta verkefnið mitt er að hugsa vel um sjálfa mig.  Í því felst að sofa vel, nærast vel og hreyfa mig.  Ef ég meiðist þá geri ég það sem ég þarf til að ná bata án inngripa.  Já ekki frekar en ég myndi nota svefntöflur eða að fara í megrun eða fitusog...  Ég fæ í magann þegar ég heyri hlaupara tala um að láta sprauta sig eða skera til að flýta fyrir bata sem annars væri hægt að ná með hvíld.  Ég hef enga trú á að það sé gott til langs tíma litið.  En alla vega, ef að ég er í góðu lagi þá get ég verið til staðar fyrir fólkið mitt sem er mér mikilvægara en nokkuð annað, miklu mikilvægara en að ná einhverjum markmiðum í íþróttum, vinnu eða veraldlegum gæðum.  

Jú, jú, ég læt mig oft dreyma um að gera hitt og þetta sem ekki passar inn í lífið mitt núna.  Sennilega mest um IronMan og Ultrahlaup í útlöndum, jú og hjólreiðaferðir um Toskana...  Ef ég virkilega vildi, þá gæti ég gert eitthvað eða allt af þessu, það veit sá sem allt veit að ég hef stuðninginn.  Mig langar bara miklu meira að vera hjá mínum og ég skil það í hverri einustu frumu að það er það mikilvægasta fyrir mig núna.  Svo er líka svo dásamlegt að láta sig hlakka til ævintýranna sem tilheyra öðrum stigum lífsins, þegar ungarnir er flognir úr hreiðrinu.  Það er alveg á hreinu að við gömlu hjónin munum ekki láta okkur leiðast!

En það merkilega við þetta allt saman er að ef maður er með forgangsröðunina á hreinu þá er ótrúlegt hvaða árangri maður getur náð á öllum sviðum, ég myndi segja betri árangri en ef einblínt er á einhvern einn þátt.  Eða þannig upplifi ég það.  







1 ummæli: