9. nóv. 2011

Stóru-stelpudagar

Það er örugglega ekki auðvelt að þurfa að víkja úr mömmufaðmi, sem maður hefur haft ótakmarkaðan aðgang að, fyrir nýju barni.  Til að hjálpa Lilju að takast á við það, hef ég reynt að sinna henni sérstaklega þegar ég hef tækifæri til.  Eftir fyrstu vikurnar með Sonju fór ég að sækja hana 1-2 daga í viku á leikskólann og nú var komin tími til að bæta aðeins við.

Þriðjudagar eru orðnir stóru-stelpudagar hjá okkur, frá og með gærdeginum.  Þá sækji ég Lilju í leikskólann klukkan hálf fimm og við stingum af til klukkan sjö.  Ég vann árskort í Seltjarnarneslaugina í sundlaugaleiknum í sumar, svo ég stakk upp á að við skelltum okkur í sund þar og það var samþykkt.  Frábær laug fyrir fjögurra ára og mömmur.   Lilja gat rennt sér milljón sinnum í rennibrautinni á meðan ég gat fylgst með úr heitum potti.  Svo er stór barnalaug, stór volgur pottur og nuddpottur sem við skottuðumst á milli og prófuðum.  Búningsklefarnir eru snyrtilegir og fínir og við ákváðum að hafa það fastan lið að fara þangað á þriðjudögum.  Efir sundið fengum við okkur bita á Kryddlegnum hjörtum.  Mamman tók með liti og blöð svo við gætum teiknað og litað saman, hérna heima er einhvern veginn alltaf eitthvað annað sem kallar og allt gert í flýti. Næst er planið að byrja á Kaffitár í Kringlunni, en það er uppáhaldskaffihúsið hennar Lilju og fara síðan í sund.  

Þegar við vorum að klæða okkur eftir sundið sagði Lilja við mig: 'Mamma, við skulum aldrei taka lillu með'  'Ég meina sko aldrei á þriðjudögum, það eru stóru-stelpu dagar, ókey?'  

Já, ókey :)


Engin ummæli:

Skrifa ummæli