30. nóv. 2011

Meiri stelpudagar

 Klárlega besta hugmynd (já og framkvæmd) sem ég hef fengið í seinni tíð.  Ég elska þriðjudaga og tímann minn með henni Lilju minni.  Í síðustu viku fórum við á uppáhalds kaffihúsið hennar Lilju, Kaffitár í Kringlunni með liti og blöð.  Lilja fékk kakó og súkkulaðibitaköku og mamman fékk dýrindis Kaffi Latté.  Á stelpudögum er allt leyfilegt og mamman teiknaði blóm á hendina hennar Lilju.  Við hittum svo mömmu og norska frænku mína sem var í heimsókn, Tine, og hún teiknaði rós á hina hendina.  Já, þetta þarf ekki að vera flókið.  Svo lá leiðin í sundlaugina á Nesinu og Lilja fór margar ferði í rennibrautinni og æfði sig svo í skriðsundi í stóra pottinum.  


Við ætluðum svo öll fjölskyldan að fara niðrí bæ og horfa á þegar kveikt var á Oslóar trénu.  Eitthvað skolaðist tímasetningin til í kollinum á okkur, héldum að þetta byrjaði klukkan fimm en svo kom í ljós þegar við ætluðum að gera okkur klár um fjögur að dagskráin byrjaði einmitt klukkan fjögur.  Þórólfur stakk upp á að við stelpurnar myndur bruna niðrí bæ og sjá hvort við myndum ná að sjá jólasveinana.  Við óskuðum okkur á leiðinni að við myndum finna bílastæði eins og skot og það rættist, keyrði beint inní stæði á besta stað.  Skokkuðum svo að Austurvelli og í því var sagt í hátalarakerfið 'Og nú er komið að barnadagskránni!'.  Þvílíkt gaman hjá okkur, sungum jólalög og dönsuðum með.


Í gær prófuðum við nýtt bakarí sem við höfðum séð á leiðinni í sundið.  Lilja fékk stóra piparköku og mjólk og svo föndruðum við fartölvu (breyttir tímar!).  Til þess notar maður hliðina úr morgunkorns kassa, teiknar upp skjáinn og takkana og klippir út skemmtilegar myndir.  Lilja skrifaði svo stafi og tölur inní kassana, límdi myndir og bjó til sína eigin takka.  Svo lá leiðin í sundið í brunakulda, brrrr...   Tókum góða session í skriðsundi og baksundi áður en við hlupum eins og fætur toguðu í nuddpottinn og slökuðum á.   Mmmmm ég elska þriðjudaga :).


Engin ummæli:

Skrifa ummæli