30. nóv. 2011

Meiri stelpudagar

 Klárlega besta hugmynd (já og framkvæmd) sem ég hef fengið í seinni tíð.  Ég elska þriðjudaga og tímann minn með henni Lilju minni.  Í síðustu viku fórum við á uppáhalds kaffihúsið hennar Lilju, Kaffitár í Kringlunni með liti og blöð.  Lilja fékk kakó og súkkulaðibitaköku og mamman fékk dýrindis Kaffi Latté.  Á stelpudögum er allt leyfilegt og mamman teiknaði blóm á hendina hennar Lilju.  Við hittum svo mömmu og norska frænku mína sem var í heimsókn, Tine, og hún teiknaði rós á hina hendina.  Já, þetta þarf ekki að vera flókið.  Svo lá leiðin í sundlaugina á Nesinu og Lilja fór margar ferði í rennibrautinni og æfði sig svo í skriðsundi í stóra pottinum.  


Við ætluðum svo öll fjölskyldan að fara niðrí bæ og horfa á þegar kveikt var á Oslóar trénu.  Eitthvað skolaðist tímasetningin til í kollinum á okkur, héldum að þetta byrjaði klukkan fimm en svo kom í ljós þegar við ætluðum að gera okkur klár um fjögur að dagskráin byrjaði einmitt klukkan fjögur.  Þórólfur stakk upp á að við stelpurnar myndur bruna niðrí bæ og sjá hvort við myndum ná að sjá jólasveinana.  Við óskuðum okkur á leiðinni að við myndum finna bílastæði eins og skot og það rættist, keyrði beint inní stæði á besta stað.  Skokkuðum svo að Austurvelli og í því var sagt í hátalarakerfið 'Og nú er komið að barnadagskránni!'.  Þvílíkt gaman hjá okkur, sungum jólalög og dönsuðum með.


Í gær prófuðum við nýtt bakarí sem við höfðum séð á leiðinni í sundið.  Lilja fékk stóra piparköku og mjólk og svo föndruðum við fartölvu (breyttir tímar!).  Til þess notar maður hliðina úr morgunkorns kassa, teiknar upp skjáinn og takkana og klippir út skemmtilegar myndir.  Lilja skrifaði svo stafi og tölur inní kassana, límdi myndir og bjó til sína eigin takka.  Svo lá leiðin í sundið í brunakulda, brrrr...   Tókum góða session í skriðsundi og baksundi áður en við hlupum eins og fætur toguðu í nuddpottinn og slökuðum á.   Mmmmm ég elska þriðjudaga :).


27. nóv. 2011

Þriðji þáttur - Emotional decisions

Þetta efni þekki ég eins og handarbakið á mér og tengi helst við matarræðið.  Ég borðaði of mikið þegar ég var glöð, þegar ég var leið, þegar ég var þreytt, þegar ég var óörugg o.s.frv.  Því miður var bara ein útkoma út úr ofátinu, ég varð bara leið og vonsvikin með sjálfa mig...

Það hefur tekið mig mörg ár að koma mér upp kerfi (war plan) til að skjóta í kaf tilfinningalegt át.  Eftir að ég fór að snúa við blaðinu hjá mér og var komin í nokkuð góðan farveg með matinn þá kom samt reglulega uppá að ég fór verulega út af sporinu.  Í gegnum árin hefur mér nú samt tekist að kortleggja þessa hegðun mína og þegar upp koma aðstæður þar sem ég í hættu, þá er ég tilbúin að bregðast við áður en skaðinn er skeður.

Það er ýmislegt sem getur triggerað þessa hegðun.  T.d. ef ég eyk æfingarálag, ef ég minnka æfingarálag, ef ég sef minna en venjulega, ef ég er leið út af einhverju, ef ég borða annan mat en ég er vön og svo þarf ég alltaf að passa mig sérstaklega eftir erfiðar keppnir, þá hefur ísskápurinn ótrúlega mikið aðdráttarafl!  Til að verjast þá er ég sérstaklega vakandi þegar þessar aðstæður koma upp.  Ég veit fyrirfram að ég er viðkvæm fyrir þeim og er þá búin að undirbúa mig.  Ég passa t.d. að eiga nóg af ávöxtum og litlum gulrótum, ég má borða eins mikið af því og ég get í mig látið.  Eftir heilan poka af litlum gulrótum er æðið runnið af mér og enginn skaði skeður...

Versta ákvörðunin sem ég hef tekið varðandi hlaupin var þegar ég ákvað að hlaupa hálft maraþon í Vorþoninu í fyrra, viku eftir að við Þórólfur misstum í fjórða skiptið.  Ég var eiginlega búin að ákveða innra með mér að þetta væri síðasta tilraunin og það var á árshátíðinni hjá Íslandsbanka vikunni fyrr sem mér fór að blæða.  Ohhh við vorum svo leið.  Ég hafði tekið því mjög rólega í tvo, þrjá mánuði, minnir að afsökunin í það skiptið hafi verið lungnabólga eða eitthvað álíka...   En alla vega í þessu ástandi tók ég þá hræðilega heimskulegu ákvörðun að vera með í Vorþoninu.  Ég blastaði af stað eins og sá svarti væri á hælunum á mér og var gjörsamlega sprungin eftir 5 km.  Ég píndi mig áfram, sem ég er alls ekki vön að gera, en það var skárra að líða illa í kroppnum en í hjartanu.  Síðustu 5 km voru algjört helvíti og ég man þegar einn og einn hlauparinn skreið fram úr mér án þess að ég gæti rönd við reist...   'Er ekki allt í lagi með þig?' 'Ertu meidd eða eitthvað?'.   Ég svaraði náttúrulega kurteisislega, nei, nei allt í lagi með mig á meðan ég fann blóðið leka niður lærin á mér og langaði helst til að öskra...

Ég var algjörlega niðurbrotin eftir hlaupið, leið og vonsvikin.  Ég man að ég var að segja mömmu hvað ég hefði staðið mig illa og hvort það væri ekki bara spurning um að hætta þessu hlauparugli og ég veit ekki hvað, alveg að deyja úr sjálfsvorkunn, aðallega yfir því að einhverjum úti í bæ fannst ég kannski hlaupið á lélegum tíma...  Díhhh, hvað maður getur verið ruglaður.  Mamma horfði bara djúpt í augun á mér og sagði: Eva mín, þú þarft ekki að sanna neitt.  You have achieved!  Ég veit ekki afhverju en þetta náði alveg í gegn og það bráði af mér.  Ég sór þess dýran eið að láta tilfinningalegt ójafnvægi aldrei aftur koma mér í þessar aðstæður.  Mér er líka sérstaklega minnistætt Haustþonið þar sem ég hljóp hálft aftur, hálfu ári síðar eða svo, á sömu brautinni.  Þá hljóp ég bara á gleðinni og mínum hraða, náði forystu þegar 5 km voru eftir og það var aldrei spurning hvernig færi, ég sveif í mark á besta tímanum mínum í hálfu.

Innan við mánuði síðar var ég orðin ólétt af henni Sonju minni.

Þriðji þáttur - Emotional Decisions

Hver er þarna? 
 Já, þetta er ég, æði!!!

Hva, á mar bara hanga hérna...?
Nú fatta ég, geðveikt!!!


24. nóv. 2011

Annar þáttur - Environments

Fór út að skokka í morgun og hlustaði aftur á þátt 2. og 3. til að undirbúa mig fyrir bloggið og fór þá að hugsa að sennilega væru nú einhverjir búnir að hlusta á alla þættina í belg og biðu, klára allt saman.  Og ég gat ekki annað en hlegið með sjálfri mér vegna þess að það þýðir að viðkomandi hafi bara alls ekki lært neitt af fyrsta þættinum sem einmitt fjallar um að taka eitt skref í einu.  Bara nákvæmlega eins og að gúffa í sig heilum poka af kartöfluflögum en ekki njóta þess að fá sér eina og eina og hætta eftir nokkrar.  Meiri njólarnir :)  Ég er búin að hlusta á fjóra þætti, fyrstu þrjá þættina mörgum sinnum og ég fer ekki lengra fyrr en ég er búin að skrifa mína upplifun af hverjum þeirra.  Ég er sem sagt að taka litla bita, smjatta og njóta.

Annar þáttur fjallar um hversu mikil áhrif nánasta umhverfi hefur á árangur og vöxt.  Ég er alin upp á alkohólista og ofætu heimili og vissulega mótaði það mig gríðarlega mikið.  Sem unglingur og ung kona leitaði allra leiða að koma mér sem lengst í burtu, (sennilega ómeðvitað að reyna að forða mér úr óheilbrigðu umhverfi), fór sem AuPair bæði til USA og Frakklands, valdi mér starf sem flugfreyja, dreymdi um að búa erlendis o.s.frv.  Það var bara ekki nóg vegna þess að ég var alltaf með sjálfa mig í eftirdragi... 

Ég tók í fyrsta skipti meðvitaða ákvörðun um að breyta mínu umhverfi þegar ég átti von á honum Gabríel mínum. Ég var í mjög slæmum félagsskap og hafði verið í 10 ár eða svo.  Einhvern veginn þá varð mér það alveg ljóst að þó svo ég hefði boðið sjálfri mér upp á þetta umhverfi þá kæmi aldrei til greina að bjóða barninu mínu upp á það.  Það þýddi að ég var meira og minna ein næstu þrjú árin, þ.e. fyrir utan Gabríel og foreldra mína.  Ég sleit algjörlega sambandi við alla sem ég hafði umgengist daglega í mörg ár og það tók langan tíma að finna aftur gamla vini eða eignast nýja.   Ég fór ekki í bíó, partý, heimsóknir, kaffihús, ferðalög, ekkert... í næstum þrjú ár.  Það hvarflaði samt aldrei að mér að ég hefði tekið ranga ákvörðun, þó þetta hafi verið drullu erfitt stundum.  Ég man að þegar ég gifti mig þá fannst mér hrikalega erfitt að ég var ekki gæsuð og það var sko ekkert vinkonum mínum að kenna.  Annars vegar átti ég nokkrar vinkonur sem ég hafði lítið sem ekkert talað við frá því ég var unglingur og var rétt að kynnast þeim aftur og hins vegar átti ég nýjar vinkonur sem héldu örugglega að ég ætti gamlar vinkonur sem myndu taka að sér gæsunina.  Í dag á ég ótrúlega góðar og traustar vinkonur.  Og í dag er ég svo stór og sterk, að ef ég þyrfti, þá myndi ég bara biðja þær um að gæsa mig :)

Næsta meðvitaða ákvörðunin var að breyta um starfsumhverfi en það gerði ég einu og hálfu ári síðar.  Ég hafði starfað sem flugfreyja í nokkur ár, starf sem átti engan veginn við mig.  Vinnutíminn var óreglulegur, langar fjarverur, mikið djamm, flugvélamatur!!!, need I say more...  Ég lét vinnuveitendur mína vita að ég myndi fara að kíkja í kringum mig, fór á ráðningarskifstofu og fékk tilboð um tvö störf, annars vegar í innflutningsfyrirtæki og hins vegar í hugbúnaðarhúsi.  Ég stóð frammi fyrir því að velja á milli vinnu sem ég myndi klárlega ráða mjög vel við og svo mjög krefjandi starfs sem ég vissi í rauninni ekkert hvort ég gæti höndlað.  Ég valdi krefjandi starfið og ekki síst vegna þess að ég hafði áhuga á að vera í umhverfi sem samanstóð af vel menntuðu og skapandi starfsmönnum og sá ekki eftir því.

Fjórum árum síðar, þegar við Þórólfur fórum að búa saman, þá komu upp krefjandi aðstæður vegna þess hversu ólík við vorum og við þurftum að vinna heilmikið í því að skapa umhverfi þar sem við gætum bæði blómstrað.  Ég var aðeins á undan honum að detta í hlaupin og fyrstu mánuðina var það ansi erfitt fyrir minn mann að skilja af hverju ég kaus að fara út eldsnemma á morgnana að hlaupa með einhverju liði í staðinn fyrir að kúra hjá honum.  'Ætlarðu líka í dag?'...   Þar sem ég hafði ekki áhuga á að fara úr umhverfinu þá var eina leiðin að breyta umhverfinu og við settumst niður og ræddum málin.   Já, til þess að ég sé glöð þarf ég að fara aftur og aftur og aftur og þannig er það bara.  Ef þig langar að fara þá styð ég þig heilshugar, ok.  Og eins var það með matinn...  Ofætan og vannærði drengurinn, muwahahaha...   Ég strögglaði við að setja mér mörk varðandi mat en hann var alltaf að berjast við að halda holdum.  Eitt sem varð næstum að stórmáli á fyrstu árunum okkar var að honum fannst rosalega kósý að fá sér eitthvað gúmmelaði á kvöldin og hluti af ánægjunni var að við myndum njóta þess saman.  Fyrir mig var það aftur á móti algjör kvöl og pína, ef ég sagði nei takk var ég leiðinleg og ef ég sagði já takk fór ég alveg á hliðina , borðaði of mikið og leið illa.    Tími á annan fjölskyldufund og ég held að minn maður hafi áttað sig þegar ég útskýrði fyrir honum að það væri jafn áríðandi fyrir mig að borða ekki á kvöldin eins og fyrir hann að fá að borða á kvöldin.  Ég myndi aldrei banna honum það eða vera fúl út í hann.  Það náði í gegn og þetta hefur ekki verið neitt vandadamál síðan.

Varðandi hreyfinguna þá byrjaði ég að hlaupa ein og helst í myrkri en var hvött af vinkonu minni að koma mér í hlaupahóp sem ég og gerði.  Það er svo mikilvægt fyrir mann að vera með fólki sem er að stefna í sömu átt, skilur mann og styður.  Fyrir þremur árum þurfti ég að taka meðvitaða ákvörðun um að skipta um hlaupahóp vegna þess að ég fann mig ekki lengur í því umhverfi sem ég var í.  Það  var eins og með svo margt í lífinu, ég endaði á stað sem hentaði mér miklu betur og fann félaga sem uppfylltu nákvæmlega þessi skilyrði sem eru svo mikilvæg, þ.e. skýr stefna, skilningur og stuðningur.  Og í því umhverfi hef ég blómstrað og vaxið heilmikið sem íþróttamaður.

Nýjasta dæmið hjá mér sem snýr að því að skapa jákvætt umhverfi er sennilega sú ákvörðun að hafa stóru-stelpu daga með henni Lilju minni.  Bara það að fara úr því umhverfi þar sem Sonja ræður ríkjum og Lilja verður að bakka og yfir í það umhverfi þar sem Lilja er númer 1,2 og 3, það hefur gert kraftaverk.  Ekkert flókið, ekkert stórkostlegt, 3 klukkutímar, kaffihús og sund, það er allt og sumt en Lilja hún byrjar að telja niður á miðvikudögum og getur ekki beðið eftir að það komi þriðjudagur, stóru-stelpu dagur.  Ég passa líka núna (eftir söguna um táninginn) að vera ekki að yfirheyra Gabríel um leið og hann kemur heim úr skólanum,  fer úr tölvunni þegar ég heyri lyklahljóðið, hvet hann til að spila sína músík inn í stofu og býðst til að græja eitthvað snarl :)

Lilja skemmti sér konunglega á Silfurleikunum, svo dugleg og lang yngst!

Svo fór hún alveg á hliðina í verðlaunaafhendingunni, vildi ekki vera með í svona móti aftur og við skildum ekkert í þessu.  'Strákurinn við hliðina á mér sagði að ég mætti ekki vera hjá blá liðinu af því að ég var í rauðum bol... :( '

Eins gott að við eigum Ávaxtakörfuna, skynsama stelpu og getum keypt bláan bol.

22. nóv. 2011

Fyrsti þáttur - What I don't believe

Ég er búin að minnast á podcast sem ég féll alveg fyrir en það fjallar um það hvernig maður getur tileinkað sér hegðun sem leiðir til vaxtar.  Ég þekki flestar aðferðirnar sem talað er um og í rauninni er þetta eins og einhver hafi tekið saman og sett í frambærilegan búning mína reynslu síðustu 14 árin.  Fyrsti þátturinn fjallar um að brjóta verkefnið niður, hvert sem það er, í smærri einingar til að ná árangri.  Ég fór að rifja upp hvernig mín leið var, frá því að vera virkilega vansæl, 30 - 40 kílóum of þung, reykja 2 pakka á dag, stunda enga hreyfingu, vera í starfi sem mér líkaði ekki og vægast sagt í slæmum félagsskap.  Hvernig komst ég hingað?

Allra fyrsta skrefið var að þegar ég áttaði mig á að ég átti von á honum Gabríel mínum þá drap ég í sígarettunni.  Í framhaldinu, nokkrum vikum seinna, hætti ég að drekka gos en ég tengdi það svo mikið við reykingarnar að það var ekki svo erfitt fyrst ég var hætt að reykja.  

Þegar Gabríel var hálfs árs og ég byrjaði að vinna aftur sem flugfreyja þá fann ég út að það gengi aldrei að vera svona mikið í burtu frá honum, í starfi sem mér líkaði ekki einu sinni.  Ég fór á ráðningarskrifstofu og fékk starf í hugbúnaðarhúsi.  Á sama hátt var það verkefni tekið í smáum skrefum, frá því að kunna ekki að kveikja á tölvunni, hafa aldrei séð Windows stýrikerfi og þurfa að spyrja hvernig ég gerði '@' merkið...  Þá tókst mér eitt skref í einu, á nokkrum árum, að verða sérfræðingur á mínu sviði og eftirsóknarverður starfsmaður í mínum geira.

Ári síðar tók ég næsta markvissa skref í átt að betri heilsu en það var sú ákvörðun að stunda reglulega hreyfingu.  Ég hafði ekki tækifæri til að stunda líkamsrækt í stöð en eftir vandlega umhugsun ákvað ég að fjárfesta í Orbitrack (stigvél) sem ég plantaði í stofunni heima.  Ég hafði lofað sjálfri mér að nota tækið alla vega 4 sinnum í viku á morgnana áður en Gabríel vaknaði, alla vega hálftíma í senn, til að réttlæta fjárútlátin en þetta var stór pakki fyrir mig þá.  Og það gerði ég.  Ég veit eiginlega ekki um neinn annan sem hefur keypt svona tæki heim til sín og notað það, en þarna hafði ég öðlast hluta af þeim sjálfsaga sem ég hef ræktað með mér í dag og nægilega mikinn til að standa við það.

Eftir tvö ár á Orbitrackinu fór ég í fyrsta sinn út að hlaupa (komin með kall og barnapössun :).  1-2 km fyrstu vikurnar, svo 3 km og svo alltaf aðeins lengra í einu.  Ég hlustaði á þá sem höfðu reynsluna og gerði eins og mér var sagt.  Á þessum tíma var ég löngu hætt að reyna að finna út úr öllu sjálf, það hafði ekki reynst mér vel fyrstu 30 árin...  Smám saman, hægt og örugglega þjálfaði ég mig upp í að hlaupa maraþon og ultra maraþon.

Einu og hálfu ári eftir að ég byrjaði að hlaupa tók ég matarræðið til endurskoðunar og notaði næstu árin til að finna út hvað hentaði mér að borða og hverju ég kaus að sleppa.  Varðandi þyngdina þá setti ég mér markmið í skrefum, 5 kg í senn en fyrir mig var það passlega krefjandi, ekki of stórt en samt virkilega þess virði.  Þegar ég var komin niður fyrir 70 kg þá minnkaði ég skrefin í 2 kg í senn.  Þegar kom að því að ég hljóp upp Esjuna án þess að blása úr nös, kom heim og leit í spegil og hugsaði með mér, núna er ég nákvæmlega eins þung og mig langar til að vera. Það er mögnuð tilfinning að upplifa fyrir fyrrverandi fitubollu.  Ég hef verið með kristaltær markmið varðandi þyngd síðustu 8 árin og ég hef verið tággrönn í 8 ár.

Fyrir 5 árum tók ég ákvörðun um að læra að synda skriðsund.  Það er eitt það mest krefjandi verkefni sem ég tekist á við síðustu árin.  Sem betur fer þá var ég komin á þann stað að ég var fullviss um að með því að taka smá skref í einu þá myndi mér að lokum takast að verða góð í skriðsundi.  Jeiii ég get andað,  jeiii ég kemst 200 m, jeiii nú get ég slakað á í vatninu, jeiii ég get synt aðeins hraðar og já, nú get ég synt eins langt og mig lystir.

Eftir að hafa náð ákveðnum árangri sjálf þá upplifði ég mikla löngun til að aðstoða aðra við að ná tökum á sínum málum.  Ég var full af eldmóði, ég var búin að fatta þetta og gat ekki beðið eftir að sjá árangur annarra.  Pjúff, það er það erfiðasta í heimi að reyna að láta aðra ná árangri.  Það er nefnilega þannig að það eru bara ca. 10 % af fólki sem er tilbúið að sætta sig við þann veruleika að til þess að ná árangri þarf tíma og ástundun og fyrir keppnismanneskjuna mig, þá þýddi það bara að ég var alltaf að tapa og ég varð leið.  90 prósentin kjósa nefnilega frekar skyndilausn eftir skyndilausn, sem endar bara með áralöngum vonbrigðum og engum varanlegum árangri.  

En nú er ég búin að finna gaur sem er með eldmóðinn og alveg á sömu línu og ég.  Eina sem ég þarf að gera er að setja link á dúddann :)


Eitt spor í einu og meðan maður hættir ekki er alveg á tæru að myndin klárast á endanum.



17. nóv. 2011

Stundum...

... er eins og maður fái sent til sín nákvæmlega það sem maður þarf á að halda á þeirri stundu.  Rakst á færslu á FB hjá henni Karen Axelsdóttur þar sem hún mælir með tilteknu Podcasti.  Ég ákvað að tékka á því og er þvílíkt húkkt.  Ég benti bóndanum á þetta líka og nú keppumst við við að komast út að hlaupa til að geta hlustað á næsta þátt.  Mæli eindregið með þessum gaur, Bevan James Eyles - Fitness Behavior.  Ég byrjaði á að hlusta á nýjasta þáttinn (nr. 15) og var ekki lengi að ná mér í alla seríuna svo ég gæti byrjað á byrjuninni.  Nú er ég búin að hlusta á þrjá þætti og mér finnst eins og þeir hafi allir verið búnir til sérstaklega fyrir mig (og Þórólf :).  Frábær hugarleikfimi með skokkinu.

Lilja var veik á þriðjudag og miðvikudag.  Þá er málið að finna nóg að gera til að allir missi sig ekki úr leiðindum.  Lilja er nefnilega ótrúlega hress þegar hún er veik.   Við náðum okkur í tvo diska á bókasafninu, perluðum og lituðum, bökuðum og lékum.  Allt á fyrri deginum sko...  Datt svo í hug að sennilega væri hún orðin nógu stór til að sauma út einfaldar myndir, fór í leiðangur og fann akkúrat passlega einfalda mynd og jú, mín sat og saumaði eins og engill og mamman fékk smá frið á meðan, dæs...  Hún er svo spennt að fá að læra að prjóna en ég er búin að lofa að kenna henni þegar hún verður fimm ára.  

Fór í leikskólann aftur í dag, fullfrísk og glöð.  Ekki frá því að mamman hafi verið jafn glöð, gat látið sig leka niður í ból eftir hádegið og fengið sér blund meðan Sonja svaf, mmmmm dásamlegt.  Ekkert sem gleður ungbarnamömmur meira en góður blundur. 

Smá sýnishorn af aumingja litla sjúklingnum, hehemm...





12. nóv. 2011

Powerade #2 - 2011

Það er alveg merkilegt hvað maður á í miklu ástar/haturs sambandi við Powerade hlaupin.  Um miðjan dag var þvílíkt rok og rigning, ennþá smá þreyta í fótunum eftir keppnina á sunnudaginn, Sonja vaknaði nokkrum sinnum um nóttina o.s.frv.   Í bílnum á leiðinni í hlaupið var ég farin að geispa á Sæbrautinni sem er óvenjusnemma, venjulega byrja ég ekki að geispa fyrr en í Ártúnsbrekkunni...

Svo vorum við komin á staðinn, aðeins tímanlegri en síðast og gátum meira segja tekið smá upphitunarhring.  Nú var búið að rætast úr veðrinu, þurrt og mikið búið að lægja.  Svo magnast spennan, hópurinn ormast niður að startlínu, er rekinn til baka 10 metra á réttan stað og svo 3,2,1...   

Ég fór rólega af stað og fann mér mann til að elta sem var í góðum takti sem passaði mér.  Við vorum samferða yfir brúna og upp fyrstu brekkuna og vorum strax farin að pikka upp hlaupara sem blöstuðu af stað.  Ég legg áherslu á að nýta mér brekkurnar niður, sérstaklega núna þegar ég er ekki eins sterk í brekkunum upp :), næ góðu rúlli og pikka upp heilmikið af hlaupurum.  Allt sem sagt eins og það á að vera... þangað til...

Það hefur nú komið fyrir að maður hafi brosað út í annað yfir kjánaskapnum í nýliðum sem ekki kunna að reima skóna sína almennilega fyrir keppni.  Ég gat því ekki annað en skammast mín pínu þegar ég fann reimarnar losna á öðrum skónum mínum og rúmlega 5 km eftir af hlaupinu, rækatlans...  Flaps, flaps, flaps í hverju skrefi og ég sem var á þessu fína rúlli.   Ákvað að stoppa ekki til að reima heldur sjá til hvort ég gæti ekki bara leitt þetta framhjá mér.  Reyndi að passa uppá að halda stíl en ekki lyfta hnjánum hærra til að forðast reimarnar og sannfærði sjálfa mig um að þetta væri góð hugaræfing, ekki láta neitt fara í taugarnar á sér og skemma fyrir.  Svo tók þetta líka athyglina frá því að vera þreytt!  

Flaps, flaps, flaps og tíminn 43:10 sem er rúmlega tveggja mínútna bæting síðan síðast og fyrsta skipti undir 45 eftir Sonju.  Til samanburðar við Lilju mína þá tók það mig hálft ár að fara aftur undir 45 og það var ekki í Powerade hlaupi þannig að þetta veit á gott.  


9. nóv. 2011

Stóru-stelpudagar

Það er örugglega ekki auðvelt að þurfa að víkja úr mömmufaðmi, sem maður hefur haft ótakmarkaðan aðgang að, fyrir nýju barni.  Til að hjálpa Lilju að takast á við það, hef ég reynt að sinna henni sérstaklega þegar ég hef tækifæri til.  Eftir fyrstu vikurnar með Sonju fór ég að sækja hana 1-2 daga í viku á leikskólann og nú var komin tími til að bæta aðeins við.

Þriðjudagar eru orðnir stóru-stelpudagar hjá okkur, frá og með gærdeginum.  Þá sækji ég Lilju í leikskólann klukkan hálf fimm og við stingum af til klukkan sjö.  Ég vann árskort í Seltjarnarneslaugina í sundlaugaleiknum í sumar, svo ég stakk upp á að við skelltum okkur í sund þar og það var samþykkt.  Frábær laug fyrir fjögurra ára og mömmur.   Lilja gat rennt sér milljón sinnum í rennibrautinni á meðan ég gat fylgst með úr heitum potti.  Svo er stór barnalaug, stór volgur pottur og nuddpottur sem við skottuðumst á milli og prófuðum.  Búningsklefarnir eru snyrtilegir og fínir og við ákváðum að hafa það fastan lið að fara þangað á þriðjudögum.  Efir sundið fengum við okkur bita á Kryddlegnum hjörtum.  Mamman tók með liti og blöð svo við gætum teiknað og litað saman, hérna heima er einhvern veginn alltaf eitthvað annað sem kallar og allt gert í flýti. Næst er planið að byrja á Kaffitár í Kringlunni, en það er uppáhaldskaffihúsið hennar Lilju og fara síðan í sund.  

Þegar við vorum að klæða okkur eftir sundið sagði Lilja við mig: 'Mamma, við skulum aldrei taka lillu með'  'Ég meina sko aldrei á þriðjudögum, það eru stóru-stelpu dagar, ókey?'  

Já, ókey :)


4. nóv. 2011

Þriggja mánaða kríli

Við fórum með hana Sonju okkar í þriggja mánaða skoðun í morgun og það er óhætt að segja að stelpuskottið dafni vel.  Skemmtilegt að bera saman ungana okkar á þessum aldri:

Gabríel:      Lengd 61 cm    - þyngd 7790 gr - höfuðmál 42 cm
Lilja:           Lengd 61,5 cm - þyngd 5440 gr - höfuðmál 40,1 cm
Sonja:        Lengd 62 cm -    þyngd 5800 gr - höfuðmál 40 cm

Gabríel var sem sagt stystur og þyngstur, með stærsta hausinn.  Lilja var svona mitt á milli löng, léttust og með miðlungs höfuðmál.  Sonja er lengst, milliþung og með nettasta kollinn.


Sonja fékk tvær sprautur í dag, var þvílíkt að brosa út að eyrum til læknisins þegar hann stakk hana og ég held hún hafi bara ekki áttað sig á þessu öllu saman.  Svo kom sprauta númer tvö og þá lét mín aðeins í sér heyra, hrikalega sár yfir meðförunum.  Pissaði svo á lærið á mömmu sinni til að undirstrika óánægju sína.

Hjúkkan okkar í ungbarnaeftirlitinu er mjög áhugasöm um holdafar og matarræði móðurinnar.  Horfir djúpt í augun á mér í hvert einasta skipti sem við komum og spyr: 'Ertu að borða nóg?'.  Þegar ég segi já, heldur betur, þá snýr hún sér að Þórólfi og horfir djúpt í augun á honum og spyr: 'Er hún að borða nóg?'.   Já eins og hestur!!!

Ég er pínu forvitin að vita hvernig hún höndlar konur sem eru vel feitar eftir meðgönguna.  Ætli hún komi eins fram við þær?  'Ertu ekki að borða allt of mikið?' og snúa sér svo að karlinum... 'Er hún að gúffa í sig alla dag og nætur?'.  Einhvern veginn efast ég um það.  Ég myndi svo sem alveg skilja þennan áhuga eða þessa umhyggju, ef annað hvort ég eða Sonja værum vannærðar.  En ég er enn með nokkur aukakíló sem ég held fast í þangað til brjóstagjöfinni lýkur og Sonja er yfir meðallagi, bæði í lengd og þyngd.  Svo held ég að það sé erfitt að finna værara barn hér á jörðu.

En þessi framkoma kemur mér svo sem ekkert á óvart hjá annarri feitustu þjóð Vesturlanda, truflar mig ekkert enda alveg örugglega af góðum hug  :)

2. nóv. 2011

Hjólað á Bora Bora

Stórvinur minn hann Oddur er að fara að takast á við IronMan keppnina í Florida um helgina og hann var svo sætur að lána mér trainerinn sinn á meðan.  Ég græjaði racerinn minn í gærkvöldi og í morgun var fyrsti hjólreiðatúrinn.  Kom mér vel fyrir í stofunni fyrir framan sjónvarpið og horfði á Batchelorette á Bora Bora og hjólaði í klukkutíma.  Hér er Ali í djúpum samræðum við 'ekki' tilvonandi...  Stefni á að horfa á eitthvað menningarlegra í framtíðinni en ég sé fyrir mér daglega hjólatúra þangað til ég þarf að skila græjunni.  Jeiiii gaman.


Annars er búið að vera hrikalega mikið skemmtilegt að gera, ég hef hreint og beint ekki haft tíma til að blogga þó mig hafi stundum dauðlangað til þess.  Ég er ekki að kvarta, síður en svo.  Til að tæpa á stóru þá fór ég í brunch hjá henni Sally, sem ég er að vinna með en við erum 4 stelpur úr vinnunni sem áttum ungana okkar á þremur mánuðum og við hittumst reglulega. 


Ég fór líka í vigtunar brunch með henni Bibbu minni og að venju leystum við nokkrar lífsgátur.  Við hjónin vorum með brunch fyrir hlaupahópinn okkar og þeirra fólk.  Þórólfur útbjó dýrindis fiskisúpu og ég gerði hráköku og kasjúhneturjóma, svo komu allir með eitthvað gott í púkkið.  Svo var hóað í fjölskyldubrunch til að klára afgangana :)   Vá hvað ég er búin að borða mikið síðustu 10 daga!!!



Til að vega upp á móti öllum þessum brunchum þá hef ég farið á fullt af frábærum hlaupaæfingum, í bíóferð með Lilju minni, tvær bæjarferðir með Sonju minni í vagninum og aðstoðað Gabríel minn í hjólaviðgerðum.  Ég er búin að kaupa Bumbo stól á Barnalandi og líka selja göngugrind og vöggu.

Sonja fór að hlægja, það var gaman og Lilja söng inná vídeó til að senda í Stundina okkar. 


Gabríel átti að fara í keppnisferð í körfu til Egilsstaða, Íslandsmeistaramót, nema hvað þjálfarinn svaf yfir sig og mætti ekki út á flugvöll og allir strákarnir voru sendir öfugir heim.  Það var leiðinlegt.  Hann var þá bara heilmikið heima í staðinn og var duglegur að leika við litlu systur sína.



Svo eru bara alltaf jólin hjá okkur núna á Dyngjuveginum, hér detta inn skemmtilegir pakkar frá útlöndum vinstri, hægri, eins og t.d. nornahattar, hauskúpur, handhitapokar, þurrkaði strútar og antilópur.  Það er sko gaman.



Sem sagt milljón gaman og eitt leiðinlegt, það er nokkuð gott :)