Þegar ég hugsa um hvað skiptir mig mestu máli uppá vellíðan þá er það þrennt sem stendur uppúr. Í fyrsta lagi nægur svefn, í öðru lagi góður matur og í þriðja lagi hreyfing, já í þessari röð. Ef ég fæ ekki nægan svefn þá klúðrast mattaræðið og hreyfingin. Ef ég fæ ekki góða næringu þá klúðrast hreyfingin. Ef ég fæ ekki hreyfinguna mína og fríska loftið þá er ég aðeins minna glöð :)
Og þá er það málið með ungabörn og svefn. Hún Sonja er alveg sérstaklega vær og góð, sefur vel bæði á daginn og næturnar en það var samt tími til komin að laga aðeins til svefnrútínuna. Hún fékk bara að dóla með okkur á kvöldin inní stofu þangað til við fórum í rúmið og þá tók við ca. klukkutíma undirbúnings stund fyrir svefninn þangað til hún var alveg komin í ró. Svo fékk hún að drekka og kúra hjá mömmu sinni og við sofnuðum iðullega báðar á meðan hún drakk. Svo vaknaði ég um nóttina, færði hana yfir í sitt rúm (við hliðina á mínu). Hún drakk svona tvisvar á nóttu og þá var það sama rútínan en þetta þýddi 5 vökn fyrir mig. Vakna til að færa, vakna til að gefa, vakna til að færa, vakna til að gefa, vakna til að færa...
Svona gerðum við þetta með Lilju og þegar hún var orðin 7 mánaða og farin að kela við mömmu sína á klukkutímafresti gafst ég upp á vökunum, settum hana í sitt eigið herbergi og Þórólfur tók við næturvöktunum meðan við vöndum hana af næturgjöfunum. Grátur og gnístran tanna í viku eða svo og svo einhverjar vökur eftir það. Núna langaði mig til að prófa að gera þetta öðruvísi og ég fann fína bók á Amazon sem er bæði fróðleg og nytsamleg: The No-Cry Sleep Solution: Gentle Ways to Help Your Baby Sleep Through the Night.
Það er skemmst frá því að segja að á einni viku, síðan ég fékk bókina þá er rútínan orðin svona: Inn að undirbúa svefninn um átta leytið, sofnuð klukkan 9 í sínu rúmi, södd og sæl, vaknar milli 2 og 3 til að drekka fljótt og vel, sofnar aftur í sínu rúmi og sefur til að verða 8 um morguninn. Sem sagt eitt vakn fyrir mömmuna en ekki fimm og ég sé fyrir mér að það verði miklu auðveldara fyrir okkur að færa Sonju í sitt herbergi þegar þar að kemur og ekki þarf að venja hana af milljón næturgjöfum. Mmmmm zzzzzzzzz.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli