Við hjónin tókum þátt í fyrsta Powerade hlaupinu í dæmigerðu haust óveðri. Rok og hráslagalegt en það fór nú samt ekki að rigna fyrr en við vorum komin í mark og á leiðinin út í bíl. Þórólfur þurfti að taka því rólega, hann er að jafna sig eftir meiðsl en ég var forvitin að sjá hvað ég gæti gert.
Byrjaði mjög rólega og skokkaði í skjóli, fann mér stóra karlmenn til að skýla mér á bak við. Þegar ég var komin upp brekkuna þá lét ég vaða eins og druslan dró alla leið niður dalinn. Síðustu 3 km þurfti ég aðeins að bíta á jaxlinn, vantar ennþá svolítið upp á magnið hjá mér í æfingunum, en var mjög ánægð að halda dampi síðasta km eftir Rafstöðvarbrekkuna og lokatíminn 45:17. Var 10. kona í mark og náði mér í eitt stig, stefni á mínútu bætingu næst.
Ég var búin að finna fyrir því í vikunni að Lilja þurfti sérstaklega á mér að halda, erfitt að vera 4 ára og alltaf þurfa að víkja fyrir litlu systur. Ég sleppti laugardagsæfingunni og Víðavangshlaupinu og fór í staðinn með stelpurnar (Sonju sofandi) í Kringluna þar sem við keyptum tússliti og Barbamömmu. Svo settumst við á kaffihús, við Lilja lituðum saman, fengum okkur kaffi, kakó og með því og áttum frábæra mæðgnastund.
Sonja stendur sig eins og hetja í svefn prógramminu sínu. Nú er hún komin með allar græjur, vafningsteppi, Sleep sheep og við erum rosa dugleg að halda rútínunni okkar. Hún sefur frá ca. átta á kvöldin til að verða níu á morgnana og vaknar einu sinni eða tvisvar til að drekka á næturnar. Hún sefur líka eins og engill í vagninum sínum á daginn 2- 4 tíma í einu, gæti ekki verið meiri lúxus. Það er náttúrulega bein tenging þar á milli og hversu vel gengur hjá mér að hreyfa mig, allt er auðveldara ef maður fær nægan svefn.
Gabríel er á fullu í körfunni núna, keppir í Njarðvík þessa helgina og svo eru það Egilsstaðir næstu helgi. Á morgun ætlum við að fara öll saman með honum suður eftir, hvetja okkar mann til dáða og kíkja í Vatnaveröldina á milli leikja. Hlakka til, læfs gúdd.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli