3. okt. 2011

Frjálsar, karfa, leikhús og fleira

Haustið er komið með trompi og nú er eins gott að vera skipulagður.  Helgin hjá okkur var stappfull af viðburðum.  Á laugardaginn var Bronsmót ÍR en það er frjálsíþróttamót fyrir krakka 10 ára og yngri.  Við spurðum Lilju hvort hún hefði áhuga á að vera með og jú hún var til í tuskið.  Krökkunum var skipt í hópa ca. 8 í hverjum hóp og hver hópur vann saman sem lið og safnaði stigum.  Það var keppt í langstökki, hástökki, spjótkasti, langhlaupi, hindrunarhlaupi, boltakasti og fl. allt lagað að aldri keppendanna (t.d. hoppað yfir kústskaft í langstökkinu).  Í lokin fengu allir krakkarni þátttökuverðlaun og stelpan okkar var í skýjunum með þetta allt saman.  Eftir frjálsarnar tóku fimleikarnir við hjá Lilju svo var smá tími til að snarla áður en við skutluðum Gabríel í Garðabæinn þar sem hann keppti í körfu.  Skiptum liði og ég sá um stelpurnar á meðan Þórólfur hvatti guttann áfram.  

Sonja varð 2. mánaða á laugardaginn og þá var komin tími á bumbumynd, nýkomin heim úr hlaupatúr:


Ég er rosalega ánægð með hvað það gengur vel að komast í gamla formið mitt en það gerðist svo sem ekkert sjálfkrafa, ég er búin að vinna fyrir kaupinu mínu og finn það á kroppnum og hraðanum í hlaupunum.  Þetta er ég búin að gera síðustu tvo mánuði frá því Sonja fæddist:





Á sunnudaginn var svo messuferð en Gabríel las upphafsbænina, partur af fermingarfræðslunni og svo var það sunnudagaskólinn fyrir Lilju.  Skokkaði heim með Sonju til að undirbúa smá brunch en Orri bróðir var í bænum og hann kom með Dr. Danna (strákinn sinn) og svo var ég búin að hóa í Ástu systur líka.  Eftir mat fóru svo Þórólfur, afi Þór og Lilja í leikhúsið og sáu Galdrakarlinn frá Oz.  Við Gabríel og Sonja vorum dauðþreytt eftir allan hamaganginn og lágum í leti á meðan.

Hugsuðum til ömmu Kollý sem hefði átt afmæli 2. október, kveiktum á kerti fyrir hana.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli