Ja alla vega þessa atrennu sem var nokkuð strembin í sambúðinni við þvottavélina okkar. Hún hefur nú reyndar staðið sig ótrúlega vel þessi 13 ár sem hún hefur þjónað okkur og við Þórólfur höfum verið lunkinn við að koma henni í gang aftur ef hún hefur hikstað á t.d. einhverju sem gleymst hefur í vösum.
En nú var komin tími á alvöru tjúnöpp. Í sumar kláruðust kolin og ég skipti um þau með smá hjálp frá rafvirkja sem var á staðnum v/eldhússins. Hefði nú alveg getað klárað málið sjálf ef réttu kolin hefðu verið til en það þurfti að mixa þetta og lóða kolin við gömlu festingarnar. Svo var það fyrir tveim vikum eða svo að hviss bamm, reimin í vélinni slitnaði og fór í þúsund parta.
Ég fór í Rönning en þá var reimin ekki til hjá þeim og það þurfti að sérpanta hana, sem tekur 2-4 vikur og hún kostaði 3.500,- fyrir hrun... Það var annar viðskiptavinur í búðinni sem hafði heyrt á tal okkar og hann benti mér á að kíkja í Auðbrekku 4, þar væri gaur með aragrúa af notuðum þvottavélum og varahlutum í gamlar vélar. Ég brunaði þangað og viti menn, upp úr kassa með hundrað reimum dró hann upp réttu reimina, glænýja og glansandi, 500 kall og málið dautt.
Við hjónin vorum nú heldur betur glöð, settum nýju reimina í og hentum í vél. Arghhh... þá var hún allt í einu hætt að dæla vatninu úr sér og við vissum ekki hvort við hefðum klúðrað einhverju við að setja reimina í eða hvort reimin hefði slitið einhverja rafmagnsvíra þegar hún spíttist í sundur. Við sáum nokkra lausa rafmagnsvíraenda og fórum í smá tilraunastarfsemi (með engin verkfæri : / ) sem endaði með háum hvelli, brunalykt og rafmagnið sló út í húsinu...
Í gær eftir að hafa skoðað fullt af 'How to fix your washing machine' vídeó á Youtube fór ég til Kalla, mágs míns og fékk hann til að prófa dæluna. Hún hjökkti nú eitthvað en var ekki mjög traustvekjandi. Ég fékk svo lánaðan rafmagnsmæli hjá honum til að tékka hvort það væri straumur á vírunum sem tengjast dælunni og ef svo væri þá var ljóst að dælan væri ónýt. Fínn straumur og þá var næsta skref að bruna upp í Auðbrekku aftur og vonast til að nýi besti vinur minn ætti dælu fyrir mig. Jú, ekki klikkaði hann frekar en fyrri daginn, dró fram dælu sem passaði og nýjar festingar á slöngurnar, 3000 kall og málið dautt.
Með Sonju mér við hlið til að hvetja mig áfram þá náði ég að losa gömlu dæluna, festa nýju og jeiii nú malar þvottavélin af ánægju. Þó svo það hafi á einhverjum tímapunkti verið freistandi að henda henni bara og kaupa nýja risastóra þá er það miklu skemmtilegra að hafa náð að laga hana og mér þykir bara svo vænt um hana núna og vona að hún endist okkur í mörg ár í viðbót.
Nú er bara spurning hvað við eigum að gera við hundraðþúsundkallinn sem við áttum ekki fyrir nýrri þvottavél...
DJÓK :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli