21. okt. 2011

Ég vann!

Ja alla vega þessa atrennu sem var nokkuð strembin í sambúðinni við þvottavélina okkar.  Hún hefur nú reyndar staðið sig ótrúlega vel þessi 13 ár sem hún hefur þjónað okkur og við Þórólfur höfum verið lunkinn við að koma henni í gang aftur ef hún hefur hikstað á t.d. einhverju sem gleymst hefur í vösum.  

En nú var komin tími á alvöru tjúnöpp.  Í sumar kláruðust kolin og ég skipti um þau með smá hjálp frá rafvirkja sem var á staðnum v/eldhússins.  Hefði nú alveg getað klárað málið sjálf ef réttu kolin hefðu verið til en það þurfti að mixa þetta og lóða kolin við gömlu festingarnar.  Svo var það fyrir tveim vikum eða svo að hviss bamm, reimin í vélinni slitnaði og fór í þúsund parta.  

Ég fór í Rönning en þá var reimin ekki til hjá þeim og það þurfti að sérpanta hana, sem tekur 2-4 vikur og hún kostaði 3.500,- fyrir hrun...  Það var annar viðskiptavinur í búðinni sem hafði heyrt á tal okkar og hann benti mér á að kíkja í Auðbrekku 4, þar væri gaur með aragrúa af notuðum þvottavélum og varahlutum í gamlar vélar.  Ég brunaði þangað og viti menn, upp úr kassa með hundrað reimum dró hann upp réttu reimina, glænýja og glansandi, 500 kall og málið dautt.

Við hjónin vorum nú heldur betur glöð, settum nýju reimina í og hentum í vél.  Arghhh... þá var hún allt í einu hætt að dæla vatninu úr sér og við vissum ekki hvort við hefðum klúðrað einhverju við að setja reimina í eða hvort reimin hefði slitið einhverja rafmagnsvíra þegar hún spíttist í sundur.  Við sáum nokkra lausa rafmagnsvíraenda og fórum í smá tilraunastarfsemi (með engin verkfæri : / ) sem endaði með háum hvelli, brunalykt og rafmagnið sló út í húsinu...

Í gær eftir að hafa skoðað fullt af 'How to fix your washing machine' vídeó á Youtube fór ég til Kalla, mágs míns og fékk hann til að prófa dæluna.  Hún hjökkti nú eitthvað en var ekki mjög traustvekjandi.  Ég fékk svo lánaðan rafmagnsmæli hjá honum til að tékka hvort það væri straumur á vírunum sem tengjast dælunni og ef svo væri þá var ljóst að dælan væri ónýt.  Fínn straumur og þá var næsta skref að bruna upp í Auðbrekku aftur og vonast til að nýi besti vinur minn ætti dælu fyrir mig.  Jú, ekki klikkaði hann frekar en fyrri daginn, dró fram dælu sem passaði og nýjar festingar á slöngurnar, 3000 kall og málið dautt.

Með Sonju mér við hlið til að hvetja mig áfram þá náði ég að losa gömlu dæluna, festa nýju og jeiii nú malar þvottavélin af ánægju.  Þó svo það hafi á einhverjum tímapunkti verið freistandi að henda henni bara og kaupa nýja risastóra þá er það miklu skemmtilegra að hafa náð að laga hana og mér þykir bara svo vænt um hana núna og vona að hún endist okkur í mörg ár í viðbót.  

Nú er bara spurning hvað við eigum að gera við hundraðþúsundkallinn sem við áttum ekki fyrir nýrri þvottavél...  

DJÓK :)

15. okt. 2011

Powerade # 1 - 2011

Við hjónin tókum þátt í fyrsta Powerade hlaupinu í dæmigerðu haust óveðri.  Rok og hráslagalegt en það fór nú samt ekki að rigna fyrr en við vorum komin í mark og á leiðinin út í bíl.  Þórólfur þurfti að taka því rólega, hann er að jafna sig eftir meiðsl en ég var forvitin að sjá hvað ég gæti gert.  

Byrjaði mjög rólega og skokkaði í skjóli, fann mér stóra karlmenn til að skýla mér á bak við.  Þegar ég var komin upp brekkuna þá lét ég vaða eins og druslan dró alla leið niður dalinn.  Síðustu 3 km þurfti ég aðeins að bíta á jaxlinn, vantar ennþá svolítið upp á magnið hjá mér í æfingunum, en var mjög ánægð að halda dampi síðasta km eftir Rafstöðvarbrekkuna og lokatíminn 45:17.  Var 10. kona í mark og náði mér í eitt stig, stefni á mínútu bætingu næst.

Ég var búin að finna fyrir því í vikunni að Lilja þurfti sérstaklega á mér að halda, erfitt að vera 4 ára og alltaf þurfa að víkja fyrir litlu systur.  Ég sleppti laugardagsæfingunni og Víðavangshlaupinu og fór í staðinn með stelpurnar (Sonju sofandi) í Kringluna þar sem við keyptum tússliti og Barbamömmu.  Svo settumst við á kaffihús, við Lilja lituðum saman, fengum okkur kaffi, kakó og með því og áttum frábæra mæðgnastund.  

Sonja stendur sig eins og hetja í svefn prógramminu sínu.  Nú er hún komin með allar græjur, vafningsteppi, Sleep sheep og við erum rosa dugleg að halda rútínunni okkar.  Hún sefur frá ca. átta á kvöldin til að verða níu á morgnana og vaknar einu sinni eða tvisvar til að drekka á næturnar.  Hún sefur líka eins og engill í vagninum sínum á daginn 2- 4 tíma í einu, gæti ekki verið meiri lúxus.  Það er náttúrulega bein tenging þar á milli og hversu vel gengur hjá mér að hreyfa mig, allt er auðveldara ef maður fær nægan svefn.

Gabríel er á fullu í körfunni núna, keppir í Njarðvík þessa helgina og svo eru það Egilsstaðir næstu helgi.  Á morgun ætlum við að fara öll saman með honum suður eftir, hvetja okkar mann til dáða og kíkja í Vatnaveröldina á milli leikja.  Hlakka til, læfs gúdd.  


10. okt. 2011

10 ár í dag

Í dag eru 10 ár frá því við Þórólfur kysstumst fyrst!  Það var í óvissuferð með vinnunni, þvílíkt gaman hjá okkur og eftir humarveislu á Fjöruborðinu var teningunum kastað.  Þórólfur tók sér frí í dag og við ætlum að gera okkur glaðan dag, fá okkur eitthvað gott að borða í hádeginu og dúlla okkur eitthvað í góða veðrinu í tilefni dagsins.

Náði skemmtilegum áfanga í gær en þá tók ég þátt í Geðhlaupinu, 10 km.  Kalt og smá vindur og nokkuð krefjandi braut en ég lagði upp með að halda 4:30 pace sem gerir 45 mínútur.  Ég var mjög vel klædd, í ullarbol og vindstopper, ég hef nefnilega lent tvisvar í því eftir að ég átti Sonju að verða kalt á kroppnum og þá stíflast mjólkurbúið með tilheyrandi óþægindum...   

En alla vega, hlaupið gekk alveg eins og lagt var upp með og það sem var enn skemmtilegra er að ég náði forystu strax í upphafi.  Samkvæmt Garmin var ég 45:02 með 10 km en brautin var 156 m of löng (aftur skv. Garmin) og lokatíminn hjá mér var 45:34, nákvæmlega uppá sek á 4:30 pace.   Niðurstaðan 1. sæti og bæting um 1 - 1 1/2 mínútu frá Reykjanesmaraþoni.  Fékk flottan blómvönd, usb lykil og geisladisk að launum, gaman, gaman. 






6. okt. 2011

Sextíu og sex komma núll!

Í dag var vigtun hjá okkur Bibbu, fyrsta vigtun eftir að ég átti Sonju.  Hoppaði hæð mína af kæti þegar ég sá töluna en þetta er einmitt sú tala sem var mitt markmið þegar við stofnuðum vigtunarklúbbinn okkar fyrir 8 árum síðan.  Þetta er líka nákvæmlega sama þyngd og ég var í þegar ég varð ólétt af henni Sonju minni.  Ég hef reyndar síðustu árin verið aðeins léttari, 64 kg svona venjulega og ég fer lægst niður í 62 kg en það er fullkomin keppnisþyngd fyrir mig en þá er ég ansi fitulítil.  

Eins og venjulega leystum við nokkrar lífsgátur á skokkinu og skemmtum okkur konunglega í heita pottinum, reyndar töluvert á kostnað annarra viðstaddra (lesist í et.) og við skömmumst okkar...  :)   Frábært að hanga með gömlu Hálftímafélögunum sem eru ennþá á sínum stað 10 árum síðar (...byrjaði minn hlaupaferil í Hálftíma hópnum).

Breyttum út af vananum í dag og slepptum kaffinu í laugunum, maður stingur ekki svo lengi af frá litla krílinu, en í staðinn bauð ég Bibbu heim í hafragraut, kaffi latte og ljúffengt brauð sem bóndi minn bakaði.

Í dag hélt ég svo fyrsta fyrirlestur haustsins, en hann var í tilefni heilsuviku hjá Árvakri.  Virkilega gaman og ég segi það enn og aftur, ég fæ alla vega jafn mikið út úr svona stund eins og áheyrendur.  

Sérstaklega skemmtilegur dagur sem sagt :)  

5. okt. 2011

Svefn og heilsa

Þegar ég hugsa um hvað skiptir mig mestu máli uppá vellíðan þá er það þrennt sem stendur uppúr.  Í fyrsta lagi nægur svefn, í öðru lagi góður matur og í þriðja lagi hreyfing, já í þessari röð.  Ef ég fæ ekki nægan svefn þá klúðrast mattaræðið og hreyfingin.  Ef ég fæ ekki góða næringu þá klúðrast hreyfingin.  Ef ég fæ ekki hreyfinguna mína og fríska loftið þá er ég aðeins minna glöð :)

Og þá er það málið með ungabörn og svefn.  Hún Sonja er alveg sérstaklega vær og góð, sefur vel bæði á daginn og næturnar en það var samt tími til komin að laga aðeins til svefnrútínuna.  Hún fékk bara að dóla með okkur á kvöldin inní stofu þangað til við fórum í rúmið og þá tók við ca. klukkutíma undirbúnings stund fyrir svefninn þangað til hún var alveg komin í ró.  Svo fékk hún að drekka og kúra hjá mömmu sinni og við sofnuðum iðullega báðar á meðan hún drakk.  Svo vaknaði ég um nóttina, færði hana yfir í sitt rúm (við hliðina á mínu).  Hún drakk svona tvisvar á nóttu og þá var það sama rútínan en þetta þýddi 5 vökn fyrir mig.  Vakna til að færa, vakna til að gefa, vakna til að færa, vakna til að gefa, vakna til að færa...  

Svona gerðum við þetta með Lilju og þegar hún var orðin 7 mánaða og farin að kela við mömmu sína á klukkutímafresti gafst ég upp á vökunum, settum hana í sitt eigið herbergi og Þórólfur tók við næturvöktunum meðan við vöndum hana af næturgjöfunum.  Grátur og gnístran tanna í viku eða svo og svo einhverjar vökur eftir það.  Núna langaði mig til að prófa að gera þetta öðruvísi og ég fann fína bók á Amazon sem er bæði fróðleg og nytsamleg: The No-Cry Sleep Solution: Gentle Ways to Help Your Baby Sleep Through the Night.

Það er skemmst frá því að segja að á einni viku, síðan ég fékk bókina þá er rútínan orðin svona:  Inn að undirbúa svefninn um átta leytið, sofnuð klukkan 9 í sínu rúmi, södd og sæl, vaknar milli 2 og 3 til að drekka fljótt og vel, sofnar aftur í sínu rúmi og sefur til að verða 8 um morguninn.  Sem sagt eitt vakn fyrir mömmuna en ekki fimm og ég sé fyrir mér að það verði miklu auðveldara fyrir okkur að færa Sonju í sitt herbergi þegar þar að kemur og ekki þarf að venja hana af milljón næturgjöfum.  Mmmmm zzzzzzzzz.


3. okt. 2011

Frjálsar, karfa, leikhús og fleira

Haustið er komið með trompi og nú er eins gott að vera skipulagður.  Helgin hjá okkur var stappfull af viðburðum.  Á laugardaginn var Bronsmót ÍR en það er frjálsíþróttamót fyrir krakka 10 ára og yngri.  Við spurðum Lilju hvort hún hefði áhuga á að vera með og jú hún var til í tuskið.  Krökkunum var skipt í hópa ca. 8 í hverjum hóp og hver hópur vann saman sem lið og safnaði stigum.  Það var keppt í langstökki, hástökki, spjótkasti, langhlaupi, hindrunarhlaupi, boltakasti og fl. allt lagað að aldri keppendanna (t.d. hoppað yfir kústskaft í langstökkinu).  Í lokin fengu allir krakkarni þátttökuverðlaun og stelpan okkar var í skýjunum með þetta allt saman.  Eftir frjálsarnar tóku fimleikarnir við hjá Lilju svo var smá tími til að snarla áður en við skutluðum Gabríel í Garðabæinn þar sem hann keppti í körfu.  Skiptum liði og ég sá um stelpurnar á meðan Þórólfur hvatti guttann áfram.  

Sonja varð 2. mánaða á laugardaginn og þá var komin tími á bumbumynd, nýkomin heim úr hlaupatúr:


Ég er rosalega ánægð með hvað það gengur vel að komast í gamla formið mitt en það gerðist svo sem ekkert sjálfkrafa, ég er búin að vinna fyrir kaupinu mínu og finn það á kroppnum og hraðanum í hlaupunum.  Þetta er ég búin að gera síðustu tvo mánuði frá því Sonja fæddist:





Á sunnudaginn var svo messuferð en Gabríel las upphafsbænina, partur af fermingarfræðslunni og svo var það sunnudagaskólinn fyrir Lilju.  Skokkaði heim með Sonju til að undirbúa smá brunch en Orri bróðir var í bænum og hann kom með Dr. Danna (strákinn sinn) og svo var ég búin að hóa í Ástu systur líka.  Eftir mat fóru svo Þórólfur, afi Þór og Lilja í leikhúsið og sáu Galdrakarlinn frá Oz.  Við Gabríel og Sonja vorum dauðþreytt eftir allan hamaganginn og lágum í leti á meðan.

Hugsuðum til ömmu Kollý sem hefði átt afmæli 2. október, kveiktum á kerti fyrir hana.