5. sep. 2011

Reykjanesmaraþon 2011

Eins og venjulega þá tókum við þá í Ljósanætur hátíðarhöldunum með pompi og pragt í ár.  Tengdapabbi býður upp á gistingu fyrir alla fjölskylduna á Icelandair Hotel, við tökum þátt í Reykjanesmaraþoninu og njótum þess að borða dýrindis mat af Ítölsku hlaðborði um kvöldið undir ljúfum tónum Tinkanellis og co.  Þess á milli röltum við um bæinn og hittum vini og félaga og gerum okkur glaðan dag.

Eins og í fyrra þá tókum við hjónin þátt í 10 km hlaupinu og Gabríel fór í 3,5 km.  Og mér til mikillar furðu og framar mínum björtustu vonum þá urðu úrslitin eins og í fyrra!  Þórólfur vann 10 km, Gabríel vann 3,5 km og ég var önnur í 10 km.  

Fann strax að ég var spræk og vel stemmd og eftir fyrsta km var ég komin í 3. sætið, sá vel í fyrstu tvær konurnar.  Notaði næstu tvo km til að koma mér fram úr 3. konu og búa til smá bil á milli okkar og var harðákveðin í að halda mínu sæti ef ég mögulega gæti.  Sá í skottið á fyrstu konu alla leið (enda þekki ég það vel, tilheyrir æfingafélaga mínum og vinkonu) og það kitlaði gömlu konuna.  Síðustu 3 km voru nokkuð strembnir, mótvindur og þreyta komin í leggina og ég fann að ég hægði töluvert á þeim kafla en mér sýndist allir aðrir gera það líka svo það var allt í lagi. Hafði ekki hugmynd um tímann (hleyp klukkulaus þangað til ég er komin undir 45!) og það var engin klukka í markinu.  Varð heldur betur hoppandi glöð að heyra tímann, 46:32 en það er 3 og 1/2 mínútu hraðar en í RM fyrir tveim vikum.  

Veðrið lék við okkur alla helgina, Ljósanótt er klárlega ein af uppáhalds viðburðum okkar á ári hverju.  Strax farin að hlakka til á næsta ári!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli