28. sep. 2011

Sonja Þórólfsdóttir

Litla daman okkar er komin með nafn!  Sonja er ánægð með nafnið sitt, brosir og hjalar þegar ég býð henni góðan daginn á morgnana.  Við vorum með skírnarveislu hérna heima hjá okkur á sunnudaginn og hann Bjarni Karlsson sá um athöfnina.  Áttum alveg ótrúlega góðan og fallegan dag í faðmi fjölskyldunnar.  



Lífið er nú að komast í fastar skorður aftur, allir að detta almennilega í sitt prógramm og eins og það er gaman að breyta út af vananum þá elska ég rútínuna mína.  Ég er farin að æfa aftur af fullum krafti og það gengur alveg ótrúlega vel.  Næ að hanga í hinum stelpunum og það er auðveldara með hverri æfingunni.  Ég finn heilmilkinn mun á milli vikna og það er svo gaman að finna kroppinn svara og styrkjast.  

Matarræðið er líka komið í góðan gír.  Er að koma mér út úr því borða allan sólarhringinn sem var nauðsynlegt fyrstu vikurnar eftir að ég átti Sonju og nú er ég komin í 6 sinnum á dag taktinn minn.  Ég þarf að borða meira í hvert sinn en nú legg ég áherslu á að borða hollan mat en ekki bara það sem hendi er næst.  Ég er núna 67 kíló, tæplega kílói þyngri en þegar ég varð ólétt og er alsæl með það.  Ég reikna með að verða komin í kjörþyngdina mína, 64 kg, um áramótin.  Ég vil ekki vera léttari en það á meðan ég er með Sonju á brjósti en ég stefni á rúmlega ár eins og með hina krakkana.

Tante Gudrun er svooo fyndin :)


Ákvað að prófa nýtt 'look' á bloggið en nú er hægt að leika sér með útlitið og framsetninguna, gaman  :)

19. sep. 2011

Icelandair hlaupið 2011

Icelandair hlaupið er það hlaup sem ég hef oftast sprungið í og algjörlega gert í buxurnar síðustu tvo km.  Tvö ár í röð, í toppformi, hljóp ég á nákvæmlega sama tímanum, nákvæmlega jafn sprunginn en ég átti skv. öllu að hlaupa á undir 30 en endaði á 30:52.  Í fyrra var ég loksins búin að læra að maður þarf að fara af stað eins og í 10 km hlaupi en ekki 5 km hlaupi og þá hljóp ég þetta alveg rosalega vel og endaði á tímanum 28:55, pb.  

Í ár var takmarkið að hlaupa á 4:30 pace sem gefur 45 mínútur í 10 km.  Í síðustu tveimur 10 km hlaupum hef ég farið heldur hratt of stað og verið of þreytt síðustu 3 km þannig að þetta var æfing í að halda jöfnu pace-i.  Hlaupið gekk eins og í sögu, ég byrjaði hóflega, hélt góðum dampi og gat bætt í á millikafla og átti afgang í endasprett.  Endaði á 31:00 sem er 4:21 pace og framar björtustu vonum.  

Og lexían, ég er bara 8 sek hægari í þessu hlaupi sem hlaupið var af skynsemi en í hlaupunum tveimur sem ég var klárlega í betra formi en fór allt of hratt af stað.   Nú er bara að sjá hvort mér takist að halda 4:30 í næsta 10 km hlaupi og komast undir múr númer 2 eða 45 mínúturnar.  Samkvæmt hlaupareiknum ætti ég að geta hlaupið 10 km á 44:30 við sambærilegar aðstæður.  Spennandi.

15. sep. 2011

Opið bréf til Símans

V/verkbeðni 5009935


Sonur minn erfði síma eftir ömmu sína en það kom í ljós að hann var læstur fyrir símakort Símans.  Ég hafði samband við þjónustuver Símans í byrjun síðustu viku og þeir bentu mér á að fara með símann í Hátækni og láta opna hann þar, þar sem þetta var Nokia sími.  

Í Hátækni var ég send aftur í Símann þar sem þeir taka ekki við símum nema það sé  beiðni frá Símanum fyrir opnuninni.  Ég hringdi aftur í þjónustuverið (er með sex vikna gamalt barn með mér) og þeir könnuðust ekkert  við að þetta beiðna fyrirkomulag og sögðu mér að fara í Vatnagarða þar sem verkstæði Hátækni er.  

Í Vatnagörðum var ég send öfug til baka í Símann með þeim skilaboðum að það væri alveg með eindæmum hvað starfsmenn Símans væru fáfróðir, það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir þá að fá beiðni frá Símanum þar sem Síminn þarf að greiða fyrir opnunina v/lagasetningar um læsta síma.  

Hringdi aftur í þjónustuverið og jú þar var einhver sem rámaði í að það væri best að fara með símtækið í Símann í Ármúla og skilja hann þar eftir.  Ég fer (með barnið) í Ármúlann og bíð þar í ca. hálftíma eftir afgreiðslu og skil símann eftir, er sagt að ég fái sms þegar hann er tilbúin og það taki allt að 10 daga.  

Gott og vel.  Í morgun fékk ég sms um að síminn sé tilbúin og ég fer enn eina ferðina í Símann í Ármúla.  Ég fæ miða kl. 14:37 og fæ loksins afgreiðslu 15:09...  Þegar afgreiðlsukonan finnur loksins símann og beiðnina þá fer hún að flissa og úbbs... það er ekki hægt að aflæsa þessum síma!   Og hvað geri ég þá, skv. lögum (að mér skilst hjá ykkar starfsfólki) má ekki læsa símum á símafyrirtæki, hvað er nú til ráða.  'Ekki neitt, þetta er bara svona og hafðu góðan dag...'

Mér finnst þessi óþjónusta alveg fyrir neðan allar hellur og að enginn af ykkar starfsmönnum í þessu ferli og ég var alla vega í samskiptum við 5 þeirra hafi getað sparað mér þennan tíma og fyrirhöfn fyrir ekki neitt.  Nú er ég sem sagt komin heim úr enn einni fýluferðinni, búin að drösla krílinu mínu með mér og var að tilkynna syni mínum að síminn sem hann fékk eftir ömmu sína heitna sé ónothæfur, versgú.

N.b. það versta er að við færðum viðskipti okkar frá Vodafone yfir til Símans í síðasta mánuði (sem tók heldur betur á og kostaði nokkrar ferðir í Símann til að fá pung til að redda málum sem fóru úrskeiðis í flutningnum), ekki frá því að það sé smá svekkelsi í gangi...  En ég ætla samt að eiga góðan dag, vúhúúú áfram Síminn eða þannig.  

Kv. Eva Einarsdóttir   

14. sep. 2011

Fyrsta Vestmannaeyjahlaupið

Fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo var mér boðið að koma til Eyja til að halda fyrirlestur í tengslum við heilsuviku hjá þeim Eyjamönnum.  Fyrirlesturinn var vel sóttur og eftir að dagskránni var lokið í íþróttahúsinu hljóp ég hring með hlaupahópnum.  Ég var alveg heilluð af umhverfinu og stakk upp á því við hlaupafélagana að halda keppnishlaup í Eyjum.  Þau voru nú ekki alveg að kaupa að það myndi ganga en ég sagði eins og satt var að hlauparar nýta hvert tækifæri til að sameina ferðalög og hlaupakeppnir.  ...Brautin væri nú ekki til þess að bæta tímana...   Þá er bara að gera út á náttúrufegurðina og erfið braut getur trekkt að, hlauparar fara heimshornanna á milli til að taka þátt í erfiðum fjallahlaupum.  Hmmmm...   Ja alla vega ef þið látið verða af því að halda hlaup þá mun ég mæta!

Það var svo í sumar sem ég sá auglýsingu um fyrsta Vestmannaeyjahlaupið og ég hoppaði næstum upp úr sætinu af gleði.  Fékk reyndar pínu í magann (fyrir utan óléttubumbuna) því ég var ekki alveg viss um að ég gæti staðið við stóru orðin og mætt í hlaupið mánuði eftir áætlaðan fæðingardag.  Ég var þess vegna sérstaklega glöð hvað það gekk vel að komast aftur af stað að hlaupa og eftir RM og Reykanesmaraþonið var það ákveðið, við skyldum til Eyja!

Við fórum snemma á föstudeginum og tókum Baldur frá Landeyjum.  Skipuleggjendur hlaupsins voru búnir að redda okkur lítilli íbúð til leigu og þegar kom í ljós að Gabríel gat ekki farið með okkur þá redduðu þau barnapíu fyrir okkur líka, þvílík þjónusta.   Við fengum súper veður og ferðin gekk eins og í sögu með stelpurnar.  Hlaupið var í einu orði sagt frábært.  Allt var tipp topp hjá þeim Eyjamönnum, brautarverðir, drykkjarstöðvar, hlaupaleiðir, verðlaunaafhending, stemmningin og öll umgjörð.  Brautin er alveg rosalega krefjandi en ég myndi segja að u.þ.b. 8,5 km væru upp í móti, 0,5 km á jafnsléttu og svo ca. 1 km niður á við (mér leið alla vega þannig :).  Þátttakan í hlaupinu fór fram úr björtustu vonum, alls tóku 250 manns þátt í þeim þremur vegalengdum sem voru í boði.

Ég hljóp frekar hratt af stað og kom mér fyrir á eftir annarri konu og pjakkaði upp hverja brekkuna á fætur annarri.  Eftir ca. 5 km fór ég aðeins að dragast aftur úr en skömmu síðar kom Gunnlaugur skokkandi fram úr mér og ég náði að negla mig á hælana á honum næstu km.  Hann seig svo fram úr mér síðustu 2 km en ég sleppti honum ekki úr augsýn og náði þar með að halda mínu sæti, 3. kona í mark.  Þórólfur rokkaði feitt og vann hlaupið, hann er í þvílíku formi drengurinn.


Nutum þess að vera túristar í Eyjum og á heimleiðinni stoppuðum við hjá Seljalandsfossi og röltum með stelpurnar undir fossinn.  Önnur frábær helgi hjá okkur sem maður festir á harða diskinn.


5. sep. 2011

Reykjanesmaraþon 2011

Eins og venjulega þá tókum við þá í Ljósanætur hátíðarhöldunum með pompi og pragt í ár.  Tengdapabbi býður upp á gistingu fyrir alla fjölskylduna á Icelandair Hotel, við tökum þátt í Reykjanesmaraþoninu og njótum þess að borða dýrindis mat af Ítölsku hlaðborði um kvöldið undir ljúfum tónum Tinkanellis og co.  Þess á milli röltum við um bæinn og hittum vini og félaga og gerum okkur glaðan dag.

Eins og í fyrra þá tókum við hjónin þátt í 10 km hlaupinu og Gabríel fór í 3,5 km.  Og mér til mikillar furðu og framar mínum björtustu vonum þá urðu úrslitin eins og í fyrra!  Þórólfur vann 10 km, Gabríel vann 3,5 km og ég var önnur í 10 km.  

Fann strax að ég var spræk og vel stemmd og eftir fyrsta km var ég komin í 3. sætið, sá vel í fyrstu tvær konurnar.  Notaði næstu tvo km til að koma mér fram úr 3. konu og búa til smá bil á milli okkar og var harðákveðin í að halda mínu sæti ef ég mögulega gæti.  Sá í skottið á fyrstu konu alla leið (enda þekki ég það vel, tilheyrir æfingafélaga mínum og vinkonu) og það kitlaði gömlu konuna.  Síðustu 3 km voru nokkuð strembnir, mótvindur og þreyta komin í leggina og ég fann að ég hægði töluvert á þeim kafla en mér sýndist allir aðrir gera það líka svo það var allt í lagi. Hafði ekki hugmynd um tímann (hleyp klukkulaus þangað til ég er komin undir 45!) og það var engin klukka í markinu.  Varð heldur betur hoppandi glöð að heyra tímann, 46:32 en það er 3 og 1/2 mínútu hraðar en í RM fyrir tveim vikum.  

Veðrið lék við okkur alla helgina, Ljósanótt er klárlega ein af uppáhalds viðburðum okkar á ári hverju.  Strax farin að hlakka til á næsta ári!


1. sep. 2011

Góður dagur í dag!

Vinkona mín sagði einu sinni við mig: 'Eva, þú mátt ekki bara skrifa um það sem er gott og jákvætt.  Þá heldur fólk að það sé bara alltaf þannig hjá þér en ekki bland eins og hjá öllum öðrum.'

Ástæðan fyrir því að ég skrifa mest um góða og jákvæða hluti er ekki sú að það gerist aldrei neitt glatað og erfitt hjá mér, heldur hef ég ákveðið að fókusera bara á það góða og jákvæða, vera fljót að gleyma hinu.  En bara svo það sé á hreinu að það er ekkert öðruvísi hjá mér en öðrum...

Glataður dagur í gær!!!

Eftir markvissar aðgerðir (píndi mig til að fara í sund þó mig langaði mest að skríða upp í rúm og breiða upp fyrir haus), þá kom ég endurnærð heim um kvöldmatarleytið og átti sérstaklega ánægjulegt kvöld með mínum.  Pjúff, gott að fá nýjan dag og meira að segja nýjan mánuð í dag.  Nýjasta kraftaverkið okkar mánaðargömul í dag, lífið er ljúft.