2. ágú. 2011

Ohhh what a wonderful night!

Já það voru ekki margir klukkutímarnir í viðbót sem beðið var eftir barni.  Ég var svo sem búin að segja við Þórólf á laugardaginn að ég ætlaði annað hvort að eiga þann 1.8.2011 eða 8.8.2011, flottar dagsetningar :)  Eftir smá útréttingar og heimsókn var stefnan sett á Grafarvogslaugina til að viðra stóru dömuna okkar og slaka á í pottunum.  Þá var klukkan rétt um fimm og á leið inn í klefann þá finn ég að eitthvað er að gerast...  Það er ekkert öðruvísi en að annað hvort var ég að pissa í buxurnar eða vatnið að fara!  Ég gekk mörgæsagang inn í klefa að kanna málin og jú, ég var frekar á því að þetta væri vatnið en það var ekki mikið, svo ég var svona á báðum áttum.  Fór í sturtu og skottaðist út til að láta Þórólf vita, fór svo aftur inn í klefa og nú var ég ekki lengur í vafa.   

Það er nú samt ekki þannig að maður fari eitthvað að tilkynna hvað er í gangi þegar maður missir vatnið svona út í bæ.  Ég reyndi að laumupúkast að skápnum mínum, sat á handklæðinu meðan ég klæddi mig og var svoooo fegin að hafa valið mér svartar buxur þann daginn og var svoooo fegin að komast inn í bíl (n.b. þar sem öllum handklæðunum úr sundferðinni var plantað undir bossann á mér :)!

Komum okkur heim og krökkunum í pössun til ömmu og afa.  Bjallaði svo upp á deild en ég var ekkert farin að finna fyrir neinu og við vorum pollróleg.  Skottuðumst í skoðun um níu, bara til að láta vita af okkur og staðfesta stöðuna.  Frábær ljósmóðir sem tók á móti okkur og hún var viss um að það liði ekki langur tími þar til við kæmum aftur.  

Þá var komið að því að hlaða fyrir átökin og við renndum í ísbúð rétt fyrir klukkan tíu, fengum okkur bragðaref, komum okkur svo vel fyrir heima og horfðum á bíómynd.  Ég var aðeins farin að finna þrýsting með samdráttum um ellefu leytið en það var langt á milli og ekki hægt að tala um verki.  Og svo kom verkur og það er bara þannig hjá mér að þá er ekki langt í stuðið.  Fórum strax af stað upp í Hreiður og vorum komin þangað korter yfir tólf eftir miðnætti, þann 1.ágúst.  Ljósan skoðaði mig, vísaði okkur svo í fæðingarherbergi og ég sendi Þórólf niður í bíl að ná í dótið okkar.  'Vertu bara snöggur ástin'.  Ljósan spurði hvort hún ætti að láta renna í heita pottinn fyrir mig en ég var nú ekki viss um að það myndi nást.  'Ég held að barnið komi innan hálftíma'.  

Eftir þetta gerðist allt mjög hratt og 5 mínútum síðar eða kl. 00:40 var stelpan okkar komin í heiminn. 





6 ummæli:

  1. Yndislegt.. alveg meiriháttar! Ég kyssti skottuna þína til hamingju áðan og reyndar kallinn líka... skilaði kveðju og hugsaði til þín ...

    *knúsíhús* til hamingju!

    SvaraEyða
  2. Tek undir með Sigrúnu (nema hvað ég hef engan kysst)... yndislegt og meiriháttar! Og pínu fyndið: ég var með hita og óráði í gær og skildi alls ekki frá hverjum sms-ið var, en málið skýrðist snarlega með símtali við gáfaðri kollega.
    Skemmtilegt að sjá myndirnar af ykkur. Enn og aftur: til hamingju!

    SvaraEyða
  3. Yndisleg lesning - það er meira hvað þú ert snögg að koma þessum krílum í heiminn! Mikið vildi ég vera í þessum sporum aftur, nýkomin heim með pínulitla stelpu upp á arminn. Lífið gæti ekki leikið meira við ykkur:)

    SvaraEyða
  4. Hamingjuóskir úr Borgarnesi!

    SvaraEyða
  5. Innilega til hamingju með gullfallega stelpu! Flott mynd af ykkur öllum saman ;)

    SvaraEyða