31. júl. 2011

Ohhh what a wonderful morning...

Vaknaði ekki fyrr en rétt um níu í morgun og skreið fram í smá (mjög lítið pláss fyrir mat þessa dagana :) morgunmat áður en mamma kom til að líta eftir stelpunni okkar að venju, á meðan við spriklum sunnudags spriklið okkar. 

Í dag ætlaði ég í Hreyfingu og hjóla aðeins en kom að lokuðum dyrum vegna Verslunarmannahelgarinnar.  Venti mínu kvæði í kross, náði í sunddótið og lagði bílnum við Laugardalslaugina.  Rölti 3 km hring í Laugardalnum og synti svo 500 m skrið á eftir til að mýkja mig.  Hálftími í pottinum, mmmm... þvílík dásemd.

Kom við í bakaríinu á leiðinni heim og var valin vinsælasta mamman/eiginkonan fyrir vikið.  Eftir hádegisbita og kaffilús skreið ég aftur inn í rúm og lagði mig í 2 tíma! 

Í dag er ég komin nákvæmlega jafn langt og ég gekk með Lilju og allt með kyrrum kjörum í bumbunni.  Ja ég get alla vega ekki kvartað yfir tímabilinu 'Beðið eftir barni' :)


23. júl. 2011

38 vikur

Í dag er ég komin akkúrat 38 vikur og líður vel.  Ég er að finna ótrúlegar framfarir eftir sjúkraþjálfun og sund undanfarinna vikna og nú er svo komið að bakið er ekki að há mér neitt dags daglega.  Þá er nokkuð ljóst að þetta var brjósklosið sem var að angra mig, ef þetta hefði verið grindargliðnun þá hefði ég ekki lagast fyrr en eftir burð.

Ég syndi  yfirleitt 1000 m í einu, 500 m á letidögum.  Það er ekkert mál að drífa sig í sundið í þessari blíðu sem búin er að leika við okkur og frábær tilfinning að vera þyngdarlaus í smátíma núna þegar maður er verulega farin að finna fyrir bumbunni.


Afmælin hjá strákunum voru sérstaklega skemmtileg, við héldum kaffiboð á deginum hans Gabríels og hann var alsæll með flottar gjafir og félagsskapinn.  Við enduðum svo daginn á því að fara á Hamborgarafabrikkuna þar sem Gabríel fékk að velja sér óskalag og var leystur út með risa afmælisís í tilefni dagsins.  Þórólfur tók þessa mynd af okkur mæðginunum 13 árum eftir að ég puðaði honum í heiminn :)


Það var ekki síður skemmtilegt að halda upp á daginn hans Þórólfs.  Ég var  búin að fá hugmynd af gjöf handa honum fyrir löngu síðan.  Hann hefur nefnilega ótrúlega gaman af öllu sem viðkemur stjörnum, stjörnuskoðun, sólgosum og ég veit ekki hvað.  Datt þess vegna í hug að gefa honum flottan stjörnukíki og var búin að skoða á netinu, tala við stákana í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og googla heilmikið.  Fann þennan flotta stjörnukíki sem leit út á mynd eins og hann væri svona 30 - 40 cm hár, krúttlegur á borði.  Nokkrum dögum fyrir afmælið fórum við Gabríel svo í leiðangur að sækja gripinn og það er skemmst frá því að segja að myndirnar voru mjög villandi.  Svei mér þá við vorum flissandi yfir þessu öllu saman alveg þangað til bóndinn fékk gjöfina afhenta og skildi ekkert hvað við hefðum verið að bralla!


Við gáfum honum líka iPod nano með útvarpi, gamli iPodinn hans fyrir löngu búin að syngja sitt síðasta og svo bauð ég liðinu mínu í hádegishlaðborð á Nítjándu, þar sem við fengum frábæran mat.  Flott fyrir krakkana að geta slakað á í leikherberginu á meðan við hjónin gátum notið þess að borða í rólegheitum.  Flottur dagur í safnið.


20. júl. 2011

Bláa lónið í dag

Enn einn fallegur sumardagur og í dag ákváðum við að nota tækifærið og skella okkur í Bláa lónið.  Við unnum árskort í einhverjum hlaupum í fyrra en höfum ekkert verið neitt svakalega dugleg að fara.  Mér finnst lónið oft aðeins of kalt en komst að því í dag að það er alveg frábært í góðu veðri.  Við vorum örugglega hátt í tvo tíma, frábær afslöppun og krakkarnir skemmtu sér.  Góður dagur.
 

16. júl. 2011

Tímamót

Allt að gerast þessa dagana, pjúff...   En flest skemmtilegt og spennandi og þá er þetta allt í góðu.  Fórum í bústaðinn um helgina til að slappa aðeins af, vissum að við áttum viðburðaríka viku framundan.

Smella til að stækka ;)

Í byrjun vikunnar kvöddum við vini okkar og leigjendurna í risinu, Przemek, Karolinu, Suzanna og Chris.  Þau eru búin að vera hjá okkur í næstum 4 ár og ekki hægt að hugsa sér betri nágranna.  En nú var tími til komin að halda heim á leið til Póllands á ný.  Við eigum eftir að sakna þeirra en svo fáum við nýja leigjendur eftir helgi og það er líka spennandi. 

Við seldum bílinn okkar á þriðjudaginn, fengum gott tilboð og hann var ekki alveg að henta fyrir fleiri barnabílstóla...  Þá hófst kapp við að finna nýjan bíl og í gær gengum við frá kaupum á nýjum (gömlum) Citroen Picasso sem er eyðslugrennri en Kia-n, með þremur góðum sætum aftur í sem hægt er að halla aftur, góðu skotti og það allra besta...  Nú eigum við ekkert bílalán, jeiii, það er sko mikið lán :)

Nýju leigjendurnir okkar koma með sín eigin húsgögn en við höfðum útvegað litlu fjölskyldunni okkar uppi nánast öll húsgögnin þannig að nú var allt sett á sölu á Barnalandi og heilmikið stúss að fylgja því eftir.  Gátum selt alveg heilmikið, gefið áfram heilmikið og restin fór í Sorpu.  Búin að tæma allt uppi og Þórólfur er búin að vera duglegur að ditta að hinu og þessu svo allt sé eins fínt og hægt er eftir helgi.

Í þessari viku skiptum við líka um símafyrirtæki, færðum okkur yfir til Símans og tengdumst Ljósnetinu.  Það byrjaði ekki gæfulega og ég var farin að halda að það væri lífsins ómögulegt að láta svona skipti ganga upp á stór vandræða.  Og jú, jú það klikkaði eitthvað og við vorum net-/sjónvarpslaus í smá tíma en það verður að segjast að það var farið fram úr okkar væntingum við að leysa málin.  Fengum alveg frábæran starfsmann frá vettvangsþjónustunni sem leysti ekki bara það verkefni sem hann var sendur til leysa, koma bráðabirgða  ADSL router í gagnið þangað til við fengjum Ljósnetið, heldur fór hann alla leið fyrst hann var komin á staðinn.  Þegar hann fór vorum við komin með Ljósnetið (viku fyrir lofaða afhendingu), allar vélar á heimilinu voru komnar í netsamband, við búin að fá tvo afruglara og allar sjónvarpsstöðvar í boði frítt í einn mánuð.  Vel gert og ég ætla að senda hrós póst!

Strákarnir mínir eiga báðir afmæli á næstu dögum, Gabríel á sunnudaginn og Þórólfur á þriðjudag.  Verðum með smá fjölskyldukaffi á sunnudaginn og svo ætlar Gabríel bara að fá að halda upp á afmælið sitt almennilega í haust þegar vinirnir eru komnir úr sumarfríi.  



Já það er eins gott miðað við þessa dagskrá að frúin sé að koma til í bakinu/grindinni.  Í byrjun viku fann ég virkilega mikinn mun á mér, sporin léttari og verkurinn að dvína.  Ég er hætt að finna fyrir máttleysi í vinstri löppinni og brosi hringinn.  Þakka sjúkraþjálfun tvisvar í viku, sundinu og svo er ég búin að vera ofur skynsöm og hlýðin, gera eins og mér er sagt.  Góð tilfinning að fara inn í loka vikurnar spræk og verkjalaus.  Ég á samt að halda áfram í sama prógrammi til að ég fái ekki bakslag og það er bara hið besta mál.  Lilja hrópaði upp yfir sig í gær þegar ég fór með henni út að hjóla: 'Mamma, mamma þú getur hlaupið!!!'.  Það var nú ekki mikið hlaup en smá skokk á eftir henni niður brekkuna og þá áttaði ég mig almennilega á því hversu vel ég er búin að ná mér.

Í dag er ég komin 37 vikur sem þýðir að nú getur barnið látið sjá sig þegar því hentar án þess að vera fyrirburi.  Ég átti Gabríel eftir 36 vikur og 4 daga og Lilju eftir 39 vikur og 1 dag.  Aðdragandinn og fæðingarnar voru gjör ólíkar.  Ég missti vatnið sólahring áður en ég átti Gabríel, hann fæddist með vot lungu og þurfti að vera í hitakassa í tvo-þrjá dag.  Hann fékk svo smá gulu sem þýddi tvo daga í ljósum.  Vika á fæðingardeildinni áður en við fengum að fara heim.  Þegar ég átti Lilju þá vorum við komin upp á fæðingardeild klukkan 22:50 og 22:57 var stelpan okkar komin í heiminn.  Fórum heim um kaffileytið daginn eftir.  

Er orðin mjög spenn að sjá hvernig version 3.0 verður!

12. júl. 2011

Tískublogg

Dóttir mín er mjög meðvituð um tísku og finnst ekkert skemmtilegra en að kæða sig upp og raða saman fallegum fötum.  Hún hleypur svo oftar en ekki út í garð og nær sér í blóm í hárið, klikkar ekki á fylgihlutunum.  Við fórum í sumarbústaðinn um helgina og mín fór og fann til outfit með öllu tilheyrandi, mér finnst hún frekar flott :)


11. júl. 2011

Lengi lifir í gömlum njólum...

Fékk þetta komment í kommentakerfið hjá mér og í tilefni þess að nú er Íslandsmeistaramóti í Hálfum Járnkarli nýlokið fær það að birtast hérna hjá mér.  Já og áður en ég sný mér að kommentinu langar mig til að segja hvað ég er ánægð með nýjan Íslandsmeistara karla (þekki ekki konuna :), frábær íþróttamaður (og maður) sem ég ber mikla virðingu fyrir.

Þetta komment kom á gamla færslu þar sem ég var að velta fyrir mér mun á IronMan keppnum og öðrum keppnum í sömu vegalengd.  Þar vísa ég aftur í færsu og kommentakerfi ritarans en sú færsla hefur verið fjarlægð svo ekki er hægt að velta sér upp úr henni lengur.

En alla vega, fyrir mig þá, já mér finnst skipta máli að í sams konar keppni gildi sömu reglur til að þær séu sambærilegar.  Þannig að, já ég ber meiri virðingu fyrir einhverjum sem  hefur lokið/sigrað IronMan keppni algjörlega á eigin vegum (öll aðstoð frá utanaðkomandi eða öðrum keppendum ólögleg í IM) en einhverjum sem hefur lokið Challenge Copenhagen með aðstoð, t.d. þegar einn keppandi skiptir um dekk fyrir annan, en það er fullkomlega löglegt í CC.

Ég ber meiri virðingu fyrir þeim sem hefur lokið/sigrað maraþon án utanaðkomandi aðstoðar en þeim sem þiggur aðstoð umfram aðra keppendur, hvort sem um er að ræða auka drykkjarstöðvar, að láta taka vindinn fyrir sig eða alla malla að vera dreginn yfir marklínuna.  Og já mér finnst líka flottara að hafa lokið/sigrað Laugaveginn án utanaðkomandi aðstoðar, hvort sem hún var umbeðin eður ei.  Það sem ég er sérstaklega ánægð með er að það hefur orðið heilmikil vakning í því að vanda keppnishald og setja skýrar reglur hér á landi síðustu árin, t.d. er utanaðkomandi aðstoð nú ólögleg á Laugaveginum og það er vel.  

Og að lokum, þá ég ber nánast enga virðingu fyrir þeim sem leyfa sér að henda fram rökleysu sem þessari og n.b. nafnlaust...:  Ef þú ert ekki sammála mér, þá ertu snobbaður.  En eins og oftast þá get ég séð það jákvæða við að fá svona sendingu.  Ég er svo blessunarlega laus við að þurfa að umgangast mikið af njólum, satt að segja svo umkringd af jákvæðu, flottu, gagnrýnu, þenkjandi fólki sem dekkar mig dags daglega að ég verð bara hálf vandræðaleg og fer að flissa þegar ég kem of nálægt svona fólki:

Í rauninni er fáranlegt að fyrirtæki hafi fengið einkaleyfi á Ironman-nafninu. 
Ef e-ð fyrirtæki fengi eiknaleyfi á Marathon-nafninu... myndir þú þá frekar
taka þátt í hlaupum þessa fyrirtækis? Maraþon-hlaup er maraþon-hlaup og 
Ironman-keppni er Ironman-keppni í augum langflestra, en auðvitað er til 
fólk sem er svo snobbað að það lítur öðruvísi á þetta.
By Anonymous on Að vera eða ekki vera... on 7/10/11

8. júl. 2011

Vitiði hvað ég var að gera???

Var að skrá mig í 10 km í Reykjavíkurmaraþoni!!!  Hlaupið er 20. ágúst og samkvæmt mínum útreikningum ætti ég að minnsta kosti að geta lullað þetta, kannski með vagn eða skokkað í rólegheitum.  Alla vega þá fékk ég smá kikk út úr því að skrá mig í hlaup í fyrsta sinn í marga mánuði :).  Svo er alltaf hægt að breyta í 3 km ef þess þarf.

Annars er lífið gott, munur að skakklappast um í bongó blíðu fyrst maður þarf að skakklappast á annað borð.  Ég var hjá sjúkraþjálfaranum mínum í dag og sagði við hann að það væri pínu frústrerandi núna að geta ekki fundið einhverja leið til að laga 'meiðslin', yfirleitt er ég rosalega fljót að finna bata ef eitthvað kemur upp á og ég er mjög góð að hlýða og gera eins og mér er sagt.  'Eva, þetta eru ekki meiðsl og þú ert ekkert að fara að laga neitt! Já, einmitt ehehehhh...

Ég er annars smám saman að venjast því að taka því rólega og þá gengur allt betur.  Ég vanda mig við að fara fram úr rúminu, er smá stund að komast í gang og labba yfirvegað og án flumbrugangs út í daginn.  Eins og mér finnst ég fara mér hægt þá tek ég eftir því að ég er bara á sama hraða og flestir í kringum mig á röltinu og frá því ég fór að synda meira hefur bara einu sinni, einn tekið fram úr mér en ég tek fram úr fullt!  Það þarf ekki mikið til að gleðja mann :)

Það besta við að vera svona í fríi er að hafa fullt af tíma með krökkunum mínum og bónda.  Ég hef tíma í að skutla, horfa, teikna, planta, dúllast, elda, hanga og ég veit ekki hvað.  Nýt þess.

5. júl. 2011

Barneignarfrí

Það er erfitt að eiga við bakverki á meðgöngu og ekki til í dæminu að taka bólgueyðandi lyf.  Ég er búin að vera í sjúkraþjálfun og niðurstaðan er sú að ég þarf að hætta að vinna og taka því rólega síðustu vikurnar.   Ég held áfram skjúkraþjálfuninni næstu vikurnar, nudd og nálastungur í boði Rúnars takk og svo er ég dugleg að synda.  Ég er rosalega ánægð með að vera skikkuð til að synda, því það er alltaf erfiðast fyrir mig að halda mér við efnið þar.  Ég hef verið að synda 1000m í hvert sinn og það gengur bara eins og í sögu.  Mér líður alltaf betur eftir sund og pott.  Ég er hætt í löngum göngutúrum, það var ekki að koma nógu vel út, stífnaði upp og var verri, en ég tek stuttar göngur nokkrum sinnum á dag.  

Annars er bara nóg að dútla við að undirbúa komu version 3.0.  Það er alveg hrikalega fyndið hvernig einhver hlutur eða mubla verður allt í einu fyrir manni og nauðsynlegt að losa sig við áður en nýr einstaklingur kemur á heimilið.  Veit að bónda mínum fer alveg að þykja nóg um, hann er bara glaður að ég sé ekki búin að selja rúmið okkar og fataskápana á Barnalandi á meðan hann er í vinnunni!   Það er reyndar orðið alveg svakalega fínt hjá okkur núna en frúin er með plön um að fara í gegnum geymsluna og rýma til þar áður en það verður slakað á í sumarfríinu sem byrjar í næstu viku hjá Þórólfi og Lilju.


Lilja ætlar þessa dagana að verða söngkona þegar hún verður stór.  Hérna var hún búin að dressa sig upp í gamla ballett dressið og hún var örugglega búin að syngja og greiða sér í korter þegar bróðir hennar læddist að henni og fór að taka upp.  Talandi um 'saved by the bell'.

3. júl. 2011

35 vikur

Mánuður eftir, trúi þessu varla, tíminn flýgur svo sannarlega.  Í þetta sinn vildi krílið vera með á myndinni, spyrnti sér kröftuglega út í hægri hliðina og svei mér þá ef maður sér ekki móta fyrir fæti, tilvonandi fyrirsæta á ferð. 
Ég er hætt að hlaupa í bili, fékk nefnilega tak í bakið sem er aðeins að trufla mig.  Veit ekki hvort ég hef lufsast til að ýfa upp brjósklosið eða hvort þetta er bara hefðbundið óléttu bak/grindarvesen.  Lýsingin er svipuð og nú labba ég eins og ólétt kella, vagga til hliðanna, hahhahaha!   Var eitthvað að tuða yfir því en viðkomanda fannst mér ekki mikil vorkunn...  'Er það ekki bara eins og það á að vera komin 8 mánuði á leið!'. 
Annars er allt gott í heiminum.  Hreiðurgerð að mestu lokið og bara smá dúllerí eftir og nú sé ég fram á að taka því rólega næstu vikurnar og undirbúa mig undir burð.  It's taper time!