Allt að gerast þessa dagana, pjúff... En flest skemmtilegt og spennandi og þá er þetta allt í góðu. Fórum í bústaðinn um helgina til að slappa aðeins af, vissum að við áttum viðburðaríka viku framundan.
Smella til að stækka ;)
Í byrjun vikunnar kvöddum við vini okkar og leigjendurna í risinu, Przemek, Karolinu, Suzanna og Chris. Þau eru búin að vera hjá okkur í næstum 4 ár og ekki hægt að hugsa sér betri nágranna. En nú var tími til komin að halda heim á leið til Póllands á ný. Við eigum eftir að sakna þeirra en svo fáum við nýja leigjendur eftir helgi og það er líka spennandi.
Við seldum bílinn okkar á þriðjudaginn, fengum gott tilboð og hann var ekki alveg að henta fyrir fleiri barnabílstóla... Þá hófst kapp við að finna nýjan bíl og í gær gengum við frá kaupum á nýjum (gömlum) Citroen Picasso sem er eyðslugrennri en Kia-n, með þremur góðum sætum aftur í sem hægt er að halla aftur, góðu skotti og það allra besta... Nú eigum við ekkert bílalán, jeiii, það er sko mikið lán :)
Nýju leigjendurnir okkar koma með sín eigin húsgögn en við höfðum útvegað litlu fjölskyldunni okkar uppi nánast öll húsgögnin þannig að nú var allt sett á sölu á Barnalandi og heilmikið stúss að fylgja því eftir. Gátum selt alveg heilmikið, gefið áfram heilmikið og restin fór í Sorpu. Búin að tæma allt uppi og Þórólfur er búin að vera duglegur að ditta að hinu og þessu svo allt sé eins fínt og hægt er eftir helgi.
Í þessari viku skiptum við líka um símafyrirtæki, færðum okkur yfir til Símans og tengdumst Ljósnetinu. Það byrjaði ekki gæfulega og ég var farin að halda að það væri lífsins ómögulegt að láta svona skipti ganga upp á stór vandræða. Og jú, jú það klikkaði eitthvað og við vorum net-/sjónvarpslaus í smá tíma en það verður að segjast að það var farið fram úr okkar væntingum við að leysa málin. Fengum alveg frábæran starfsmann frá vettvangsþjónustunni sem leysti ekki bara það verkefni sem hann var sendur til leysa, koma bráðabirgða ADSL router í gagnið þangað til við fengjum Ljósnetið, heldur fór hann alla leið fyrst hann var komin á staðinn. Þegar hann fór vorum við komin með Ljósnetið (viku fyrir lofaða afhendingu), allar vélar á heimilinu voru komnar í netsamband, við búin að fá tvo afruglara og allar sjónvarpsstöðvar í boði frítt í einn mánuð. Vel gert og ég ætla að senda hrós póst!
Strákarnir mínir eiga báðir afmæli á næstu dögum, Gabríel á sunnudaginn og Þórólfur á þriðjudag. Verðum með smá fjölskyldukaffi á sunnudaginn og svo ætlar Gabríel bara að fá að halda upp á afmælið sitt almennilega í haust þegar vinirnir eru komnir úr sumarfríi.
Já það er eins gott miðað við þessa dagskrá að frúin sé að koma til í bakinu/grindinni. Í byrjun viku fann ég virkilega mikinn mun á mér, sporin léttari og verkurinn að dvína. Ég er hætt að finna fyrir máttleysi í vinstri löppinni og brosi hringinn. Þakka sjúkraþjálfun tvisvar í viku, sundinu og svo er ég búin að vera ofur skynsöm og hlýðin, gera eins og mér er sagt. Góð tilfinning að fara inn í loka vikurnar spræk og verkjalaus. Ég á samt að halda áfram í sama prógrammi til að ég fái ekki bakslag og það er bara hið besta mál. Lilja hrópaði upp yfir sig í gær þegar ég fór með henni út að hjóla: 'Mamma, mamma þú getur hlaupið!!!'. Það var nú ekki mikið hlaup en smá skokk á eftir henni niður brekkuna og þá áttaði ég mig almennilega á því hversu vel ég er búin að ná mér.
Í dag er ég komin 37 vikur sem þýðir að nú getur barnið látið sjá sig þegar því hentar án þess að vera fyrirburi. Ég átti Gabríel eftir 36 vikur og 4 daga og Lilju eftir 39 vikur og 1 dag. Aðdragandinn og fæðingarnar voru gjör ólíkar. Ég missti vatnið sólahring áður en ég átti Gabríel, hann fæddist með vot lungu og þurfti að vera í hitakassa í tvo-þrjá dag. Hann fékk svo smá gulu sem þýddi tvo daga í ljósum. Vika á fæðingardeildinni áður en við fengum að fara heim. Þegar ég átti Lilju þá vorum við komin upp á fæðingardeild klukkan 22:50 og 22:57 var stelpan okkar komin í heiminn. Fórum heim um kaffileytið daginn eftir.
Er orðin mjög spenn að sjá hvernig version 3.0 verður!