1. jún. 2011

Ólétt...

Núna um helgina er í fysta sinn sem ég hef verulega fundið fyrir því að ég sé orðin ólétt.  Var orkulaus, þreytt og í leikfiminni minni sortnaði mér fyrir augum þegar ég reis snöggt upp.  Í dag fékk ég svo símtal frá ljósmóðurinni minni en þá var hún komin með niðurstöður úr síðustu blóðprufum.  Ég er orðin of blóðlítil og það fer ekki vel með lágum blóðþrýsingi.  Þarf að taka járn til að ná mér upp aftur og ná upp orku.  Hún hló svo bara að mér þegar ég sagði: Það hlaut að vera, mér leið alveg eins og ég væri þvílíkt ólétt um helgina....   Kannski ekki seinna vænna komin 7 mánuði :)

Eftir mikinn niðurrifsfasa á heimilinu, endalaus múrbrot, sparslvinnu, ryk, drullu og öskufall með tilheyrandi hreingerningum er svakalega ánægjulegt að vera komin í uppbyggingarfasann.  Ég fékk reyndar smá, pínu, oggulítið áfall á mánudaginn þegar ég var að fara að plana korklögnina á gólfið, en við hjónin ákváðum að gera þann hluta sjálf.  Ég er ofur skipulögð í allri svona vinnu en það sem af er af framkvæmdunum í þetta sinn, hef ég setið hjá og leyft öðrum að sjá um þetta.  Þannig að... þegar ég fór að skoða teikningarnar í spað, spá og spekúlera þá kom hitt og þetta í ljós...  'Hmmm hvar er rörið fyrir sjónvarpskabalinn?', 'Hvar er rofinn fyrir ljósin inn í borðstofu?´, 'Af hverju standa rörin upp úr gólfinu fyrir utan sökkulinn?' og síðast en ekki síst 'Er ekki pottþétt að borðhæðin sé meiri en standardhæð?'.  

Svörin voru æði skrautleg en við gömlu hjónin fórum strax í lausna gírinn, erum búin að leysa þetta allt saman og brunnum sem betur fer ekki inni með neitt klúður.  En þetta kennir manni að maður á alltaf að vera á tánum í svona famkvæmdum og elsku besti bóndi minn dæsti og sagði við mig í gær: 'Þetta hefði aldrei gerst ef þú hefðir ekki verið í þessari blessuðu Hjólað í vinnuna keppni!!!'.  Það er sennilega hárrétt, þá hefði ég verið heima til að taka á móti iðnaðarmönnunum og að sjálfsögðu verið að skipta mér af öllu og passa að allir væru með sitt á hreinu (frekar óþolandi :).

En nú er sem sagt bullandi gangur í þessu öllu saman og við reiknum með að vera komin með nokkuð brúklegt eldhús fyrir helgina.  Eftir það er bara snurfuss framundan og það verður bara gaman að dúllast í því fram að burði.

Við erum ennþá í ofurgír í menningarmálunum, allt saman pantað fyrir löngu síðan.  Í kvöld eru það tónleikar í Hörpunni, Ég veit þú kemur með Sinfó, Sigríði úr Hjaltalín og Siggi úr Hjálmum en þau syngja uppáhalds lögin sín.  Förum með tengdapabba og hlakka mikið til.  

Svo eigum við miða á Pál Óskar í næstu viku!

2 ummæli:

  1. Sæl Eva

    Smá ráðleggingar til að bæta blóðgildin:
    kiwi á fastandi maga, cheerios og rúsínur saman án mjólkur (getur borðað sem snakk yfir sjónvarpinu) og krækiberjasaft. Saftin gerir kraftaverk. Ég drakk hana fyrst blandaða en var svo farin að setja hana óblandaða út á hafragrautinn. Það er til saft í búðum en hún er mjög sæt, þessi heimatilbúna er langbest.
    Gangi þér vel með rest
    Gugga Rós

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir góð ráð, fer pottþétt eftir þessu. Það fyndna er að síðustu vikur er ég búin að vera sjúk í kiwi!!! Og reyndar ávexti yfir höfuð sem er bara gott mál.

    Kær kveðja,
    Eva

    SvaraEyða