27. jún. 2011

Júní í myndum og smámáli

Ferðin til Englands var í einu orði sagt frábær!  Fengum konunglegar móttökur hjá Einsa bróður og Lindu mágkonu.  Í bónus fengum við að kynnast henni Matthildi, barnabarninu þeirra.  Tókum með okkur heim smekkfull hjörtu af góðum minningum!

Fórum í smá ferðalag um helgina.  Fimmtugsfmælisboð hjá Þórdísi og Alla í bústaðnum þeirra þar sem við fengum dýrindis kjötsúpu og heimabakaða kanilsnúða.  Frábært að hitta gamla vinnufélaga úr Hug sem ég hef ekki séð í háa herrans tíð.  Draumabörnin eins og englar í bílnum ALLAN tímann :)
Komum við hjá stórvinum okkar á Sólheimum, Ella sprella bíflugnabónda og Guðrúnu Hörpunni minni.  Þar var fyllt á tankinn með eðal skonsum og knúsum og þá gátum við haldið áfram í bústaðinn þar sem við gistum um nóttina.  Alveg nauðsynlegt að draga fram spil í bústaðnum og nú er Lilja orðin nógu stór til að hafa gaman af Lúdó.  Lilja endaði líka með því að vinna strákana!!!

Sexu, sexu, sexu... Svo gaman að spila Lúdó!

Hrikalega gaman að spila Lúdó!!

Geðveikt gaman að spila Lúdó!!!
Við komum svo við á blómahátíðinni í Hveragerði og litla skvísan okkar sem er algjör blómálfur var svoooo glöð að eignast sitt eigið sólblóm.  Þegar hún kom heim fór hún svo beint að þrífa herbergið sitt til þess að það væri nógu fínt fyrir blómið.  Hún var smá stund að jafna sig á því að það þyrfti að vera úti en sættist á að hafa það á svölunum og hún fær alveg að sjá um að vökva sjálf!  

16. jún. 2011

Margt til lista lagt

Sérstaklega góður dagur í dag sem byrjaði á vigtun með henni Bibbu minni.  Einhvern veginn þá verða vigtunardagarnir alltaf sérstaklega góðir enda ekki hægt að klúðra deginum þegar maður er búin að leggja góðan grunn.

Ég er að fara til London á morgun með henni mömmu minni en við förum saman í stelpuferð annað hvort ár.  Nú er komin tími til að heimsækja hann stóra bróður minn og sjá hvernig hann hefur það.  Við hlökkum svo mikið til.  Eftir dýrindis morgunverð í nýja eldhúsinu náði ég í vottorð til að mega fljúga á morgun.  Fór svo beint í vax til að vera nú lekker um leggina.  Ég þjófstaði dekrinu samt í gær með því að fara í dásamlega fótsnyrtingu sem ég fékk í afmælisgjöf og skaust líka í klippingu.

Kippti honum Gabríel með mér í hádegisverð í vinnuna, þar sem liðið mitt tók á móti verðlaunum í Hjólað í vinnuna keppninni.  Næst á dagskrá var litun og plokkun, sem sagt meira dekur og eins gott að maður verði gordjöss eftir þetta allt saman.

Toppurinn á deginum var svo að taka á móti hlaupurunum sem hlupu í kringum landið á Hlíðarenda.   Þórólfur hljóp síðustu 18 km með þeim og maður þurfti ekkert að vera óléttur eða hormónaður til að fá tár í augun og kökk í hálsinn þegar fjórmenningarnir ásamt fylgdarliði hlupu í hlað, í glampandi sólskini.  Ótrúleg upplifun og stund sem maður á ekki eftir að gleyma.  (Voru ekki allir örugglega búnir að taka þátt og leggja sitt að mörkum?).


Lilja hjálpar til við að mála kotið

Mjög spennt að sjá hvernig þriðja útgáfan verður hjá okkur :)
Lilja að taka sín fyrstu skref í að hanna sín eigin föt.  Hún var að leika sér með gamalt tölu box og fann til flottar tölur sem hún vildi svo endilega skreyta leggings sem hún á.  Hún var svo ánægð með þær að hún svaf í þeim og fór svo í þeim á leikskólann daginn eftir :)

Nú er ég búin að pakka og koma snúllunni minni í bólið, sit hérna með strákunum mínum í kósíheitum, tími til komin að leggja frá sér tölvuna.  Læfs gúdd.

12. jún. 2011

One on one meistari

Það er svo mikið skemmtilegt að gera hjá okkur að ég næ ekki að koma því niður í blogg áður en eitthvað annað tekur við...  Talandi um lúxusvandamál.  

Gabríel kláraði körfuboltaæfingabúðirnar á föstudaginn og stóð sig heldur betur vel.  Hann vann einn á móti einum keppnina á lokadeginum og fékk flottan verðlaunapening að launum.  Hann vann líka flottan bol í spurningarkeppni (er í honum á myndinni) svo minn maður var heldur betur alsæll eftir vikuna.

Vinkona mín rakst á hann í dag og pabbi hennar smellti þessari mynd af honum:


Tengdapabbi og Þórólfur tóku sig til og máluðu borðstofuna í dag og planið er að mála stofuna á morgun.  Þeir eru verri/betri en ég í hreiðurgerðinni!!!  Ég er náttúrulega bara alsæl með þetta og passa mig að vera ekki fyrir.  Skilst að forstofan sé svo næst á dagskrá...  Ég dunda mér við að raða og endurraða í skápa og finna réttu staðina fyrir eldhúsdótið okkar.  Já einmitt, skulda mynd af eldhúsinu:


Mamma kom og passaði fyrir okkur í morgun á meðan ég fór út að skokka og Þórólfur fór í Álafoss hlaupið.  Þegar ég kom heim fann ég þær ömmgur inní rúmi hjá okkur að leika sér.  Nb. mamma mín verður 75 ára í næstu viku og ég ætla að verða eins og hún þegar ég verð stór :)


Annars varð hún Lilja okkar veik í nótt, gubbaði og var með tæplega 39 stiga hita í dag.  Hún var nógu slöpp til að vera ekki að pirra sig á því að vera inni í góða veðrinu, druslaðist um lystarlaus og ómöguleg en náði sér svo í góðan lúr í eftirmiðdaginn.  Var nú aðeins hressari þegar leið á kvöldið en er sem betur fer komin í ró núna og vona að hún hristi þessa pest af sér í hvelli.

Að lokum, er ekkert smá ánægð með nýju sumarfötin frá Asics en í dag var aldeilis tækifæri til að prófa gallann.  Gamla bara krúttleg í bleiku með bumbuna út í loftið.  Er komin rúmar 32 vikur, tíminn flýgur og spenningurinn eykst:




10. jún. 2011

Meðan fæturnir bera mig

Ég er svo ótrúlega stolt af vinum okkar sem eru að hlaupa í kringum landið til styrktar krabbameinssjúkum börnum.

Í gær fór ég í rafmangsbúð til að ná í tengla og dót fyrir nýja eldhúsið og á meðan ég beið eftir afgreiðslu kíkti ég á síðuna þeirra www.mfbm.is á tölvu sem var í afgreiðslunni.  Ég var með áhyggjur af veðrinu hjá þeim og vildi athuga hvernig gengi.  Eftir smá stund kemur maður aftan að mér og spyr hvernig þeim gengur.  Ég var hálf hissa að hann skyldi strax sjá hvaða síðu ég var að skoða, bara einhver svona rafvirkjagaur :þ.  Jú, jú mér sýnist þeim ganga vel, var að hafa áhyggjur af þeim, þetta eru vinir mínir.  Gaman að þú sért líka að fylgjast með...

'Þau eru að hlaupa fyrir dóttur mína' svaraði hann.  Hann sagði mér síðan frá því að 13 ára dóttir hans væri að berjast við beinkrabbamein og var nýkomin úr enn einni erfiðri aðgerðinni.  

Var ekki búin að gera mér grein fyrir hversu mörg líf og mörg hjörtu þau snerta.  Hafi ég verið stolt fyrir þá margfaldaðist það, plús kökkur og tár í augun.

8. jún. 2011

Ég á eldhús!

Jibbííí... Nú er nánast öll vinnan búin og bara smá snurfuss eftir.  Set inn myndir í kvöld :)

6. jún. 2011

Guttinn gerir það gott

Það voru skólaslit hjá Gabríel í dag og hann fékk afhentar einkunnirnar sínar.  Í þetta sinn var þetta sérstaklega spennandi fyrir okkur foreldrana, þar sem við tókum meðvitaða ákvörðun í ár um að leyfa honum að finna út sjálfum hversu mikinn undirbúning hann þurfti, komin tími til að sleppa aðeins...

Það var heldur betur glaður og stoltur strákur sem hringdi í sína nánustu í morgun og las upp:

Íslenska                     8,5 
Stafsetning                 9,5 
 Kjörbækur                9,5 
 Stærðfræði               9 
 Danska                     9,5 
 Enska                       9,5 
 Náttúrufræði              9 
 Samfélagsfræði         8 
 Textíl                       10 
 Smíði                        9
 Íþróttir                       9,5 
 Sund                         8  

Þetta gerir tæplega 9,1 í meðaleinkunn!  Við erum ótrúlega stolt af stráknum okkar og það er ekki spurning, við gerum okkur glaðan dag til að halda uppá þetta.

Gabríel er annars að byrja í viku æfingabúðum í körfubolta í dag, þannig að það er nóg fyrir stafni hjá honum í bili.



4. jún. 2011

Kvennahlaupið

Við mamma mættum galvaskar í Kvennahlaupið í dag en Lilja var fjarri góðu gamni, fékk eyrnabólgu á föstudaginn og er að jafna sig, með smá hitavellu ennþá.  Við fórum 5 km og skemmtum okkur konunglega.  Eftir hlaupið bauð karlpeningurinn í fjölskyldunni upp á kaffi og meðí í nýja semi-eldhúsinu okkar.  Erum komin með vask og uppþvottavél!  Þvílík gleði og planið er að þetta klárist allt saman á þriðjudaginn, jibbííí...

Ég held svei mér þá að járnið sé farið að virka, er ekki eins OFBOÐSLEGA þreytt og fór meira segja líka í morgunskokk í morgun sem gekk eins og í sögu.  Hljóp eins og engill (sem sagt rólega, fágað og yfirvegað :).

1. jún. 2011

Ólétt...

Núna um helgina er í fysta sinn sem ég hef verulega fundið fyrir því að ég sé orðin ólétt.  Var orkulaus, þreytt og í leikfiminni minni sortnaði mér fyrir augum þegar ég reis snöggt upp.  Í dag fékk ég svo símtal frá ljósmóðurinni minni en þá var hún komin með niðurstöður úr síðustu blóðprufum.  Ég er orðin of blóðlítil og það fer ekki vel með lágum blóðþrýsingi.  Þarf að taka járn til að ná mér upp aftur og ná upp orku.  Hún hló svo bara að mér þegar ég sagði: Það hlaut að vera, mér leið alveg eins og ég væri þvílíkt ólétt um helgina....   Kannski ekki seinna vænna komin 7 mánuði :)

Eftir mikinn niðurrifsfasa á heimilinu, endalaus múrbrot, sparslvinnu, ryk, drullu og öskufall með tilheyrandi hreingerningum er svakalega ánægjulegt að vera komin í uppbyggingarfasann.  Ég fékk reyndar smá, pínu, oggulítið áfall á mánudaginn þegar ég var að fara að plana korklögnina á gólfið, en við hjónin ákváðum að gera þann hluta sjálf.  Ég er ofur skipulögð í allri svona vinnu en það sem af er af framkvæmdunum í þetta sinn, hef ég setið hjá og leyft öðrum að sjá um þetta.  Þannig að... þegar ég fór að skoða teikningarnar í spað, spá og spekúlera þá kom hitt og þetta í ljós...  'Hmmm hvar er rörið fyrir sjónvarpskabalinn?', 'Hvar er rofinn fyrir ljósin inn í borðstofu?´, 'Af hverju standa rörin upp úr gólfinu fyrir utan sökkulinn?' og síðast en ekki síst 'Er ekki pottþétt að borðhæðin sé meiri en standardhæð?'.  

Svörin voru æði skrautleg en við gömlu hjónin fórum strax í lausna gírinn, erum búin að leysa þetta allt saman og brunnum sem betur fer ekki inni með neitt klúður.  En þetta kennir manni að maður á alltaf að vera á tánum í svona famkvæmdum og elsku besti bóndi minn dæsti og sagði við mig í gær: 'Þetta hefði aldrei gerst ef þú hefðir ekki verið í þessari blessuðu Hjólað í vinnuna keppni!!!'.  Það er sennilega hárrétt, þá hefði ég verið heima til að taka á móti iðnaðarmönnunum og að sjálfsögðu verið að skipta mér af öllu og passa að allir væru með sitt á hreinu (frekar óþolandi :).

En nú er sem sagt bullandi gangur í þessu öllu saman og við reiknum með að vera komin með nokkuð brúklegt eldhús fyrir helgina.  Eftir það er bara snurfuss framundan og það verður bara gaman að dúllast í því fram að burði.

Við erum ennþá í ofurgír í menningarmálunum, allt saman pantað fyrir löngu síðan.  Í kvöld eru það tónleikar í Hörpunni, Ég veit þú kemur með Sinfó, Sigríði úr Hjaltalín og Siggi úr Hjálmum en þau syngja uppáhalds lögin sín.  Förum með tengdapabba og hlakka mikið til.  

Svo eigum við miða á Pál Óskar í næstu viku!