Síðasta vika var ansi strembin, allt á haus á heimilinu. Verið að brjóta, bramla og síðast en ekki síst skúra endalaust ryk. Ég er að ströggla með nætursvefn og það er komin uppsöfnuð þreyta í kelluna. Fór í mæðraskoðun á miðvikudaginn og var pent beðin um að hvíla mig og ná mér á strik. Ég minnka líka aðeins við mig vinnuhlutfallið, þá get ég skotist heim og lagt mig ef nóttin fer alveg í steik.
Lilja fór í sveitaferð með nýja leikskólanum og pabba sínum á miðvikudaginn. Ég ætlaði nú með en ákvað að taka skynsemina á þetta og hvíldi mig í staðinn. Þórólfur tók flottar myndir af skvísunni og ég sé ekki betur en að hún sé alsæl á nýjum stað og með nýjum félögum og fóstrum. Gott mál.
Kvöddum stóra strákinn okkar í morgun en hann er farinn í skólaferðalag á Reyki í Hrútafirði og verður vikuna. Nú eru krakkarnir að uppskera eftir margra mánaða fjáröflun og ég er viss um að þetta verði skemmtilegt hjá þeim. Ég á eftir að sakna stráksa og sérstaklega á miðvikudaginn en þá ætla ég að demba mér yfir á fimmtugsaldurinn og fagna að því tilefni með mínum nánustu. Ég er svaka spennt og ánægð að komast í nýjan aldursflokk en verða að viðurkenna að það er pínu skrítið að vera bara þrjátíu og eitthvað á morgun og svo ekki söguna meir!
Þegar ég er svona lúin eftir svefnleysi þá bjargar það geðheilsunni að komast út að hreyfa sig og ég er svo ánægð með góða veðrið, nýt þess að skokka og hjóla í vinnuna, það gengur eins og í sögu. Ég verð líka hrikalega glöð í lok þessarar viku en þá klárast öllu drulluvinnan vegna framkvæmdanna í eldhúsinu. Þá verður allt orðið tilbúið fyrir nýja innréttingu, hvenær sem hún svo kemur... (var að fá að vita að það verður einhver seinkun á afhendingu en ekki hversu mikil).
Á stórafmælisdögum finnst mér við hæfi að senda kveðju á öllum mögulegum vettvöngum - þú færð því hérmeð eina væna bloggafmæliskveðju frá mér!
SvaraEyðaTakk elsku vinkona fyrir allar kveðjurnar á öllum mögulegum stöðum og mest af öllu fyrir samveruna í gær. Luv, Eva
SvaraEyða