28. maí 2011

30 vikur og bara gaman

Er komin akkúrat 30 vikur í dag og það er alveg ótrúlegt hvað tíminn hefur liðið hratt á þessari meðgöngu.  Ég fór út að skokka í morgun og nú er hringurinn minn komin niður í rúma 8 km, ég hleyp langleiðina en labba upp brekkur.  Er farin að finna heilmikið fyrir bumbunni núna. 

Við gerðum okkur lítið fyrir í vinnunni og unnum Hjólað í vinnuna í ár.  Í fyrra vorum við í 3. sæti í heildarkeppninni þannig að við erum heldur betur búin að vinna okkur upp.  Þetta var æsispennandi á lokasprettinum, blóðug barátta við Arion banka og hver einasti km skipti máli.  Innan bankans þá vann mitt lið líka en við höfum unnið keppnina síðustu árin og kom aldrei annað til greina en að gera sitt allra besta.  Í fyrra hjólaði ég 690 km á 15 dögum en í ár þá lét ég nægja að hjóla 266 km.  Þetta gekk allt saman rosalega vel en ég verð að viðurkenna að ég var svakalega glöð að þegar ég kom heim síðasta daginn, ansi orðið strembið að hjóla upp allan Elliðaárdalinn og veðrið ekkert endilega að leika við okkur.  Nú ætla ég bara að vera í dekrinu síðustu vikurnar mínar, hjóla bara ef það er bongó blíða og meðvindur takk fyrir...

Ég er líka dugleg að fara í Hreyfingu og mér finnst best núna að fara í Body Balance tímana, passlegt álag og mér líður þvílíkt vel á eftir.  Reikna líka með að fara að synda meira núna þegar ég er laus úr hjólastússinu.

Framkvæmdirnar á heimilinu ganga vel, eitthvað að gerast á hverjum degi og við nálgumst óðfluga lok þessa tímabils.  Reikna með að vera komin með nýtt eldhús fyrir næstu helgi og held að það sé bara nokkuð raunhæft!  Ég sit reyndar hérna í rykmekkinum  ákkúrat núna, það gleymdist að brjóta fyrir einu röri...  En skítt með það, við erum í góðri skúri æfingu og þetta er ekkert til að trufla geðheilsuna (verulega).

Gabríel var fyrsta daginn sinn í úrvalsæfingabúðunum í körfu í dag og það var þvílíkt gaman hjá honum.  Tveggja tíma brjáluð keyrsla og þegar ég kom að sækja voru strákarnir gjörsamlega búnir á því, þreyttir en glaðir.

Gabríel tók bumbumynd af mér í morgun í tilefni 30 viknanna, allt að gerast :)


24. maí 2011

Litla húsmóðirin

Á sunnudagsmorguninn vaknaði skottið okkar frekar snemma eins og venjulega.  Pabbi hennar setti barnapíuna í gang (barnasjónvarpið) og við fengum að kúra aðeins lengur.  Eftir skamma stund heyrum við eitthvað brambolt í borðstofunni (sem gegnir hlutverki eldhúss í bili) og leggjum við eyrun.  Svo heyrum við að örbylgjuofninn er opnaður og svo trítlar stelpan inn til okkar.

Mamma geturðu hitað fyrir mig hafragrautinn?   Hún hafði sem sagt fundið sér skál, sett haframjölið í, bætt smá kanel út í, lenti í smá vandræðum með saltið af því það var næstum búið, bætti vatni í skálina, stappaði banana út í, dró hnallinn að ísskápnum og stakk skálinni inn í örbylgjuna.

Vá hvað þú ert dugleg Lilja!  Já ég vildi bara aðeins leyfa ykkur að kúra lengur.

Ég hitaði grautinn og var mjög forvitin að sjá hvort þetta væri ætt hjá henni.  Grauturinn á borðið og mín sótti mjólk, setti út á, hrærði og ...   Borðaði svo upp til agna!

Vorum ekkert smá stolt af litlu húsmóðurinni, n.b. það var alveg til Cherioos sko.

20. maí 2011

Á fimmtugsaldri

Ég held að ég hafi aldrei hlakkað eins mikið til að eiga afmæli og núna.  Þetta er klárlega besta stórafmælið mitt hingað til.  Á 10 ára afmælinu mínu var ég feiminn, óöruggur, búttaður krakki og ekki mjög glöð.  Á 20 ára afmælinu mínu hélt ég villt partý heima hjá mömmu og pabba og mig rámar í að ég hafi fengið mér hélst til hraustlega af bollunni og sofnað í sófanum áður en gestirnir fóru, smart...  30 ára afmælið mitt var skemmtilegra, fékk hóp af vinkonum í mat og tjútt, en ég var ennþá allt of feit og óánægð með það, barasta ekki búin að finna mig (né Þórólf :).  

Ég hef aldrei verið ánægðari með lífið en akkúrat núna og allt er bara nákvæmlega eins og ég vil hafa það.  Þannig var líka dagurinn minn, það eina sem hefði getað verið betra var að fá að hafa hann Gabríel með okkur en hann var í skólaferðalagi á Reykjum í Hrútafirði.  Hann er komin heim núna og kúrir hérna hjá mér í sófanum.

Pínu krumpuð í morgunsárið en hva... mar er komin á fimmtugsaldurinn!

Dagurinn byrjaði á því að bóndi minn færði mér afmælisgjöf í bólið, ótrúlega fallegan hring og rós.  Ég hjólaði í vinnuna í bongó blíðu (má ekki klikka á Hjólað í vinnuna smá keppnis ennþá í manni...) og mætti í morgunleikfimina sem ég sé um upp í vinnu.  Stelpurnar tóku á móti mér með knúsum og kossum og sungu fyrir mig afmælissönginn.  Um leið og ég kom aftur í sætið mitt mætti vinur minn með rauðan rósavönd og geisladisk með vinsælustu lögunum 1971.  Ég var nú hálf hissa á þessu en þá kom í ljós að maðurinn minn hafði læðst út kvöldið áður og komið þessu til hans, til að koma mér á óvart, dæs...  Tveir af hópunum mínum í vinnunni sungu líka fyrir mig, svo var deildarfundur, og já enn einu sinni var afmælissöngurinn sunginn.  Ég held svei mér þá að maður vaxi aldrei upp úr því að fara alveg í flækju við það.  

Bestu vinir mínir, stoðir og styttur.

Ég hjólaði aftur heim eftir hádegismat og hitti bónda minn en þá var kominn tími til að klára útréttingar fyrir afmælisboðið.   Ég var búin að velta því heilmikið fyrir mér hvernig ég vildi halda upp á afmælið og fyrir nokkrum vikum datt ég niður á lausnina.  Ég leigði bústað hjá bankanum rétt fyrir utan bæinn og ég ákvað að bjóða fjölskyldunni minni og nánustu vinum í súpu og kökur frá 18 - 21, krakkar velkomnir og við grilluðum pylsur og vorum með skúffuköku fyrir þá.    Við tókum líka með okkur heilan helling af sápukúlum, frisbee og krikket.  Svo voru rólur, sandkassi og náttúrulega endalaust leiksvæði í sveitinni.  Félagi okkar sem vinnur með Þórólfi eldaði fyrir okkur ljúffenga mexíkóska kjúklingasúpu og svo fórum við mæðgur hamförum í bakstrinum.  Hátt í 50 fullorðnir og 20 krakkar komu til að halda uppá daginn með okkur.  

Ohhh það var svo gaman hjá mér og ég er svo glöð að hafa átt þennan dag með fólkinu sem mér þykir vænst um.  Ég gat ekki hætt að brosa fyrir utan smá móment þegar ástin mín bað um orðið og hélt ræðu og færði mér enn eina gjöfina.  Fann vörina fara að titra og buhuuu fyrir framan alla!  Kenndi óléttunni og hormónunum um (yeah right :).  

Mamma stóð vaktina með okkur allt til enda, ótrúleg þessi kona :)

Mamma og Þórólfur voru ótrúleg í að hjálpa mér að skipuleggja allt saman, undirbúa og ganga frá eftir veisluna.  Frábær dagur sem ég mun aldrei gleyma, takk fyrir mig!

16. maí 2011

Sveitaferð og fleira

Síðasta vika var ansi strembin, allt á haus á heimilinu.  Verið að brjóta, bramla og síðast en ekki síst skúra endalaust ryk.  Ég er að ströggla með nætursvefn og það er komin uppsöfnuð þreyta í kelluna.  Fór í mæðraskoðun á miðvikudaginn og var pent beðin um að hvíla mig og ná mér á strik.  Ég minnka líka aðeins við mig vinnuhlutfallið, þá get ég skotist heim og lagt mig ef nóttin fer alveg í steik. 

Lilja fór í sveitaferð með nýja leikskólanum og pabba sínum á miðvikudaginn.  Ég ætlaði nú með en ákvað að taka skynsemina á þetta og hvíldi mig í staðinn. Þórólfur tók flottar myndir af skvísunni og ég sé ekki betur en að hún sé alsæl á nýjum stað og með nýjum félögum og fóstrum.  Gott mál.

Kvöddum stóra strákinn okkar í morgun en hann er farinn í skólaferðalag á Reyki í Hrútafirði og verður vikuna.  Nú eru krakkarnir að uppskera eftir margra mánaða fjáröflun og ég er viss um að þetta verði skemmtilegt hjá þeim.  Ég á eftir að sakna stráksa og sérstaklega á miðvikudaginn en þá ætla ég að demba mér yfir á fimmtugsaldurinn og fagna að því tilefni með mínum nánustu.  Ég er svaka spennt og ánægð að komast í nýjan aldursflokk en verða að viðurkenna að það er pínu skrítið að vera bara þrjátíu og eitthvað á morgun og svo ekki söguna meir! 

Þegar ég er svona lúin eftir svefnleysi þá bjargar það geðheilsunni að komast út að hreyfa sig og ég er svo ánægð með góða veðrið, nýt þess að skokka og hjóla í vinnuna, það gengur eins og í sögu.  Ég verð líka hrikalega glöð í lok þessarar viku en þá klárast öllu drulluvinnan vegna framkvæmdanna í eldhúsinu.  Þá verður allt orðið tilbúið fyrir nýja innréttingu, hvenær sem hún svo kemur...  (var að fá að vita að það verður einhver seinkun á afhendingu en ekki hversu mikil). 

10. maí 2011

30 mínútur í planka

Ætlaði heldur betur að gera góða hluti í þessu hjólaprógrammi mínu og um helgina skipti ég um hnakk, átti nefnilega risastóran gel Lazy boy hnakk frá síðustu meðgöngu.  Það gekk ekki betur en svo að þegar hann var komin á hjólið með öllum sínum gormum fannst mér hann halla full mikið upp á við svo ég kýldi hann vel niður að framan þangað til mér sýndist hann vera beinn.  Og svo prófaði ég EKKI.  

Á mánudagsmorguninn fann ég um leið og ég renndi mér niður Dyngjuveginn að þetta var nú ekki alveg að gera sig, var eins og ég sæti í rennibraut en nennti ekki að snúa við og laga.

Var farin að sjá verulega eftir því eftir 5 mínútur eða svo   Það er hrikalega erfitt, alla vega fyrir óléttar kellur, að hjóla en geta ekki sest á sætið.  Ég var svo búin í öxlunum og höndunum þegar ég kom loksins í vinnuna, tilfinningin er eins og að vera í plankastöðu nema að þurfa að hjóla líka, sjæse...

Fékk lánaðan sexkant í vinnunni til að laga hnakkinn en komst að því að það á bara alls ekki við mig að vera í einhverjum hægindastól á hjólinu.  Var ekki lengi að skipta aftur yfir í gamla góða hnakkinn minn og hjólaði með bros á vör í vinnuna í morgun.

8. maí 2011

Mæðradagurinn

Mikið var gaman að vakna í morgun og kíkja út um gluggann.  Þvílík blíða og allt skítaveður síðustu vikna löngu gleymt!   Við hjónin tókum daginn snemma og skokkuðum sunnudagshinginn (sitt hvoran n.b. á sitt hvorum hraðanum... :) í blíðunni.  Í dag gekk eins og í sögu að hlaupa, fór 10,15 km og leið hrikalega vel.  Það var svo hlýtt á tímabili að ég var að spá í að svifta mér út peysunni en hélt aftur af mér.  Það hefði verði sjón að sjá mig með bera bumbuna skoppandi upp og niður, thí hí.

Eftir hlaupatúrinn og sturtu fórum við til mömmu og pabba í brunch, með viðkomu í Blómavali, en Lilja okkar hafði fengið að gista hjá þeim. Það var nefnilega 2. í stórafmæli í gærkvöldi (hvar endar þetta!).  Bóndi minn færði mér gjafabréf númer 2 sem innihélt boð í Borgarleikhúsið á Nei ráðherra og út að borða á undan, á stað að eigin vali.  

Gabríel fékk að koma með í þetta sinn, við klæddum okkur upp í okkar fínasta púss og byrjuðum á því að fá okkur bita á Horninu, alltaf jafn kósý þar.  Við skemmtum okkur vel á sýningunni, gaman að fara í leikhúsið og sérstaklega gaman að hafa stóra strákinn okkar með.  Ég held svei mér þá að við förum að slá einhver met í menningarlegheitum bráðum!!!  Eigum miða á Faust seinna í mánuðinum og svo förum við á tónleika með Páli Óskari í júní.  Ja, það er um að gera að nota tímann sem annars færi í keppnir og flæking vegna þeirra, í eitthvað uppbyggjandi.

Nú er erfið vika framundan hjá guttanum okkar, prófavika og það þýðir að maður þarf að sitja inni í góða veðrinu og læra meðan allir aðrir í heiminum geta verið úti að leika!  Fékk hann til að taka eina bumbumynd á svölunum eftir hlaupatúrinn í morgun en á 'Pregnancy Calendar'-num í gær stóð: 'Welcome to your last trimester!'.  Ég segi bara á móti: 'Thank you very much!'.

6. maí 2011

Ég á glaðan strák

Stór dagur hjá okkur í gær.  Heill her af iðanaðrmönnum (ok lítill her :) var hjá okkur að saga niður vegg og græja vatnslagnir í framhaldinu.  Nú er búið að opna í gegn og eldhús og borðstofa orðið eitt rými.  Ja, fyrir utan að það er ekkert eldhús í eldhúsinu ennþá og að það er ryk og drulla út um allt þá er þetta bara algjör snilld.  

En... aðalmálið var að þegar við komum heim um kvöldið þá beið bréf eftir honum Gabríel.  Hann var tilnefndur af sínum þjálfara í Úrvalsbúðir KKÍ 2011.  Úrvalshóparnir eru undanfari yngri landsliða Íslands þar sem unglingalandsliðsþjálfarar stjórna æfingum og fara yfir tækniatriði.  Ótrúlega spennandi og við erum svo stolt af stráknum okkar!

5. maí 2011

Víkingur, Katrín, Össur og við :)

Fyrsti í afmæli hjá mér í gær.  Þórólfur var búin að kaupa miða fyrir okkur á opnun Hörpunnar og ég fékk bara að vita það í gær.  Ég var á sínum tíma ein af þeim sem unnu nafnasamkeppnina á tónslistarhúsinu og mínum manni fannst ekki annað koma til greina en að bjóða spúsu sinni á opnunina.  Við klæddum okkur upp í okkar fínasta púss og mættum tímanlega til að skoða gripinn.  Frábærir tónleikar og mikil upplifun að sjá húsið þó svo það sé heilmikil vinna eftir.  Hittum fullt af skemmtilegu fólki og nutum tónlistarinnar í botn.  

Þegar ég var að hjóla í vinnuna í morgun hringdi mamma í mig, uppnumin alveg...  'Þið Þórólfur eruð í Mogganum í dag.  Það er sko mynd af Víkingi Heiðari og af ráðherrunum Katrínu Jakobs og Össuri og svo eruð þið í miðjunni!!!'.  Um leið og ég mætti í vinnuna kom til kona og sagðist hafa séð mynd af okkur í blaðinu.  'Er maðurinn þinn tengdur Sinfoníunni?...'   Öhhh nei...  Við hjónin erum þvílíkt búin að flissa yfir þessu.  Gaman :) 

Það er hægt að stækka úrklippuna með því að tvísmella á hana.

2. maí 2011

Aðlögun

Stóra stelpan okkar er byrjuð á nýjum leikskóla, reyndar á sömu lóð... og á sennilega eftir að sameinast gamla áður en langt um líður en engu að síður stórt stökk fyrir litla dömu.  Aðlögunin gengur eins og í sögu, Lilja var svo tilbúin í meira fjör og stærri krakka.  Mamman fékk smá í magann við öll lætin en er að jafna sig :)

Með Ingu leikskólastjóra á Hlíðarenda og Öldu aðstoðar

Bóndinn er búin að skrúfa niður eldhúsið og við seldum það á Barnalandi, já það selst allt þar.  Við erum flutt með allt eldhúsdótið í borðstofuna og látum fara vel um okkur þar næstu vikurnar.  Við fáum nýtt eldhús afhent eftir tvær vikur en í millitíðinni þurfum við að gera allt klárt fyrir uppsetningu.  Við keyptum ofn og helluborð í dag og þá eigum við bara eftir að finna vask og blöndnartæki, allt annað er komið á hreint. 

Svo gott að fá vorið í dag.  Fór út að skokka í góða veðrinu í staðinn fyrir að fara inn í tíma og í dag var þetta skokk og ganga til skiptis.  Fór rúma 10 km og kom alsæl heim eftir útiveruna.  

Þórólfur stóð sig með sóma í Vorþoninu, hljóp 1/2 maraþona á 1:19 og náði 3. sætinu á síðustu km eftir að hafa verið 5. mest allt hlaupið.  Svona er þetta bara þegar maður er komin með smjörþefinn af pallinum, þá kikkar inn auka gír.  Ánægð með minn mann, nú þegar það er bara einn fjölskyldumeðlimur að draga bikara í bú, þá er það bara gert í hverju hlaupi, yeehaawww...