Ég hef svona verið heldur treg til útihlaupa síðustu vikurnar, var farin að bíða eftir að losna við snjóinn. En í gær gafst ég upp, ég sakna þess svo mikið að komast út í súrefnisskammtinn minn. Fór góðan hring í hádeginu og það var eins og við manninn mælt, þreyta sem hefur verið að hellast yfir mig seinni partinn í vinnunni fauk út í veður og vind og ég var uppfull af orku restina af deginum.
Ég skrópaði á þriðjudaginn í sundskólanum hennar Lilju, einmitt vegna þess að ég var svo voðalega þreytt eitthvað en í gær hlakkaði ég bara til og það var æðislegt að komast í sundið. Ég er búin að vera að troða mér í æfinga sundbolinn minn sem er nú frekar sleiktur á mér venjulega og nú var svo komið að hann var ekki að höndla þessi nýju brjóst og bumbu, var orðin eins og rækja í honum. Prófaði að fara í bikiní og það var bara í fínasta lagi enda bumban farin að líta út eins og óléttubumba en ekki bjórvömb!
Annars var ég að skrá mig á nýtt námskeið í Hreyfingu sem mér líst svakalega vel á, HD Fitness, en tímarnir byggjast á rólegum styrktaræfingum og djúpum teygjum. Ætti að smellpassa fyrir mig með mínu hefðbundna sprikli.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli