Sérstaklega viðburðarrík og skemmtileg vika að baki. Við hjónin stungum af í árshátíðarferð til Malmö. Já og nú spyr fólk hvaða fyrirtæki fer til útlanda í árshátíðarferð á þessum tímum, alla vega ekki bankinn :).
Við tókum forskot á sæluna og fórum til Keflavíkur á þriðjudagskvöldið og gistum á Hótel Keflavík um nóttina. Þórólfur vann gistinótt í Reykjanesmaraþoninu og nú var tilvalið að nota hana, geta sofið aðeins lengur og sleppa við keyrsluna fyrir flug. Við bættum líka við auka degi úti og sáum ekki eftir því, áttum frábært frí saman og nutum hverrar einustu mínútu. Við byrjuðum dagana á því að hreyfa okkur, annað hvort úti eða í pínu litlu gymmi á hótelinu. Svo var það dýrindis morgunverður og bæjarrölt í framhaldinu. Einn daginn fengum við lánuð hjól á hótelinu og hjóluðum um allan bæinn. Við vorum líka pínu menningarleg, kíktum á Ebba's hus sem hefur staðið óhreyft í 100 ár og svo fórum við á súkkulaðisafn! Árshátíðin var skemmtileg og við nutum þess að borða góðan mat, dag eftir dag. Versluðum líka aðeins, það finnst okkur ekkert leiðinlegt og svo er náttúrulega alltaf jafn gott að komast heim aftur, fá að knúsa krakkana og koma sér í rútínuna aftur.
Chokladfabrikken, nammi namm og hægt að fá smakk af öllu :)
Sporty gömlu hjónin
Fundum kósí hverfi með smá tjörn á hjólreiðatúrnum
The Turning Torso í baksýn
Frekar flott hjól!
Mánudagurinn var svakalega spennandi hjá okkur en við áttum tíma í 20 vikna sónar. Við vorum svo heppin að fá ljósmóðurnema og þá fengum við útskýringar á öllu mögulegu sem verið er að skoða og það var bara gaman. Allt lítur vel út og þessi sónar gefur okkur líka fæðingardag 6. ágúst.
Aðeins að sjúga puttann
Undir ilina og klárlega Nimbus fótur :)
Eftir hádegi var svo komið að henni Lilju okkar en hún átti tíma í 4 ára skoðun. Stóð sig með miklum sóma og rúllaði upp hverju prófinu á fætur öðru. Fékk líka tvær sprautur... í einu í handleggina, var voða hugrökk og fljót að jafna sig. Í dag fengum við svo meiri góðar fréttir, Lilja fær pláss á Ásborg sem er leikskóli fyrir stærri krakka á sömu lóð og hún fær að byrja 2. maí. Hún er sko alveg tilbúin í að breyta til, hlakka til að segja henni fréttirnar.
Gabríel okkar er svo að fara í spennandi keppnisferð í körfu til Egilsstaða næstu helgi. Hann var ekki lítið glaður að heyra að þeir færu með flugi í þetta sinn, var alveg komin með nóg af rútuferðum fram og til baka fyrir og eftir mót.
Sem sagt... engin lognmolla frekar en fyrri daginn.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli