Vorþefur í lofti og allt verður létt og skemmtilegt. Gabríel okkar fór í keppnisferð til Egilsstaða um helgina og strákarnir stóðu sig þvílíkt vel, allt í einu er eins og allt gangi upp hjá þeim og þeir unnu alla leikina sína fyrir austan.
Á laugardaginn drifum við okkur í bæinn eftir morgunprógrammið okkar, röltum niður Laugaveginn, náðum okkur í blöðru í 66° Norður og gáfum öndunum. Við vorum búin að lofa ísbíltúr á eftir ef Lilja væri til í að rölta með okkur hringinn í kringum Tjörnina og það var sko samþykkt.
Buðum pabba í snarl með okkur um kvöldið en mamma er komin loksins, loksins til Madagaskar en þetta er þriðja árið í röð sem hún og bróðir hennar plana ferð á æskuslóðinar. Fyrsta ferðin var blásin af vegna borgarastyrjaldar og í fyrra var það Eyjafjallajökull sem setti strik í reikninginn, mamma komin til Noregs og allt... En alla vega búin að fá nokkur sms og allt gengur eins og í sögu.
Tók góðan hlaupatúr í gær, frábært að geta spriklað á auðum stígum og ég stefndi á 10 km á innan við klukkara og það gekk vel. Sé það betur og betur hvað ég er heppinn að geta hreyft mig eins og ég geri, það er alls ekki sjálfsagt. Alltaf að heyra af stelpum sem eru stopp vegna verkja í mjöðmum, lífbeini eða vegna annarra óþæginda. Mér líður bara vel og er svo þakklát fyrir það. Er á leiðinni í hádegisskokk, over and out!