9. feb. 2011

Skíðafjölskylda

Já svei mér þá ef við erum ekki orðin skíðafjölskylda!  Við fórum upp í Bláfjöll eftir hádegi á sunnudaginn, öll sömul og ætluðum að skella okkur á skíði.  Það reyndist ekki vera svo einfalt...  Það var 2-3 tíma biðröð í skíðaleiguna og alla vega klukkutími í miðasöluna, þannig að við sáum okkar kost vænstan að hundskast heim aftur.  Ekki vorum við þó búin að gefast upp, á skíði skyldum við fara og tókum ákvörðun um að taka okkur frí daginn eftir og fá leyfi fyrir Gabríel úr skólanum, ef vel viðraði.  Eins fundum við út að það væri hægt að kaupa miða á N1 í Ártúnsbrekkunni þannig að það vandamál var úr sögunni.

Á mánudagsmorgun sáum við að opnað yrði kl. 14 og veðrið eins og best verður á kosið.  Gabríel skaust í skólann til hádegis og Þórólfur í vinnu en ég fór bara einn góðan skokktúr í morgunsárið.  Eftir skokkið datt mér í hug að hringja í vin minn sem vinnur í Bláfjöllum og fá nánari upplýsingar um hvenær skíðaleigan opnaði svo við værum nú örugglega tímanlega í því.  Það kom í ljós að nokkrar lyftur voru opnaðar strax klukkan 10 og eins skíðaleigan.  'Drífið ykkur bara upp í fjall mar...'.  

Ég gerði allt klárt fyrir okkur, nesti og galla og um leið og strákarnir komu heim brunuðum við upp í Bláfjöll.  Það voru svona 8 bílar á bílastæðinu þegar við komum.  Beint inn í skíðaleiguna og þar var enginn nema vingjarnlegur starfsmaður sem var ekki lengi að græja okkur og svoooshhh beint upp í brekku.


Vá hvað það var fallegt veður, glampandi sól, blankandi log og færi eins og best gerist.  Þórólfur hitaði sig upp nokkarar ferðir í kaðlinum og svo dreif hann sig í toglyfturnar en við Gabríel stungum fljótlega af í stólalyfturnar.  Gabríel er fær í allan sjó eftir þennan dag, hann var hvergi banginn og við höfum ekki skemmt okkur svona vel saman í háa herrans tíð og það er yfirleitt ekkert leiðinlegt hjá okkur.  Fórum reglulega og kíktum á Þórólf, sem tók stórstígum framförum með hverri ferðinni.  Vorum orðin glorhungruð um kaffileytið og þá dró gamla upp kakó og smurt brauð, gulrætur og súkkulaðikex.  Namminamm hvað allt bragðast betur á fjöllum.  Út aftur og nú var aðeins farið að fjölga í brekkunum.  Við (ég :) gafst upp rétt fyrir sex en þá vorum við búin að skíða eins og berserkir í rúma fimm klukkutíma.  Gabríel var svo glaður með þennan dag, sagði oftar en einu sinni, 'Mamma, þetta er alveg ótrúlega góður dagur.'.

   
Lentum í smá töf á heimleiðinni en einhver snillingur hafði lagt bílnum sínum þannig að það komst enginn af (eða á ef út í það er farið) svæðinu í hálftíma eða svo.  Skilst að bíllinn hafi að lokum verið borin eða ýtt út af veginum og við fegin að vera á heimleið.  Þegar við fórum þá var samfelld tæplega kílómeters bílalest á leið upp í fjall.  Það var tvöfalt lengri röð í skíðaleiguna en daginn áður og sennilega tveggja tíma við í miðasöluna...  Úff hvað maður fann til með barnafjölskyldunum sem áttu ekki annarra kosta völ en að snúa öfug til baka.  



Við vorum orðin svo svöng eftir útiveruna að það var bara eitt í stöðunni, að koma við í Nóatúni og kaupa KJÖT.  Náðum okkur í læri og purusteik, rófustöppu og rauðvínssósu.  Eftir mat og sturtu missti ég meðvitund upp úr átta í sófanum, læddist inn í rúm klukkan tíu og svaf eins og skotinn til sjö morguninn eftir.  Ég var ennþá þreytt eftir vinnu í gær og þurfti að leggja mig og ég er ekki frá því að ég hefði getað lúrt í svona 2-3 klukkutíma í viðbót í morgun...  Næst á dagskrá er að safna sér fyrir skíðagræjum.  Endilega ef þið eigið eða vitið um græjur til sölu fyrir skikkanlegt verð, látið í ykkur heyra. 

4 ummæli:

  1. Við vorum mætt um 10-leytið á sunnudag og skíðuðum í þoku og éljagangi til kl. 14. Ég er enn að gráta yfir því að hafa svo verið í vinnunni á þessum dásemdar skíðamánudegi. Gönguskíðatúr í Heiðmörk seinnipartinn bjargaði þó því sem bjargað varð :-)

    SvaraEyða
  2. Hefði sko verið til í eina salíbunu með þér í blíðunni kæra vinkona!

    SvaraEyða
  3. Glæsileg frammistaða! Ég samgleðst ykkur fjölskyldunni, þetta er góð íþrótt og gefandi. Ég fer sjálf reglulega á skíði þó það sé reyndar ekki nema á 15 ára fresti og helst í Sviss.

    Kveðja,
    Vala G (sem gengur illa að skrá athugasemdir nema nafnlaust)

    SvaraEyða
  4. Takk Vala :) Ég sé þig alveg fyrir mér svífa niður brekkurnar í Ölpunum!

    SvaraEyða