Kósí dagur hjá okkur hjónum í gær. Byrjuðum á að fara saman út að skokka og áttum fótum okkar fjör að launa, glerhált og við vorum frekar spaugileg á svellinu. Gáfumst nú samt ekkert upp og renndum okkur eina 10 km áður en við komum okkur heim aftur.
Við fengum vegleg gjafakort í Kringluna í jólagjöf og datt það snilldarráð í hug að planta börnunum í bíó og á meðan gætum við spókað okkur og kíkt á útsölurnar. Stóra barnið okkar plataði svo ömmu sína með líka. Vel heppnuð ferð hjá okkurog ég fann fínan kjól, töff buxur, bol og skyrtu, allt á spottprís en samt almennilegar flíkur. Ég er löngu hætt að kaupa drasl á útsölum. Eftir vel heppnaða verslunarferð höfðum við meira að segja tíma til að setjast aðeins niður á kaffihús og fá okkur smá snarl og ljúffengan kaffi latté, mmmm... Ljúft.
Gabríel stóð sig frábærlega í jólaprófunum og fékk einkunnirnar sínar fyrir helgi. Við slógum upp pizzuveislu í verðlaun og hann bauð ömmu og öfum til okkar í kvöldmat. Eitthvað var nú litla skottið okkar í óstuði, langaði ekkert í pizzur og vildi bara kúra upp í sófa. Þegar gestirnir voru farnir kom líka í ljós að hún var búin að næla sér í KRÖFTUGA gubbupest og við eyddum restinni af kvöldinu í að skipta um á öllu tvisvar, skúra og setja í vélar. Sem betur fer var nóttin nokkuð róleg, ein gusa en þá var stelpan orðin þjálfuð í að hitta í fötuna svo það var lítið mál. Morgunin hefur verið rólegur og hún er búin að drekka vel og narta í ristað brauð án þess að skila því aftur. 'Mamma, nú liggur aftur vel á mér og ég er alveg hætt að gubba!'. Krossa puttana að hún hafi rétt fyrir sér :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli