4. jan. 2011

Stóra stelpan okkar

Lilja okkar varð fjögurra ára í gær.  Frábær dagur en við tókum okkur öll frí í tilefni dagsins og nutum þess að vera saman, bannað að fara í tölvur!  Við byrjuðum daginn á mini-afmælisveislu, ég bakaði lummur og Þórólfur skottaðist út í bakarí og náði í skúffukökubita til að setja kertin á.  Svo sungum við fyrir Liljuna okkar en alvöru afmælisveislan verður ekki fyrr en á laugardaginn næsta.  Við fórum líka í Kringluna á kaffihús og svo enduðum við í snarli á American Style um kvöldið.  Það var nefnilega þannig að fyrir fjórum árum þegar ég var aðeins farin að finna fyrir samdráttum, bauð ég strákunum mínum þangað í kvöldmat.  Tæpum fjórum tímum síðar var Lilja komin í heiminn.


Í dag sá ég að það voru komnar nýjar reglur um Laugavegshlaupið.  Mér líst vel á þær.  Þær ættu að tryggja það réttlæti að allir keppendur sitji við sama borð og að sumir fái ekki meiri þjónustu og hjálp en aðrir til að ljúka hlaupinu.  Ég er líka mjög glöð fyrir mig persónulega, þ.e. að minn tími og sigur á Laugaveginum 2008 samræmist þessum nýju reglum fullkomlega.  Það er góð tilfinning.  Maður fer nefnilega ósjálfrátt að hugsa um tíma með og án aðstoðar utanaðkomandi, renna í huganum yfir bestu tímana og tína þá í sinn flokk.  

Sem sagt, hið besta mál og ég leyfi mér að efast stórlega um að þessar reglur hefðu verið settar, ef ekki hefðu skapast heilmiklar umræður á netinu í kjölfar síðasta Laugavegshlaups.  Sá sem startaði umræðunni var að sjálfsögðu sakaður um einhverjar annarlega hvatir og fékk það óþvegið hjá skrílnum. Sem betur fer er bara til fullt af hugrökku fólki sem lætur ekki þagga niður í sér, verði það vitni að óréttlæti.  

Lifi hugrekkið!

2 ummæli: