30. jan. 2011

Skíðaferð

Ég var mjög mikið á skíðum sem krakki og unglingur en svo óx ég upp úr græjunum mínum og fór að snúa mér að öðru, misgáfulegu...  Eftir að ég fullorðnaðist hef ég oft hugsað að það væri nú gaman að skella sér aftur á skíði en hlaupin (já og hjólið og sundið...) hafa einhvern veginn tekið allan okkar frítíma þannig að ekkert hefur orðið úr því.  Þórólfur hefur aldrei farið á skíði þannig að þetta var ekkert sem hann langaði eitthvað sérstaklega til að gera.  

En alla vega, í haust í míní tilvistarkreppunni minni, þá var þetta eitthvað sem ég hugsaði heilmikið um og þá á þeim nótum að fara á skíði var það skemmtilegasta sem ég gerði sem krakki en ég hafði ekki ennþá drullast við að bjóða börnunum mínum uppá það!  Fyrir nokkrum vikum kom svo póstur frá starfsmannafélaginu hjá mér þar sem blásið var til skíðaferðar til Akureyrar.  Tilboð á lyftupössum og kennslu, afslættir á veitingastaði og ég veit ekki hvað og hvað.  Orri bróðir bauð okkur húsið sitt med det samme en hann var með plön um að vera í bænum þessa helgi.  Þórólfur var svona mátulega spenntur en krakkarnir voru næstum búnir að pissa í sig af spenningi og c'est la vie, þrír á móti einum og málið var dautt.  Skráði okkur og þar með var teningunum kastað.  

Þegar nær dró var útlit með verður og skíðafæri ekkert svakalega gott.  Fjölskyldufundur og það var afráðið að fara í ferðina og láta bara ráðast hvort við kæmumst á skíði, við fyndum þá bara upp á einhverju öðru skemmtilegu í staðinn.  Við lögðum í hann e.h. á föstudaginn og ferðin gekk vel að Öxnadalsheiði en þar lentum við í svakalegum snjóstormi og rétt svo sáum á milli stika.  Við erum algjörir kjúklingar í svona aðstæðum og vorum þvílíkt fegin að komast út úr óveðrinu og í bæinn.  Eftir að hafa hent dótinu okkar inn til Orra drifum við okkur beint upp í fjall að kanna aðstæður og þar var 'after ski' stemmning á vegum starfsmannafélagsins.  Trúbador, kakó, Stroh, kleinur og snakk, hrikalega kósí hjá þeim.  Mér datt í huga að tékka á skíðaleigunni þarna um kvöldið og það var lukkuspor, frábær starfsmaður í leigunni fann til allar græjur handa okkur og stillti upp í röð og reglu þannig að allt var ready þegar við mættum morguninn eftir.  

Skríktum af gleði þegar kom í ljós að fjallið var opið og drifum okkur af stað.  Við vorum búin að skrá krakkana í skíðaskóla frá 10 - 12 og þau fóru með sínum kennurum en ég tók Þórólf í smá kennslu á undirstöðuatriðunum og leyfði honum svo að æfa sig í friði.  Dreif mig í stærri brekkurnar og náði einni ferð í stólalyftunni, frábært færi og þvílíkt gaman.  Sveif niður brekkurnar.  Eftir klukkutíma fékk ég símtal frá skíðaskólanum en þá var Lilja orðin þreytt og ég brunaði til hennar.  Ég veit að það er alveg lykilatriði að hætta ekki þegar mórallinn er svoleiðis, náði að snúa skottinu og koma henni í góðan gír aftur og við skíðuðum saman í annan klukkutíma og mín söng og trallaði allan tímann.  

Gabríel hvarf á eftir sínum kennara og alveg brilleraði, var út um allt fjall eins og ekkert væri.  Það var svo gaman hjá honum að hann vildi endilega halda áfram eftir hádegi og það var náttúrulega sjálfsagt.  Því miður þá versnaði veðrið e.h. og um hálf tvö lokaði fjallið.  Þá var okkar maður upp á toppi og það þurfti að flytja krakkana niður í hollum á snjósleða, þvílíkt spennandi allt saman.  

Við renndum við hjá Orra og náðum í sunddótið okkar og skelltum okkur í sund og létum líða úr okkur í heitu pottunum og krakkarnir fengu að sprella.  Heim og smá blundur hjá okkur gamla fólkinu og svo var það bæjarferð og kvöldmatur á Bautanum.  Kósíkvöld, popp, nammi og bíó og það var alsæl fjölskylda sem rotaðist í Orra húsi seint og síðar meir á laugardagskvöldið.

Svo var þvílíkt spennandi að sjá hvort við kæmumst aftur á skíði í dag en því miður setti veðrið strik í reikninginn.  Þá var bara að halda heim á leið í rólegheitunum og Öxnadalsheiðin var alveg jafn skelfileg og á föstudaginn, fjúff.  Krakkarnir sváfu langleiðina heim svo þetta var ósköp þægilegt og svo enduðum við ferðalagið á að skella okkur í sund í Mosó.  Topp helgi sem við eigum aldrei eftir að gleyma!









Engin ummæli:

Skrifa ummæli