2. jan. 2011

Rjúpurnar *****

Nokkru fyrir jól hafði vinkona mín samband við mig og spurði hvort við hefðum áhuga á að fá gefins nokkrar rjúpur fyrir jólin.  Ekkert okkar hafði áður smakkað rjúpur en við vorum sko meira en til í að prófa og þökkuðum kærlega gott boð.  Í gær var svo stóra stundin, frumraun í að elda og borða rjúpur, á vel við að byrja nýtt ár á nýjungum.

Ég fékk góð ráð frá þessari vinkonu minni, var svo búin að klippa út uppskrift úr einhverju blaðinu fyrir jólin og svo goolaði ég líka til að fá aðeins innsýn inní rjúpumatreiðsluna.  Ég var með nóg af meðlæti (til vonar og vara :), æðislega góða sætkartöflumús og Waldorf salat, ásamt rauðkáli og baunum.  Ég pikkaði það sem mér fannst skynsamlegast og auðveldast úr öllum uppskriftunum og útkoman var að ég skar bringurnar frá og eldaði þær sér og beinlausar.  Ég léttsteikti fóarn, hjörtu, læri og bein og lét svo malla í soð í rúman klukkutíma ásamt dassi af fersku timian.  Ég kryddaði með ferkum pipar og maldon salti, léttsteikti svo bringurnar í smöri og olíu til helminga og sauð svo í potti í 45 mínútur.  

Í forrétt höfðum við anda- og hreindýrapaté með sultuðum rauðlauk og ýmsu öðru gúmmelaði.  Eftir forréttinn fórum við hjónin í að græja sósuna en okkur hafði verið sagt að það væri aðalmálið við máltíðina.  Ég síaði soðið og nú hófst tilsmakk og tilraunastarfsemi...  Að lokum vorum við komin með ótrúlega góða sósu en í hana fór gráðostur, sólberjasulta, rauðvín (sterk innkoma hjá Þórólfi) og svo að sjálfsögðu góður slurkur af rjóma, kryddað til með salti og pipar.

Við vorum með 10 bringur og Gabríel sporðrenndi fjórum eins og ekkert væri, við hjónin fengum 2 1/2 á mann (Lilja vildi bara skyr með berjum í kvöldmat) og svo geymdum við eina bringu í smakk fyrir mömmu og pabba sem komu til okkar með desert eftir matinn, Ris á la mande.  Við vorum alveg alsæl með þetta og kolféllum fyrir rjúpunni!   Pabbi sem var vanur að fá rjúpur sem krakki og var ekkert sértaklega hrifin í minningunni, dásamaði þetta í bak og fyrir hjá okkur, hafði aldrei fengið eins góðar rjúpur og mamma var mjög hrifin líka.

Nú þarf ég bara að græja kallinn upp í veiðimennsku, yeah right!  Ætli við verðum ekki bara að treysta á lukkuna í framtíðinni, hún hefur reynst okkur vel hingað til :)  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli