26. jan. 2011

Hjá Tomma tannlækni

Mamma, þegar við förum til Tomma tannlæknis ætla ég að knúsa hann! Lilja var svo spennt að fara í fyrsta sinn til tannlæknis, gat ekki beðið. Hún fór í heimsókn til hans fyrir jól en þá átti Gabríel tíma í skoðun og hún fékk að fylgjast með en nú var komið að henni. Við vissum að hann þyrfti aðeins að krukka í hana vegna þess að hún er með klofna tönn, svokallaða tvíburatönn, sem er ekki nokkur leið að bursta almennilega. Á leiðinni til Tomma fann Lilja fallega skel frá Rauðasandi í bílnum og hún vildi endilega gefa honum skelina.

Um leið og hann kallaði á okkur stöllur, stökk mín af stað og upp um hálsinn á honum (n.b. hún hefur bara einu sinni séð hann áður...). Tommi vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið en varð voða glaður, vísaði henni til sætis og sýndi henni allt dótið sitt. Hún fékk að prófa borana, sem hann kallar reyndar bursta, sprauta vatni og lofti. Þegar hún var komin í stólinn kvartaði hún yfir björtu ljósinu og fékk rosa flott sólgleraugu. Svo byrjað Tommi að hreinsa, bora pínulítið og skola. Lilja sagði einu sinni eða tvisvar að hún fyndi aðeins til en um leið og hann skolaði tennurnar fór hún að skellihlægja. Að lokum fyllti hann alveg upp í sprunguna í tönninni svo nú er ekkert því til fyrirstöðu að halda tönnunum hennar heilum og fínum.

Lilja fékk að velja sér tvenn verðlaun af því hún var svo rosalega dugleg og svo stökk hún aftur upp um hálsinn á Tomma, sem varð ennþá meira hissa og sagðist nú ekki vera vanur svona meðförum, hvað þá eftir að hafa borað... :)

Lilja borðar ekki nammi, segir hún sjálf og það er svo sem alveg rétt. Hún tínir allt nammi sem verður á vegi hennar í burtu og hendir í ruslið, t.d. á trúða ís og skúffukökum en það er eitt sem ekki er talið með sem nammi í hennar heimi, það er súkkulaði. Ótrúlega skýr þessi stelpa sem ég á, enda er súkkulaði grænmeti eins og allir vita!
Posted by Picasa

Engin ummæli:

Skrifa ummæli