31. jan. 2011

Lok, lok og læs

Jæja nú er komið að breytingum enn eina ferðina hjá mér.  Ég ætla að loka blogginu mínu fyrir almenning en mun halda áfram að blaðra fyrir mig og mína.  Þetta er nefnilega ágætis leið fyrir mig til að sortera dagana, leggja á minnið það sem skiptir máli og losa mig við það sem pirrar mig.

Ég hef áður lokað blogginu mínu en það var allt annars eðlis, þá lenti ég í persónulegum hremmingum og læddist í skjól eins og sært dýr.  Staða mín gæti ekki verið meira fjarri þeim veruleika í dag og þessi vetur hefur verið mjög góður fyrir mig.  Ótrúlega spennandi tímar framundan,  framtíðin björt og falleg.  Það er allt annað að taka svona ákvörðun meðvitað og í rólegheitum.  Ég ætla að hafa lykilorð á blogginu mínu og fyrir þá sem ég þekki er nóg að senda mér beiðni, en þekki ég þig ekki þá vil ég fá að vita aðeins meira um þig áður en ég hleypi þér inn.  Kannski fæ ég að vita eitthvað um allt þetta fólk sem nennir að kíkja á síðuna mína, alls staðar að úr heiminum, það væri gaman.  Svona leit t.d. síðasta vika út og ég skil ekkert í þessu...:


Að öðru.  Fyrirlestra tímabilið er hafið hjá mér og það gerir mér gott og ég hef gaman af.  Það er nefnilega þannig að ég tek alla vega jafn mikið með mér heim og þeir sem hlusta, maður rifjar upp og endurstillir sig.  Það koma alltaf skorpur í upphafi árs og á haustin, svipað og í líkamsræktarstöðvarnar.  Fólk þarf smá spark í rassinn og hvatningu til að koma sér af stað.  Nú erum við tvö í teymi, ég og Vignir járnkarl, það er miklu skemmtilegra og við erum að fá fína umsögn.  En alla vega, sjáumst næst hinu megin og þið hin, bless, bless og takk fyrir mig :)

30. jan. 2011

Skíðaferð

Ég var mjög mikið á skíðum sem krakki og unglingur en svo óx ég upp úr græjunum mínum og fór að snúa mér að öðru, misgáfulegu...  Eftir að ég fullorðnaðist hef ég oft hugsað að það væri nú gaman að skella sér aftur á skíði en hlaupin (já og hjólið og sundið...) hafa einhvern veginn tekið allan okkar frítíma þannig að ekkert hefur orðið úr því.  Þórólfur hefur aldrei farið á skíði þannig að þetta var ekkert sem hann langaði eitthvað sérstaklega til að gera.  

En alla vega, í haust í míní tilvistarkreppunni minni, þá var þetta eitthvað sem ég hugsaði heilmikið um og þá á þeim nótum að fara á skíði var það skemmtilegasta sem ég gerði sem krakki en ég hafði ekki ennþá drullast við að bjóða börnunum mínum uppá það!  Fyrir nokkrum vikum kom svo póstur frá starfsmannafélaginu hjá mér þar sem blásið var til skíðaferðar til Akureyrar.  Tilboð á lyftupössum og kennslu, afslættir á veitingastaði og ég veit ekki hvað og hvað.  Orri bróðir bauð okkur húsið sitt med det samme en hann var með plön um að vera í bænum þessa helgi.  Þórólfur var svona mátulega spenntur en krakkarnir voru næstum búnir að pissa í sig af spenningi og c'est la vie, þrír á móti einum og málið var dautt.  Skráði okkur og þar með var teningunum kastað.  

Þegar nær dró var útlit með verður og skíðafæri ekkert svakalega gott.  Fjölskyldufundur og það var afráðið að fara í ferðina og láta bara ráðast hvort við kæmumst á skíði, við fyndum þá bara upp á einhverju öðru skemmtilegu í staðinn.  Við lögðum í hann e.h. á föstudaginn og ferðin gekk vel að Öxnadalsheiði en þar lentum við í svakalegum snjóstormi og rétt svo sáum á milli stika.  Við erum algjörir kjúklingar í svona aðstæðum og vorum þvílíkt fegin að komast út úr óveðrinu og í bæinn.  Eftir að hafa hent dótinu okkar inn til Orra drifum við okkur beint upp í fjall að kanna aðstæður og þar var 'after ski' stemmning á vegum starfsmannafélagsins.  Trúbador, kakó, Stroh, kleinur og snakk, hrikalega kósí hjá þeim.  Mér datt í huga að tékka á skíðaleigunni þarna um kvöldið og það var lukkuspor, frábær starfsmaður í leigunni fann til allar græjur handa okkur og stillti upp í röð og reglu þannig að allt var ready þegar við mættum morguninn eftir.  

Skríktum af gleði þegar kom í ljós að fjallið var opið og drifum okkur af stað.  Við vorum búin að skrá krakkana í skíðaskóla frá 10 - 12 og þau fóru með sínum kennurum en ég tók Þórólf í smá kennslu á undirstöðuatriðunum og leyfði honum svo að æfa sig í friði.  Dreif mig í stærri brekkurnar og náði einni ferð í stólalyftunni, frábært færi og þvílíkt gaman.  Sveif niður brekkurnar.  Eftir klukkutíma fékk ég símtal frá skíðaskólanum en þá var Lilja orðin þreytt og ég brunaði til hennar.  Ég veit að það er alveg lykilatriði að hætta ekki þegar mórallinn er svoleiðis, náði að snúa skottinu og koma henni í góðan gír aftur og við skíðuðum saman í annan klukkutíma og mín söng og trallaði allan tímann.  

Gabríel hvarf á eftir sínum kennara og alveg brilleraði, var út um allt fjall eins og ekkert væri.  Það var svo gaman hjá honum að hann vildi endilega halda áfram eftir hádegi og það var náttúrulega sjálfsagt.  Því miður þá versnaði veðrið e.h. og um hálf tvö lokaði fjallið.  Þá var okkar maður upp á toppi og það þurfti að flytja krakkana niður í hollum á snjósleða, þvílíkt spennandi allt saman.  

Við renndum við hjá Orra og náðum í sunddótið okkar og skelltum okkur í sund og létum líða úr okkur í heitu pottunum og krakkarnir fengu að sprella.  Heim og smá blundur hjá okkur gamla fólkinu og svo var það bæjarferð og kvöldmatur á Bautanum.  Kósíkvöld, popp, nammi og bíó og það var alsæl fjölskylda sem rotaðist í Orra húsi seint og síðar meir á laugardagskvöldið.

Svo var þvílíkt spennandi að sjá hvort við kæmumst aftur á skíði í dag en því miður setti veðrið strik í reikninginn.  Þá var bara að halda heim á leið í rólegheitunum og Öxnadalsheiðin var alveg jafn skelfileg og á föstudaginn, fjúff.  Krakkarnir sváfu langleiðina heim svo þetta var ósköp þægilegt og svo enduðum við ferðalagið á að skella okkur í sund í Mosó.  Topp helgi sem við eigum aldrei eftir að gleyma!









26. jan. 2011

Hjá Tomma tannlækni

Mamma, þegar við förum til Tomma tannlæknis ætla ég að knúsa hann! Lilja var svo spennt að fara í fyrsta sinn til tannlæknis, gat ekki beðið. Hún fór í heimsókn til hans fyrir jól en þá átti Gabríel tíma í skoðun og hún fékk að fylgjast með en nú var komið að henni. Við vissum að hann þyrfti aðeins að krukka í hana vegna þess að hún er með klofna tönn, svokallaða tvíburatönn, sem er ekki nokkur leið að bursta almennilega. Á leiðinni til Tomma fann Lilja fallega skel frá Rauðasandi í bílnum og hún vildi endilega gefa honum skelina.

Um leið og hann kallaði á okkur stöllur, stökk mín af stað og upp um hálsinn á honum (n.b. hún hefur bara einu sinni séð hann áður...). Tommi vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið en varð voða glaður, vísaði henni til sætis og sýndi henni allt dótið sitt. Hún fékk að prófa borana, sem hann kallar reyndar bursta, sprauta vatni og lofti. Þegar hún var komin í stólinn kvartaði hún yfir björtu ljósinu og fékk rosa flott sólgleraugu. Svo byrjað Tommi að hreinsa, bora pínulítið og skola. Lilja sagði einu sinni eða tvisvar að hún fyndi aðeins til en um leið og hann skolaði tennurnar fór hún að skellihlægja. Að lokum fyllti hann alveg upp í sprunguna í tönninni svo nú er ekkert því til fyrirstöðu að halda tönnunum hennar heilum og fínum.

Lilja fékk að velja sér tvenn verðlaun af því hún var svo rosalega dugleg og svo stökk hún aftur upp um hálsinn á Tomma, sem varð ennþá meira hissa og sagðist nú ekki vera vanur svona meðförum, hvað þá eftir að hafa borað... :)

Lilja borðar ekki nammi, segir hún sjálf og það er svo sem alveg rétt. Hún tínir allt nammi sem verður á vegi hennar í burtu og hendir í ruslið, t.d. á trúða ís og skúffukökum en það er eitt sem ekki er talið með sem nammi í hennar heimi, það er súkkulaði. Ótrúlega skýr þessi stelpa sem ég á, enda er súkkulaði grænmeti eins og allir vita!
Posted by Picasa

23. jan. 2011

Sunnudags sæla

Sérstaklega góður dagur í dag, svei mér þá.  Við hjónin sváfum út (barnlaus) og skriðum fram úr rétt fyrir tíu.  Þá skelltum við okkur í hlaupagallann og ákváðum að fara styttra en lengra :).  Með ferskt loft í lungunum og gleði í hjartanu fórum við að sækja litlu prinsessuna til ömmu og afa í Norðurbrún, tókum með okkur bakkelsi og buðum okkur í brunch. 

 Mett og sæl héldum við í Smáralindina en ég átti þangað erindi með skó sem ég hafði keypt fyrir jólin.  Ég hafði farið einu sinni í þá og ætlaði að nota þá í útskriftarveislunum sem við fórum í um helgina.  Þegar ég kippi þeim fram úr skápnum þá sé ég að verðmiðinn er ennþá undir öðrum skónum og fer að skoða þá betur, sé þá að það vantar hælplötuna undir hinn!  Ég hefði nú alla jafna farið bara til skósmiðs en fja... hafi það, ég var búin að nota þá einu sinni...   Fór með þá í búðina og var vel tekið, buðu aðra skó eða viðgerð og ég valdi seinni kostinn enda alsæl með þá.  Flott hjá þeim í Bata.

Endurheimtum hann Gabríel okkar úr körfuboltaferð en hann var í Stykkishólmi alla helgina að spila með 8. flokki (eldri strákum, hann er í 7. flokki) í Íslandsmeistaramótinu.  Hvernig gekk?  Rosalega vel en við töpuðum öllum.  Var alveg glöð inn að hjartarótum að það geti verið svoleiðis.  Hefur greinilega verið rosalega skemmtilegt hjá strákunum og það skiptir öllu máli. 

Kíktum á hann afa Þór sem er búin að standa í ströngu.  Hann fór í stóra skurðaðgerð á fimmtudaginn en hann var með ósæðargúlp sem þurfti að fjarlægja.  Hann var nú bara ansi brattur, aðgerðin gekk framar vonum og hann er komin af gjörgæslu.  

Nú voru allir orðnir frekar lúnir og þá er ekkert betra en að skella sér í sund, taka nokkrar ferðir í stóru rennibrautinni og slaka svo á í pottinum.  Heim í boozt og spínatpizzur, skottið komið í ból og Gabríel lærir fyrir morgundaginn.  Allt gott í heiminum, eins gott að taka eftir því og þakka.

21. jan. 2011

Södd á Ofviðri

Í tilefni þess að ég á stórafmæli á árinu, þá gaf VÍS mér tvo miða á Ofviðrið.  Við hjónin skelltum okkur í leikhúsið á þriðjudaginn og ávkáðum að fá okkur smá snarl á Tapas barnum áður.  Við höfðum fengið tvo fyrir einn með Mogganum um daginn og vorum þess vegna þvílíkt að græða!  

Við vorum svona frekar sein í því en samt komin eitthvað um 18:30 á staðinn.  Það kom í ljós að tilboðið gilti bara fyrir ákveðna matseðla og við vorum alveg til í það, pöntuðum Óvissuferð, sem hjómaði voða spennandi.  Og svo byrjað maturinn að koma...  Fyrst voru það fjórir réttir, allt mjög gott og við vorum eiginlega sammála um að við værum vel mett eftir það.  Nei, þá kom næsti réttur, stór kjötréttur og við bara dæstum, nörtuðum aðeins og nú var líka að styttast í sýningu.  'Hvað eru margir rétti eftir?'  Þrír!  'Getum við fengið þá alla í einu og helst í gær....'.  Úff endaði með að við nörtuðum á harðakani í tvo aðra rétti og grétum afgangana.  Fengum svo súkkulaðikökuna sem var í desest með okkur heim.  Nú voru 20 mínútur í sýningu og eins gott að vera í góðu formi, hlupum út í bíl, brunuðum í leikhúsið og komum skransandi inn svona 5 mínútur í sýningu með mat út um eyrun.  Ekki alveg samkvæmt plani.   Svo fyndið að eftir á skildum við ekkert í því að við hefðum ekki bara pantað sitt hvorn smáréttinn eins og við ætluðum í upphafi, en þá var maður bara orðin fastur í hugsuninni um að nota tilboðsmiðann :).

Sýningin var með því flottara sem ég hef séð í leikhúsi, sviðsmynd og búningar alveg ótrúlega glæsileg.  Leikararnir stóðu sig vel og mér fannst gaman að þekkja söguna, las hana í Enskunni í HÍ í gamla daga.  Frábært date kvöld hjá okkur hjónum en ég var ekki orðin svöng fyrr en í kaffinu daginn eftir, ég meina það.  Nú er planið að endurtaka leikinn á Tapas (ekki alveg strax samt), helst með góðum vinum (anyone?) og gefa okkur svona tvo til þrjá tíma í ævintýrið!

p.s. Í janúrartiltektargleðinni fór ég hamförum í tiltekt á stillingum í Facebook en ég var ekkert búin að skoða þessa fídusa áður.  Ekki fór betur en svo að í staðinn fyrir að eyða út einhverjum vinalistum sem ég var að breyta þá sýnist mér ég hafa eytt út einhverjum tugum FB vina...  Ég er ekki búin að hafa tíma í að rannsaka hvaða einstaklingar lentu í ruslinu hjá mér en mun við tækifæri senda vinabeiðnir aftur.  Ef þið takið eftir að þið eruð dottin út (eða ég þá hjá ykkur) þá endilega sparið mér rannsóknarvinnu og sendið á mig vinabeiðni  :)

18. jan. 2011

Góður pistill

Ég var ánægð með bakþankana í Fréttablaðinu í dag.  Mér blöskrar nefnilega líka ómálefnaleg umræða um málefni staðgöngumæðra.  Ég get alveg séð báðar hliðar málsins án þess að reyna mikið á mig og sýnt hvoru tveggja skilning á einhvern hátt.  

Það veit sá sem allt veit að ég skil ósköp vel að maður er tilbúin að gera ýmislegt til að eignast barn og jafnvel ganga í gegnum hitt og þetta.  Ég sé fyrir mér að undir ákveðnum kringumstæðum gæti ég hugsað mér að ganga með barn fyrir einhvern sem mér þætti óendanlega vænt um.  Ekki það að ég sé neinn draumakandídat... :)  Eins gæti ég séð fyrir mér hversu ótrúlega stór gjöf það er að fá gera eitthvað þessu líkt fyrir einhvern sem maður elskar.

En ég get líka séð heilmikla samsvörun í því að selja notkun á líkama sínum (og jafnvel eggjum) við annars konar sölu á líkamanum í öðrum tilgangi.  Það að ganga með barn er allt of persónuleg reynsla fyrir mig alla vega, til þess að ég gæti hugsað mér að gera það fyrir peninga og einhvern sem ég þekki ekki, frekar en annars konar sala á líkama mínum.  Staðreyndin að staðgöngumæðra iðnaðurinn er í Indlandi en ekki á Íslandi er enginn ráðgáta.  Konur sem hafa val og tækifæri í lífinu á við okkur eru ekki að velja sér þetta 'starf', þannig er það nú bara.  Og þá má alla vega huga að því hvort verið sé að nýta sér neyð annarra, velta því fyrir sér.  Setja sig í þau spor o.s.frv.

Þetta er alla vega alls ekkert einfalt og dónalegar úthrópanir um persónu þess sem hefur skoðanir með eða á móti eru til háborinnar skammar.

17. jan. 2011

Útsölur og uppsölur

Kósí dagur hjá okkur hjónum í gær.  Byrjuðum á að fara saman út að skokka og áttum fótum okkar fjör að launa, glerhált og við vorum frekar spaugileg á svellinu.  Gáfumst nú samt ekkert upp og renndum okkur eina 10 km áður en við komum okkur heim aftur. 

Við fengum vegleg gjafakort í Kringluna í jólagjöf og datt það snilldarráð í hug að planta börnunum í bíó og á meðan gætum við spókað okkur og kíkt á útsölurnar.  Stóra barnið okkar plataði svo ömmu sína með líka.  Vel heppnuð ferð hjá okkurog ég fann fínan kjól, töff buxur, bol og skyrtu, allt á spottprís en samt almennilegar flíkur.  Ég er löngu hætt að kaupa drasl á útsölum.  Eftir vel heppnaða verslunarferð höfðum við meira að segja tíma til að setjast aðeins niður á kaffihús og fá okkur smá snarl og ljúffengan kaffi latté, mmmm... Ljúft.

Gabríel stóð sig frábærlega í jólaprófunum og fékk einkunnirnar sínar fyrir helgi.  Við slógum upp pizzuveislu í verðlaun og hann bauð ömmu og öfum til okkar í kvöldmat.  Eitthvað var nú litla skottið okkar í óstuði, langaði ekkert í pizzur og vildi bara kúra upp í sófa.  Þegar gestirnir voru farnir kom líka í ljós að hún var búin að næla sér í KRÖFTUGA gubbupest og við eyddum restinni af kvöldinu í að skipta um á öllu tvisvar, skúra og setja í vélar.  Sem betur fer var nóttin nokkuð róleg, ein gusa en þá var stelpan orðin þjálfuð í að hitta í fötuna svo það var lítið mál.  Morgunin hefur verið rólegur og hún er búin að drekka vel og narta í ristað brauð án þess að skila því aftur.  'Mamma, nú liggur aftur vel á mér og ég er alveg hætt að gubba!'.  Krossa puttana að hún hafi rétt fyrir sér :)

15. jan. 2011

Tabata og svamlandi kjúklingavængir...

Prófaði nýtt í dag, fór í Tabata tíma í bítið.  Þetta var alveg eitthvað fyrir mig, hörku keyrsla og styrktaræfingar sem maður er ekki nógu duglegur að gera sjálfur.  Skemmti mér konunglega og mæti örugglega aftur.  Ætla nú samt að taka góðan hlaupatúr í fyrramálið áður en ég breytist í algjöran aumingja og innipúka :)

Við fórum í brunch hjá hlaupahópnum okkar í dag, frábært að hitta hópinn og nei nei... ekkert mikið samviskubit yfir að hafa ekki hlaupið þessa 30 km sem voru á dagskrá í morgun.  Naut þess alveg jafn vel að borða eðal súpu með nýbökuðu brauði og í desert var alveg frábær döðlukaka með karamellusósu og rjóma.  Eins gott að það er laugardagur.   

Ég datt í hagsýnu húsmóðurina fyrir nokkru og keypti kjúklingavængi á tilboði í Krónunni.  Í dag googlaði ég svo eftir hugmyndum um eldamennskuna og fann akkúrat það sem ég var að leita að: Svamlandi kjúklingavængir í hnetusósu!  Google er náttúrulega bara snilld :)

13. jan. 2011

Líkami og sál

Já nú er gamla konan glöð, var jafn ánægð með tímann minn í gær eins og ég var svekkt á mánudaginn.  Hentaði mér fullkomlega!  Vorum í heita salnum þannig að þetta var með Hot Jóga ívafi en í staðinn fyrir stöppuna á mánudaginn vorum við kannski svona 12 í salnum og bara konur, jeiii...   Mjög ánægð með kennarann.  Hún var jákvæð og skemmtileg, spilaði góða tónlist með æfingunum og leiðbeindi okkur í stöðunum og við æfingarnar.  Nú hlakka ég til að mæta aftur og finn fyrir nýjum og ferkum harðsperrum hér og þar.  Læfs gúdd.

12. jan. 2011

Fordómar

Ég var með fordóma gagnvart Hot Jóga.  Fyrir mér hljómaði Hot Jóga álíka spennandi og sjósund, mig langar ekkert til að prófa.  Ímyndaði mér illa sveitta stinkandi kroppa í misjöfnu ástandi eins sardínur í dós...  Samt er fullt af fólki að fíla þetta og nú í uppbyggingar fasanum hjá mér ákvað ég að sigrast á eigin fordómum og prófa, samt ekki alveg án þess að hafa vaðið fyrir neðan mig.  Ég fékk að prófa lokaðan tíma á 6 vikna námskeiði í Hreyfingu og var þá búin að sjá fyrir mér nóg pláss þannig að eingin kæmist inn í mitt 'personal space'.  

Skemmst frá því að segja að þessi tími uppfyllti allar mínar væntingar, því miður.  Inn í pínulitlum sal var búið að stappa inn hátt í 40 manns og það voru ca. 5 cm á milli dýnanna.  Í hópnum var fólk í mjög slæmu líkamlegu ástandi sem dæsti og kvartaði allan tímann, bæði yfir hita!!! og að þurfa að gera æfingarnar.  Einn bað um talíu, það var smá fyndið.  Ekki séns að einn leiðbeinandi geti sinnt öllum þessum fjölda og það byrjendum.  Úff hvað ég var fegin að komast út.  Ég er núna búin að skrá mig á annað námskeið sem er með fjöldatakmörkum og heitir Líkami og sál, en það er svokallað Body Balance/Body Vive æfingakerfi.  Hljómar alla vega mjög vel og ég hef heyrt mjög vel af því látið fyrir þá sem þurfa að styrkja bak og core vöðva.

Sjósund...  nei ég held ekki.  Alla vega ekki nema ég fái mér 15 til 20 kg einangrun.  Finnst engin tilhugsun hræðilegri en að skjálfa af kulda einhvers staðar, blaut í bikiní!  Það hjálpar ekki að hugsa til þess að manni verði einhvern tíma aftur hlýtt.

Annars gladdi sonur minn mig óendanlega í gær.  Hann kom heim frá ömmu sinni og afa í Norðurbrún, brosandi hringinn en hann hafði fundið í einhverju dóti, gamla Nike Air körfuboltaskó frá mér sem honum fannst alveg SJÚKLEGA FLOTTIR!  Ég keypti þessa skó fyrir 15-20 árum síðan í USA, var nú ekki mikið í körfunni en fannst þeir töff.  Notaði þá eitthvað pínulítið og einhverra hluta vegna hafa þeir sloppið við allar Sorpuferðirnar hjá þeim gömlu.  'Mamma, mamma, má ég eiga þá, PLÍS!'.  Nú bíður hann eftir því að fæturnir stækki svo hann þurfi ekki að vera í 4 pörum af sokkum til að nota þá. 

7. jan. 2011

Fann selinn í mér aftur

Þurfti á öllum mínum sjálfsaga að halda í gærkvöldi til að drullast á fyrstu sundæfinguna í margar vikur.  Einhvern veginn datt ég úr rythmanum mínum í byrjun desember og að heyra gnauðið í vindinum er ekki að hjálpa til, brrr...  Það síðasta sem mig langar til að gera á svona vetrarkvöldum er að vera skjálfandi í blautum sundbol á bakkanum.  

En alla vega þá var nóg komið í gær og það var ekki um annað að ræða en duga.  Ég lagði af stað með það í huga að synda ca. 1000 m og svo ætlaði ég bara að læðast upp úr, byrja rólega.   Eftir 200 m var ég sprungin, fór allt of hratt af stað og var móð og másandi.  Drillurnar sem ég get venjulega gert án nokkurra vandræða voru allt í einu algjört púl og það var ekki beint hægt að nota orðið 'sprettir' yfir það sem ég var að gera þarna á tímabili.  En svo þegar ég nálgaðist þúsundið þá fór ég að finna mig í lauginni, öndunin komst í lag, fór að renna betur og ná góðri spyrnu.  Tek 200 í viðbót og svo kannski næstu 300, er nú farin að nálgast 2000 m best að klára það og fara svo...   

Endaði með að klára alla æfinguna og hún gerði samtals 2800 m, var ekki lítið ánægð með mig og leið betur með hverri ferðinni.  Enn einu sinni þarf maður að læra að það er alltaf ótrúlega gaman þegar maður er komin af stað!

4. jan. 2011

Stóra stelpan okkar

Lilja okkar varð fjögurra ára í gær.  Frábær dagur en við tókum okkur öll frí í tilefni dagsins og nutum þess að vera saman, bannað að fara í tölvur!  Við byrjuðum daginn á mini-afmælisveislu, ég bakaði lummur og Þórólfur skottaðist út í bakarí og náði í skúffukökubita til að setja kertin á.  Svo sungum við fyrir Liljuna okkar en alvöru afmælisveislan verður ekki fyrr en á laugardaginn næsta.  Við fórum líka í Kringluna á kaffihús og svo enduðum við í snarli á American Style um kvöldið.  Það var nefnilega þannig að fyrir fjórum árum þegar ég var aðeins farin að finna fyrir samdráttum, bauð ég strákunum mínum þangað í kvöldmat.  Tæpum fjórum tímum síðar var Lilja komin í heiminn.


Í dag sá ég að það voru komnar nýjar reglur um Laugavegshlaupið.  Mér líst vel á þær.  Þær ættu að tryggja það réttlæti að allir keppendur sitji við sama borð og að sumir fái ekki meiri þjónustu og hjálp en aðrir til að ljúka hlaupinu.  Ég er líka mjög glöð fyrir mig persónulega, þ.e. að minn tími og sigur á Laugaveginum 2008 samræmist þessum nýju reglum fullkomlega.  Það er góð tilfinning.  Maður fer nefnilega ósjálfrátt að hugsa um tíma með og án aðstoðar utanaðkomandi, renna í huganum yfir bestu tímana og tína þá í sinn flokk.  

Sem sagt, hið besta mál og ég leyfi mér að efast stórlega um að þessar reglur hefðu verið settar, ef ekki hefðu skapast heilmiklar umræður á netinu í kjölfar síðasta Laugavegshlaups.  Sá sem startaði umræðunni var að sjálfsögðu sakaður um einhverjar annarlega hvatir og fékk það óþvegið hjá skrílnum. Sem betur fer er bara til fullt af hugrökku fólki sem lætur ekki þagga niður í sér, verði það vitni að óréttlæti.  

Lifi hugrekkið!

2. jan. 2011

Rjúpurnar *****

Nokkru fyrir jól hafði vinkona mín samband við mig og spurði hvort við hefðum áhuga á að fá gefins nokkrar rjúpur fyrir jólin.  Ekkert okkar hafði áður smakkað rjúpur en við vorum sko meira en til í að prófa og þökkuðum kærlega gott boð.  Í gær var svo stóra stundin, frumraun í að elda og borða rjúpur, á vel við að byrja nýtt ár á nýjungum.

Ég fékk góð ráð frá þessari vinkonu minni, var svo búin að klippa út uppskrift úr einhverju blaðinu fyrir jólin og svo goolaði ég líka til að fá aðeins innsýn inní rjúpumatreiðsluna.  Ég var með nóg af meðlæti (til vonar og vara :), æðislega góða sætkartöflumús og Waldorf salat, ásamt rauðkáli og baunum.  Ég pikkaði það sem mér fannst skynsamlegast og auðveldast úr öllum uppskriftunum og útkoman var að ég skar bringurnar frá og eldaði þær sér og beinlausar.  Ég léttsteikti fóarn, hjörtu, læri og bein og lét svo malla í soð í rúman klukkutíma ásamt dassi af fersku timian.  Ég kryddaði með ferkum pipar og maldon salti, léttsteikti svo bringurnar í smöri og olíu til helminga og sauð svo í potti í 45 mínútur.  

Í forrétt höfðum við anda- og hreindýrapaté með sultuðum rauðlauk og ýmsu öðru gúmmelaði.  Eftir forréttinn fórum við hjónin í að græja sósuna en okkur hafði verið sagt að það væri aðalmálið við máltíðina.  Ég síaði soðið og nú hófst tilsmakk og tilraunastarfsemi...  Að lokum vorum við komin með ótrúlega góða sósu en í hana fór gráðostur, sólberjasulta, rauðvín (sterk innkoma hjá Þórólfi) og svo að sjálfsögðu góður slurkur af rjóma, kryddað til með salti og pipar.

Við vorum með 10 bringur og Gabríel sporðrenndi fjórum eins og ekkert væri, við hjónin fengum 2 1/2 á mann (Lilja vildi bara skyr með berjum í kvöldmat) og svo geymdum við eina bringu í smakk fyrir mömmu og pabba sem komu til okkar með desert eftir matinn, Ris á la mande.  Við vorum alveg alsæl með þetta og kolféllum fyrir rjúpunni!   Pabbi sem var vanur að fá rjúpur sem krakki og var ekkert sértaklega hrifin í minningunni, dásamaði þetta í bak og fyrir hjá okkur, hafði aldrei fengið eins góðar rjúpur og mamma var mjög hrifin líka.

Nú þarf ég bara að græja kallinn upp í veiðimennsku, yeah right!  Ætli við verðum ekki bara að treysta á lukkuna í framtíðinni, hún hefur reynst okkur vel hingað til :)