22. des. 2011

3000 m test #2

Já nú er gaman í hlaupalífinu, er á fljúgandi fart og nýt þess að góðar bætingar detta inn án þess að þurfa að hafa svo svakalega mikið fyrir því.  Alveg á hreinu að það er eitthvað til sem heitir vöðvaminni og ég er á fullu að rifja upp.  

Fyrir þremur vikum tókum við 3000 m test í Höllinni og þá hljóp ég á 11:33.  Hlaupið var mér frekar auðvelt og ég átti nóg inni til að spretta síðasta hringinn, þannig að ég vissi að ég ætti að geta betur.  Í gær var svo næsta 3000 m test og ég stefndi á að hlaupa á 3:45 pace eða á 11:15.  Í þetta sinn var hlaupið passlega krefjandi og ég hljóp það mjög jafnt.  Endaði á 11:17 og var þá að bæta mig um 16 sek frá því síðast (fyrir ekki hlaupara þá er það bara feit bæting í svona stuttri vegalengd :).  Ég er orðin svaka spennt fyrir Gamlárshlaupið, vona að það verði góð færð og maður fái tækifæri til að sjá hvað í manni býr.  

Fyrir utan að hafa verið dugleg að æfa þá upplifði ég það í fyrsta sinn á ævinni að léttast án þess að hafa virkilega fyrir því og það hjálpar líka í hlaupunum.  6. október var ég 66 kíló en í dag er ég 63 (búin að vera það í tvær vikur annars er það ekki að marka!).  Eina 'drastíska' breytingin sem ég gerði á þessum tíma var að skipta út Special K yfir í gamla góða hafragrautinn minn á morgnana eins og ég tala um hérna.  Ætli maður sé loksins að fatta þetta með matinn alla leið?


16. des. 2011

Prjónahornið

Jæja þá er ég búin að afreka að prjóna fyrstu flíkina á hana Sonju mína.  Ég átti heilmikið prjónadót frá henni Lilju og svo er mamma náttúrulega bara eins og prjónamaskína á sterum :)


Er svo ánægð með þennan galla, hann er úr Færeyskri ull sem ég rékk í Rúmfatalagernum og nú er ég að gera húfu í stíl.


Sagði mömmu að mig langaði í hettupeysu á skottið, nokkrum dögum seinna var komin hettupeysa, vettlingar og sokkar í stíl.


Í mesta frostinu hef ég pakkað henni Sonju inní lopapeysu af sjálfri mér...  Það var náttúrulega ekki alveg nógu gott fyrir litlu prinsessuna.   Mamma hannaði lopapoka í einum grænum, prjónað í hálf patent, þvílík snilld! 

13. des. 2011

Fimmti þáttur - A different way of looking at goals

Held að þetta sé uppáhaldsþátturinn minn hingað til.  Ég er nefnilega afskaplega óSMART.  Ég hef alveg reynt að gera þetta eftir (sjálfshjálpar-) bókinni en einhvern veginn þá endist ég ekki við það.  En það er samt alls ekki þannig að ég viti ekki hvað ég vil.  Ég held bara að ég viti það svo vel að ég þarf ekki að skrifa það niður til að ná mínum markmiðum.  Já einmitt, ég er mjög meðvituð (aware) um hver ég er, hvar ég er stödd og hvert ég stefni.  Einu markmiðin sem eru niðurskrifuð eru sennilega þyngdarmarkmiðin mín og ég er með ritara sem sér um þau skrif ;)   Já og fyrir utan að þau eru ekki beint samkvæmt formúlinni þar sem ég er ekki að reyna að ná einhverju markmiði heldur að viðhalda árangri, en jú getur sennilega samt sem áður flokkast nokkuð SMART.

Mér fannst mjög áhugavert að heyra hvernig Bevan lýsir því að til að ná ákveðnu markmiði hafi hann ýtt til hliðar öllu öðru, líka því sem var í raun og veru mikilvægara en markmiðið.  Ég held nefnilega að ég hafi uppgötvað þetta jafnvægi frekar snemma og áttað mig á því hvað skiptir mig mestu máli hér í lífinu og hef verið nokkuð góð í að forgangsraða.  Ég hef t.d. aldrei litið á hlaupin og árangur þar sem upphaf og endi alheimsins, það er svo ótal margt annað sem er mér mikilvægara.  Ég hef samt mjög gaman af því að sjá hversu langt ég get náð miðað við þann tíma sem ég get hugsað mér að nýta í þetta hobbý, því já á endanum er þetta einungis hobbý ekkert meira eða minna en það.  

Mikilvægasta verkefnið mitt er að hugsa vel um sjálfa mig.  Í því felst að sofa vel, nærast vel og hreyfa mig.  Ef ég meiðist þá geri ég það sem ég þarf til að ná bata án inngripa.  Já ekki frekar en ég myndi nota svefntöflur eða að fara í megrun eða fitusog...  Ég fæ í magann þegar ég heyri hlaupara tala um að láta sprauta sig eða skera til að flýta fyrir bata sem annars væri hægt að ná með hvíld.  Ég hef enga trú á að það sé gott til langs tíma litið.  En alla vega, ef að ég er í góðu lagi þá get ég verið til staðar fyrir fólkið mitt sem er mér mikilvægara en nokkuð annað, miklu mikilvægara en að ná einhverjum markmiðum í íþróttum, vinnu eða veraldlegum gæðum.  

Jú, jú, ég læt mig oft dreyma um að gera hitt og þetta sem ekki passar inn í lífið mitt núna.  Sennilega mest um IronMan og Ultrahlaup í útlöndum, jú og hjólreiðaferðir um Toskana...  Ef ég virkilega vildi, þá gæti ég gert eitthvað eða allt af þessu, það veit sá sem allt veit að ég hef stuðninginn.  Mig langar bara miklu meira að vera hjá mínum og ég skil það í hverri einustu frumu að það er það mikilvægasta fyrir mig núna.  Svo er líka svo dásamlegt að láta sig hlakka til ævintýranna sem tilheyra öðrum stigum lífsins, þegar ungarnir er flognir úr hreiðrinu.  Það er alveg á hreinu að við gömlu hjónin munum ekki láta okkur leiðast!

En það merkilega við þetta allt saman er að ef maður er með forgangsröðunina á hreinu þá er ótrúlegt hvaða árangri maður getur náð á öllum sviðum, ég myndi segja betri árangri en ef einblínt er á einhvern einn þátt.  Eða þannig upplifi ég það.  







Powerade #3 - 2011

Þriðja Powerade hlaupið fór fram á fimmtudagskvöldið.  Ég var í fínu stuði fyrir hlaupið, hlakkaði bara til.  Veðrið hafði skánað, ekki eins svakalega kalt en í staðinn fengum við verra færi á hluta leiðarinnar.  Það var snjór á allri brautinni og maður fann strax á fyrsta km að þetta yrði heilmikið púl, spólandi í snjónum.

Ég fór skynsamlega af stað og á öðrum km fór ég að renna fram úr fólki. Eftir 3 km sá ég í skottið á henni Sibbu, æfingafélaga mínum og ég reyndi að negla mig á hælana á henni eins lengi og ég gat.  Yfirleitt finnst mér auðvelt að rúlla niður brekkurnar en í snjónum þá hleypur maður öðruvísi og er stífari, alltaf að passa að renna ekki til.  Eftir 7 km dróst ég aftur úr og varð bara að einbeita mér að klára sómasamlega og láta engan ná mér.

Eftir stokkinn kom versti hluti hlaupsins, blautt og hált, spól alla leið upp fyrir Rafstöðvarbrekku.  Þvílíkur léttir að komast upp á stíg og maður var alsæll að trítla restina í snjónum, alla vega flatt og ekki eins blautt.  Tíminn 44:27 sem var bara ágætt miðað við aðstæður.  Ég var á undan nokkrum sem tóku mig í síðasta hlaupi og er búin að minnka bilið töluvert á þá sem eru á undan mér.  Ég var þriðja kona í mark í heildina og nú er þetta farið að vera spennandi í stigakeppninni.  Við Þórólfur erum komin í forystu í parakeppninni, ég er í öðru sæti í aldursflokki, einu stigi á eftir fyrstu og nú er ég komin í fjórða sæti í heildina.

Var alveg svakalega þreytt eftir þetta hlaup, hvíldi á föstudaginn en var lúin alla helgina.  Þá fór ég smá hring niðrí bæ og í kringum Tjörnina, skít kalt úti og rok, var svooo fegin að komast heim aftur.  Á sunnudaginn var svo hefðbundið hjónahlaup, fórum rúma 17 km og það var sama sagan, þreyta í kroppnum og gott að komast heim.     Í gær var sprettæfing í Höllinni og þá fann ég að ég var alveg búin að ná mér, gekk mjög vel.  Næst á dagskrá er svo Gamlárshlaupið, mikið væri ég til í bongó blíðu og auða braut, takk fyrir!

7. des. 2011

Fjórði þáttur - Black and White Rules

Ég á kannski ekkert að vera hissa hvað ég kannast við allt sem hann Bevan vinur minn talar um.  Ég er jú búin að ná árangri í þyngdarstjórnun og heilbrigðu líferni og eyða svipað löngum tíma og hann (talar um 13-14 ár) í að finna út hvað virkar og hvað ekki.

Ég á mér ótal margar svart/hvítar reglur, bæði varðandi heilsu og matarræði.  Ég hef bætt við reglum sem henta mér en ég hef líka hent þeim út í gegnum árin.  Fyrstu reglurnar sem ég setti mér voru varðandi reykingar og gosdrykkju fyrir 14 árum og enn þann dag í dag læt ég hvoru tveggja alveg eiga sig.  Það er ekkert erfitt, hugsa aldrei um þetta.  Í gegnum árin bættust fleiri reglur við eins og td. skyndibiti, djúpsteiktur matur, kartöfluflögur og sælgæti (annað en súkkulaði n.b. :).   Ekkert af þessu freistar mín nokkurn tímann, það er eins og þetta sé ekki til í mínum heimi.  Ég er líka með reglu um að borða 5 - 6 sinnum á dag, alltaf og reglur varðandi skammtastærðir.  Ég hreyfi mig 5-6 sinnum í viku og þannig er það bara.

Í nokkur ár hætti ég alveg að borða smjör eða annað viðbit á brauð.  Það var á tímabilinu sem ég var fitufælin út í öfgar, borðaði t.d. ekki hnetur og annað hollt, ef það var feitt.  Þegar ég var ólétt af Lilju þá bætti ég viðbiti aftur inn og hef ekkert tekið það út aftur.  Eins þegar ég lærði hvað það skiptir okkur miklu máli að borða passlega mikið af góðri fitu, þá duttu hnetur og fræ og annað inn aftur, nammi namm.  Það er líka miklu auðveldara að stjórna þyngdinni ef maður borðar passlega mikið af fitu, ég er ekki að grínast.

Ég er líka með svart/hvíta reglu sem tekur á því ef ég kýs að brjóta svart/hvíta reglu eins og t.d. kökuregluna.  Ég fæ mér oft kökusneið eða eitthvað sambærilegt um helgar en sleppi kökum annars.  Ef ég fengi mér alltaf kökur þegar þær væru í boði (þú, þú ert nú svo grönn, þú mátt nú alveg... döhhh), þá væri það á hverjum degi nánast, alltaf einhver sem á afmæli í vinnunni eða eitthvað í gangi.  En... ef mig langar til að breyta út af og fá mér köku á öðrum degi en laugardegi eða sunnudegi, þá er það svart/hvít regla að ég tek aukaæfingu á móti.  Málið er að þegar maður er að æfa eins mikið og ég, þá er ekkert sjálfsagt að taka aukaæfingar þannig að ég hugsa mig vel um áður en ég ákveð mig.  Nenni ég að hlaupa auka hring í dag fyrir þessa köku?  Stundum er svarið já, oftast nei, ég er líka frekar kresin á kökur nú til dags.   

Eftir að hafa hlustað á þáttinn og söguna um skyndibitastaðina þá fór ég að hugsa um morgunmatinn minn en ég hef í mörg ár borðað hafragraut og elska grautinn minn.  Þegar ég var ófrísk þá missti ég lystina á grautnum og skipti yfir í Special K og það var allt í góðu.  Eftir að ég átti Sonju þá hélt ég áfram að borða Special K og seldi mér að það væri svo gott fyrir mig að fá mjólkina.  Í raun og veru þá var það sykurinn í Special K sem ég var sólgin í, ekki mjólkin, mig langaði aldrei í mjólk annars.  Ég ákvað, med det samme, að skipta aftur yfir í grautinn minn.

Það sem gerðist í framhaldinu var að ég léttist um tvö kíló á næstu vikum án þess að hafa fyrir því og ég meina það, eina sem ég breytti var að borða graut í staðinn fyrir Special K. Skýringin er sú að ef maður byrjar daginn á sykri þá er maður sólginn í sykur allan daginn og þar sem maturinn minn inniheldur ekki mikinn sykur þá hef ég verið að borða meira í einu.  Sykurinn virkar eins og fíkniefni, að byrja daginn á sykri er eins og fyrir nikótín fíkil/alka að leyfa sér að fá sér eina einustu sígarettu/einn drykk á morgnana.  Þá fer allur dagurinn að snúast um hvenær maður megi fá sér næst og það hefur áhrif á alla þína hegðun.


6. des. 2011

Að nauðga

Ég á þrettán ára strák sem ég elska út fyrir endimörk alheimsins en á laugardagsmorgun fékk ég hnút í magann þegar ég las samræður hans við félaga sinn á Facebook.  Þeir voru nú bara að tala um að taka á því í ræktinni og að metast um hvor væri sterkari.  Þetta var rosalega fyndið, sérstaklega þar sem minn maður er miklu yngri og minni en hinn, en fór mikinn.  Þangað til að ég hnaut heldur betur um eina setninguna.  'Ég nauðga þér í bekkpressu...', í merkingunni ég 'tek þig', 'rústa þér' eða eitthvað í þá áttina.  Sæll, hvaðan kom þetta?  Hann hefur alla vega ekki heyrt þetta heima hjá sér, það er alveg ljóst.  Ég fór út að skokka að venju og hugsaði um hvernig ég gæti sent honum skýr skilaboð um að þessi orðnotkun væri ekki í lagi.  

Áhrifamesta mynd sem ég hef séð um nauðgun er 'The Accused' með Jodie Foster.  Þegar ég kom heim fann ég hana á Skjánum og planaði bíókvöld, eftir að stelpurnar voru farnar í ból, skyldumæting.  Ef maður er nógu gamall til að nota orðið 'nauðgun' þá er maður nógu gamall til að fá að vita hvað það þýðir í raun og veru.  Við horfðum saman á myndina og þegar hún var búin ræddum við hana og svo sagði ég sögu af sjálfri mér,  þegar ég komst virkilega í hann krappann.  

Ég var tvítug Au Pair stelpa í Bandaríkjunum og eins heimskulegt og mér finnst það í dag, þá ákváðum við vinkonurnar eitt sinn að fara með hópi fólks sem við þekktum ekki neitt, í partý eftir djamm.  Við djúsuðum og dönsuðum og létum örugglega eins og fífl.  Allt í einu átta ég mig á að vinkona mín er horfin eitthvað á spjall og ég er ein eftir með fullt af gaurum í stofunni.  Einn þeirra gerist heldur ágengur og þetta er ekkert fyndið lengur.  Ég  bið hann að láta mig í friði og hreyti einhverju í hann.  Áður en ég veit af er hann búin að snúa mig niður á hnén, með hendur fyrir aftan bak og segist ætla að kenna mér að haga mér, voða fyndið og allir hlægjandi...   Það var mér til happs að eigandi íbúðarinnar áttaði sig á því hvað var að gerast og tók í taumana.  Hann rak alla út úr íbúðinni og beindi þeim í annað partý, fann vinkonu mína og hringdi á leigubíl fyrir okkur.  Ég man að ég var skjálfandi á beinunum og dauðskammaðist mín.  Ef það hefði farið verulega illa þá hefði mín saga ekki verið féleg.  Búin að drekka, fór heim með fólki sem ég þekkti ekkert, ég hefði ekki einu sinni getað sagt hvert heimilisfangið var...  Ég sór þess dýran eið að setja mig aldrei aftur í þess konar aðstæður og prísaði mig sæla að hafa sloppið með lexíu fyrir lífið.  Ég skammaðist mín svo fyrir 'minn þátt' í þessari uppákomu að það liðu mörg ár þar til ég sagði nokkrum manni frá þessari óskemmtilegu reynslu.

Við ræddum líka um hvernig það væri fyrir einhvern sem hefði orðið fyrir því ofbeldi sem nauðgun er, að sjá orðið notað svona.  Ég hef líka tekið eftir og man sjálfsagt sjálf eftir því líka, hvað unglings stelpum er tamt að kalla aðrar stelpur 'mellur' og 'hórur', við fórum aðeins yfir það líka.  Konur/stelpur eru dætur, mömmur, systur, vinkonur, frænkur o.s.frv., ekki gleyma því.  Statusinn var strokaður út og ég held að ég hafi náð í gegn með minn boðskap.  Ég vona það alla vega.

4. des. 2011

Secret-að feitt

Fórum í hlaupa-brunch á laugardaginn og skemmtinefndin var með lotterí vegna þess að nokkrir vinningar sem þau höfðu safnað fyrir árshátíðina bárust of seint og gengu þar af leiðandi ekki út.  Við áttum að skrifa númer á miða, strákarnir sér og stelpurnar sér, síðan var dregið og þá þurftu þeir sem unnu að útskýra töluna sína.

Ég fór eitthvað að grínast með að það væri nú engin spurning, ég myndi taka þetta og sagði félögum mínum söguna af því þegar rauðvínslottó-ið í vinnunni var lagt niður eftir að ég hafði unnið 8 sinnum af 12 dráttum, þar af 6 síðustu skiptin í röð.  Eftir það var einhvern veginn enginn stemmning hjá hinum...   Mín kenning var sú að eftir að hafa unnir nokkrum sinnum þá fóru allir að trúa því að ég myndi vinna og það var alveg sama hver var látinn draga úr pottinum, alltaf kom minn miði upp og því oftar sem hann kom upp, því vissari voru allir að ég myndi vinna.  Bullandi Secret vítahringur (þ.e. fyrir hina :þ  )

Ég skrifaði síðan tölu á miðann minn og horfði djúpt í augun á þeim sem sá um að draga, rétt áður en hann dró miðann...  MINN!   Ég fékk flottan bleikan Asics bol í vinning.  En það var ekki nóg, það voru dregnir út 3 aðrir vinningar og það voru þeir þrír aðilar sem voru næst mér sem fengu þá.  Eftir fyrstu tvo þá fórum við að hlægja að þessu, í því röltir ein konan yfir í hópinn til okkar og það er eins og við manninn mælt, hún fékk síðasta vinningin.

Ég valdi töluna 7.  Þórólfur og Gabríel eru fæddir í 7. mánuðinum, ég var 7 mínútur á fæðingardeildinni með Lilju mína og hún er fædd 2007 og svo ég fékk hana Sonju mína í 7. meðgöngunni minni.

30. nóv. 2011

Meiri stelpudagar

 Klárlega besta hugmynd (já og framkvæmd) sem ég hef fengið í seinni tíð.  Ég elska þriðjudaga og tímann minn með henni Lilju minni.  Í síðustu viku fórum við á uppáhalds kaffihúsið hennar Lilju, Kaffitár í Kringlunni með liti og blöð.  Lilja fékk kakó og súkkulaðibitaköku og mamman fékk dýrindis Kaffi Latté.  Á stelpudögum er allt leyfilegt og mamman teiknaði blóm á hendina hennar Lilju.  Við hittum svo mömmu og norska frænku mína sem var í heimsókn, Tine, og hún teiknaði rós á hina hendina.  Já, þetta þarf ekki að vera flókið.  Svo lá leiðin í sundlaugina á Nesinu og Lilja fór margar ferði í rennibrautinni og æfði sig svo í skriðsundi í stóra pottinum.  


Við ætluðum svo öll fjölskyldan að fara niðrí bæ og horfa á þegar kveikt var á Oslóar trénu.  Eitthvað skolaðist tímasetningin til í kollinum á okkur, héldum að þetta byrjaði klukkan fimm en svo kom í ljós þegar við ætluðum að gera okkur klár um fjögur að dagskráin byrjaði einmitt klukkan fjögur.  Þórólfur stakk upp á að við stelpurnar myndur bruna niðrí bæ og sjá hvort við myndum ná að sjá jólasveinana.  Við óskuðum okkur á leiðinni að við myndum finna bílastæði eins og skot og það rættist, keyrði beint inní stæði á besta stað.  Skokkuðum svo að Austurvelli og í því var sagt í hátalarakerfið 'Og nú er komið að barnadagskránni!'.  Þvílíkt gaman hjá okkur, sungum jólalög og dönsuðum með.


Í gær prófuðum við nýtt bakarí sem við höfðum séð á leiðinni í sundið.  Lilja fékk stóra piparköku og mjólk og svo föndruðum við fartölvu (breyttir tímar!).  Til þess notar maður hliðina úr morgunkorns kassa, teiknar upp skjáinn og takkana og klippir út skemmtilegar myndir.  Lilja skrifaði svo stafi og tölur inní kassana, límdi myndir og bjó til sína eigin takka.  Svo lá leiðin í sundið í brunakulda, brrrr...   Tókum góða session í skriðsundi og baksundi áður en við hlupum eins og fætur toguðu í nuddpottinn og slökuðum á.   Mmmmm ég elska þriðjudaga :).


27. nóv. 2011

Þriðji þáttur - Emotional decisions

Þetta efni þekki ég eins og handarbakið á mér og tengi helst við matarræðið.  Ég borðaði of mikið þegar ég var glöð, þegar ég var leið, þegar ég var þreytt, þegar ég var óörugg o.s.frv.  Því miður var bara ein útkoma út úr ofátinu, ég varð bara leið og vonsvikin með sjálfa mig...

Það hefur tekið mig mörg ár að koma mér upp kerfi (war plan) til að skjóta í kaf tilfinningalegt át.  Eftir að ég fór að snúa við blaðinu hjá mér og var komin í nokkuð góðan farveg með matinn þá kom samt reglulega uppá að ég fór verulega út af sporinu.  Í gegnum árin hefur mér nú samt tekist að kortleggja þessa hegðun mína og þegar upp koma aðstæður þar sem ég í hættu, þá er ég tilbúin að bregðast við áður en skaðinn er skeður.

Það er ýmislegt sem getur triggerað þessa hegðun.  T.d. ef ég eyk æfingarálag, ef ég minnka æfingarálag, ef ég sef minna en venjulega, ef ég er leið út af einhverju, ef ég borða annan mat en ég er vön og svo þarf ég alltaf að passa mig sérstaklega eftir erfiðar keppnir, þá hefur ísskápurinn ótrúlega mikið aðdráttarafl!  Til að verjast þá er ég sérstaklega vakandi þegar þessar aðstæður koma upp.  Ég veit fyrirfram að ég er viðkvæm fyrir þeim og er þá búin að undirbúa mig.  Ég passa t.d. að eiga nóg af ávöxtum og litlum gulrótum, ég má borða eins mikið af því og ég get í mig látið.  Eftir heilan poka af litlum gulrótum er æðið runnið af mér og enginn skaði skeður...

Versta ákvörðunin sem ég hef tekið varðandi hlaupin var þegar ég ákvað að hlaupa hálft maraþon í Vorþoninu í fyrra, viku eftir að við Þórólfur misstum í fjórða skiptið.  Ég var eiginlega búin að ákveða innra með mér að þetta væri síðasta tilraunin og það var á árshátíðinni hjá Íslandsbanka vikunni fyrr sem mér fór að blæða.  Ohhh við vorum svo leið.  Ég hafði tekið því mjög rólega í tvo, þrjá mánuði, minnir að afsökunin í það skiptið hafi verið lungnabólga eða eitthvað álíka...   En alla vega í þessu ástandi tók ég þá hræðilega heimskulegu ákvörðun að vera með í Vorþoninu.  Ég blastaði af stað eins og sá svarti væri á hælunum á mér og var gjörsamlega sprungin eftir 5 km.  Ég píndi mig áfram, sem ég er alls ekki vön að gera, en það var skárra að líða illa í kroppnum en í hjartanu.  Síðustu 5 km voru algjört helvíti og ég man þegar einn og einn hlauparinn skreið fram úr mér án þess að ég gæti rönd við reist...   'Er ekki allt í lagi með þig?' 'Ertu meidd eða eitthvað?'.   Ég svaraði náttúrulega kurteisislega, nei, nei allt í lagi með mig á meðan ég fann blóðið leka niður lærin á mér og langaði helst til að öskra...

Ég var algjörlega niðurbrotin eftir hlaupið, leið og vonsvikin.  Ég man að ég var að segja mömmu hvað ég hefði staðið mig illa og hvort það væri ekki bara spurning um að hætta þessu hlauparugli og ég veit ekki hvað, alveg að deyja úr sjálfsvorkunn, aðallega yfir því að einhverjum úti í bæ fannst ég kannski hlaupið á lélegum tíma...  Díhhh, hvað maður getur verið ruglaður.  Mamma horfði bara djúpt í augun á mér og sagði: Eva mín, þú þarft ekki að sanna neitt.  You have achieved!  Ég veit ekki afhverju en þetta náði alveg í gegn og það bráði af mér.  Ég sór þess dýran eið að láta tilfinningalegt ójafnvægi aldrei aftur koma mér í þessar aðstæður.  Mér er líka sérstaklega minnistætt Haustþonið þar sem ég hljóp hálft aftur, hálfu ári síðar eða svo, á sömu brautinni.  Þá hljóp ég bara á gleðinni og mínum hraða, náði forystu þegar 5 km voru eftir og það var aldrei spurning hvernig færi, ég sveif í mark á besta tímanum mínum í hálfu.

Innan við mánuði síðar var ég orðin ólétt af henni Sonju minni.

Þriðji þáttur - Emotional Decisions

Hver er þarna? 
 Já, þetta er ég, æði!!!

Hva, á mar bara hanga hérna...?
Nú fatta ég, geðveikt!!!


24. nóv. 2011

Annar þáttur - Environments

Fór út að skokka í morgun og hlustaði aftur á þátt 2. og 3. til að undirbúa mig fyrir bloggið og fór þá að hugsa að sennilega væru nú einhverjir búnir að hlusta á alla þættina í belg og biðu, klára allt saman.  Og ég gat ekki annað en hlegið með sjálfri mér vegna þess að það þýðir að viðkomandi hafi bara alls ekki lært neitt af fyrsta þættinum sem einmitt fjallar um að taka eitt skref í einu.  Bara nákvæmlega eins og að gúffa í sig heilum poka af kartöfluflögum en ekki njóta þess að fá sér eina og eina og hætta eftir nokkrar.  Meiri njólarnir :)  Ég er búin að hlusta á fjóra þætti, fyrstu þrjá þættina mörgum sinnum og ég fer ekki lengra fyrr en ég er búin að skrifa mína upplifun af hverjum þeirra.  Ég er sem sagt að taka litla bita, smjatta og njóta.

Annar þáttur fjallar um hversu mikil áhrif nánasta umhverfi hefur á árangur og vöxt.  Ég er alin upp á alkohólista og ofætu heimili og vissulega mótaði það mig gríðarlega mikið.  Sem unglingur og ung kona leitaði allra leiða að koma mér sem lengst í burtu, (sennilega ómeðvitað að reyna að forða mér úr óheilbrigðu umhverfi), fór sem AuPair bæði til USA og Frakklands, valdi mér starf sem flugfreyja, dreymdi um að búa erlendis o.s.frv.  Það var bara ekki nóg vegna þess að ég var alltaf með sjálfa mig í eftirdragi... 

Ég tók í fyrsta skipti meðvitaða ákvörðun um að breyta mínu umhverfi þegar ég átti von á honum Gabríel mínum. Ég var í mjög slæmum félagsskap og hafði verið í 10 ár eða svo.  Einhvern veginn þá varð mér það alveg ljóst að þó svo ég hefði boðið sjálfri mér upp á þetta umhverfi þá kæmi aldrei til greina að bjóða barninu mínu upp á það.  Það þýddi að ég var meira og minna ein næstu þrjú árin, þ.e. fyrir utan Gabríel og foreldra mína.  Ég sleit algjörlega sambandi við alla sem ég hafði umgengist daglega í mörg ár og það tók langan tíma að finna aftur gamla vini eða eignast nýja.   Ég fór ekki í bíó, partý, heimsóknir, kaffihús, ferðalög, ekkert... í næstum þrjú ár.  Það hvarflaði samt aldrei að mér að ég hefði tekið ranga ákvörðun, þó þetta hafi verið drullu erfitt stundum.  Ég man að þegar ég gifti mig þá fannst mér hrikalega erfitt að ég var ekki gæsuð og það var sko ekkert vinkonum mínum að kenna.  Annars vegar átti ég nokkrar vinkonur sem ég hafði lítið sem ekkert talað við frá því ég var unglingur og var rétt að kynnast þeim aftur og hins vegar átti ég nýjar vinkonur sem héldu örugglega að ég ætti gamlar vinkonur sem myndu taka að sér gæsunina.  Í dag á ég ótrúlega góðar og traustar vinkonur.  Og í dag er ég svo stór og sterk, að ef ég þyrfti, þá myndi ég bara biðja þær um að gæsa mig :)

Næsta meðvitaða ákvörðunin var að breyta um starfsumhverfi en það gerði ég einu og hálfu ári síðar.  Ég hafði starfað sem flugfreyja í nokkur ár, starf sem átti engan veginn við mig.  Vinnutíminn var óreglulegur, langar fjarverur, mikið djamm, flugvélamatur!!!, need I say more...  Ég lét vinnuveitendur mína vita að ég myndi fara að kíkja í kringum mig, fór á ráðningarskifstofu og fékk tilboð um tvö störf, annars vegar í innflutningsfyrirtæki og hins vegar í hugbúnaðarhúsi.  Ég stóð frammi fyrir því að velja á milli vinnu sem ég myndi klárlega ráða mjög vel við og svo mjög krefjandi starfs sem ég vissi í rauninni ekkert hvort ég gæti höndlað.  Ég valdi krefjandi starfið og ekki síst vegna þess að ég hafði áhuga á að vera í umhverfi sem samanstóð af vel menntuðu og skapandi starfsmönnum og sá ekki eftir því.

Fjórum árum síðar, þegar við Þórólfur fórum að búa saman, þá komu upp krefjandi aðstæður vegna þess hversu ólík við vorum og við þurftum að vinna heilmikið í því að skapa umhverfi þar sem við gætum bæði blómstrað.  Ég var aðeins á undan honum að detta í hlaupin og fyrstu mánuðina var það ansi erfitt fyrir minn mann að skilja af hverju ég kaus að fara út eldsnemma á morgnana að hlaupa með einhverju liði í staðinn fyrir að kúra hjá honum.  'Ætlarðu líka í dag?'...   Þar sem ég hafði ekki áhuga á að fara úr umhverfinu þá var eina leiðin að breyta umhverfinu og við settumst niður og ræddum málin.   Já, til þess að ég sé glöð þarf ég að fara aftur og aftur og aftur og þannig er það bara.  Ef þig langar að fara þá styð ég þig heilshugar, ok.  Og eins var það með matinn...  Ofætan og vannærði drengurinn, muwahahaha...   Ég strögglaði við að setja mér mörk varðandi mat en hann var alltaf að berjast við að halda holdum.  Eitt sem varð næstum að stórmáli á fyrstu árunum okkar var að honum fannst rosalega kósý að fá sér eitthvað gúmmelaði á kvöldin og hluti af ánægjunni var að við myndum njóta þess saman.  Fyrir mig var það aftur á móti algjör kvöl og pína, ef ég sagði nei takk var ég leiðinleg og ef ég sagði já takk fór ég alveg á hliðina , borðaði of mikið og leið illa.    Tími á annan fjölskyldufund og ég held að minn maður hafi áttað sig þegar ég útskýrði fyrir honum að það væri jafn áríðandi fyrir mig að borða ekki á kvöldin eins og fyrir hann að fá að borða á kvöldin.  Ég myndi aldrei banna honum það eða vera fúl út í hann.  Það náði í gegn og þetta hefur ekki verið neitt vandadamál síðan.

Varðandi hreyfinguna þá byrjaði ég að hlaupa ein og helst í myrkri en var hvött af vinkonu minni að koma mér í hlaupahóp sem ég og gerði.  Það er svo mikilvægt fyrir mann að vera með fólki sem er að stefna í sömu átt, skilur mann og styður.  Fyrir þremur árum þurfti ég að taka meðvitaða ákvörðun um að skipta um hlaupahóp vegna þess að ég fann mig ekki lengur í því umhverfi sem ég var í.  Það  var eins og með svo margt í lífinu, ég endaði á stað sem hentaði mér miklu betur og fann félaga sem uppfylltu nákvæmlega þessi skilyrði sem eru svo mikilvæg, þ.e. skýr stefna, skilningur og stuðningur.  Og í því umhverfi hef ég blómstrað og vaxið heilmikið sem íþróttamaður.

Nýjasta dæmið hjá mér sem snýr að því að skapa jákvætt umhverfi er sennilega sú ákvörðun að hafa stóru-stelpu daga með henni Lilju minni.  Bara það að fara úr því umhverfi þar sem Sonja ræður ríkjum og Lilja verður að bakka og yfir í það umhverfi þar sem Lilja er númer 1,2 og 3, það hefur gert kraftaverk.  Ekkert flókið, ekkert stórkostlegt, 3 klukkutímar, kaffihús og sund, það er allt og sumt en Lilja hún byrjar að telja niður á miðvikudögum og getur ekki beðið eftir að það komi þriðjudagur, stóru-stelpu dagur.  Ég passa líka núna (eftir söguna um táninginn) að vera ekki að yfirheyra Gabríel um leið og hann kemur heim úr skólanum,  fer úr tölvunni þegar ég heyri lyklahljóðið, hvet hann til að spila sína músík inn í stofu og býðst til að græja eitthvað snarl :)

Lilja skemmti sér konunglega á Silfurleikunum, svo dugleg og lang yngst!

Svo fór hún alveg á hliðina í verðlaunaafhendingunni, vildi ekki vera með í svona móti aftur og við skildum ekkert í þessu.  'Strákurinn við hliðina á mér sagði að ég mætti ekki vera hjá blá liðinu af því að ég var í rauðum bol... :( '

Eins gott að við eigum Ávaxtakörfuna, skynsama stelpu og getum keypt bláan bol.

22. nóv. 2011

Fyrsti þáttur - What I don't believe

Ég er búin að minnast á podcast sem ég féll alveg fyrir en það fjallar um það hvernig maður getur tileinkað sér hegðun sem leiðir til vaxtar.  Ég þekki flestar aðferðirnar sem talað er um og í rauninni er þetta eins og einhver hafi tekið saman og sett í frambærilegan búning mína reynslu síðustu 14 árin.  Fyrsti þátturinn fjallar um að brjóta verkefnið niður, hvert sem það er, í smærri einingar til að ná árangri.  Ég fór að rifja upp hvernig mín leið var, frá því að vera virkilega vansæl, 30 - 40 kílóum of þung, reykja 2 pakka á dag, stunda enga hreyfingu, vera í starfi sem mér líkaði ekki og vægast sagt í slæmum félagsskap.  Hvernig komst ég hingað?

Allra fyrsta skrefið var að þegar ég áttaði mig á að ég átti von á honum Gabríel mínum þá drap ég í sígarettunni.  Í framhaldinu, nokkrum vikum seinna, hætti ég að drekka gos en ég tengdi það svo mikið við reykingarnar að það var ekki svo erfitt fyrst ég var hætt að reykja.  

Þegar Gabríel var hálfs árs og ég byrjaði að vinna aftur sem flugfreyja þá fann ég út að það gengi aldrei að vera svona mikið í burtu frá honum, í starfi sem mér líkaði ekki einu sinni.  Ég fór á ráðningarskrifstofu og fékk starf í hugbúnaðarhúsi.  Á sama hátt var það verkefni tekið í smáum skrefum, frá því að kunna ekki að kveikja á tölvunni, hafa aldrei séð Windows stýrikerfi og þurfa að spyrja hvernig ég gerði '@' merkið...  Þá tókst mér eitt skref í einu, á nokkrum árum, að verða sérfræðingur á mínu sviði og eftirsóknarverður starfsmaður í mínum geira.

Ári síðar tók ég næsta markvissa skref í átt að betri heilsu en það var sú ákvörðun að stunda reglulega hreyfingu.  Ég hafði ekki tækifæri til að stunda líkamsrækt í stöð en eftir vandlega umhugsun ákvað ég að fjárfesta í Orbitrack (stigvél) sem ég plantaði í stofunni heima.  Ég hafði lofað sjálfri mér að nota tækið alla vega 4 sinnum í viku á morgnana áður en Gabríel vaknaði, alla vega hálftíma í senn, til að réttlæta fjárútlátin en þetta var stór pakki fyrir mig þá.  Og það gerði ég.  Ég veit eiginlega ekki um neinn annan sem hefur keypt svona tæki heim til sín og notað það, en þarna hafði ég öðlast hluta af þeim sjálfsaga sem ég hef ræktað með mér í dag og nægilega mikinn til að standa við það.

Eftir tvö ár á Orbitrackinu fór ég í fyrsta sinn út að hlaupa (komin með kall og barnapössun :).  1-2 km fyrstu vikurnar, svo 3 km og svo alltaf aðeins lengra í einu.  Ég hlustaði á þá sem höfðu reynsluna og gerði eins og mér var sagt.  Á þessum tíma var ég löngu hætt að reyna að finna út úr öllu sjálf, það hafði ekki reynst mér vel fyrstu 30 árin...  Smám saman, hægt og örugglega þjálfaði ég mig upp í að hlaupa maraþon og ultra maraþon.

Einu og hálfu ári eftir að ég byrjaði að hlaupa tók ég matarræðið til endurskoðunar og notaði næstu árin til að finna út hvað hentaði mér að borða og hverju ég kaus að sleppa.  Varðandi þyngdina þá setti ég mér markmið í skrefum, 5 kg í senn en fyrir mig var það passlega krefjandi, ekki of stórt en samt virkilega þess virði.  Þegar ég var komin niður fyrir 70 kg þá minnkaði ég skrefin í 2 kg í senn.  Þegar kom að því að ég hljóp upp Esjuna án þess að blása úr nös, kom heim og leit í spegil og hugsaði með mér, núna er ég nákvæmlega eins þung og mig langar til að vera. Það er mögnuð tilfinning að upplifa fyrir fyrrverandi fitubollu.  Ég hef verið með kristaltær markmið varðandi þyngd síðustu 8 árin og ég hef verið tággrönn í 8 ár.

Fyrir 5 árum tók ég ákvörðun um að læra að synda skriðsund.  Það er eitt það mest krefjandi verkefni sem ég tekist á við síðustu árin.  Sem betur fer þá var ég komin á þann stað að ég var fullviss um að með því að taka smá skref í einu þá myndi mér að lokum takast að verða góð í skriðsundi.  Jeiii ég get andað,  jeiii ég kemst 200 m, jeiii nú get ég slakað á í vatninu, jeiii ég get synt aðeins hraðar og já, nú get ég synt eins langt og mig lystir.

Eftir að hafa náð ákveðnum árangri sjálf þá upplifði ég mikla löngun til að aðstoða aðra við að ná tökum á sínum málum.  Ég var full af eldmóði, ég var búin að fatta þetta og gat ekki beðið eftir að sjá árangur annarra.  Pjúff, það er það erfiðasta í heimi að reyna að láta aðra ná árangri.  Það er nefnilega þannig að það eru bara ca. 10 % af fólki sem er tilbúið að sætta sig við þann veruleika að til þess að ná árangri þarf tíma og ástundun og fyrir keppnismanneskjuna mig, þá þýddi það bara að ég var alltaf að tapa og ég varð leið.  90 prósentin kjósa nefnilega frekar skyndilausn eftir skyndilausn, sem endar bara með áralöngum vonbrigðum og engum varanlegum árangri.  

En nú er ég búin að finna gaur sem er með eldmóðinn og alveg á sömu línu og ég.  Eina sem ég þarf að gera er að setja link á dúddann :)


Eitt spor í einu og meðan maður hættir ekki er alveg á tæru að myndin klárast á endanum.



17. nóv. 2011

Stundum...

... er eins og maður fái sent til sín nákvæmlega það sem maður þarf á að halda á þeirri stundu.  Rakst á færslu á FB hjá henni Karen Axelsdóttur þar sem hún mælir með tilteknu Podcasti.  Ég ákvað að tékka á því og er þvílíkt húkkt.  Ég benti bóndanum á þetta líka og nú keppumst við við að komast út að hlaupa til að geta hlustað á næsta þátt.  Mæli eindregið með þessum gaur, Bevan James Eyles - Fitness Behavior.  Ég byrjaði á að hlusta á nýjasta þáttinn (nr. 15) og var ekki lengi að ná mér í alla seríuna svo ég gæti byrjað á byrjuninni.  Nú er ég búin að hlusta á þrjá þætti og mér finnst eins og þeir hafi allir verið búnir til sérstaklega fyrir mig (og Þórólf :).  Frábær hugarleikfimi með skokkinu.

Lilja var veik á þriðjudag og miðvikudag.  Þá er málið að finna nóg að gera til að allir missi sig ekki úr leiðindum.  Lilja er nefnilega ótrúlega hress þegar hún er veik.   Við náðum okkur í tvo diska á bókasafninu, perluðum og lituðum, bökuðum og lékum.  Allt á fyrri deginum sko...  Datt svo í hug að sennilega væri hún orðin nógu stór til að sauma út einfaldar myndir, fór í leiðangur og fann akkúrat passlega einfalda mynd og jú, mín sat og saumaði eins og engill og mamman fékk smá frið á meðan, dæs...  Hún er svo spennt að fá að læra að prjóna en ég er búin að lofa að kenna henni þegar hún verður fimm ára.  

Fór í leikskólann aftur í dag, fullfrísk og glöð.  Ekki frá því að mamman hafi verið jafn glöð, gat látið sig leka niður í ból eftir hádegið og fengið sér blund meðan Sonja svaf, mmmmm dásamlegt.  Ekkert sem gleður ungbarnamömmur meira en góður blundur. 

Smá sýnishorn af aumingja litla sjúklingnum, hehemm...





12. nóv. 2011

Powerade #2 - 2011

Það er alveg merkilegt hvað maður á í miklu ástar/haturs sambandi við Powerade hlaupin.  Um miðjan dag var þvílíkt rok og rigning, ennþá smá þreyta í fótunum eftir keppnina á sunnudaginn, Sonja vaknaði nokkrum sinnum um nóttina o.s.frv.   Í bílnum á leiðinni í hlaupið var ég farin að geispa á Sæbrautinni sem er óvenjusnemma, venjulega byrja ég ekki að geispa fyrr en í Ártúnsbrekkunni...

Svo vorum við komin á staðinn, aðeins tímanlegri en síðast og gátum meira segja tekið smá upphitunarhring.  Nú var búið að rætast úr veðrinu, þurrt og mikið búið að lægja.  Svo magnast spennan, hópurinn ormast niður að startlínu, er rekinn til baka 10 metra á réttan stað og svo 3,2,1...   

Ég fór rólega af stað og fann mér mann til að elta sem var í góðum takti sem passaði mér.  Við vorum samferða yfir brúna og upp fyrstu brekkuna og vorum strax farin að pikka upp hlaupara sem blöstuðu af stað.  Ég legg áherslu á að nýta mér brekkurnar niður, sérstaklega núna þegar ég er ekki eins sterk í brekkunum upp :), næ góðu rúlli og pikka upp heilmikið af hlaupurum.  Allt sem sagt eins og það á að vera... þangað til...

Það hefur nú komið fyrir að maður hafi brosað út í annað yfir kjánaskapnum í nýliðum sem ekki kunna að reima skóna sína almennilega fyrir keppni.  Ég gat því ekki annað en skammast mín pínu þegar ég fann reimarnar losna á öðrum skónum mínum og rúmlega 5 km eftir af hlaupinu, rækatlans...  Flaps, flaps, flaps í hverju skrefi og ég sem var á þessu fína rúlli.   Ákvað að stoppa ekki til að reima heldur sjá til hvort ég gæti ekki bara leitt þetta framhjá mér.  Reyndi að passa uppá að halda stíl en ekki lyfta hnjánum hærra til að forðast reimarnar og sannfærði sjálfa mig um að þetta væri góð hugaræfing, ekki láta neitt fara í taugarnar á sér og skemma fyrir.  Svo tók þetta líka athyglina frá því að vera þreytt!  

Flaps, flaps, flaps og tíminn 43:10 sem er rúmlega tveggja mínútna bæting síðan síðast og fyrsta skipti undir 45 eftir Sonju.  Til samanburðar við Lilju mína þá tók það mig hálft ár að fara aftur undir 45 og það var ekki í Powerade hlaupi þannig að þetta veit á gott.  


9. nóv. 2011

Stóru-stelpudagar

Það er örugglega ekki auðvelt að þurfa að víkja úr mömmufaðmi, sem maður hefur haft ótakmarkaðan aðgang að, fyrir nýju barni.  Til að hjálpa Lilju að takast á við það, hef ég reynt að sinna henni sérstaklega þegar ég hef tækifæri til.  Eftir fyrstu vikurnar með Sonju fór ég að sækja hana 1-2 daga í viku á leikskólann og nú var komin tími til að bæta aðeins við.

Þriðjudagar eru orðnir stóru-stelpudagar hjá okkur, frá og með gærdeginum.  Þá sækji ég Lilju í leikskólann klukkan hálf fimm og við stingum af til klukkan sjö.  Ég vann árskort í Seltjarnarneslaugina í sundlaugaleiknum í sumar, svo ég stakk upp á að við skelltum okkur í sund þar og það var samþykkt.  Frábær laug fyrir fjögurra ára og mömmur.   Lilja gat rennt sér milljón sinnum í rennibrautinni á meðan ég gat fylgst með úr heitum potti.  Svo er stór barnalaug, stór volgur pottur og nuddpottur sem við skottuðumst á milli og prófuðum.  Búningsklefarnir eru snyrtilegir og fínir og við ákváðum að hafa það fastan lið að fara þangað á þriðjudögum.  Efir sundið fengum við okkur bita á Kryddlegnum hjörtum.  Mamman tók með liti og blöð svo við gætum teiknað og litað saman, hérna heima er einhvern veginn alltaf eitthvað annað sem kallar og allt gert í flýti. Næst er planið að byrja á Kaffitár í Kringlunni, en það er uppáhaldskaffihúsið hennar Lilju og fara síðan í sund.  

Þegar við vorum að klæða okkur eftir sundið sagði Lilja við mig: 'Mamma, við skulum aldrei taka lillu með'  'Ég meina sko aldrei á þriðjudögum, það eru stóru-stelpu dagar, ókey?'  

Já, ókey :)


4. nóv. 2011

Þriggja mánaða kríli

Við fórum með hana Sonju okkar í þriggja mánaða skoðun í morgun og það er óhætt að segja að stelpuskottið dafni vel.  Skemmtilegt að bera saman ungana okkar á þessum aldri:

Gabríel:      Lengd 61 cm    - þyngd 7790 gr - höfuðmál 42 cm
Lilja:           Lengd 61,5 cm - þyngd 5440 gr - höfuðmál 40,1 cm
Sonja:        Lengd 62 cm -    þyngd 5800 gr - höfuðmál 40 cm

Gabríel var sem sagt stystur og þyngstur, með stærsta hausinn.  Lilja var svona mitt á milli löng, léttust og með miðlungs höfuðmál.  Sonja er lengst, milliþung og með nettasta kollinn.


Sonja fékk tvær sprautur í dag, var þvílíkt að brosa út að eyrum til læknisins þegar hann stakk hana og ég held hún hafi bara ekki áttað sig á þessu öllu saman.  Svo kom sprauta númer tvö og þá lét mín aðeins í sér heyra, hrikalega sár yfir meðförunum.  Pissaði svo á lærið á mömmu sinni til að undirstrika óánægju sína.

Hjúkkan okkar í ungbarnaeftirlitinu er mjög áhugasöm um holdafar og matarræði móðurinnar.  Horfir djúpt í augun á mér í hvert einasta skipti sem við komum og spyr: 'Ertu að borða nóg?'.  Þegar ég segi já, heldur betur, þá snýr hún sér að Þórólfi og horfir djúpt í augun á honum og spyr: 'Er hún að borða nóg?'.   Já eins og hestur!!!

Ég er pínu forvitin að vita hvernig hún höndlar konur sem eru vel feitar eftir meðgönguna.  Ætli hún komi eins fram við þær?  'Ertu ekki að borða allt of mikið?' og snúa sér svo að karlinum... 'Er hún að gúffa í sig alla dag og nætur?'.  Einhvern veginn efast ég um það.  Ég myndi svo sem alveg skilja þennan áhuga eða þessa umhyggju, ef annað hvort ég eða Sonja værum vannærðar.  En ég er enn með nokkur aukakíló sem ég held fast í þangað til brjóstagjöfinni lýkur og Sonja er yfir meðallagi, bæði í lengd og þyngd.  Svo held ég að það sé erfitt að finna værara barn hér á jörðu.

En þessi framkoma kemur mér svo sem ekkert á óvart hjá annarri feitustu þjóð Vesturlanda, truflar mig ekkert enda alveg örugglega af góðum hug  :)

2. nóv. 2011

Hjólað á Bora Bora

Stórvinur minn hann Oddur er að fara að takast á við IronMan keppnina í Florida um helgina og hann var svo sætur að lána mér trainerinn sinn á meðan.  Ég græjaði racerinn minn í gærkvöldi og í morgun var fyrsti hjólreiðatúrinn.  Kom mér vel fyrir í stofunni fyrir framan sjónvarpið og horfði á Batchelorette á Bora Bora og hjólaði í klukkutíma.  Hér er Ali í djúpum samræðum við 'ekki' tilvonandi...  Stefni á að horfa á eitthvað menningarlegra í framtíðinni en ég sé fyrir mér daglega hjólatúra þangað til ég þarf að skila græjunni.  Jeiiii gaman.


Annars er búið að vera hrikalega mikið skemmtilegt að gera, ég hef hreint og beint ekki haft tíma til að blogga þó mig hafi stundum dauðlangað til þess.  Ég er ekki að kvarta, síður en svo.  Til að tæpa á stóru þá fór ég í brunch hjá henni Sally, sem ég er að vinna með en við erum 4 stelpur úr vinnunni sem áttum ungana okkar á þremur mánuðum og við hittumst reglulega. 


Ég fór líka í vigtunar brunch með henni Bibbu minni og að venju leystum við nokkrar lífsgátur.  Við hjónin vorum með brunch fyrir hlaupahópinn okkar og þeirra fólk.  Þórólfur útbjó dýrindis fiskisúpu og ég gerði hráköku og kasjúhneturjóma, svo komu allir með eitthvað gott í púkkið.  Svo var hóað í fjölskyldubrunch til að klára afgangana :)   Vá hvað ég er búin að borða mikið síðustu 10 daga!!!



Til að vega upp á móti öllum þessum brunchum þá hef ég farið á fullt af frábærum hlaupaæfingum, í bíóferð með Lilju minni, tvær bæjarferðir með Sonju minni í vagninum og aðstoðað Gabríel minn í hjólaviðgerðum.  Ég er búin að kaupa Bumbo stól á Barnalandi og líka selja göngugrind og vöggu.

Sonja fór að hlægja, það var gaman og Lilja söng inná vídeó til að senda í Stundina okkar. 


Gabríel átti að fara í keppnisferð í körfu til Egilsstaða, Íslandsmeistaramót, nema hvað þjálfarinn svaf yfir sig og mætti ekki út á flugvöll og allir strákarnir voru sendir öfugir heim.  Það var leiðinlegt.  Hann var þá bara heilmikið heima í staðinn og var duglegur að leika við litlu systur sína.



Svo eru bara alltaf jólin hjá okkur núna á Dyngjuveginum, hér detta inn skemmtilegir pakkar frá útlöndum vinstri, hægri, eins og t.d. nornahattar, hauskúpur, handhitapokar, þurrkaði strútar og antilópur.  Það er sko gaman.



Sem sagt milljón gaman og eitt leiðinlegt, það er nokkuð gott :)

21. okt. 2011

Ég vann!

Ja alla vega þessa atrennu sem var nokkuð strembin í sambúðinni við þvottavélina okkar.  Hún hefur nú reyndar staðið sig ótrúlega vel þessi 13 ár sem hún hefur þjónað okkur og við Þórólfur höfum verið lunkinn við að koma henni í gang aftur ef hún hefur hikstað á t.d. einhverju sem gleymst hefur í vösum.  

En nú var komin tími á alvöru tjúnöpp.  Í sumar kláruðust kolin og ég skipti um þau með smá hjálp frá rafvirkja sem var á staðnum v/eldhússins.  Hefði nú alveg getað klárað málið sjálf ef réttu kolin hefðu verið til en það þurfti að mixa þetta og lóða kolin við gömlu festingarnar.  Svo var það fyrir tveim vikum eða svo að hviss bamm, reimin í vélinni slitnaði og fór í þúsund parta.  

Ég fór í Rönning en þá var reimin ekki til hjá þeim og það þurfti að sérpanta hana, sem tekur 2-4 vikur og hún kostaði 3.500,- fyrir hrun...  Það var annar viðskiptavinur í búðinni sem hafði heyrt á tal okkar og hann benti mér á að kíkja í Auðbrekku 4, þar væri gaur með aragrúa af notuðum þvottavélum og varahlutum í gamlar vélar.  Ég brunaði þangað og viti menn, upp úr kassa með hundrað reimum dró hann upp réttu reimina, glænýja og glansandi, 500 kall og málið dautt.

Við hjónin vorum nú heldur betur glöð, settum nýju reimina í og hentum í vél.  Arghhh... þá var hún allt í einu hætt að dæla vatninu úr sér og við vissum ekki hvort við hefðum klúðrað einhverju við að setja reimina í eða hvort reimin hefði slitið einhverja rafmagnsvíra þegar hún spíttist í sundur.  Við sáum nokkra lausa rafmagnsvíraenda og fórum í smá tilraunastarfsemi (með engin verkfæri : / ) sem endaði með háum hvelli, brunalykt og rafmagnið sló út í húsinu...

Í gær eftir að hafa skoðað fullt af 'How to fix your washing machine' vídeó á Youtube fór ég til Kalla, mágs míns og fékk hann til að prófa dæluna.  Hún hjökkti nú eitthvað en var ekki mjög traustvekjandi.  Ég fékk svo lánaðan rafmagnsmæli hjá honum til að tékka hvort það væri straumur á vírunum sem tengjast dælunni og ef svo væri þá var ljóst að dælan væri ónýt.  Fínn straumur og þá var næsta skref að bruna upp í Auðbrekku aftur og vonast til að nýi besti vinur minn ætti dælu fyrir mig.  Jú, ekki klikkaði hann frekar en fyrri daginn, dró fram dælu sem passaði og nýjar festingar á slöngurnar, 3000 kall og málið dautt.

Með Sonju mér við hlið til að hvetja mig áfram þá náði ég að losa gömlu dæluna, festa nýju og jeiii nú malar þvottavélin af ánægju.  Þó svo það hafi á einhverjum tímapunkti verið freistandi að henda henni bara og kaupa nýja risastóra þá er það miklu skemmtilegra að hafa náð að laga hana og mér þykir bara svo vænt um hana núna og vona að hún endist okkur í mörg ár í viðbót.  

Nú er bara spurning hvað við eigum að gera við hundraðþúsundkallinn sem við áttum ekki fyrir nýrri þvottavél...  

DJÓK :)

15. okt. 2011

Powerade # 1 - 2011

Við hjónin tókum þátt í fyrsta Powerade hlaupinu í dæmigerðu haust óveðri.  Rok og hráslagalegt en það fór nú samt ekki að rigna fyrr en við vorum komin í mark og á leiðinin út í bíl.  Þórólfur þurfti að taka því rólega, hann er að jafna sig eftir meiðsl en ég var forvitin að sjá hvað ég gæti gert.  

Byrjaði mjög rólega og skokkaði í skjóli, fann mér stóra karlmenn til að skýla mér á bak við.  Þegar ég var komin upp brekkuna þá lét ég vaða eins og druslan dró alla leið niður dalinn.  Síðustu 3 km þurfti ég aðeins að bíta á jaxlinn, vantar ennþá svolítið upp á magnið hjá mér í æfingunum, en var mjög ánægð að halda dampi síðasta km eftir Rafstöðvarbrekkuna og lokatíminn 45:17.  Var 10. kona í mark og náði mér í eitt stig, stefni á mínútu bætingu næst.

Ég var búin að finna fyrir því í vikunni að Lilja þurfti sérstaklega á mér að halda, erfitt að vera 4 ára og alltaf þurfa að víkja fyrir litlu systur.  Ég sleppti laugardagsæfingunni og Víðavangshlaupinu og fór í staðinn með stelpurnar (Sonju sofandi) í Kringluna þar sem við keyptum tússliti og Barbamömmu.  Svo settumst við á kaffihús, við Lilja lituðum saman, fengum okkur kaffi, kakó og með því og áttum frábæra mæðgnastund.  

Sonja stendur sig eins og hetja í svefn prógramminu sínu.  Nú er hún komin með allar græjur, vafningsteppi, Sleep sheep og við erum rosa dugleg að halda rútínunni okkar.  Hún sefur frá ca. átta á kvöldin til að verða níu á morgnana og vaknar einu sinni eða tvisvar til að drekka á næturnar.  Hún sefur líka eins og engill í vagninum sínum á daginn 2- 4 tíma í einu, gæti ekki verið meiri lúxus.  Það er náttúrulega bein tenging þar á milli og hversu vel gengur hjá mér að hreyfa mig, allt er auðveldara ef maður fær nægan svefn.

Gabríel er á fullu í körfunni núna, keppir í Njarðvík þessa helgina og svo eru það Egilsstaðir næstu helgi.  Á morgun ætlum við að fara öll saman með honum suður eftir, hvetja okkar mann til dáða og kíkja í Vatnaveröldina á milli leikja.  Hlakka til, læfs gúdd.  


10. okt. 2011

10 ár í dag

Í dag eru 10 ár frá því við Þórólfur kysstumst fyrst!  Það var í óvissuferð með vinnunni, þvílíkt gaman hjá okkur og eftir humarveislu á Fjöruborðinu var teningunum kastað.  Þórólfur tók sér frí í dag og við ætlum að gera okkur glaðan dag, fá okkur eitthvað gott að borða í hádeginu og dúlla okkur eitthvað í góða veðrinu í tilefni dagsins.

Náði skemmtilegum áfanga í gær en þá tók ég þátt í Geðhlaupinu, 10 km.  Kalt og smá vindur og nokkuð krefjandi braut en ég lagði upp með að halda 4:30 pace sem gerir 45 mínútur.  Ég var mjög vel klædd, í ullarbol og vindstopper, ég hef nefnilega lent tvisvar í því eftir að ég átti Sonju að verða kalt á kroppnum og þá stíflast mjólkurbúið með tilheyrandi óþægindum...   

En alla vega, hlaupið gekk alveg eins og lagt var upp með og það sem var enn skemmtilegra er að ég náði forystu strax í upphafi.  Samkvæmt Garmin var ég 45:02 með 10 km en brautin var 156 m of löng (aftur skv. Garmin) og lokatíminn hjá mér var 45:34, nákvæmlega uppá sek á 4:30 pace.   Niðurstaðan 1. sæti og bæting um 1 - 1 1/2 mínútu frá Reykjanesmaraþoni.  Fékk flottan blómvönd, usb lykil og geisladisk að launum, gaman, gaman. 






6. okt. 2011

Sextíu og sex komma núll!

Í dag var vigtun hjá okkur Bibbu, fyrsta vigtun eftir að ég átti Sonju.  Hoppaði hæð mína af kæti þegar ég sá töluna en þetta er einmitt sú tala sem var mitt markmið þegar við stofnuðum vigtunarklúbbinn okkar fyrir 8 árum síðan.  Þetta er líka nákvæmlega sama þyngd og ég var í þegar ég varð ólétt af henni Sonju minni.  Ég hef reyndar síðustu árin verið aðeins léttari, 64 kg svona venjulega og ég fer lægst niður í 62 kg en það er fullkomin keppnisþyngd fyrir mig en þá er ég ansi fitulítil.  

Eins og venjulega leystum við nokkrar lífsgátur á skokkinu og skemmtum okkur konunglega í heita pottinum, reyndar töluvert á kostnað annarra viðstaddra (lesist í et.) og við skömmumst okkar...  :)   Frábært að hanga með gömlu Hálftímafélögunum sem eru ennþá á sínum stað 10 árum síðar (...byrjaði minn hlaupaferil í Hálftíma hópnum).

Breyttum út af vananum í dag og slepptum kaffinu í laugunum, maður stingur ekki svo lengi af frá litla krílinu, en í staðinn bauð ég Bibbu heim í hafragraut, kaffi latte og ljúffengt brauð sem bóndi minn bakaði.

Í dag hélt ég svo fyrsta fyrirlestur haustsins, en hann var í tilefni heilsuviku hjá Árvakri.  Virkilega gaman og ég segi það enn og aftur, ég fæ alla vega jafn mikið út úr svona stund eins og áheyrendur.  

Sérstaklega skemmtilegur dagur sem sagt :)  

5. okt. 2011

Svefn og heilsa

Þegar ég hugsa um hvað skiptir mig mestu máli uppá vellíðan þá er það þrennt sem stendur uppúr.  Í fyrsta lagi nægur svefn, í öðru lagi góður matur og í þriðja lagi hreyfing, já í þessari röð.  Ef ég fæ ekki nægan svefn þá klúðrast mattaræðið og hreyfingin.  Ef ég fæ ekki góða næringu þá klúðrast hreyfingin.  Ef ég fæ ekki hreyfinguna mína og fríska loftið þá er ég aðeins minna glöð :)

Og þá er það málið með ungabörn og svefn.  Hún Sonja er alveg sérstaklega vær og góð, sefur vel bæði á daginn og næturnar en það var samt tími til komin að laga aðeins til svefnrútínuna.  Hún fékk bara að dóla með okkur á kvöldin inní stofu þangað til við fórum í rúmið og þá tók við ca. klukkutíma undirbúnings stund fyrir svefninn þangað til hún var alveg komin í ró.  Svo fékk hún að drekka og kúra hjá mömmu sinni og við sofnuðum iðullega báðar á meðan hún drakk.  Svo vaknaði ég um nóttina, færði hana yfir í sitt rúm (við hliðina á mínu).  Hún drakk svona tvisvar á nóttu og þá var það sama rútínan en þetta þýddi 5 vökn fyrir mig.  Vakna til að færa, vakna til að gefa, vakna til að færa, vakna til að gefa, vakna til að færa...  

Svona gerðum við þetta með Lilju og þegar hún var orðin 7 mánaða og farin að kela við mömmu sína á klukkutímafresti gafst ég upp á vökunum, settum hana í sitt eigið herbergi og Þórólfur tók við næturvöktunum meðan við vöndum hana af næturgjöfunum.  Grátur og gnístran tanna í viku eða svo og svo einhverjar vökur eftir það.  Núna langaði mig til að prófa að gera þetta öðruvísi og ég fann fína bók á Amazon sem er bæði fróðleg og nytsamleg: The No-Cry Sleep Solution: Gentle Ways to Help Your Baby Sleep Through the Night.

Það er skemmst frá því að segja að á einni viku, síðan ég fékk bókina þá er rútínan orðin svona:  Inn að undirbúa svefninn um átta leytið, sofnuð klukkan 9 í sínu rúmi, södd og sæl, vaknar milli 2 og 3 til að drekka fljótt og vel, sofnar aftur í sínu rúmi og sefur til að verða 8 um morguninn.  Sem sagt eitt vakn fyrir mömmuna en ekki fimm og ég sé fyrir mér að það verði miklu auðveldara fyrir okkur að færa Sonju í sitt herbergi þegar þar að kemur og ekki þarf að venja hana af milljón næturgjöfum.  Mmmmm zzzzzzzzz.


3. okt. 2011

Frjálsar, karfa, leikhús og fleira

Haustið er komið með trompi og nú er eins gott að vera skipulagður.  Helgin hjá okkur var stappfull af viðburðum.  Á laugardaginn var Bronsmót ÍR en það er frjálsíþróttamót fyrir krakka 10 ára og yngri.  Við spurðum Lilju hvort hún hefði áhuga á að vera með og jú hún var til í tuskið.  Krökkunum var skipt í hópa ca. 8 í hverjum hóp og hver hópur vann saman sem lið og safnaði stigum.  Það var keppt í langstökki, hástökki, spjótkasti, langhlaupi, hindrunarhlaupi, boltakasti og fl. allt lagað að aldri keppendanna (t.d. hoppað yfir kústskaft í langstökkinu).  Í lokin fengu allir krakkarni þátttökuverðlaun og stelpan okkar var í skýjunum með þetta allt saman.  Eftir frjálsarnar tóku fimleikarnir við hjá Lilju svo var smá tími til að snarla áður en við skutluðum Gabríel í Garðabæinn þar sem hann keppti í körfu.  Skiptum liði og ég sá um stelpurnar á meðan Þórólfur hvatti guttann áfram.  

Sonja varð 2. mánaða á laugardaginn og þá var komin tími á bumbumynd, nýkomin heim úr hlaupatúr:


Ég er rosalega ánægð með hvað það gengur vel að komast í gamla formið mitt en það gerðist svo sem ekkert sjálfkrafa, ég er búin að vinna fyrir kaupinu mínu og finn það á kroppnum og hraðanum í hlaupunum.  Þetta er ég búin að gera síðustu tvo mánuði frá því Sonja fæddist:





Á sunnudaginn var svo messuferð en Gabríel las upphafsbænina, partur af fermingarfræðslunni og svo var það sunnudagaskólinn fyrir Lilju.  Skokkaði heim með Sonju til að undirbúa smá brunch en Orri bróðir var í bænum og hann kom með Dr. Danna (strákinn sinn) og svo var ég búin að hóa í Ástu systur líka.  Eftir mat fóru svo Þórólfur, afi Þór og Lilja í leikhúsið og sáu Galdrakarlinn frá Oz.  Við Gabríel og Sonja vorum dauðþreytt eftir allan hamaganginn og lágum í leti á meðan.

Hugsuðum til ömmu Kollý sem hefði átt afmæli 2. október, kveiktum á kerti fyrir hana.

28. sep. 2011

Sonja Þórólfsdóttir

Litla daman okkar er komin með nafn!  Sonja er ánægð með nafnið sitt, brosir og hjalar þegar ég býð henni góðan daginn á morgnana.  Við vorum með skírnarveislu hérna heima hjá okkur á sunnudaginn og hann Bjarni Karlsson sá um athöfnina.  Áttum alveg ótrúlega góðan og fallegan dag í faðmi fjölskyldunnar.  



Lífið er nú að komast í fastar skorður aftur, allir að detta almennilega í sitt prógramm og eins og það er gaman að breyta út af vananum þá elska ég rútínuna mína.  Ég er farin að æfa aftur af fullum krafti og það gengur alveg ótrúlega vel.  Næ að hanga í hinum stelpunum og það er auðveldara með hverri æfingunni.  Ég finn heilmilkinn mun á milli vikna og það er svo gaman að finna kroppinn svara og styrkjast.  

Matarræðið er líka komið í góðan gír.  Er að koma mér út úr því borða allan sólarhringinn sem var nauðsynlegt fyrstu vikurnar eftir að ég átti Sonju og nú er ég komin í 6 sinnum á dag taktinn minn.  Ég þarf að borða meira í hvert sinn en nú legg ég áherslu á að borða hollan mat en ekki bara það sem hendi er næst.  Ég er núna 67 kíló, tæplega kílói þyngri en þegar ég varð ólétt og er alsæl með það.  Ég reikna með að verða komin í kjörþyngdina mína, 64 kg, um áramótin.  Ég vil ekki vera léttari en það á meðan ég er með Sonju á brjósti en ég stefni á rúmlega ár eins og með hina krakkana.

Tante Gudrun er svooo fyndin :)


Ákvað að prófa nýtt 'look' á bloggið en nú er hægt að leika sér með útlitið og framsetninguna, gaman  :)

19. sep. 2011

Icelandair hlaupið 2011

Icelandair hlaupið er það hlaup sem ég hef oftast sprungið í og algjörlega gert í buxurnar síðustu tvo km.  Tvö ár í röð, í toppformi, hljóp ég á nákvæmlega sama tímanum, nákvæmlega jafn sprunginn en ég átti skv. öllu að hlaupa á undir 30 en endaði á 30:52.  Í fyrra var ég loksins búin að læra að maður þarf að fara af stað eins og í 10 km hlaupi en ekki 5 km hlaupi og þá hljóp ég þetta alveg rosalega vel og endaði á tímanum 28:55, pb.  

Í ár var takmarkið að hlaupa á 4:30 pace sem gefur 45 mínútur í 10 km.  Í síðustu tveimur 10 km hlaupum hef ég farið heldur hratt of stað og verið of þreytt síðustu 3 km þannig að þetta var æfing í að halda jöfnu pace-i.  Hlaupið gekk eins og í sögu, ég byrjaði hóflega, hélt góðum dampi og gat bætt í á millikafla og átti afgang í endasprett.  Endaði á 31:00 sem er 4:21 pace og framar björtustu vonum.  

Og lexían, ég er bara 8 sek hægari í þessu hlaupi sem hlaupið var af skynsemi en í hlaupunum tveimur sem ég var klárlega í betra formi en fór allt of hratt af stað.   Nú er bara að sjá hvort mér takist að halda 4:30 í næsta 10 km hlaupi og komast undir múr númer 2 eða 45 mínúturnar.  Samkvæmt hlaupareiknum ætti ég að geta hlaupið 10 km á 44:30 við sambærilegar aðstæður.  Spennandi.

15. sep. 2011

Opið bréf til Símans

V/verkbeðni 5009935


Sonur minn erfði síma eftir ömmu sína en það kom í ljós að hann var læstur fyrir símakort Símans.  Ég hafði samband við þjónustuver Símans í byrjun síðustu viku og þeir bentu mér á að fara með símann í Hátækni og láta opna hann þar, þar sem þetta var Nokia sími.  

Í Hátækni var ég send aftur í Símann þar sem þeir taka ekki við símum nema það sé  beiðni frá Símanum fyrir opnuninni.  Ég hringdi aftur í þjónustuverið (er með sex vikna gamalt barn með mér) og þeir könnuðust ekkert  við að þetta beiðna fyrirkomulag og sögðu mér að fara í Vatnagarða þar sem verkstæði Hátækni er.  

Í Vatnagörðum var ég send öfug til baka í Símann með þeim skilaboðum að það væri alveg með eindæmum hvað starfsmenn Símans væru fáfróðir, það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt fyrir þá að fá beiðni frá Símanum þar sem Síminn þarf að greiða fyrir opnunina v/lagasetningar um læsta síma.  

Hringdi aftur í þjónustuverið og jú þar var einhver sem rámaði í að það væri best að fara með símtækið í Símann í Ármúla og skilja hann þar eftir.  Ég fer (með barnið) í Ármúlann og bíð þar í ca. hálftíma eftir afgreiðslu og skil símann eftir, er sagt að ég fái sms þegar hann er tilbúin og það taki allt að 10 daga.  

Gott og vel.  Í morgun fékk ég sms um að síminn sé tilbúin og ég fer enn eina ferðina í Símann í Ármúla.  Ég fæ miða kl. 14:37 og fæ loksins afgreiðslu 15:09...  Þegar afgreiðlsukonan finnur loksins símann og beiðnina þá fer hún að flissa og úbbs... það er ekki hægt að aflæsa þessum síma!   Og hvað geri ég þá, skv. lögum (að mér skilst hjá ykkar starfsfólki) má ekki læsa símum á símafyrirtæki, hvað er nú til ráða.  'Ekki neitt, þetta er bara svona og hafðu góðan dag...'

Mér finnst þessi óþjónusta alveg fyrir neðan allar hellur og að enginn af ykkar starfsmönnum í þessu ferli og ég var alla vega í samskiptum við 5 þeirra hafi getað sparað mér þennan tíma og fyrirhöfn fyrir ekki neitt.  Nú er ég sem sagt komin heim úr enn einni fýluferðinni, búin að drösla krílinu mínu með mér og var að tilkynna syni mínum að síminn sem hann fékk eftir ömmu sína heitna sé ónothæfur, versgú.

N.b. það versta er að við færðum viðskipti okkar frá Vodafone yfir til Símans í síðasta mánuði (sem tók heldur betur á og kostaði nokkrar ferðir í Símann til að fá pung til að redda málum sem fóru úrskeiðis í flutningnum), ekki frá því að það sé smá svekkelsi í gangi...  En ég ætla samt að eiga góðan dag, vúhúúú áfram Síminn eða þannig.  

Kv. Eva Einarsdóttir   

14. sep. 2011

Fyrsta Vestmannaeyjahlaupið

Fyrir einu og hálfu ári síðan eða svo var mér boðið að koma til Eyja til að halda fyrirlestur í tengslum við heilsuviku hjá þeim Eyjamönnum.  Fyrirlesturinn var vel sóttur og eftir að dagskránni var lokið í íþróttahúsinu hljóp ég hring með hlaupahópnum.  Ég var alveg heilluð af umhverfinu og stakk upp á því við hlaupafélagana að halda keppnishlaup í Eyjum.  Þau voru nú ekki alveg að kaupa að það myndi ganga en ég sagði eins og satt var að hlauparar nýta hvert tækifæri til að sameina ferðalög og hlaupakeppnir.  ...Brautin væri nú ekki til þess að bæta tímana...   Þá er bara að gera út á náttúrufegurðina og erfið braut getur trekkt að, hlauparar fara heimshornanna á milli til að taka þátt í erfiðum fjallahlaupum.  Hmmmm...   Ja alla vega ef þið látið verða af því að halda hlaup þá mun ég mæta!

Það var svo í sumar sem ég sá auglýsingu um fyrsta Vestmannaeyjahlaupið og ég hoppaði næstum upp úr sætinu af gleði.  Fékk reyndar pínu í magann (fyrir utan óléttubumbuna) því ég var ekki alveg viss um að ég gæti staðið við stóru orðin og mætt í hlaupið mánuði eftir áætlaðan fæðingardag.  Ég var þess vegna sérstaklega glöð hvað það gekk vel að komast aftur af stað að hlaupa og eftir RM og Reykanesmaraþonið var það ákveðið, við skyldum til Eyja!

Við fórum snemma á föstudeginum og tókum Baldur frá Landeyjum.  Skipuleggjendur hlaupsins voru búnir að redda okkur lítilli íbúð til leigu og þegar kom í ljós að Gabríel gat ekki farið með okkur þá redduðu þau barnapíu fyrir okkur líka, þvílík þjónusta.   Við fengum súper veður og ferðin gekk eins og í sögu með stelpurnar.  Hlaupið var í einu orði sagt frábært.  Allt var tipp topp hjá þeim Eyjamönnum, brautarverðir, drykkjarstöðvar, hlaupaleiðir, verðlaunaafhending, stemmningin og öll umgjörð.  Brautin er alveg rosalega krefjandi en ég myndi segja að u.þ.b. 8,5 km væru upp í móti, 0,5 km á jafnsléttu og svo ca. 1 km niður á við (mér leið alla vega þannig :).  Þátttakan í hlaupinu fór fram úr björtustu vonum, alls tóku 250 manns þátt í þeim þremur vegalengdum sem voru í boði.

Ég hljóp frekar hratt af stað og kom mér fyrir á eftir annarri konu og pjakkaði upp hverja brekkuna á fætur annarri.  Eftir ca. 5 km fór ég aðeins að dragast aftur úr en skömmu síðar kom Gunnlaugur skokkandi fram úr mér og ég náði að negla mig á hælana á honum næstu km.  Hann seig svo fram úr mér síðustu 2 km en ég sleppti honum ekki úr augsýn og náði þar með að halda mínu sæti, 3. kona í mark.  Þórólfur rokkaði feitt og vann hlaupið, hann er í þvílíku formi drengurinn.


Nutum þess að vera túristar í Eyjum og á heimleiðinni stoppuðum við hjá Seljalandsfossi og röltum með stelpurnar undir fossinn.  Önnur frábær helgi hjá okkur sem maður festir á harða diskinn.