Fór út að skokka í morgun og hlustaði aftur á þátt 2. og 3. til að undirbúa mig fyrir bloggið og fór þá að hugsa að sennilega væru nú einhverjir búnir að hlusta á alla þættina í belg og biðu, klára allt saman. Og ég gat ekki annað en hlegið með sjálfri mér vegna þess að það þýðir að viðkomandi hafi bara alls ekki lært neitt af fyrsta þættinum sem einmitt fjallar um að taka eitt skref í einu. Bara nákvæmlega eins og að gúffa í sig heilum poka af kartöfluflögum en ekki njóta þess að fá sér eina og eina og hætta eftir nokkrar. Meiri njólarnir :) Ég er búin að hlusta á fjóra þætti, fyrstu þrjá þættina mörgum sinnum og ég fer ekki lengra fyrr en ég er búin að skrifa mína upplifun af hverjum þeirra. Ég er sem sagt að taka litla bita, smjatta og njóta.
Annar þáttur fjallar um hversu mikil áhrif nánasta umhverfi hefur á árangur og vöxt. Ég er alin upp á alkohólista og ofætu heimili og vissulega mótaði það mig gríðarlega mikið. Sem unglingur og ung kona leitaði allra leiða að koma mér sem lengst í burtu, (sennilega ómeðvitað að reyna að forða mér úr óheilbrigðu umhverfi), fór sem AuPair bæði til USA og Frakklands, valdi mér starf sem flugfreyja, dreymdi um að búa erlendis o.s.frv. Það var bara ekki nóg vegna þess að ég var alltaf með sjálfa mig í eftirdragi...
Ég tók í fyrsta skipti meðvitaða ákvörðun um að breyta mínu umhverfi þegar ég átti von á honum Gabríel mínum. Ég var í mjög slæmum félagsskap og hafði verið í 10 ár eða svo. Einhvern veginn þá varð mér það alveg ljóst að þó svo ég hefði boðið sjálfri mér upp á þetta umhverfi þá kæmi aldrei til greina að bjóða barninu mínu upp á það. Það þýddi að ég var meira og minna ein næstu þrjú árin, þ.e. fyrir utan Gabríel og foreldra mína. Ég sleit algjörlega sambandi við alla sem ég hafði umgengist daglega í mörg ár og það tók langan tíma að finna aftur gamla vini eða eignast nýja. Ég fór ekki í bíó, partý, heimsóknir, kaffihús, ferðalög, ekkert... í næstum þrjú ár. Það hvarflaði samt aldrei að mér að ég hefði tekið ranga ákvörðun, þó þetta hafi verið drullu erfitt stundum. Ég man að þegar ég gifti mig þá fannst mér hrikalega erfitt að ég var ekki gæsuð og það var sko ekkert vinkonum mínum að kenna. Annars vegar átti ég nokkrar vinkonur sem ég hafði lítið sem ekkert talað við frá því ég var unglingur og var rétt að kynnast þeim aftur og hins vegar átti ég nýjar vinkonur sem héldu örugglega að ég ætti gamlar vinkonur sem myndu taka að sér gæsunina. Í dag á ég ótrúlega góðar og traustar vinkonur. Og í dag er ég svo stór og sterk, að ef ég þyrfti, þá myndi ég bara biðja þær um að gæsa mig :)
Næsta meðvitaða ákvörðunin var að breyta um starfsumhverfi en það gerði ég einu og hálfu ári síðar. Ég hafði starfað sem flugfreyja í nokkur ár, starf sem átti engan veginn við mig. Vinnutíminn var óreglulegur, langar fjarverur, mikið djamm, flugvélamatur!!!, need I say more... Ég lét vinnuveitendur mína vita að ég myndi fara að kíkja í kringum mig, fór á ráðningarskifstofu og fékk tilboð um tvö störf, annars vegar í innflutningsfyrirtæki og hins vegar í hugbúnaðarhúsi. Ég stóð frammi fyrir því að velja á milli vinnu sem ég myndi klárlega ráða mjög vel við og svo mjög krefjandi starfs sem ég vissi í rauninni ekkert hvort ég gæti höndlað. Ég valdi krefjandi starfið og ekki síst vegna þess að ég hafði áhuga á að vera í umhverfi sem samanstóð af vel menntuðu og skapandi starfsmönnum og sá ekki eftir því.
Fjórum árum síðar, þegar við Þórólfur fórum að búa saman, þá komu upp krefjandi aðstæður vegna þess hversu ólík við vorum og við þurftum að vinna heilmikið í því að skapa umhverfi þar sem við gætum bæði blómstrað. Ég var aðeins á undan honum að detta í hlaupin og fyrstu mánuðina var það ansi erfitt fyrir minn mann að skilja af hverju ég kaus að fara út eldsnemma á morgnana að hlaupa með einhverju liði í staðinn fyrir að kúra hjá honum. 'Ætlarðu líka í dag?'... Þar sem ég hafði ekki áhuga á að fara úr umhverfinu þá var eina leiðin að breyta umhverfinu og við settumst niður og ræddum málin. Já, til þess að ég sé glöð þarf ég að fara aftur og aftur og aftur og þannig er það bara. Ef þig langar að fara þá styð ég þig heilshugar, ok. Og eins var það með matinn... Ofætan og vannærði drengurinn, muwahahaha... Ég strögglaði við að setja mér mörk varðandi mat en hann var alltaf að berjast við að halda holdum. Eitt sem varð næstum að stórmáli á fyrstu árunum okkar var að honum fannst rosalega kósý að fá sér eitthvað gúmmelaði á kvöldin og hluti af ánægjunni var að við myndum njóta þess saman. Fyrir mig var það aftur á móti algjör kvöl og pína, ef ég sagði nei takk var ég leiðinleg og ef ég sagði já takk fór ég alveg á hliðina , borðaði of mikið og leið illa. Tími á annan fjölskyldufund og ég held að minn maður hafi áttað sig þegar ég útskýrði fyrir honum að það væri jafn áríðandi fyrir mig að borða ekki á kvöldin eins og fyrir hann að fá að borða á kvöldin. Ég myndi aldrei banna honum það eða vera fúl út í hann. Það náði í gegn og þetta hefur ekki verið neitt vandadamál síðan.
Varðandi hreyfinguna þá byrjaði ég að hlaupa ein og helst í myrkri en var hvött af vinkonu minni að koma mér í hlaupahóp sem ég og gerði. Það er svo mikilvægt fyrir mann að vera með fólki sem er að stefna í sömu átt, skilur mann og styður. Fyrir þremur árum þurfti ég að taka meðvitaða ákvörðun um að skipta um hlaupahóp vegna þess að ég fann mig ekki lengur í því umhverfi sem ég var í. Það var eins og með svo margt í lífinu, ég endaði á stað sem hentaði mér miklu betur og fann félaga sem uppfylltu nákvæmlega þessi skilyrði sem eru svo mikilvæg, þ.e. skýr stefna, skilningur og stuðningur. Og í því umhverfi hef ég blómstrað og vaxið heilmikið sem íþróttamaður.
Nýjasta dæmið hjá mér sem snýr að því að skapa jákvætt umhverfi er sennilega sú ákvörðun að hafa stóru-stelpu daga með henni Lilju minni. Bara það að fara úr því umhverfi þar sem Sonja ræður ríkjum og Lilja verður að bakka og yfir í það umhverfi þar sem Lilja er númer 1,2 og 3, það hefur gert kraftaverk. Ekkert flókið, ekkert stórkostlegt, 3 klukkutímar, kaffihús og sund, það er allt og sumt en Lilja hún byrjar að telja niður á miðvikudögum og getur ekki beðið eftir að það komi þriðjudagur, stóru-stelpu dagur. Ég passa líka núna (eftir söguna um táninginn) að vera ekki að yfirheyra Gabríel um leið og hann kemur heim úr skólanum, fer úr tölvunni þegar ég heyri lyklahljóðið, hvet hann til að spila sína músík inn í stofu og býðst til að græja eitthvað snarl :)
Lilja skemmti sér konunglega á Silfurleikunum, svo dugleg og lang yngst!
Svo fór hún alveg á hliðina í verðlaunaafhendingunni, vildi ekki vera með í svona móti aftur og við skildum ekkert í þessu. 'Strákurinn við hliðina á mér sagði að ég mætti ekki vera hjá blá liðinu af því að ég var í rauðum bol... :( '
Eins gott að við eigum Ávaxtakörfuna, skynsama stelpu og getum keypt bláan bol.