31. des. 2010

Gamlárshlaup ÍR 2010

Þetta var óhefðbundið í ár hjá okkur.  Eftir að hafa afskrifað hlaupið vegna hlaupaleysis og aumingjaskapar, þá skiptum við um skoðun seint í gærkvöldi, við kunnum ekkert að vera ekki með.  Fyrst við gátum ekki platað Gabríel með okkur til að við færum okkur ekki um of þá var brugðið á það ráð að dressa sig upp í búninga.  Ég á klappstýrubúning frá USA og í morgun brunaði ég í Hókus pókus og náði mér í hárkollu, ljósa lokka til að fullkomna look-ið.  Þórólfur fékk lánaðan rosalega flottan Prins polo galla í vinnunni og var leystur út með kassa af Prins polo-i til að gefa í hlaupinu. 

Við störtuðum aftarlega og Þórólfur var duglegur að gefa krökkunum á hliðarlínunni sem voru að hvetja, starfsmönnum hlaupsins og meira að segja löggan fékk Prins polo.  Við höfðum sett okkur strangar reglum um að  gefa engum hlaupurum á meðan hlaupinu stóð og eiga þannig á hættu að vera dæmd úr leik fyrir ólöglega aðstoð muwahahaha...   Þegar við vorum komin niður fyrstu brekkuna, með öllum súkkulaðistoppunum vorum við öftust  :)  Thíhí mjög fyndin tilfinning að sjá alla strolluna fyrir framan sig, við byrjuðum að skokka og allt hlaupið vorum við að taka fram úr fólki.  Ég hef aldrei hitt eins marga á hlaupum, ótrúlega gaman, eins gott að maður venjist þessu ekki um of.

Við komum í mark á rúmum 52 mínútum og þá voru 3 lítil Prins eftir í kassanum góða.  Margir félagar okkar voru að gera frábæra hluti og bæta sig, gaman.  Ég var smá tapsár að vinna ekki búningakeppnina (get over it!).  Á heimleiðinni stoppuðum við eins og venjulega í Öskjuhlíðinni og keyptum flugelda, ég ennþá í fullum skrúða og vakti óskipta athygli (bætti alveg fyrir tapið).


Framundan góðar stundir með fjölskyldunni og gourmet veisla ársins að venju hjá Röggu svilkonu.  Getur ekki verið betra!

Við tókum saman árangur í keppnum 2010 um daginn og sendum styrktaraðilum okkar samantektina og þakkir fyrir stuðninginn.  Það þýðir að ég á þetta allt saman í röð og reglu.  Það sem stendur upp úr eftir árið  íþróttalega séð er sigur í Vesturgötunni sem ég hljóp í fyrsta sinn alla leið, pb í 5 km hlaupi í ágúst 19:34 og svo var mjög gaman að vinna Haustþonið og fara undir 1:30 þrátt fyrir brjósklos en ég vissi náttúrulega ekkert af því þá.  Ég er líka alsæl með framfarir í skriðsundinu en ég get eiginlega þakkað brjósklosinu það, ég hefði aldrei gefið mér tíma í allar þessar sundæfingar hefði ég getað hlaupið.  

Ég tók líka þátt í fullt af skemmtilegum hjólakeppnum og náði einni ágætis þríþraut.  Skrítnasta reynslan var að fá heiftarlega sinaskeiðabólgu í kjölfar landskeppninnar í götuhjólum, algjörlega handlama í fleiri vikur og þurfti þar af leiðandi að sleppa hálfa járnkarlinum, pínu súrt.   En annars ágætis ár, fullt fullt af skemmtilegu og krefjandi atburðum.  Það er hægt að stækka skjalið með því að smella á það:




30. des. 2010

Að fylgja eigin sannfæringu

Ég dáist að fólki sem fylgir sinni sannfæringu, það er eitthvað svo hreint og gott við það.  Ég fæ alveg fiðrildi í magann af gleði.  Skiptir ekki máli hvort það samræmist minni sannfæringu eða ekki.  

Ég hef lengi litið upp til Bjössa Margeirs., bæði fyrir það að hann er einn flottasti íþróttamaðurinn sem ég þekki, en ekki síður fyrir það hvernig manneskja hann er.  Í rökræðum á netinu um hin ýmsu mál tengdum íþróttinni okkar þá finnst mér skína í gegn rökhyggja, heiðarleiki og sjálfsgagrýni þar sem það á við.  Hann er samkvæmur sjálfum sér.  Það er ekki öllum gefið.

Ég heyrði af úrsögn hans úr FH á hlaupaæfingu í gærkvöldi.  Við vildum öll fá hann í okkar lið.  Ég skoðaði fréttirnar í DV í dag.  Ég renndi yfir kommentin.  Fékk aðeins í magann.  Hugsaði til fjölskyldunnar.

Áfram Bjössi, við erum stolt af þér.

29. des. 2010

Komin af stað

Fyrsta æfingin okkar í langan tíma á mánudaginn.  Ég var fullviss um að ég myndi ekki halda í við hópinn í upphitun og þorði ekki annað en að taka með mér iPod og byrjaði á að afsaka mig í bak og fyrir.  Kom í ljós að ég var bara í fínu standi og blés varla úr nös.  Ég læt samt allar sprettæfingar eiga sig í 4 vikur í viðbót, ég ætla að byrja á að koma mér í rútínu að hlaupa 5-6 sinnum í viku áður en ég tek á því af einhverju viti.  

Við erum búin að eiga frábær jól fyrir utan smá pestarsnert.  Gabríel var slappur í maganum í fyrradag og nú er hann komin með smá hita og hósta.  Lilja vaknaði með rautt auga af kvefi í gær, er með hósta en annars hitalaus og nokkuð brött.  Þórólfur er líka búin að vera með smá í hálsinum en sleppur með því að dæla í sig c vítamíni og Panodil hot.  Ég hef eiginlega sloppið best, var aðeins tæp í gær en náði mér á strik.  Það versta var eiginlega að ég hnerraði án þess að koma mér í læsta stöðu og þarf að borga fyrir það með eymslum í baki í tvo daga :(  Eins gott að ég sé ekki með ofnæmi fyrir einhverju!

Við hlökkum til að halda uppá áramótin með stórfjölskyldunni og svo er afmælið hennar Lilju rétt handan við hornið.  Nóg að gera og lífið er gott.

Svona enduðum við mæðgur á kósíkvöldinu okkar...

Aðeins að viðra okkur á jóladag :)

24. des. 2010

Snapshot af aðfangadeginum okkar

Lilja hjálpar pabba að setja toppinn á jólatréð.
 Lilja milli afa, spennan að magnast...
 Gabríel var ótrúlega duglegur að hjálpa til í eldhúsinu.
 Sætustu stelpurnar í bænum.
 Alveg að missa sig úr spenningi.
Kollý amma var löngu búin að ákveða að gefa henni Lilju dúkkuhús í jólagjöf.  Við hjálpuðum afa Þór að klára málið og uppfylla drauminn.   
Gabríel var ánægður með uppskeruna og nú sitja strákarnir hérna hjá okkur og keppa í nýja PS3 körfuboltaleiknum hans Gabríels.

Við stelpurnar erum að koma okkur fyrir í kósí fílíng og ætlum að horfa á Vefinn hennar Karlottu. 
Dásamleg jól.  
Takk fyrir.


21. des. 2010

Jólaskap

Svei mér þá, nú finn ég jólaskapið læðast aftan að mér og ofan í hálsmálið...  Byrjaði daginn á að taka á móti ungri stúlku sem ætlar að taka jólahreingerninguna í ár fyrir okkur.  Ó, hvílík gleði, finnst það eiginlega allra besta jólagjöfin í ár.

Við Gabríel fórum í smá jólagjafaleiðangur í gær og svo fóru strákarnir og náðu í jólatré handa okkur.  Ég fór út að skokka í hádeginu og tók þá eftir öllum jólaljósunum, svo kalt og fallegt.  Í dag fékk ég líka jólagjöfina frá vinnunni og allt þetta jóla, jóla... gerði það að verkum að ég skipti um skoðun og útbjó jólakort í hvelli (ætlaði bara að sleppa því í ár) og nú er ég búin að græja það allt saman.  Það verða sem sagt send út jólakort í ár en ég lofa ekki að þau komi fyrir jól.  Það er örugglega bara betra, kortið fær þá extra mikla athygli og týnist ekki í fjöldanum :)

Jingle bells, jingle bells, duhduhrudduhduhhh...

19. des. 2010

Trompetleikari?


Eða það hélt ég, en þetta er víst flygilhorn...? Lilja er alla vega alveg með þetta, sama hvað þetta er. Náði fínum tón í fyrstu tilraun, annað en mamma hennar. Sé hana alveg fyrir mér í gasalega smart lúðrasveitarbúning, norpandi niður Laugavegin á 17. júní... :)
Posted by Picasa

Eins og talað...

Mér fannst eins og ég hefði fengið fyrstu jólagjöfina mína í ár, þegar ég rakst á smá umsögn  í Fréttatímanum, um ljóðasafn sem verið er að gefa út um jólin.

Lífsþor

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,
sjálfstraust til að efast, er aðrir trúa,
djörfung til að mæla gegn múgsins boðun,
manndóm til að hafa eigin skoðun.

Höfundur: Árni Grétar Finnsson

Verð eilíflega þakklát fyrir að einhver hafi getað komið þessum mikilvægu skilaboðum, sem ég hef haft að leiðaljósi í mínu lífi síðustu árin, í svona flottan búning.  Cool.

17. des. 2010

Spennufall

Formlegu sorgarferli eftir fráfall tengdamömmu minnar lauk í gær en þá fór jarðarförin hennar fram.  Þetta er búið að vera ótrúega skrítið og erfitt, en líka mjög lærdómsríkt og jákvætt. 

Mikilvægasta lexían í öllu þessu ferli er hversu ómetanlegur stuðningurinn frá vinum og fjölskyldu er.  Ég hefði aldrei trúað því hvaða áhrif smá skilaboð á Facebook eða sms hafa á svona stundum.  Tala nú ekki um símtöl, blóm, kerti og knús.  Ég verð að viðurkenna að ég var fyrir þessa reynslu alveg 'clueless'.  Í þau fáu skipti, sem betur fer, sem einhver mér náin hefur misst ástvin þá hef ég bara verið hálf feiminn, rétt svo stunið upp úr mér samúðarkveðjum og dregið mig í hlé.  Hélt einhvern veginn að maður væri bara fyrir eða eitthvað.  Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að fólk mætir í jarðarfarir, ekki bara til að kveðja einhvern sem þeim þykir vænt um heldur líka og kannski enn frekar til að sýna þeim sem eftir standa væntumþykju og stuðning.  Ég hef aldeilis fengið rækilega lexíu undanfarna daga og það veit sá sem allt veit að héðan í frá mun ég hegða mér öðruvísi í svona aðstæðum.

Ég er svo þreytt að mér líður eins og tólf tonna trukkur hafi keyrt yfir mig og bakkað aftur.   Allt fer úr skorðum, maturinn í tómu tjóni og orkuleysi eftir því.  Við höfum ekki gefið okkur tíma til að hreyfa okkur eins og venjulega og þá verður maður ennþá þreyttari og slappari.  Það stendur nú samt allt til bóta og við stefnum á að koma okkur í dásamlegu rútínuna okkar eins og skot, ja svona í nokkra daga áður en allt fer úr skorðum aftur :)

En alla vega nú byrjar nýr kafli og við förum að einbeita okkur að því að halda gleðileg jól.  Til að marka það skýrt fórum við á jólatónleika hjá Sinfóníunni áðan, alltaf jafn gaman að fá smá jólagleði innspítingu beint í æð. 

10. des. 2010

Arnaldur, drapst þú mann?

Þegar ég skrifa sögur, t.d.smásögur, þá er það skáldskapur, ekkert flóknara en það.  Ég fæ kannski hugmyndina  að plottinu vegna einhvers sem ég upplifi eða heyri einhvers staðar.  Í framhaldinu myndast setningar og myndir í kollinum á mér, ekkert endilega tengt upprunalegu hugmyndinni en jú stundum er það þannig.  Svo gerjast þetta allt saman í kollinum á mér í nokkra daga.  Ég safna saman myndum, hugmyndum, tilfinningum og hugsunum sem mér finnst passa inn í söguna.  Hluti af því að auka áhrif boðskapsins, því sannarlega er þessi saga skrifuð með ákveðin boðskap í huga, er t.d. að stórkostlega ýkja kringumstæður og gera þær dramatískar.  

Í nýjustu smásögunni minni, Vinarkveðja, þá er ég bæði allar persónurnar og engin þeirra.  Hugmyndin kviknaði reyndar út frá litlu atviki sem gerðist ekki alls fyrir löngu en það var bara neistinn.  Persónurnar eru samsettar úr allri minni reynslu, af sjálfri mér og öðrum sem hafa orðið á vegi mínum.  Ég gæti sennilega leikið öll hlutverkin á einhverjum tíma í mínu lífi.  Ég skálda hugsanir og tilfinningar allra persónanna.  Tilgangur sögunar var annars vegar að setja niður fyrir mig hvernig ég upplifi hugtök eins og vinátta, traust, vinsemd, virðing, fyrirgefning, lærdómur, þroski, sorg o.s.frv. og hins vegar að vinna mig út úr smá vonbrigðum.

Ég er mjög ánægð með söguna og finnst hún áhrifarík.  Til þess var leikurinn gerður.  Það myndi aldrei hvafla að mér að taka til mín eitthvað sem ég ætti ekki en það myndi vekja mig til umhugsunar ef ég sæi sjálfan mig í hlutverki sem mér líkar ekki.  

Ég held líka að það hvarfli ekki að nokkrum manni að Arnaldur hafi drepið mann, þó svo hann skrifi um morð :)

6. des. 2010

Friður og ró

Í dag vil ég hafa eitthvað fallegt á síðunni minni.  Í dag er ég svo óendanlega þakklát fyrir vini mína og fjölskyldu.   Í dag höfum við grátið, hlegið og faðmast.  Í dag lærðum við enn einu sinni hvað það er sem skiptir máli.  Í dag fékk ástvinur okkar loksins hvíld.


 

4. des. 2010

Smásaga

Vinarkveðja

Af hverju?

Við hittumst á ganginum og ég veit að þér leið illa.  Orðin bunuðust út úr munninum á þér.  Ekki hátt, þú vilt ekki vekja á þér athygli.  'Ég gat ekkert að þessu gert.  Þetta var ekkert mér að kenna.  Þú ert bara ósanngjörn að ætlast til það að ég... ég...   Ég á ekki að þurfa að velja.  Hvað viltu eiginlega frá mér?   Ég gat ekkert að þessu gert!'

Nei annars, þú sagðir ekkert, leist bara í gólfið og labbaðir framhjá. 

Vinur minn hefði hringt í mig og sagt mér frá þessu.  Vinur minn hefði skilið, að þó svo mér fyndist það erfitt, þá hefði ég bara hafa tautað eitthvað pínulítið og sætt mig svo við stöðuna.  Ekki kennt honum um neitt.  Auðvitað ekki.  Ég er ekkert þannig.  Vinur minn sem veit allt um málið.  Vinur minn.  Hann hefði alla vega sent sms.   Varað mig við.  Leyft mér að brynja mig.  Af því að honum þykir vænt um mig og fólkið mitt.  Og af því hann vissi allt.  Vissi hvað ég hafði misst mikið.  Vinur minn hefði gert það.

Ég er ekki nísk á bros eða greiða.  En vinátta mín, er dýrmætasta gjöfin sem ég gef.  Ég gaf þér mína.  Í fyrstu galopin og óhrædd, síðar aðeins hikandi.  En samt gaf ég þér hana alla.  

Og þú splundraðir henni.  Ekki með því að grýta henni í gólfið með einhverjum látum.  Þú ert ekki þannig.  Nei, þú læddir henni bara hljóðlega fram af brúninni. Aftur.  

Hún splundrast.

Glerbrotin stingast í mig.  Stingast í þann sem mér þykir svo vænt um.  Það er verra.  Ég hefði samt alveg fyrirgefið vini mínum.  Hann hefði bara þurft að biðja.

Ég hef líka fyrirgefið þér.  Þú þarft ekkert að biðja.  Og ekki vera hrædd við mig.  Ég vil þér bara vel.  Þú getur treyst því.  Og þú veist að þú getur treyst mér.  

Af hverju?

Það glymur í höfðinu á þér.  'Hver þykist hún vera?  Hún getur ekki ætlast til þess að ég...?  Þetta er ekkert mér að kenna!   Ég gerði ekkert!  Ég gerði ekkert!  ÉG GERÐI EKKERT!'.

Sama hvað þú öskrar hátt inní þér, þá yfirgnæfir lítið hvísl allt saman.  Óþolandi lítið hvísl:  'Ég hefði ekki getað átt betri vin...  Ég hefði ekki getað átt betri vin....  Ég hefði ekki getað...'. 


Höf:  Eva Margrét Einarsdóttir

3. des. 2010

Fjölskyldan

Ég er ein af þeim sem fá frunsur öðru hvoru.  Það eru reyndar margir, margir, mánuðir síðan síðast en í gærkvöldi fékk ég tvær í einu!  Það sem mér finnst svo merkilegt er hvað andleg og líkamleg heilsa eru samtengd og ég get nákvæmlega sagt til um það hvað triggeraði það að þessi vírus blossaði upp með þessu offorsi í líkamanum mínum. Við hjónin upplifðum persónulegt áfall á miðvikudaginn (reyndar ekkert sem við getum ekki unnið úr og erum á góðri leið með það n.b.) og voilá í gærkvöldi fékk ég slátt í varirnar.  En skítt með það, þetta tekur nokkra daga og svo er það búið.

Í gær endurskipulögðum við þvottahúsið með tilliti til breyttra bakaðstæðna og með hjálp pabba græjuðum við borð undir þvottavélina og þurrkarann, þannig að nú er ekkert því til fyrirstöðu að ég leggi mitt af mökum í þvottamálum, jeiii....   Nei, í alvöru talað þá skil ég ekkert í af hverju við erum ekki löngu búin að gera þetta, nóg pláss og allt annað að þurfa ekki að bogra við að setja í vélina, algjör snilld.

Menningamálaráðherrann (Þórólfur :) á heimilinum fór hamförum í síðasta mánuði og er búin að skipuleggja þvílíkt mikið skemmtilegt fyrir okkur.  Í kvöld er það Fjölskyldan í Borgarleikhúsinu og það er eins gott að ég sé orðin svona góð í bakinu, skilst að þetta sé maraþon sýning!

1. des. 2010

Fyrsti í hlaupi

Miklu merkilegri en fyrsti í aðventu :)   Það er eins og hlaupa-genið og blogg-genið sé samtengt hjá mér, ef ég hleyp minna, blogga ég minna.  Rétt rúmar þrjár vikur síðan ég fór á sprettæfinguna örlagaríku og þurfti að skríða heim nánast.  Í dag skokkaði ég hálftímann, það er algjör hefð þegar ég er að koma mér í gang af því það er fyrsta leiðin sem ég hljóp (þ.e. hluta af henni) þegar ég byrjaði að hlaupa í gamla daga. 

Það var líka tilvalið að nota tímann til að senda fallegar hugsanir til hennar Bibbu minnar sem á afmæli í dag en það var einmitt hún sem hvatti mig til að byrja að hlaupa.  Allt of langt síðan ég hef hitt hana Bibbu mína :(

Ég var að spá í að koma við í höllinni að kíkja á félagana á 'alvöru' æfingu en hætti við og er þakklát fyrir það eftir á, það var ekki rétti dagurinn fyrir mig að mæta.  Ég reikna nú samt með því að byrja  í næstu viku og miðað við hversu vel mér líður á hlaupunum, þá hef ég engar áhyggjur af framhaldinu, ég á eftir að koma mér í topp form áður en langt um líður.  Og já, já ég er ofur skynsöm.

Við vorum svo glöð að eignast litlu skvísuna okkar á sínum tíma og þegar ég segi skvísa þá meina ég Skvísa með stóru essi!
Vouge...

 Ég er búin að prjóna heilmikið í hlaupapásunni og
hér er Liljan heimaprjónuð frá toppi til læra.

Krakkarnir komust í kistuna með gömlu búningunum
hans Gabríels um daginn, muwahahaha...

Að lokum smá tungumálakennsla en Lilja talar heilmikla ensku, spjallar eins og vindurinn við pabba hans Gabríel í Ameríku á Skype-inu og svona   Hún er líka alveg ófeimin við að spreyta sig á pólsku upp í risi en uppáhalds erlenda tungumálið er án nokkurs vafa...danska! 



29. nóv. 2010

Anda djúpt...

Nú er svo mikið að gera, bæði í vinnu og í fjölskyldustússi að maður verður að passa að stoppa öðru hvoru, draga andann djúpt og ná áttum.   

Síðustu daga höfum við afrekað að fara á jólahlaðborð á Hilton, fara jólaball á Nasa undir stjórn Páls Óskars, baka meiri piparkökur, fara í bæinn og fylgjast með þegar jólaljósin voru tendruð á Austurvelli, koma við í heildsölu og kaupa smá í jólapakkana, finna fram einhver jólaljós og koma á sinn stað og í gærkvöld fórum við loksins að sjá hana Charlotte Böving í Iðnó.  Vorum alsæl með sýninguna, virkilega notaleg stund hjá okkur hjónum. 

Framundan eru piparkökuskreytingar með bekknum hans Gabríels, jólaföndur í leikskólanum hjá Lilju, baka fyrir kökubasar og sitt hvað fleira. 

Sem sagt, lífið er dásamlegt og já, ég er miklu betri í bakinu!

26. nóv. 2010

Pössunargæi

Hann Gabríel okkar hefur alltaf verið mjög hagsýnn og með mikla verðvitund.  Þegar hann var lítill, þá var afi Þór stundum alveg steinhissa þegar okkar maður sagði honum, að nei nei hann þyrfti ekkert nýtt dót, hann ætti nóg af þessu eða hinu.  Ég man varla eftir að hann hafi tuðað eða sníkt föt eða annað.  Hann viðrar alveg sínar skoðanir, segir kannski 'Þetta er flott peysa...' eða eitthvað svoleiðis en honum finnst einhvern veginn að það sé ekkert sjálfsagt að fá dót eða föt nema að það sé eitthvað sérstakt tilefni.

Nú er hann að verða meiri og meiri unglingur og hann hefur alveg rosalega mikinn áhuga á fötum og tísku.  Hann tilkynnti okkur t.d. að hann langaði bara í mjúka pakka í jólagjöf.  En hann er alveg búin að sjá að hann á ekki eftir að fá allt sem hann langar í og um daginn spurði hann hvort hann gæti farið að bera út blöð eða eitthvað.  Hann þarf að vera orðin 13 ára til þess svo ég bauð honum í staðinn að hann mætti taka við af pössunarpíunni okkar og fá aur fyrir að passa Lilju ef hann vildi.  (N.b. það er ein pössun innifalin í viku, það er bara að taka þátt í skyldum fjölskyldunnar eins og að fara út með ruslið og búa um :)  

'Ætlið þið ekkert út í kvöld???'.  Nei... við ætlum bara að vera heima og slaka á.  'Hva, getið þig ekki farið í smá göngutúr eða eitthvað...?'  Thí, hí, það er annað hvort í ökkla eða eyra.

Gabríel búin að svæfa Lilju :)

21. nóv. 2010

Þegar piparkökur...

Helgin byrjaði með trukki, en ég fór í sundæfingabúðir hjá ÞríR á föstudagskvöld og laugardagsmorgun.  Þeir Remí og Jackie leiddu okkur í allan sannleikann um hvernig maður getur náð árangri í skriðsundinu.  Þeir sýndu okkur vídeó og svo vorum við látin púla í lauginni í tvo tíma í senn, báða dagana.  Frábært að fá svona góða leiðsögn og nú hef ég fullt að hugsa um á næstunni.  

Í dag bökuðum við piparkökur, skreyttum og hlustuðum á jólarásina á meðan:
 
 Hérna náði pabbi einni af okkur óvænt...
 Og þarna erum við búin að stilla okkur upp...
 Enginn kvöldmatur nema þið séuð sæt saman...
 Hvað get ég sagt, Bree lifandi komin...
 Litli listamaðurinn eða málarameistarinn eins og hún segir. 
 Þvílík einbeiting!
Dæs...hvað þetta er flott :)

20. nóv. 2010

I plan to re-plan

Ég held að hluti af því að höndla hamingjuna sé að vera með góða aðlögunarhæfni.  Núna síðustu vikuna þá hef ég fengið þvílíkt mikið af fallegum kveðjum frá fólki sem þykir vænt um mig og hefur áhyggjur af mér.  Sérstaklega áhyggjur af geðheilsunni yfir því að ég geti ekki hlaupið.  Það er svo skrýtið að eins og mér finnst gaman að hlaupa og það er stór hluti af lífinu mínu yfirleitt þá er það algjörlega á hreinu að lífsgleði mín felst ekki í því að hlaupa.  Úff ég get ekki ímyndað mér hvað það væri hræðilegt að setja svoleiðs hömlur á gleðina, það er nánast gefið að á einhverjum tíma dettur maður út í meiðslum eða af öðrum ástæðum.  Lífsgleði mín felst í að njóta þess að gera það sem ég get gert hverju sinni eins vel og ég get.

Ég get sko alveg viðurkennt að ég var voða leið á sunnudaginn var, en þá get ég varla labbað, var ómöguleg í hvaða stellingu sem er og langaði ekki að vera nálægt nokkrum manni.  En um leið og það leið hjá þá bara finn ég ekki fyrir neinu þunglyndi, alls ekki.  Ég er ekkert einu sinni að reyna að vera Pollýanna, mér finnst í alvöru bara gaman að snúa mér að einhverju öðru í bili.   Sjúkraþjálfarinn minn er mjög ánægður með framfarirnar milli heimsókna og segir að það sé þrennt sem er að hjálpa mér sérstaklega til að ná skjótum bata.  Í fysta lagi hugarfarið, í öðru lagi að ég sé ekki of þung og í þriðja lagi hversu góðu formi ég er í.  Allt þetta er að hjálpa mér og hann gerir ráði fyrir að ég geti farið að skokka um mánaðarmótin.  Það er bara frábært.  Ég á sennilega alltaf eftir að þurfa að passa mig á að vera ekki að bogra eða lyfta þungu en að öðru leyti ætti þetta brjósklos ekki að há mér neitt sérstaklega í framtíðinni.  

Fyrirsögnina sá ég á bol hjá kennaranum mínum á alveg frábæru námskeiði sem ég var á í lok vikunnar í tengslum við Agilis ráðstefnuna.  Sennilega besta námskeið sem ég hef farið á 'Innovation Games®' og einn af þessum kennurum sem maður þakkar fyrir að fá að hitta á lífsleiðinni.  Eitt sem ég tók með mér var að einhver kom með spurningu um hvernig hægt væri að 'motivera' einhvern annan til að gera eitthvað.  Það er ekki hægt, sagði kennarinn.  Motivation comes from within, it's an internal drive, not external.  You can ignite it, if it's present within a person, but you can't force motivation on someone.  It's just not possible.  It's one of the basic things you learn in psychology.  That's why you can't choose a sport for your kid.  You can let them try different things to figure out what they like, that's all.

16. nóv. 2010

KOSTIR og gallar

Í gær áttum við hjónin 7 ára brúðkaupsafmæli og í tilefni dagsins fékk ég rós frá bónda mínum.  Ég skakklappaðist í leyni í Vínbúðina og keypti litla freyðivínsflösku svo við gætum skálað í brúðarglösunum okkar um kvöldið.  Þórólfur var á sundnámskeiði um kvöldið og ég fór með niðrí Laugardal, labbaði góðan hring og skellti mér svo í laugina og tók létta sundæfingu.   Við hjónin slökuðum á í heita pottinum og komum svo heim í freyðivín og heimatilbúið döðlukonfekt, nammi namm.    

Á 5 ára brúðkaupsafmælinu okkar var þetta meira svona 2007.  Ég skipulagði óvissuferð til New York með öllu tilheyrandi og hélt kjafti um það í 9 mánuði, Þórólfur fékk að vita af því 3 tímum áður en vélin fór í loftið!  (Hér er ævintýrið í nokkrum stuttum köflum: 1., 2., 3., 4., 5., 6., 7. 8., 9.  :)

Ég fór í sneiðmyndatöku í Domus Medica í morgun og er búin að fá greiningu.  Ég er með lítið miðlægt brjósklos í neðstu hryggjarliðunum. Um leið og ég fékk að vita hvað var að plaga mig þá fór ég í að gera lista yfir kosti og galla í huganum.  

Ég byrja alltaf á kostunum:
  • Timasetningin er góð, ekkert merkilegt að gerast í hlaupunum eða þríþrautinni akkúrat núna.
  • Ég má alls ekki gera heimilisstörf eins og að setja í uppþottavél, þvottavél, ryksuga, skúra.  Ekkert sem krefst þess að maður beygi sig eða bogri (var að spá í að setja þetta í galla.... NOT).
  • Ég á mjög þolinmóðan maka.
  • Það er hrikalega kalt úti núna, rok og blautt eitthvað og ekkert sérstaklega freistandi að fara út.  
  • Ég gef mér góðan tíma í að komast á milli staða þegar ég er svona hægfara og er þvílíkt stundvís fyrir vikið.
  • Þegar maður er ekki hlaupandi eða að flýta sér, þá upplifir maður heiminn á annan og skemmtilegan hátt.
  • Ég get vel labbað og mér finnst gaman að fara í langa göngutúra.
  • Mér líður mjög vel í sundi og nú er tækifæri til að bæta sig þar, ég syndi á hverjum degi.
  • Þetta fer í reynslubankann og nú get ég talað af eigin reynslu ef einhver leitar til mín með svona vandamál.
  • Er komin í strekkingu hjá Rúnari, skiptir þá ekki máli ef ég þyngist aðeins þar sem ég er að lengjast  :)
  • Er að drukkna í sögum um hlaupara sem hafa fengið brjósklos og afrekað svo eitthvað svakalegt korteri seinna.
  • Maður verður rosalega þakklátur fyrir allar framfarir og að geta gert venjulega hluti.
  • Ég er búin að grafa fram alla þægilega skó sem ég á og ég var búin að gleyma nokkrum flottum.
  • Gott fyrir mig að hanga í upphífingagræjunni og nú get ég farið að keppa við stelpurnar í Skólahreysti.
  • Ég þurfti að vera frá vinnu í tvo daga og Gabríel er ekkert lítið ánægður að hafa mömmu sína heima þegar hann kemur heim úr skólanum.
  • Ég get ekki setið lengi í einu þannig að ég er alltaf að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera.
  • Ég þarf örugglega að fá nýjan stól í vinnunni, alltaf gaman að fá nýtt dót.


Gallar:
  • Þetta er vont og ég get ekki lyft Lilju.

Sko, falleg að innan :)

14. nóv. 2010

Garmur

Gamurinn minn bilaði sama dag og ég fór í hlaupahvíld fyrir nokkum vikum síðan.  Hann hætti að finna tungl, ekki mikið gagn í gps tæki sem nær ekki sambandi við gervihnetti...  Ég keypti Garminn í USA í sumar á $130 í gegnum Amazon og hann var enn í ábyrgð.  Ég hafði samband við Garmin á Íslandi og þeir voru svo sætir (eða þannig) að bjóða mér að taka við honum og græja málin fyrir 15000 krónur!!!  Það er jafn mikið og hann kostaði og ég var ekki á því að láta taka mig svona í afturend...  

Ég skoðaði Garmin síðuna á netinu og fékk samband við support.  Þeir bentu mér á að senda hann til Garmin Europe í Bretlandi og ég myndi fá nýjan eða viðgerðan Garm innan 15 daga.  Ég borgaði innan við tvö þúsund kall fyrir að senda hann í ábyrgðarpósti og á föstudaginn fékk ég glænýjan Garm til baka.  Nú er bara spurning hvað ég á að fá mér fyrir 13 þúsund kallinn sem ég græddi!!! 

Annars er ég algjör garmur þessa dagana.  Þvílíkt klúður...  Eftir fyrstu kynni mín af því að fá í bakið, já einmitt í hlaupahvíldinni þá var ég búin að ná mér 90% með hjálp sjúkraþjálfara á sínum tíma.  Ég hef svo bara verið þræl góð í nokkrar vikur, hlaupið og keppt og já svei mér þá unnið hlaup.  Ég hef samt alltaf vitað aðeins af bakinu.  Svona smá undirliggjandi eymsl sem mér leist ekkert á að væru ekki að láta sig hverfa.  

Ég pantaði mér tíma hjá sjúkraþjálfara á mánudaginn til þess að tjúnna mig til, þ.e. ná þessum 10% góðum svo ég væri alveg stríheil fyrir Powerade á fimmtudaginn.  Við Þórólfur vorum efst í parakeppninni og ég efst í mínum flokki.  Ég fékk minn skammt af nálastungum, nuddi og fyrirmæli um að ég mætti halda mínu striki.  Og þá dundu ósköpin yfir.  Að halda mínu striki, þýddi hjá sjúkraþjálfaranum að ég tæki því rólega þennan dag og færi svo bara á æfingu eins og venjulega daginn eftir.  Hjá mér þýddi það að ég færi bara á næstu æfingu... sem var á mánudagskvöldið.  Æfingin var svo sérsaklega óhentug svona beint eftir krukk, 200m sprettir á fullu.  Í 6. spretti þá gaf sig eitthvað í bakinu og ég skakklappaðist af brautinni og þurfti að labba heim.

Nú er staðan sú að í staðinn fyrir að vera 90% góð þá er ég 100% í tómu tjóni og geðið eftir því .  Það er vont að standa, vont að sitja, hræðilegt að standa upp eða setjast niður, óbærilegt að fara í sokka og skó og sællll....  það leið næstum því yfir mig þegar ég hnerraði óvænt í morgun.  Sortnaði fyrir augunum og gat varla gengið næstu tímana á eftir.  Akkúrat núna er mér skítsama þó ég geti ekki hlaupið næstu mánuðina, bara ef ég get gert venjulega hluti og haldið á börnunum mínum án þess engjast um af sársauka (ok ég veit að þetta er kannski full dramatískt en það gerir rithöfundurinn sem blundar í mér :).

Ég geri mér samt fulla grein fyrir því að þetta er smotterí í hinu stóra samhengi og ég get gengið og synt. Mér líður eiginlega best þegar ég er að synda skriðsund.  Verst að á milli mín og skirðsundins er athöfnin að klæða sig í og úr og það er nákvæmlega ekkert skemmtilegt við hana akkúrat núna.

Þórólfur stendur sig eins og hetja í aðstandenda hlutverkinu, þolinmæðin uppmáluð.  Ég er ágæt í vaggandi um í eldhúsinu, eins gott að nýta tækifærið og koma sér í mjúkinn þar sem ég þarf hjálp við flest annað.  Á föstudaginn bakaði ég humar og hrá skinku pizzur og í gær tók ég skrens á Disney bókinni með krökkunum.  Í tilefni feðradagsins í dag eldaði ég uppáhalds matinn hans Þórólfs, 'Flygande Arvidson'.


11. nóv. 2010

Órói

Við Gabríel fórum saman í bíó í gær og sáum myndina Óróa.  Flott mynd sem fjallar um fullt af þeim hlutum sem unglingar þurfa að takast á við.  Ég kannaðist við allt úr myndinni en vona að mín börn þurfi ekki endilega að taka allan pakkann... en ef svo er þá er bara lykilatriði að reyna að undibúa þessi kríli manns eins vel og maður getur, búa til traustan grunn.  

Það mætti halda að ég væri með tvo unglinga á heimilinu, hún Lilja mín er svo mikil dama og spáir heilmikið í að vera fín og skvísuleg. Hún er svoleiðis með taktana (ekki frá mér!) þegar hún sveiflar hárinu til og frá, greiðir sér endalaust fyrir framan spegilinn, elskar að fá lánað glingur og það eru jólin ef hún kemst í snyrtidótið mitt.

Um daginn kom hún til mín með titrandi vör og tilkynnti mér þau hörmulegu tíðindi að hún ætti ENGA hælaskó með tilheyrandi dramatískum tilburðum...  

Mamma má ég líka fá gloss?   Gat eiginlega ekki sagt nei, þó svo hún væri að fara að sofa bráðum, þar sem við Gabríel vorum að stinga af í bíó.  Jú, jú ekkert mál.  'En mamma, þú verðu að setja varablýantinn fyrst!!!'.  Díhhh...

8. nóv. 2010

Handavinna að hausti

Ég er algjör handavinnu kerling, elska að pjóna og hekla á kvöldin í stofunni. Helst undir teppi, með kveikt á kertum og annað augað á sjónvarpinu. Ég dett í handavinnugírinn á haustin og nýt þess að vera í honum fram á vor. Þá legg ég yfirleitt frá mér prjónana og nota tímann í annað.   Ég byrjaði reyndar á þessari peysu á Ísafirði, það passar nefnilega líka að vera með handavinnu í sumarbústað.  Þegar ég var komin rétt upp fyrir ermar átti ég ekki meira garn og þá voru góð ráð dýr.  Hringdi vestur í 'Heitt á prjónunum' og það var ekki vandamálið að senda mér eina dokku til að geta klárað.  Prjónaði og helkaði húfuna og vettlinginn (hinn týndist á laugardaginn og er ekki komin í leitirnar enn) eftir uppskrift úr nýjasta lopablaðinu.  Ef vettlingurinn finnst ekki þá á ég nóg garn í annan til að redda settinu.  Núna er ég að gera sams konar á Lilju, nema í öfugum litum og ég nota kambgarn í staðinn fyrir létt lopa, það er mýkra.  
 
Ég fæ einstöku sinnum á tilfinninguna að það sé soldið mikið á dagskrá hjá okkur, full mikið stundum...   Hlaupaæfingar, sundæfingar, körfuboltaæfingar, fimleikaæfingar, vinna, skóli, leikskóli, vinir, stór-fjölskyldan, pínu menning og listir, tónleikar, leikhús, lestur, heimavinna, búðarferðir, út að leika með vinum og heimsóknir.  Ég klippi líka flesta fjölskyldumeðlimina, geri við öll föt og stytti buxur á meðan Þórólfur sér um bílaþvotta, gerbakstur og matjurtaræktun.  Gabríel fer út með rusl og blöð og Lilja sópar stéttina fyrir utan hjá okkur.  Svo þarf að skipta um dekk á hjólunum, pumpa reglulega, þvo íþróttaföt, önnur föt og litla kroppa áður en þeir fara í bólið.  Ekki má gleyma brauðbakstrinum, sushi námskeiðum, skvísukvöldum, árshátíðum, jólaböllum, hópeflum, uppboðum, sjálfboðavinnu, námskeiðahaldi, fyrirlestrunum og saumaklúbbunum.  Í auglýsingahléum eru svo teknar nokkrar upphífingar og magaæfingar inn í stofu.  Ég á ekki neinum vandræðum með að sofna á kvöldin.  Svo er þetta sennilega svona hjá öllum og yfirleitt er ég ekkert að spá í þetta, maður gerir bara eitt, tvennt eða í mesta lagi þrennt í einu, þá er þetta ekkert mál, bara gaman.
Og sem betur fer er þetta ekki að hafa nein áhrif á geðheilsu fjölskydunnar....

7. nóv. 2010

Óskasteinn

Við Lilja áttum erindi í Holtagarða í gær og þegar við komum inn í andyrið þá kemur Sigga Klingenberg svífandi niður rúllustigann í svakalegu gulu dressi og með meters háan hatt á höfðinu.  Lilju var alveg dolfallinn yfir þessari sýn og sagði svo hátt og skýrt og með aðdáun í röddinni, 'Vá mamma, sjáðu hvað konan er rosalega flott!'

Sigga heyrði í henni og kom rakleitt til okkar, stakk hendinni inn að brjóstinu á sér og dró fram óskastein, glansandi fínan og gaf henni Lilju.  Ég vissi ekki hvert hún ætlaði af gleði, hún kreisti hendina um steininn og lokaði augunum og óskaði sér.

Við fórum svo að versla og allt í einu segir Lilja við mig,  'Mamma, við verðum að kaupa hundamat'.  Nú af hverju?  'Ég óskaði mér að eignast pínulítinn hund.'  :)

5. nóv. 2010

Statistikk

Það er fátt sem gleður hjarta gamals business analysta eins og góð statistikk!  Ég var að krúttast eitthvað á blogginu mínu um daginn, þ.e. í uppsetningunni og fann þá mér til mikillar gleði síðu tileinkaða statistikk á blogginu mínu.  Ég get skoðað hit frá upphafi, síðasta mánuð (n.b. ég fæ 6 - 7 þúsunund hit að jafnaði, á mánuði!), viku eða hvað það eru margir að skoða síðuna núna.  Ég get séð hvernig þeir tengjast síðunni minni og það sem mér fannst allra skemmtilegast, hvaðan mínir lesendur koma.  Ég átti ekki krónu með gati þegar ég sá að ég á heilan helling af lesendum í Japan!  Veit samt ekki alveg hvað mér finnst um þetta.  Hugsa málið.

Hér er yfirlit yfir síðustu viku:


Og svo var ég að detta inn á þennan pistil hjá henni Karen Axelsdóttur, gæti ekki verið meira sammála.




3. nóv. 2010

Sushi

Við hjónin fórum á Sushi námskeið í gær í góðum félagsskap.  Frábært námskeið, fengum að smakka aðeins á meðan við vorum að útbúa bitana en fengum svo að taka afraksturinn heim.  Stutt stopp í vínbúðinni til að redda hvítvíninu og svo var mini-sushi veisla heima í stofu, þegar litla skottan var komin í ból.  Nammi, namm :)

1. nóv. 2010

Disney helgi

Vil Lilja störtuðum helginni samkvæmt plani með fimleikum á laugardagsmorgun.  Ég tók með mér prjónana og sat á hliðarlínunni og horfði á.  Lilja fékk fyrirtaks lexíu í að hlýða kennurum í balletskólanum en þá voru foreldrarnir lokaðir úti, máttu ekkert vera að skipta sér af.  Í fimleikunum aftur á móti eru foreldrarnir út um allt!!!  Það er mjög fróðlegt að fylgjast með frústreruðum foreldrum elta börnin sín út um allan sal, hóta þeim og biðja til skiptis um að gera það sem kennarinn segir...  'Ef þú ferð ekki aftur í röðina fer ég með þig heim!'.  Já einmitt...

Við fórum í Kringluna á kaffihús eftir fimleika og í leiðinni fjárfestum við í Disney matreiðslubókinni og þvílík kostakaup.  Krakkarnir elska þessa bók og það gera afarnir líka.  Pabbi sem hefur tvisvar sinnum á ævinni eldað, þar af í annað skiptið með mikilli hjálp mömmu... var alveg heillaður og sá alveg fyrir sér að hann gæti eldað eftir þessum uppskriftum.  Afi Þór var líka mjög áhugasamur.

Gabríel stóð sig vel í körfunni á Akranesi.  Þeir fengu einn leik gefins, töpuðu einum og unnu síðasta leikinn.  Alltaf gott að enda á sigri og hann er alltaf jafn áhugasamur í körfunni.  Á meðan við stelpurnar biðum eftir að  fá strákana okkar heim skelltum við okkur í sund í Mosfellsbæ.  Þegar ég var að borga mig inn sagði Lilja við afgreiðslukonuna:  Pabbi minn segir að ég megi ekki fara í stóru appelsínugulu rennibrautina... en mamma mín leyfir mér það alveg sko!'.  Öhhh...    Eftir annasaman dag enduðum við á Grillhúsinu og fengum þar bæði góðan mat og fína þjónustu.  Höfum ekki farið þangað áður en eigum örugglega eftir að endurtaka það einhvern daginn.


Eftir helgarhlaup á sunnudagsmorgun í brunakulda, inn í Elliðaárdal og öfugan Powerade hring notuðum við daginn í að þrífa, baka, halda kaffiboð og fara í sundferð í Laugardalinn svo eitthvað sé nefnt.  Við demdum okkur líka í Disney uppskriftirnar og prófuðum að gera döðlukonfekt, kókoskúlur og í kvöldmat útbjuggum við innbakaðar pylsur sem vöktu gríðarlega lukku hjá restinni (þ.e. hinum í fjölskyldunni, ég hef ekki borðað pylsur í mörg ár :).  Litla skottan okkar var alveg búin á því eftir ævintýri helgarinnar og var ekki lengi að sofna.


Eina sem klikkaði var að hún Charlotte Böving var eitthvað hálf slöpp í gær og treysti sér bara í eina sýningu fyrir vikið.  Við frestuðum því leikhúsferðinni okkar um tvær vikur, en það passar reyndar bara fínt því þá eigum við 7 ára brúðkaupsafmæli og tilvalið að halda uppá það í leiðinni.  

29. okt. 2010

Everything's amazing :)

Ja ef einhver hefð sagt mér í gamla daga að ég ætti eftir að synda fjórsund þá hefði ég nú bara hlegið að þeim.  Það er nú samt raunin!  Á sundæfingunni í gær synti ég 3 * 100 m fjórsund en þá byrjar maður á flugsundi, skiptir yfir í bak skrið, svo er það bringusundið og að lokum skrið.  Fyrir tveimur mánuðum hafði ég aldrei synt bak skrið, né flugsund og nú finnst mér bæði gaman.  

Hlakka mikið til helgarinnar sem er rétt handan við hornið, fullt prógramm eins og venjulega og verulega fjölskyldumiðað.  Fimleikar í fyrramálið með skottunni minni og það er eiginlega komin hefð á kaffihúsaferð á eftir hjá okkur stelpunum.  Gabríel er að fara að keppa í körfubolta á Akranesi á laugardaginn og pabbi hans ætlar að vera honum til halds og traust, hvetja okkar mann til dáða.  Lilja hefur ekki úthald í svona marga tíma í íþróttahúsi svo við mæðgur finnum okkur eitthvað til dundurs á meðan.

Á sunnudaginn ætlum við hjónin að kíkja á Charlotte Böving í Iðnó, Þetta er lífið... om lidt er kaffen klar og ég hlakka svo mikið til.  Mér finnst hún stór skemmtileg, virkar bæði einlæg og raunsæ.

Ég hlakka líka til að komast í prjónana mína.  Eignaðist nýja lopablaðið í síðustu viku og nú er ég búin að prjóna/hekla flotta húfu og ætla að gera grifflur og vettlinga í stíl.  Ég er oft með einhver stór verkefni í gangi, peysur og svoleiðis, þannig að það er svo gaman að gera eitthvað sem tekur bara eina til tvær kvöldstundir.  Set inn myndir við tækifæri.

Fínt að fara inn í helgina með þakklæti og gleði í sálinni.  Sá þetta frábæra myndband á Youtube í gær, Everything's Amazing, Nobody's Happy,  got to love it!

27. okt. 2010

Gungur

Ó hvað ég á erfitt með gungur!  Kanski af því ég var einu sinni svo mikil gunga sjálf.  Ég er svo heppin í dag að þekkja heilan helling af flottu, hugrökku fólki sem gerir umburðarlyndi mitt gagnvart gungum enn minna...

Um helgina horfðist ég í augu við gungu.  Gungan lét persónulega innibyrgða reiði sína gagnvart mér, bitna á manninum mínum þar sem hann var að hvetja hlaupara í Haustþoninu.  Í staðinn fyrir að þakka stuðninginn eða bara láta hann afskiptalausan, snéri hann sér að honum, gretti sig ógurlega og setti þumalinn niður.  Krakkarnir voru sem betur fer á þeirri stundu komin niður í fjöru að leika sér.

Eftir hlaupið fékk ég að heyra af þessu og spurði gunguna hvort þetta væri satt og hvað henni gengi eiginlega til með þessari hegðun?  'Já, ég gerði það!', sagði hann hróðugur.  'Maðurinn þinn á stoppa þessi geðsjúku skrif þín á blogginu!!!'.   (Ég geri þá ráð fyrir að maðurinn sé að vísa í þetta eða þetta, nei það er sennilega þetta sem hann meinar þegar hann talar um geðsjúk skrif, án þess að vita það fyrir víst enda  skýrði hann það ekki nánar.)

Þegar ég stóð þarna með börnin mín tvö mér við hlið og horfði á afmyndað andlitið af reiði og hatri, hugsaði ég til þess að síðasta sumar ullaði sami maður á okkur hjónin í Laugardalnum þegar við vorum að hita upp fyrir Ármannshlaupið.

Já og ég hugsaði líka um tölvupóstana sem hann sendi og bað mig svo fyrir alla muni að birta ekki eftirá, sem var náttúrulega bara sjálfsagt.  Ég hef enga þörf fyrir að birta sorp.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér atvik úr síðasta Haustþoni þar sem ég var í hörku keppni í hálfa maraþoninu.  Við komum 3 konur í röð að drykkjarstöð á snúningspunkti, ég síðust.  Fyrstu tvær fengu drykki en þegar kom að mér að taka við mínum, rykkti starfsmaðurinn (og spúsa ullarans/gungunnar) að sér drykknum og neitaði að afhenda mér hann!  Ég þurfti að hlaupa aukakrók að drykkjarborðinu og ná mér í drykk sjálf en svei mér þá ef það var samt ekki skárra en þetta, þó svo ég hafi á sínum tíma verið verulega slegin.

Áður en ég labbaði í burtu frá gungunni á laugardaginn og tók við sigurlaununum í hálfa maraþoninu, horfði ég í augun á henni og sagði ósköp rólega og yfirvegað:  'Þú ert lítill maður'.

Hann og hans líkar geta aldrei framar gert mér mein.

P.s. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er ekki sú að ég þurfi endilega að vera að velta mér upp úr þessu, mér hundleiðist þetta mál frá upphafi til enda.  En ég hef tekið persónulega ákvörðun um að líða hvorki einelti, né ofbeldi og þá er sama hver á í hlut.  Ég ætla ekki að þegja yfir svona uppákomum lengur.  Skömmin er ekki mín.

Ath. Ég birti ekki nafnlausar athugasemdir, takk samt.

24. okt. 2010

Allir á Esjuna

Fengum að sofa út og leyfðum okkur það aldrei þessu vant eftir tjúttið okkar.  Áttum frábært kvöld í miðbæ Reykjavíkur í gær, röltum á milli pöbba og enduðum svo á Austur en þar var þvílík stemmning.  Dönsuðum fram á rauða nótt (n.b. það er klukkan tvö hjá okkur) en þá vorum við búin að fá nóg og það var notalegt að hoppa beint upp í leigubíl og heim.  Mamma og pabbi buðu í brunch í dag og eftir mat drifum við okkur upp á Esju, hele familien.

Lilja er búin að suða um Esjuferð í fleiri vikur, alveg síðan ég fór um daginn, en það hefur einhvern veginn aldrei passað.  Hún var búin að plata pabba sinn til að kaupa fyrir sig nestisbox og brúsa fyrir Esjuferð og allt.  Í dag var bæði frábært veður og engin önnur plön.  Við dúðuðum okkur, pökkuðum niður nesti og lögðum í hann.  Allir þurftu að labba sjálfir í þetta sinn og krakkarnir stóðu sig eins og hetjur.  Fórum upp fyrir litlu brúnna og langleiðina upp steintöppurnar áður en við snérum niður aftur.  Við stoppuðum oft á leiðinni til að henda steinum í ánna eða skoða eitthvað.  Við sáum bílinn hans Orra bróður á bílastæðinu áður en við fórum upp og vourm svo heppin að hitta á hann og kærustuna hans á niðurleið.  Það gerði ferðina enn skemmtilegri.  

Vorum frekar dösuð og svöng eftir langa útiveru og settum slaufu á ferðalagið með ísbíltúr í Garðabæ enda búin að vinna vel fyrir því, nammi namm.  Nokkrar myndir úr ferðinni:

Gabríel upp á hól 
Allir í röð 
Við fundum flott klakalistaverk á leiðinni
Sææællll....  frekar fyndið.  Tungan er alveg eins og lítið hjarta þarna í miðjunni  :) 
Ríkasta kona í heimi!
Þarna snérum við við við við...

Jólakortamyndin komin?

p.s. það er hægt að smella á myndirnar til að stækka þær ;-)

23. okt. 2010

Haustþon 2010

Sumir dagar eru bara þannig að allt gengur upp.  Ég er var alveg pollróleg fyrir þetta hlaup, er bara rétt að komast á skrið eftir bak vesenið mitt og væntingarnar eftir því.  Ég var með eitt markmið fyrir daginn og það var að hlaupa þannig að það væri gaman.  Ég er ekki búin að gleyma vorþoninu þar sem ég fór of hratt af stað, ætlaði mér of mikið miðað við form og sprakk svona líka svakalega með tilheyrandi leiðindum.  

Ég ákvað að hlaupa þetta klukkulaus og fór mjög rólega af stað.  Var nú samt nokkuð fljót að sigla fram úr nokkrum konum og eftir km sá ég að ég væri sennilega 2. kona í hlaupinu.  Keppnisskapið er aldrei langt undan og ég ákvað að sjá hvort ég gæti ekki sigið hægt og örugglega í áttina að 1. konu.  Eftir 5-6 km náði ég  hennu.  Ég reyndi að missa hana ekki frá mér aftur og þó svo ég hafi dregist nokkrum sinnum aftur úr, næstu 10 km gat ég einhvern veginn alltaf lokað bilinu á milli okkar aftur.  

Ég var búin að ákveða með sjálfri mér að ef ég næði að hanga þangað til 5 km væru eftir þá myndi ég taka af skarið og reyna að stinga af.  Það tókst og við síðustu drykkjarstöðina tók ég sprettinn.  Náði Gutta og Trausta sem var að pace-a 1:30 og nú var bara að bíta á jaxlinn og halda út.  Kom sjálfri mér gjörsamlega á óvart með þvi að, annars vegar vinna hlaupið og ekki síður að hlaupa þetta á 1:29:45 sem er rétt við PB.  Þórólfur og krakkarnir voru á hliðarlínunni á Ægissíðunni að hvetja mig og svo tóku þau á móti mér í markinu.  



Sibba, Eva, Lilja og Margrét.
Allar stelpurnar í Asics liðinu á palli í dag!

Afi og amma í Norðurbrún voru búin að lofa krökkunum að gista hjá sér í kvöld, engin sérstök ástæða.  Hvað er aftur sagt..., þegar kötturinn sefur fara mýsnar á stjá.  Alla vega þá ákváðum við hjónin að gera okkur kvöldmun.  Pöntuðum okkur mat frá Austulandahraðlestinni, náðum okkur í rósavín og nú er bóndinn nýkomin úr sturtu og að gera sig sætan.  Við gömlu hjónin erum nefnilega á leiðinni í bæinn á tjúttið, toppiði það!!!

P.s.  Ég fór á vinnufund hjá Dale Carnegie á fimmtudagsmorguninn.  Ég tók eitt og annað með mér þaðan en það mikilvægasta fyrir mig var vídeó sem sýnir þjálfara sem er að stappa stálinu í liðið sitt fyrir úrslitaleik.  Ég drekk í mig svona hvatningu og í dag var mantran mín 'I am a champion'.  Hér er vídeó-ið.

20. okt. 2010

Ákvarðanir og ábyrgð

Ein af þeim ákvörðunum sem ég hef tekið er að vera að jafnaði í formi til að geta hlaupið 1/2 maraþon.  Mér finnst frábær tilfinning að vita að ég geti hvenær sem er hlaupið í 1 1/2 - 2 tíma án þess að finna fyrir því eða að geta hlaupið upp Esjuna án þess að blása úr nös (eða næstum því :þ ).

Önnur ákvörðun sem ég hef tekið, er að vera grönn restina af lífinu.  Á haustin fæ ég alltaf heilmikið af fyrirspurnum og beiðnum um ráðleggingar varðandi hreyfingu og matarræði.  Ég sé það þannig að það fyrsta sem maður þarf að gera er að skoða vel og vandlega hvað það er sem maður raunverulega vill.  Í framhaldinu þarf maður svo að taka ákvörðun um að láta það rætast.  Ef maður er með kristal tæra framtíðarsýn og kýr skýr markmið þá er hitt bara smá vinna.

Ég fæ oft spurninguna um hvort hlaupin hafi skipt sköpum í að ég náði tökum á þyngdinni og svarið er í rauninni nei.  Jú, jú ég léttist heilmikið þegar ég byrjaði að hlaupa vegna þess að ég fór að brenna meiru en ég var vön.  Þegar ég var komin í ákveðna rútínu með hlaupin byrjaði ég að þyngjast aftur, hægt en örugglega.  Ég vaknaði upp við vondan draum 2 árum eftir að ég byrjaði að hlaupa 7 kg þyngri en árinu áður.  

Þá fór ég að huga að matarræðinu fyrir alvöru og það er alveg klárt í mínum huga að það er það sem skiptir öllu máli varðandi þyngdarstjórnun.  Það er til alveg fullt af feitum hlaupurum sko.  Fólk sem hreyfir sig daginn út og daginn inn en er alltaf of þungt.  Ég veit ekki um neinn sem borðar hæfilega mikið af hollum mat sem er of feitur.  Alveg sama þó svo viðkomandi hlaupi ekki svo mikið sem á klósettið...   

Ég er svo fegin að vera ekki að dröslast lengur um með þá ranghugmynd að ég hafi verið sérstaklega óheppin að vera fitubolla, það firrir mann nefnilega ákveðinni ábyrgð.  Ég tek fulkomna ábyrgð á sjálfri mér og uppsker eins og ég sái.  Ég get ekkert óvart orðið feit aftur, eina leiðin fyrir mig til að verða feit aftur er að borða allt of mikið.  Ég þarf að bíta í tunguna á mér þegar fólk fer að útskýra að það varð svo feitt af því það skildi, missti einhvern, leið illa, varð atvinnulaust...   Eina leiðin til að verða of feitur er að innbyrgða meiri orku en þú eyðir.   Það er val, ekki örlög eða óheppni.

Svona sé ég þetta fyrir mig:
  • Ég borða hæfilega mikið af hollum mat vegna þess að ég hef tekið alvöru ákvörðun um að vera grönn restina af ævinni.
  • Ég hleyp, syndi, hjóla og sprikla eins mikið og ég get til að vera glöð og full af endorfíni.
  • Ef ég er glöð, þá er miklu auðveldara að borða hæfilega mikið af hollum mat sem er töluvert krefjandi verkefni fyrir þann sem hefur stútað í sér 'hættu að borða þegar þú er södd' tilfinningunni.
  • Ef ég borða hæfilega mikið af hollum mat þá er miklu auðveldara að hreyfa sig og ná sér í ennþá meira endorfín... :)

Þetta kallast "Win win situation".

18. okt. 2010

Mömmuleikur

Frábær helgi að baki þar sem áherslan var sett á mömmu hlutverkið samkvæmt nýja planinu mínu!  Fann að mig langaði meira að sinna ungunum en að keppa í hlaupum/tvíþraut og ég valdi vel.   

Gabríel tók þátt í fyrsta körfuboltamótinu sínu, þvílíkt gaman hjá honum.  Hann var að keppa einn flokk upp fyrir sig og stóð sig með prýði.  Þjálfarinn var mjög ánægður með hann, sagði að hann væri bæði snöggur og sterkur og ef hann stækkar eins og hann á ættir til þá gæti hann náð fínum árangri í íþróttinni.  Það er mjög fyndið að sjá stærðarmuninn á strákunum á þessum aldri, 12 - 14 ára, Gabríel hefði geta staðið inní sumum þeirra!  Næstu helgi er svo fyrsta mótið hjá honum þar sem hann keppir við sína jafnaldra.


Culver númer 34

Lilja er alveg sjúk í að fara í útilegu eða uppí sveit þessa dagana.  Hún suðar um að fara í sveitina á hverjum degi og ef það gengur ekki hvort hún megi þá ekki sofa í tjaldi út í garði...  'Mamma en mér verður ekkert kalt!  Mamma þú mátt líka sofa í tjaldinu! (jeiii),  Mamma gerðu það...".  Í gær tók hún til sinna ráða og fór í útilegu í herberginu sínu :)


15. okt. 2010

Powerade # 1 2010

Fyrir rúmri viku síðan var ég búin að blása af allar keppnir fram að áramótum, mér var illt í bakinu og ómöguleg.  Síðan þá er ég búin að taka þátt í tveimur keppnum og er að spá í tvær til viðbótar um helgina!!!  Ekki í lagi með mann.  Breytingin er samt sú að einhvers staðar í lok sumars þá týndi ég keppnisgleðinni, sennilega að setja of mikla pressu á mig en núna er þetta bara gaman og ég tek eina keppni í einu, skoða hvernig mér líður með að taka þátt og ef ég fæ gleði tilfinningu þá læt ég vaða.  Annars geri ég bara eitthvað annað sem mér finnst gaman.

Við hjónin erum í byrjun uppbyggingartímabils í hlaupunum núna og erum að taka erfiðar styrktaræfingar með hópnum okkar.  Hörku erfiðir sprettir á mánudaginn og þrek/sprettæfing á miðvikudag.  Skv. honum Þorláki þjálfara þá eigum við ekki að hvíla fyrir Powerade, heldur taka þau sem tempóæfingu vikunnar hverju sinni.  Það er alveg frábært finnst mér, tekur af manni alla pressu og maður er afslappaður og fínn á línunni.  

Hlaupið í gær var alveg frábært fyrir mig.  Fór rólega af stað, tók góðan millikafla og hélt svo fínum dampi, alveg án þess að sprengja mig síðustu 2-3 km.  Ég þarf að fara varlega í brekkunum á meðan ég er að jafna mig alveg í bakinu og notaði tækifærið til að hugsa um stílinn, öndunina og taktinn hjá mér.  Ég var ekki með klukku og var hoppandi glöð með tímann, 42:07 en það er mínútu betri tími en í Geðhlaupinu.  Held að þetta sé besta byrjunin mín í Powerade og þetta veit á góðan vetur.  Gaman.


Verð að setja inn þessa mynda af www.hlaup.is frá Geðhlaupinu.
Þvílíkt fagn, það mætti halda að ég hefði verið að vinna Ólympíuleikana!!!

12. okt. 2010

Notalegt...


...að koma heim eftir sundæfingu á fimmtudagskvöldið og finna fólkið sitt svona :)
Við Þórólfur eigum 9 ára 'Fyrsta koss' afmæli í dag og héldum upp á það með því að fá okkur æðislegan mat frá Austurlandahraðlestinni. Við eigum meira að segja mynd af 'atburðinum'.  Set hana kannski inn á 10 ára afmælinu :)