Formlegu sorgarferli eftir fráfall tengdamömmu minnar lauk í gær en þá fór jarðarförin hennar fram. Þetta er búið að vera ótrúega skrítið og erfitt, en líka mjög lærdómsríkt og jákvætt.
Mikilvægasta lexían í öllu þessu ferli er hversu ómetanlegur stuðningurinn frá vinum og fjölskyldu er. Ég hefði aldrei trúað því hvaða áhrif smá skilaboð á Facebook eða sms hafa á svona stundum. Tala nú ekki um símtöl, blóm, kerti og knús. Ég verð að viðurkenna að ég var fyrir þessa reynslu alveg 'clueless'. Í þau fáu skipti, sem betur fer, sem einhver mér náin hefur misst ástvin þá hef ég bara verið hálf feiminn, rétt svo stunið upp úr mér samúðarkveðjum og dregið mig í hlé. Hélt einhvern veginn að maður væri bara fyrir eða eitthvað. Ég hafði til dæmis ekki hugmynd um að fólk mætir í jarðarfarir, ekki bara til að kveðja einhvern sem þeim þykir vænt um heldur líka og kannski enn frekar til að sýna þeim sem eftir standa væntumþykju og stuðning. Ég hef aldeilis fengið rækilega lexíu undanfarna daga og það veit sá sem allt veit að héðan í frá mun ég hegða mér öðruvísi í svona aðstæðum.
Ég er svo þreytt að mér líður eins og tólf tonna trukkur hafi keyrt yfir mig og bakkað aftur. Allt fer úr skorðum, maturinn í tómu tjóni og orkuleysi eftir því. Við höfum ekki gefið okkur tíma til að hreyfa okkur eins og venjulega og þá verður maður ennþá þreyttari og slappari. Það stendur nú samt allt til bóta og við stefnum á að koma okkur í dásamlegu rútínuna okkar eins og skot, ja svona í nokkra daga áður en allt fer úr skorðum aftur :)
En alla vega nú byrjar nýr kafli og við förum að einbeita okkur að því að halda gleðileg jól. Til að marka það skýrt fórum við á jólatónleika hjá Sinfóníunni áðan, alltaf jafn gaman að fá smá jólagleði innspítingu beint í æð.
Kannast við þetta sem þú lýsir varðandi feimnina við aðstandendur. Sendi þér stórt knús:)
SvaraEyðaKv. Sigga Júlla