Vinarkveðja
Af hverju?
Við hittumst á ganginum og ég veit að þér leið illa. Orðin bunuðust út úr munninum á þér. Ekki hátt, þú vilt ekki vekja á þér athygli. 'Ég gat ekkert að þessu gert. Þetta var ekkert mér að kenna. Þú ert bara ósanngjörn að ætlast til það að ég... ég... Ég á ekki að þurfa að velja. Hvað viltu eiginlega frá mér? Ég gat ekkert að þessu gert!'
Nei annars, þú sagðir ekkert, leist bara í gólfið og labbaðir framhjá.
Vinur minn hefði hringt í mig og sagt mér frá þessu. Vinur minn hefði skilið, að þó svo mér fyndist það erfitt, þá hefði ég bara hafa tautað eitthvað pínulítið og sætt mig svo við stöðuna. Ekki kennt honum um neitt. Auðvitað ekki. Ég er ekkert þannig. Vinur minn sem veit allt um málið. Vinur minn. Hann hefði alla vega sent sms. Varað mig við. Leyft mér að brynja mig. Af því að honum þykir vænt um mig og fólkið mitt. Og af því hann vissi allt. Vissi hvað ég hafði misst mikið. Vinur minn hefði gert það.
Ég er ekki nísk á bros eða greiða. En vinátta mín, er dýrmætasta gjöfin sem ég gef. Ég gaf þér mína. Í fyrstu galopin og óhrædd, síðar aðeins hikandi. En samt gaf ég þér hana alla.
Og þú splundraðir henni. Ekki með því að grýta henni í gólfið með einhverjum látum. Þú ert ekki þannig. Nei, þú læddir henni bara hljóðlega fram af brúninni. Aftur.
Hún splundrast.
Glerbrotin stingast í mig. Stingast í þann sem mér þykir svo vænt um. Það er verra. Ég hefði samt alveg fyrirgefið vini mínum. Hann hefði bara þurft að biðja.
Ég hef líka fyrirgefið þér. Þú þarft ekkert að biðja. Og ekki vera hrædd við mig. Ég vil þér bara vel. Þú getur treyst því. Og þú veist að þú getur treyst mér.
Af hverju?
Það glymur í höfðinu á þér. 'Hver þykist hún vera? Hún getur ekki ætlast til þess að ég...? Þetta er ekkert mér að kenna! Ég gerði ekkert! Ég gerði ekkert! ÉG GERÐI EKKERT!'.
Sama hvað þú öskrar hátt inní þér, þá yfirgnæfir lítið hvísl allt saman. Óþolandi lítið hvísl: 'Ég hefði ekki getað átt betri vin... Ég hefði ekki getað átt betri vin.... Ég hefði ekki getað...'.
Höf: Eva Margrét Einarsdóttir
Engin ummæli:
Skrifa ummæli