10. des. 2010

Arnaldur, drapst þú mann?

Þegar ég skrifa sögur, t.d.smásögur, þá er það skáldskapur, ekkert flóknara en það.  Ég fæ kannski hugmyndina  að plottinu vegna einhvers sem ég upplifi eða heyri einhvers staðar.  Í framhaldinu myndast setningar og myndir í kollinum á mér, ekkert endilega tengt upprunalegu hugmyndinni en jú stundum er það þannig.  Svo gerjast þetta allt saman í kollinum á mér í nokkra daga.  Ég safna saman myndum, hugmyndum, tilfinningum og hugsunum sem mér finnst passa inn í söguna.  Hluti af því að auka áhrif boðskapsins, því sannarlega er þessi saga skrifuð með ákveðin boðskap í huga, er t.d. að stórkostlega ýkja kringumstæður og gera þær dramatískar.  

Í nýjustu smásögunni minni, Vinarkveðja, þá er ég bæði allar persónurnar og engin þeirra.  Hugmyndin kviknaði reyndar út frá litlu atviki sem gerðist ekki alls fyrir löngu en það var bara neistinn.  Persónurnar eru samsettar úr allri minni reynslu, af sjálfri mér og öðrum sem hafa orðið á vegi mínum.  Ég gæti sennilega leikið öll hlutverkin á einhverjum tíma í mínu lífi.  Ég skálda hugsanir og tilfinningar allra persónanna.  Tilgangur sögunar var annars vegar að setja niður fyrir mig hvernig ég upplifi hugtök eins og vinátta, traust, vinsemd, virðing, fyrirgefning, lærdómur, þroski, sorg o.s.frv. og hins vegar að vinna mig út úr smá vonbrigðum.

Ég er mjög ánægð með söguna og finnst hún áhrifarík.  Til þess var leikurinn gerður.  Það myndi aldrei hvafla að mér að taka til mín eitthvað sem ég ætti ekki en það myndi vekja mig til umhugsunar ef ég sæi sjálfan mig í hlutverki sem mér líkar ekki.  

Ég held líka að það hvarfli ekki að nokkrum manni að Arnaldur hafi drepið mann, þó svo hann skrifi um morð :)

2 ummæli:

  1. Nákvæmlega, það er nefnilega þetta með að setja sig í aðstæður og/eða spor annarra - án þess þó að framkvæma;)
    Þú ert snilldar penni Eva.
    Kveðjur úr kuldanum og próflestri í Norge.
    Sigga Júlla

    SvaraEyða
  2. Takk Sigga Júlla mín. Gangi þér vel í prófunum!

    SvaraEyða