16. nóv. 2010

KOSTIR og gallar

Í gær áttum við hjónin 7 ára brúðkaupsafmæli og í tilefni dagsins fékk ég rós frá bónda mínum.  Ég skakklappaðist í leyni í Vínbúðina og keypti litla freyðivínsflösku svo við gætum skálað í brúðarglösunum okkar um kvöldið.  Þórólfur var á sundnámskeiði um kvöldið og ég fór með niðrí Laugardal, labbaði góðan hring og skellti mér svo í laugina og tók létta sundæfingu.   Við hjónin slökuðum á í heita pottinum og komum svo heim í freyðivín og heimatilbúið döðlukonfekt, nammi namm.    

Á 5 ára brúðkaupsafmælinu okkar var þetta meira svona 2007.  Ég skipulagði óvissuferð til New York með öllu tilheyrandi og hélt kjafti um það í 9 mánuði, Þórólfur fékk að vita af því 3 tímum áður en vélin fór í loftið!  (Hér er ævintýrið í nokkrum stuttum köflum: 1., 2., 3., 4., 5., 6., 7. 8., 9.  :)

Ég fór í sneiðmyndatöku í Domus Medica í morgun og er búin að fá greiningu.  Ég er með lítið miðlægt brjósklos í neðstu hryggjarliðunum. Um leið og ég fékk að vita hvað var að plaga mig þá fór ég í að gera lista yfir kosti og galla í huganum.  

Ég byrja alltaf á kostunum:
  • Timasetningin er góð, ekkert merkilegt að gerast í hlaupunum eða þríþrautinni akkúrat núna.
  • Ég má alls ekki gera heimilisstörf eins og að setja í uppþottavél, þvottavél, ryksuga, skúra.  Ekkert sem krefst þess að maður beygi sig eða bogri (var að spá í að setja þetta í galla.... NOT).
  • Ég á mjög þolinmóðan maka.
  • Það er hrikalega kalt úti núna, rok og blautt eitthvað og ekkert sérstaklega freistandi að fara út.  
  • Ég gef mér góðan tíma í að komast á milli staða þegar ég er svona hægfara og er þvílíkt stundvís fyrir vikið.
  • Þegar maður er ekki hlaupandi eða að flýta sér, þá upplifir maður heiminn á annan og skemmtilegan hátt.
  • Ég get vel labbað og mér finnst gaman að fara í langa göngutúra.
  • Mér líður mjög vel í sundi og nú er tækifæri til að bæta sig þar, ég syndi á hverjum degi.
  • Þetta fer í reynslubankann og nú get ég talað af eigin reynslu ef einhver leitar til mín með svona vandamál.
  • Er komin í strekkingu hjá Rúnari, skiptir þá ekki máli ef ég þyngist aðeins þar sem ég er að lengjast  :)
  • Er að drukkna í sögum um hlaupara sem hafa fengið brjósklos og afrekað svo eitthvað svakalegt korteri seinna.
  • Maður verður rosalega þakklátur fyrir allar framfarir og að geta gert venjulega hluti.
  • Ég er búin að grafa fram alla þægilega skó sem ég á og ég var búin að gleyma nokkrum flottum.
  • Gott fyrir mig að hanga í upphífingagræjunni og nú get ég farið að keppa við stelpurnar í Skólahreysti.
  • Ég þurfti að vera frá vinnu í tvo daga og Gabríel er ekkert lítið ánægður að hafa mömmu sína heima þegar hann kemur heim úr skólanum.
  • Ég get ekki setið lengi í einu þannig að ég er alltaf að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera.
  • Ég þarf örugglega að fá nýjan stól í vinnunni, alltaf gaman að fá nýtt dót.


Gallar:
  • Þetta er vont og ég get ekki lyft Lilju.

Sko, falleg að innan :)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli