Gamurinn minn bilaði sama dag og ég fór í hlaupahvíld fyrir nokkum vikum síðan. Hann hætti að finna tungl, ekki mikið gagn í gps tæki sem nær ekki sambandi við gervihnetti... Ég keypti Garminn í USA í sumar á $130 í gegnum Amazon og hann var enn í ábyrgð. Ég hafði samband við Garmin á Íslandi og þeir voru svo sætir (eða þannig) að bjóða mér að taka við honum og græja málin fyrir 15000 krónur!!! Það er jafn mikið og hann kostaði og ég var ekki á því að láta taka mig svona í afturend...
Ég skoðaði Garmin síðuna á netinu og fékk samband við support. Þeir bentu mér á að senda hann til Garmin Europe í Bretlandi og ég myndi fá nýjan eða viðgerðan Garm innan 15 daga. Ég borgaði innan við tvö þúsund kall fyrir að senda hann í ábyrgðarpósti og á föstudaginn fékk ég glænýjan Garm til baka. Nú er bara spurning hvað ég á að fá mér fyrir 13 þúsund kallinn sem ég græddi!!!
Annars er ég algjör garmur þessa dagana. Þvílíkt klúður... Eftir fyrstu kynni mín af því að fá í bakið, já einmitt í hlaupahvíldinni þá var ég búin að ná mér 90% með hjálp sjúkraþjálfara á sínum tíma. Ég hef svo bara verið þræl góð í nokkrar vikur, hlaupið og keppt og já svei mér þá unnið hlaup. Ég hef samt alltaf vitað aðeins af bakinu. Svona smá undirliggjandi eymsl sem mér leist ekkert á að væru ekki að láta sig hverfa.
Ég pantaði mér tíma hjá sjúkraþjálfara á mánudaginn til þess að tjúnna mig til, þ.e. ná þessum 10% góðum svo ég væri alveg stríheil fyrir Powerade á fimmtudaginn. Við Þórólfur vorum efst í parakeppninni og ég efst í mínum flokki. Ég fékk minn skammt af nálastungum, nuddi og fyrirmæli um að ég mætti halda mínu striki. Og þá dundu ósköpin yfir. Að halda mínu striki, þýddi hjá sjúkraþjálfaranum að ég tæki því rólega þennan dag og færi svo bara á æfingu eins og venjulega daginn eftir. Hjá mér þýddi það að ég færi bara á næstu æfingu... sem var á mánudagskvöldið. Æfingin var svo sérsaklega óhentug svona beint eftir krukk, 200m sprettir á fullu. Í 6. spretti þá gaf sig eitthvað í bakinu og ég skakklappaðist af brautinni og þurfti að labba heim.
Nú er staðan sú að í staðinn fyrir að vera 90% góð þá er ég 100% í tómu tjóni og geðið eftir því . Það er vont að standa, vont að sitja, hræðilegt að standa upp eða setjast niður, óbærilegt að fara í sokka og skó og sællll.... það leið næstum því yfir mig þegar ég hnerraði óvænt í morgun. Sortnaði fyrir augunum og gat varla gengið næstu tímana á eftir. Akkúrat núna er mér skítsama þó ég geti ekki hlaupið næstu mánuðina, bara ef ég get gert venjulega hluti og haldið á börnunum mínum án þess engjast um af sársauka (ok ég veit að þetta er kannski full dramatískt en það gerir rithöfundurinn sem blundar í mér :).
Ég geri mér samt fulla grein fyrir því að þetta er smotterí í hinu stóra samhengi og ég get gengið og synt. Mér líður eiginlega best þegar ég er að synda skriðsund. Verst að á milli mín og skirðsundins er athöfnin að klæða sig í og úr og það er nákvæmlega ekkert skemmtilegt við hana akkúrat núna.
Þórólfur stendur sig eins og hetja í aðstandenda hlutverkinu, þolinmæðin uppmáluð. Ég er ágæt í vaggandi um í eldhúsinu, eins gott að nýta tækifærið og koma sér í mjúkinn þar sem ég þarf hjálp við flest annað. Á föstudaginn bakaði ég humar og hrá skinku pizzur og í gær tók ég skrens á Disney bókinni með krökkunum. Í tilefni feðradagsins í dag eldaði ég uppáhalds matinn hans Þórólfs, 'Flygande Arvidson'.
Æ elsku Eva mín. Versti staðurinn til þess að vera með verki er í bakinu - þetta er akkúrat miðpunkturinn og reynir á í nánast öllum daglegum hreyfingum. Lenti í þessu fyrir mörgum árum og hef haft mikla samúð með bakverkjasjúklingum síðan. Vonandi batnar þér sem allra, allra fyrst.
SvaraEyðaAlveg með ólíkindum þessi þjónusta hér á landi með Garminn, hefði haldið að þeir sem væru með umboðið á Íslandi þyrftu að veita sömu þjónustu og veitt er erlendis og sérstaklega þar sem græjan var enn í ábyrgð..Væri ekkert að því að athuga það..
SvaraEyðaKv. Hildur
Ég hef ekki sömu sögu að segja um Garmin umboðið. Ég fór með úr sem ég hafði keypt á netinu til þeirra. Það var bara tveggja mánaða gamalt og batteríið var eitthvað duglítið. Ég sagði honum að úrið væri keypt á netinu. Hann tók samt við úrinu og tveimur dögum síðar fékk ég sms um að úrið væri tilbúið til afhendingar og þá kom í ljós að gamla/nýja úrið væri ónýtt og ég fékk alveg spánýtt úr :) Eins og að líkum lætur var ég alveg hrikalega ánægð með þjónustuna.
SvaraEyðaVona að bakið sé á réttri leið :/
Ég hef líka verið ánægð með þjónustuna hingað til, alveg ástæða til að taka það fram.
SvaraEyða