29. nóv. 2010

Anda djúpt...

Nú er svo mikið að gera, bæði í vinnu og í fjölskyldustússi að maður verður að passa að stoppa öðru hvoru, draga andann djúpt og ná áttum.   

Síðustu daga höfum við afrekað að fara á jólahlaðborð á Hilton, fara jólaball á Nasa undir stjórn Páls Óskars, baka meiri piparkökur, fara í bæinn og fylgjast með þegar jólaljósin voru tendruð á Austurvelli, koma við í heildsölu og kaupa smá í jólapakkana, finna fram einhver jólaljós og koma á sinn stað og í gærkvöld fórum við loksins að sjá hana Charlotte Böving í Iðnó.  Vorum alsæl með sýninguna, virkilega notaleg stund hjá okkur hjónum. 

Framundan eru piparkökuskreytingar með bekknum hans Gabríels, jólaföndur í leikskólanum hjá Lilju, baka fyrir kökubasar og sitt hvað fleira. 

Sem sagt, lífið er dásamlegt og já, ég er miklu betri í bakinu!

26. nóv. 2010

Pössunargæi

Hann Gabríel okkar hefur alltaf verið mjög hagsýnn og með mikla verðvitund.  Þegar hann var lítill, þá var afi Þór stundum alveg steinhissa þegar okkar maður sagði honum, að nei nei hann þyrfti ekkert nýtt dót, hann ætti nóg af þessu eða hinu.  Ég man varla eftir að hann hafi tuðað eða sníkt föt eða annað.  Hann viðrar alveg sínar skoðanir, segir kannski 'Þetta er flott peysa...' eða eitthvað svoleiðis en honum finnst einhvern veginn að það sé ekkert sjálfsagt að fá dót eða föt nema að það sé eitthvað sérstakt tilefni.

Nú er hann að verða meiri og meiri unglingur og hann hefur alveg rosalega mikinn áhuga á fötum og tísku.  Hann tilkynnti okkur t.d. að hann langaði bara í mjúka pakka í jólagjöf.  En hann er alveg búin að sjá að hann á ekki eftir að fá allt sem hann langar í og um daginn spurði hann hvort hann gæti farið að bera út blöð eða eitthvað.  Hann þarf að vera orðin 13 ára til þess svo ég bauð honum í staðinn að hann mætti taka við af pössunarpíunni okkar og fá aur fyrir að passa Lilju ef hann vildi.  (N.b. það er ein pössun innifalin í viku, það er bara að taka þátt í skyldum fjölskyldunnar eins og að fara út með ruslið og búa um :)  

'Ætlið þið ekkert út í kvöld???'.  Nei... við ætlum bara að vera heima og slaka á.  'Hva, getið þig ekki farið í smá göngutúr eða eitthvað...?'  Thí, hí, það er annað hvort í ökkla eða eyra.

Gabríel búin að svæfa Lilju :)

21. nóv. 2010

Þegar piparkökur...

Helgin byrjaði með trukki, en ég fór í sundæfingabúðir hjá ÞríR á föstudagskvöld og laugardagsmorgun.  Þeir Remí og Jackie leiddu okkur í allan sannleikann um hvernig maður getur náð árangri í skriðsundinu.  Þeir sýndu okkur vídeó og svo vorum við látin púla í lauginni í tvo tíma í senn, báða dagana.  Frábært að fá svona góða leiðsögn og nú hef ég fullt að hugsa um á næstunni.  

Í dag bökuðum við piparkökur, skreyttum og hlustuðum á jólarásina á meðan:
 
 Hérna náði pabbi einni af okkur óvænt...
 Og þarna erum við búin að stilla okkur upp...
 Enginn kvöldmatur nema þið séuð sæt saman...
 Hvað get ég sagt, Bree lifandi komin...
 Litli listamaðurinn eða málarameistarinn eins og hún segir. 
 Þvílík einbeiting!
Dæs...hvað þetta er flott :)

20. nóv. 2010

I plan to re-plan

Ég held að hluti af því að höndla hamingjuna sé að vera með góða aðlögunarhæfni.  Núna síðustu vikuna þá hef ég fengið þvílíkt mikið af fallegum kveðjum frá fólki sem þykir vænt um mig og hefur áhyggjur af mér.  Sérstaklega áhyggjur af geðheilsunni yfir því að ég geti ekki hlaupið.  Það er svo skrýtið að eins og mér finnst gaman að hlaupa og það er stór hluti af lífinu mínu yfirleitt þá er það algjörlega á hreinu að lífsgleði mín felst ekki í því að hlaupa.  Úff ég get ekki ímyndað mér hvað það væri hræðilegt að setja svoleiðs hömlur á gleðina, það er nánast gefið að á einhverjum tíma dettur maður út í meiðslum eða af öðrum ástæðum.  Lífsgleði mín felst í að njóta þess að gera það sem ég get gert hverju sinni eins vel og ég get.

Ég get sko alveg viðurkennt að ég var voða leið á sunnudaginn var, en þá get ég varla labbað, var ómöguleg í hvaða stellingu sem er og langaði ekki að vera nálægt nokkrum manni.  En um leið og það leið hjá þá bara finn ég ekki fyrir neinu þunglyndi, alls ekki.  Ég er ekkert einu sinni að reyna að vera Pollýanna, mér finnst í alvöru bara gaman að snúa mér að einhverju öðru í bili.   Sjúkraþjálfarinn minn er mjög ánægður með framfarirnar milli heimsókna og segir að það sé þrennt sem er að hjálpa mér sérstaklega til að ná skjótum bata.  Í fysta lagi hugarfarið, í öðru lagi að ég sé ekki of þung og í þriðja lagi hversu góðu formi ég er í.  Allt þetta er að hjálpa mér og hann gerir ráði fyrir að ég geti farið að skokka um mánaðarmótin.  Það er bara frábært.  Ég á sennilega alltaf eftir að þurfa að passa mig á að vera ekki að bogra eða lyfta þungu en að öðru leyti ætti þetta brjósklos ekki að há mér neitt sérstaklega í framtíðinni.  

Fyrirsögnina sá ég á bol hjá kennaranum mínum á alveg frábæru námskeiði sem ég var á í lok vikunnar í tengslum við Agilis ráðstefnuna.  Sennilega besta námskeið sem ég hef farið á 'Innovation Games®' og einn af þessum kennurum sem maður þakkar fyrir að fá að hitta á lífsleiðinni.  Eitt sem ég tók með mér var að einhver kom með spurningu um hvernig hægt væri að 'motivera' einhvern annan til að gera eitthvað.  Það er ekki hægt, sagði kennarinn.  Motivation comes from within, it's an internal drive, not external.  You can ignite it, if it's present within a person, but you can't force motivation on someone.  It's just not possible.  It's one of the basic things you learn in psychology.  That's why you can't choose a sport for your kid.  You can let them try different things to figure out what they like, that's all.

16. nóv. 2010

KOSTIR og gallar

Í gær áttum við hjónin 7 ára brúðkaupsafmæli og í tilefni dagsins fékk ég rós frá bónda mínum.  Ég skakklappaðist í leyni í Vínbúðina og keypti litla freyðivínsflösku svo við gætum skálað í brúðarglösunum okkar um kvöldið.  Þórólfur var á sundnámskeiði um kvöldið og ég fór með niðrí Laugardal, labbaði góðan hring og skellti mér svo í laugina og tók létta sundæfingu.   Við hjónin slökuðum á í heita pottinum og komum svo heim í freyðivín og heimatilbúið döðlukonfekt, nammi namm.    

Á 5 ára brúðkaupsafmælinu okkar var þetta meira svona 2007.  Ég skipulagði óvissuferð til New York með öllu tilheyrandi og hélt kjafti um það í 9 mánuði, Þórólfur fékk að vita af því 3 tímum áður en vélin fór í loftið!  (Hér er ævintýrið í nokkrum stuttum köflum: 1., 2., 3., 4., 5., 6., 7. 8., 9.  :)

Ég fór í sneiðmyndatöku í Domus Medica í morgun og er búin að fá greiningu.  Ég er með lítið miðlægt brjósklos í neðstu hryggjarliðunum. Um leið og ég fékk að vita hvað var að plaga mig þá fór ég í að gera lista yfir kosti og galla í huganum.  

Ég byrja alltaf á kostunum:
  • Timasetningin er góð, ekkert merkilegt að gerast í hlaupunum eða þríþrautinni akkúrat núna.
  • Ég má alls ekki gera heimilisstörf eins og að setja í uppþottavél, þvottavél, ryksuga, skúra.  Ekkert sem krefst þess að maður beygi sig eða bogri (var að spá í að setja þetta í galla.... NOT).
  • Ég á mjög þolinmóðan maka.
  • Það er hrikalega kalt úti núna, rok og blautt eitthvað og ekkert sérstaklega freistandi að fara út.  
  • Ég gef mér góðan tíma í að komast á milli staða þegar ég er svona hægfara og er þvílíkt stundvís fyrir vikið.
  • Þegar maður er ekki hlaupandi eða að flýta sér, þá upplifir maður heiminn á annan og skemmtilegan hátt.
  • Ég get vel labbað og mér finnst gaman að fara í langa göngutúra.
  • Mér líður mjög vel í sundi og nú er tækifæri til að bæta sig þar, ég syndi á hverjum degi.
  • Þetta fer í reynslubankann og nú get ég talað af eigin reynslu ef einhver leitar til mín með svona vandamál.
  • Er komin í strekkingu hjá Rúnari, skiptir þá ekki máli ef ég þyngist aðeins þar sem ég er að lengjast  :)
  • Er að drukkna í sögum um hlaupara sem hafa fengið brjósklos og afrekað svo eitthvað svakalegt korteri seinna.
  • Maður verður rosalega þakklátur fyrir allar framfarir og að geta gert venjulega hluti.
  • Ég er búin að grafa fram alla þægilega skó sem ég á og ég var búin að gleyma nokkrum flottum.
  • Gott fyrir mig að hanga í upphífingagræjunni og nú get ég farið að keppa við stelpurnar í Skólahreysti.
  • Ég þurfti að vera frá vinnu í tvo daga og Gabríel er ekkert lítið ánægður að hafa mömmu sína heima þegar hann kemur heim úr skólanum.
  • Ég get ekki setið lengi í einu þannig að ég er alltaf að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera.
  • Ég þarf örugglega að fá nýjan stól í vinnunni, alltaf gaman að fá nýtt dót.


Gallar:
  • Þetta er vont og ég get ekki lyft Lilju.

Sko, falleg að innan :)

14. nóv. 2010

Garmur

Gamurinn minn bilaði sama dag og ég fór í hlaupahvíld fyrir nokkum vikum síðan.  Hann hætti að finna tungl, ekki mikið gagn í gps tæki sem nær ekki sambandi við gervihnetti...  Ég keypti Garminn í USA í sumar á $130 í gegnum Amazon og hann var enn í ábyrgð.  Ég hafði samband við Garmin á Íslandi og þeir voru svo sætir (eða þannig) að bjóða mér að taka við honum og græja málin fyrir 15000 krónur!!!  Það er jafn mikið og hann kostaði og ég var ekki á því að láta taka mig svona í afturend...  

Ég skoðaði Garmin síðuna á netinu og fékk samband við support.  Þeir bentu mér á að senda hann til Garmin Europe í Bretlandi og ég myndi fá nýjan eða viðgerðan Garm innan 15 daga.  Ég borgaði innan við tvö þúsund kall fyrir að senda hann í ábyrgðarpósti og á föstudaginn fékk ég glænýjan Garm til baka.  Nú er bara spurning hvað ég á að fá mér fyrir 13 þúsund kallinn sem ég græddi!!! 

Annars er ég algjör garmur þessa dagana.  Þvílíkt klúður...  Eftir fyrstu kynni mín af því að fá í bakið, já einmitt í hlaupahvíldinni þá var ég búin að ná mér 90% með hjálp sjúkraþjálfara á sínum tíma.  Ég hef svo bara verið þræl góð í nokkrar vikur, hlaupið og keppt og já svei mér þá unnið hlaup.  Ég hef samt alltaf vitað aðeins af bakinu.  Svona smá undirliggjandi eymsl sem mér leist ekkert á að væru ekki að láta sig hverfa.  

Ég pantaði mér tíma hjá sjúkraþjálfara á mánudaginn til þess að tjúnna mig til, þ.e. ná þessum 10% góðum svo ég væri alveg stríheil fyrir Powerade á fimmtudaginn.  Við Þórólfur vorum efst í parakeppninni og ég efst í mínum flokki.  Ég fékk minn skammt af nálastungum, nuddi og fyrirmæli um að ég mætti halda mínu striki.  Og þá dundu ósköpin yfir.  Að halda mínu striki, þýddi hjá sjúkraþjálfaranum að ég tæki því rólega þennan dag og færi svo bara á æfingu eins og venjulega daginn eftir.  Hjá mér þýddi það að ég færi bara á næstu æfingu... sem var á mánudagskvöldið.  Æfingin var svo sérsaklega óhentug svona beint eftir krukk, 200m sprettir á fullu.  Í 6. spretti þá gaf sig eitthvað í bakinu og ég skakklappaðist af brautinni og þurfti að labba heim.

Nú er staðan sú að í staðinn fyrir að vera 90% góð þá er ég 100% í tómu tjóni og geðið eftir því .  Það er vont að standa, vont að sitja, hræðilegt að standa upp eða setjast niður, óbærilegt að fara í sokka og skó og sællll....  það leið næstum því yfir mig þegar ég hnerraði óvænt í morgun.  Sortnaði fyrir augunum og gat varla gengið næstu tímana á eftir.  Akkúrat núna er mér skítsama þó ég geti ekki hlaupið næstu mánuðina, bara ef ég get gert venjulega hluti og haldið á börnunum mínum án þess engjast um af sársauka (ok ég veit að þetta er kannski full dramatískt en það gerir rithöfundurinn sem blundar í mér :).

Ég geri mér samt fulla grein fyrir því að þetta er smotterí í hinu stóra samhengi og ég get gengið og synt. Mér líður eiginlega best þegar ég er að synda skriðsund.  Verst að á milli mín og skirðsundins er athöfnin að klæða sig í og úr og það er nákvæmlega ekkert skemmtilegt við hana akkúrat núna.

Þórólfur stendur sig eins og hetja í aðstandenda hlutverkinu, þolinmæðin uppmáluð.  Ég er ágæt í vaggandi um í eldhúsinu, eins gott að nýta tækifærið og koma sér í mjúkinn þar sem ég þarf hjálp við flest annað.  Á föstudaginn bakaði ég humar og hrá skinku pizzur og í gær tók ég skrens á Disney bókinni með krökkunum.  Í tilefni feðradagsins í dag eldaði ég uppáhalds matinn hans Þórólfs, 'Flygande Arvidson'.


11. nóv. 2010

Órói

Við Gabríel fórum saman í bíó í gær og sáum myndina Óróa.  Flott mynd sem fjallar um fullt af þeim hlutum sem unglingar þurfa að takast á við.  Ég kannaðist við allt úr myndinni en vona að mín börn þurfi ekki endilega að taka allan pakkann... en ef svo er þá er bara lykilatriði að reyna að undibúa þessi kríli manns eins vel og maður getur, búa til traustan grunn.  

Það mætti halda að ég væri með tvo unglinga á heimilinu, hún Lilja mín er svo mikil dama og spáir heilmikið í að vera fín og skvísuleg. Hún er svoleiðis með taktana (ekki frá mér!) þegar hún sveiflar hárinu til og frá, greiðir sér endalaust fyrir framan spegilinn, elskar að fá lánað glingur og það eru jólin ef hún kemst í snyrtidótið mitt.

Um daginn kom hún til mín með titrandi vör og tilkynnti mér þau hörmulegu tíðindi að hún ætti ENGA hælaskó með tilheyrandi dramatískum tilburðum...  

Mamma má ég líka fá gloss?   Gat eiginlega ekki sagt nei, þó svo hún væri að fara að sofa bráðum, þar sem við Gabríel vorum að stinga af í bíó.  Jú, jú ekkert mál.  'En mamma, þú verðu að setja varablýantinn fyrst!!!'.  Díhhh...

8. nóv. 2010

Handavinna að hausti

Ég er algjör handavinnu kerling, elska að pjóna og hekla á kvöldin í stofunni. Helst undir teppi, með kveikt á kertum og annað augað á sjónvarpinu. Ég dett í handavinnugírinn á haustin og nýt þess að vera í honum fram á vor. Þá legg ég yfirleitt frá mér prjónana og nota tímann í annað.   Ég byrjaði reyndar á þessari peysu á Ísafirði, það passar nefnilega líka að vera með handavinnu í sumarbústað.  Þegar ég var komin rétt upp fyrir ermar átti ég ekki meira garn og þá voru góð ráð dýr.  Hringdi vestur í 'Heitt á prjónunum' og það var ekki vandamálið að senda mér eina dokku til að geta klárað.  Prjónaði og helkaði húfuna og vettlinginn (hinn týndist á laugardaginn og er ekki komin í leitirnar enn) eftir uppskrift úr nýjasta lopablaðinu.  Ef vettlingurinn finnst ekki þá á ég nóg garn í annan til að redda settinu.  Núna er ég að gera sams konar á Lilju, nema í öfugum litum og ég nota kambgarn í staðinn fyrir létt lopa, það er mýkra.  
 
Ég fæ einstöku sinnum á tilfinninguna að það sé soldið mikið á dagskrá hjá okkur, full mikið stundum...   Hlaupaæfingar, sundæfingar, körfuboltaæfingar, fimleikaæfingar, vinna, skóli, leikskóli, vinir, stór-fjölskyldan, pínu menning og listir, tónleikar, leikhús, lestur, heimavinna, búðarferðir, út að leika með vinum og heimsóknir.  Ég klippi líka flesta fjölskyldumeðlimina, geri við öll föt og stytti buxur á meðan Þórólfur sér um bílaþvotta, gerbakstur og matjurtaræktun.  Gabríel fer út með rusl og blöð og Lilja sópar stéttina fyrir utan hjá okkur.  Svo þarf að skipta um dekk á hjólunum, pumpa reglulega, þvo íþróttaföt, önnur föt og litla kroppa áður en þeir fara í bólið.  Ekki má gleyma brauðbakstrinum, sushi námskeiðum, skvísukvöldum, árshátíðum, jólaböllum, hópeflum, uppboðum, sjálfboðavinnu, námskeiðahaldi, fyrirlestrunum og saumaklúbbunum.  Í auglýsingahléum eru svo teknar nokkrar upphífingar og magaæfingar inn í stofu.  Ég á ekki neinum vandræðum með að sofna á kvöldin.  Svo er þetta sennilega svona hjá öllum og yfirleitt er ég ekkert að spá í þetta, maður gerir bara eitt, tvennt eða í mesta lagi þrennt í einu, þá er þetta ekkert mál, bara gaman.
Og sem betur fer er þetta ekki að hafa nein áhrif á geðheilsu fjölskydunnar....

7. nóv. 2010

Óskasteinn

Við Lilja áttum erindi í Holtagarða í gær og þegar við komum inn í andyrið þá kemur Sigga Klingenberg svífandi niður rúllustigann í svakalegu gulu dressi og með meters háan hatt á höfðinu.  Lilju var alveg dolfallinn yfir þessari sýn og sagði svo hátt og skýrt og með aðdáun í röddinni, 'Vá mamma, sjáðu hvað konan er rosalega flott!'

Sigga heyrði í henni og kom rakleitt til okkar, stakk hendinni inn að brjóstinu á sér og dró fram óskastein, glansandi fínan og gaf henni Lilju.  Ég vissi ekki hvert hún ætlaði af gleði, hún kreisti hendina um steininn og lokaði augunum og óskaði sér.

Við fórum svo að versla og allt í einu segir Lilja við mig,  'Mamma, við verðum að kaupa hundamat'.  Nú af hverju?  'Ég óskaði mér að eignast pínulítinn hund.'  :)

5. nóv. 2010

Statistikk

Það er fátt sem gleður hjarta gamals business analysta eins og góð statistikk!  Ég var að krúttast eitthvað á blogginu mínu um daginn, þ.e. í uppsetningunni og fann þá mér til mikillar gleði síðu tileinkaða statistikk á blogginu mínu.  Ég get skoðað hit frá upphafi, síðasta mánuð (n.b. ég fæ 6 - 7 þúsunund hit að jafnaði, á mánuði!), viku eða hvað það eru margir að skoða síðuna núna.  Ég get séð hvernig þeir tengjast síðunni minni og það sem mér fannst allra skemmtilegast, hvaðan mínir lesendur koma.  Ég átti ekki krónu með gati þegar ég sá að ég á heilan helling af lesendum í Japan!  Veit samt ekki alveg hvað mér finnst um þetta.  Hugsa málið.

Hér er yfirlit yfir síðustu viku:


Og svo var ég að detta inn á þennan pistil hjá henni Karen Axelsdóttur, gæti ekki verið meira sammála.




3. nóv. 2010

Sushi

Við hjónin fórum á Sushi námskeið í gær í góðum félagsskap.  Frábært námskeið, fengum að smakka aðeins á meðan við vorum að útbúa bitana en fengum svo að taka afraksturinn heim.  Stutt stopp í vínbúðinni til að redda hvítvíninu og svo var mini-sushi veisla heima í stofu, þegar litla skottan var komin í ból.  Nammi, namm :)

1. nóv. 2010

Disney helgi

Vil Lilja störtuðum helginni samkvæmt plani með fimleikum á laugardagsmorgun.  Ég tók með mér prjónana og sat á hliðarlínunni og horfði á.  Lilja fékk fyrirtaks lexíu í að hlýða kennurum í balletskólanum en þá voru foreldrarnir lokaðir úti, máttu ekkert vera að skipta sér af.  Í fimleikunum aftur á móti eru foreldrarnir út um allt!!!  Það er mjög fróðlegt að fylgjast með frústreruðum foreldrum elta börnin sín út um allan sal, hóta þeim og biðja til skiptis um að gera það sem kennarinn segir...  'Ef þú ferð ekki aftur í röðina fer ég með þig heim!'.  Já einmitt...

Við fórum í Kringluna á kaffihús eftir fimleika og í leiðinni fjárfestum við í Disney matreiðslubókinni og þvílík kostakaup.  Krakkarnir elska þessa bók og það gera afarnir líka.  Pabbi sem hefur tvisvar sinnum á ævinni eldað, þar af í annað skiptið með mikilli hjálp mömmu... var alveg heillaður og sá alveg fyrir sér að hann gæti eldað eftir þessum uppskriftum.  Afi Þór var líka mjög áhugasamur.

Gabríel stóð sig vel í körfunni á Akranesi.  Þeir fengu einn leik gefins, töpuðu einum og unnu síðasta leikinn.  Alltaf gott að enda á sigri og hann er alltaf jafn áhugasamur í körfunni.  Á meðan við stelpurnar biðum eftir að  fá strákana okkar heim skelltum við okkur í sund í Mosfellsbæ.  Þegar ég var að borga mig inn sagði Lilja við afgreiðslukonuna:  Pabbi minn segir að ég megi ekki fara í stóru appelsínugulu rennibrautina... en mamma mín leyfir mér það alveg sko!'.  Öhhh...    Eftir annasaman dag enduðum við á Grillhúsinu og fengum þar bæði góðan mat og fína þjónustu.  Höfum ekki farið þangað áður en eigum örugglega eftir að endurtaka það einhvern daginn.


Eftir helgarhlaup á sunnudagsmorgun í brunakulda, inn í Elliðaárdal og öfugan Powerade hring notuðum við daginn í að þrífa, baka, halda kaffiboð og fara í sundferð í Laugardalinn svo eitthvað sé nefnt.  Við demdum okkur líka í Disney uppskriftirnar og prófuðum að gera döðlukonfekt, kókoskúlur og í kvöldmat útbjuggum við innbakaðar pylsur sem vöktu gríðarlega lukku hjá restinni (þ.e. hinum í fjölskyldunni, ég hef ekki borðað pylsur í mörg ár :).  Litla skottan okkar var alveg búin á því eftir ævintýri helgarinnar og var ekki lengi að sofna.


Eina sem klikkaði var að hún Charlotte Böving var eitthvað hálf slöpp í gær og treysti sér bara í eina sýningu fyrir vikið.  Við frestuðum því leikhúsferðinni okkar um tvær vikur, en það passar reyndar bara fínt því þá eigum við 7 ára brúðkaupsafmæli og tilvalið að halda uppá það í leiðinni.