Ég er algjör handavinnu kerling, elska að pjóna og hekla á kvöldin í stofunni. Helst undir teppi, með kveikt á kertum og annað augað á sjónvarpinu. Ég dett í handavinnugírinn á haustin og nýt þess að vera í honum fram á vor. Þá legg ég yfirleitt frá mér prjónana og nota tímann í annað. Ég byrjaði reyndar á þessari peysu á Ísafirði, það passar nefnilega líka að vera með handavinnu í sumarbústað. Þegar ég var komin rétt upp fyrir ermar átti ég ekki meira garn og þá voru góð ráð dýr. Hringdi vestur í 'Heitt á prjónunum' og það var ekki vandamálið að senda mér eina dokku til að geta klárað. Prjónaði og helkaði húfuna og vettlinginn (hinn týndist á laugardaginn og er ekki komin í leitirnar enn) eftir uppskrift úr nýjasta lopablaðinu. Ef vettlingurinn finnst ekki þá á ég nóg garn í annan til að redda settinu. Núna er ég að gera sams konar á Lilju, nema í öfugum litum og ég nota kambgarn í staðinn fyrir létt lopa, það er mýkra.
Ég fæ einstöku sinnum á tilfinninguna að það sé soldið mikið á dagskrá hjá okkur, full mikið stundum... Hlaupaæfingar, sundæfingar, körfuboltaæfingar, fimleikaæfingar, vinna, skóli, leikskóli, vinir, stór-fjölskyldan, pínu menning og listir, tónleikar, leikhús, lestur, heimavinna, búðarferðir, út að leika með vinum og heimsóknir. Ég klippi líka flesta fjölskyldumeðlimina, geri við öll föt og stytti buxur á meðan Þórólfur sér um bílaþvotta, gerbakstur og matjurtaræktun. Gabríel fer út með rusl og blöð og Lilja sópar stéttina fyrir utan hjá okkur. Svo þarf að skipta um dekk á hjólunum, pumpa reglulega, þvo íþróttaföt, önnur föt og litla kroppa áður en þeir fara í bólið. Ekki má gleyma brauðbakstrinum, sushi námskeiðum, skvísukvöldum, árshátíðum, jólaböllum, hópeflum, uppboðum, sjálfboðavinnu, námskeiðahaldi, fyrirlestrunum og saumaklúbbunum. Í auglýsingahléum eru svo teknar nokkrar upphífingar og magaæfingar inn í stofu. Ég á ekki neinum vandræðum með að sofna á kvöldin. Svo er þetta sennilega svona hjá öllum og yfirleitt er ég ekkert að spá í þetta, maður gerir bara eitt, tvennt eða í mesta lagi þrennt í einu, þá er þetta ekkert mál, bara gaman.
Og sem betur fer er þetta ekki að hafa nein áhrif á geðheilsu fjölskydunnar....