8. okt. 2010

Friðarsúlan

Aumingja þeir sem eru bakveikir segi ég nú bara, þeir eiga alla mína samúð!  

Á þriðja degi í hlaupahvíldinni minni fór ég að finna fyrir stífleika í bakinu og blótaði því í sand og ösku að hafa tekið hlaupahvíld píld skíld...  Ég var nú samt alveg róleg yfir þessu fyrstu dagana og beið átekta, át íbúfen en ég var alveg jafn slæm ef ekki verri eftir 3-4 daga.  Þrjár vikur af því að geta varla komist í sokkana, rétt svo geta staðið upp úr stól og ekki séns að lyfta börnunum mínum, þá var nóg komið og ég fór til hans Rúnars sjúkraþjálfara.  Þá var ég farin að ímynda mér að ég væri komin með brjósklos eða eitthvað þaðan af verra.  Hann potaði í bakið á mér og sagði ojjj... ekki myndi ég vilja éta svona kjöt!  Hmmm...  Ég var pikkstíf frá rassi og upp að herðablöðum, sérstaklega slæm hægra megin og þegar ég reyndi að vinda uppá mig gerðist bara ekkert.  Á bekkinn fór ég og Rúnar nuddaði, hnykkti efstu hryggjarliðunum og setti mig í stuttbylgjur.  Svo kom að mjóbakinu og það þurfti alveg sérstakar trakteringar í það.  Leggjast á hliðina á jaðarinn á bekknum, svo teygði hann hnéð í aðra áttina og öxlin í hina og svo 'Hadjahhhh....'.  Var pínulítið að spá í hvort ég hefði brotnað í tvennt eitt augnablik en hmmm... var ekkert verri eftir trakteringarnar.   Það er skemmst frá því að segja að daginn eftir fann ég varla fyrir nokkru og í gær var ég allt í einu komin í sokkana áður en ég vissi af.  Fór aftur til hans í dag af því ég átti tíma og hann kórónaði meðferðina með því að stinga í mig nokkrum nálum og tók svo eina umferð í viðbót af nuddi og hnykki.  Ekki nóg með að ég er orðin góð í bakinu núna, það sem meira er, ég er orðin góð í skapinu!  Það verður alveg ótrúlega stuttur í manni þráðurinn ef manni er alltaf illt einhvers staðar, gott að muna það.

Við tókum bleika daginn með trompi hérna á heimilinu.  Lilja fór í bleikt pils og bleika peysu, Gabríel fékk lánaða bleika skyrtu hjá mér og fór í henni í skólann og í afmæli (fannst það nú eiginlega merkilegast :), Þórólfur fór í bleika skyrtu og ég í skærbleikan kjól.  Fattaði bara ekki að taka mynd af okkur þegar tækifæri gafst í morgun, rækatlans.

Sé ekki betur en að það sé frábær helgi framundan.  Fimleikar hjá Lilju, hlaup hjá okkur, Esjuferð og jafnvel Viðeyjarferð ef allt gengur upp.  Okkur langar að fylgjast með þegar Friðarsúlan er kveikt.  Við erum miklir aðdáendur.  Bæði vegna þess að við sjáum hana beint út um dyrnar hjá okkur (notalegt að byrja daginn á því) og svo er kveikt á hennu á dánardægri hennar elsku tante Astrid, sem okkur þótti svo óendanlega mikið vænt.  Fyrir okkur er þetta ljósið hennar tante.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli