20. okt. 2010

Ákvarðanir og ábyrgð

Ein af þeim ákvörðunum sem ég hef tekið er að vera að jafnaði í formi til að geta hlaupið 1/2 maraþon.  Mér finnst frábær tilfinning að vita að ég geti hvenær sem er hlaupið í 1 1/2 - 2 tíma án þess að finna fyrir því eða að geta hlaupið upp Esjuna án þess að blása úr nös (eða næstum því :þ ).

Önnur ákvörðun sem ég hef tekið, er að vera grönn restina af lífinu.  Á haustin fæ ég alltaf heilmikið af fyrirspurnum og beiðnum um ráðleggingar varðandi hreyfingu og matarræði.  Ég sé það þannig að það fyrsta sem maður þarf að gera er að skoða vel og vandlega hvað það er sem maður raunverulega vill.  Í framhaldinu þarf maður svo að taka ákvörðun um að láta það rætast.  Ef maður er með kristal tæra framtíðarsýn og kýr skýr markmið þá er hitt bara smá vinna.

Ég fæ oft spurninguna um hvort hlaupin hafi skipt sköpum í að ég náði tökum á þyngdinni og svarið er í rauninni nei.  Jú, jú ég léttist heilmikið þegar ég byrjaði að hlaupa vegna þess að ég fór að brenna meiru en ég var vön.  Þegar ég var komin í ákveðna rútínu með hlaupin byrjaði ég að þyngjast aftur, hægt en örugglega.  Ég vaknaði upp við vondan draum 2 árum eftir að ég byrjaði að hlaupa 7 kg þyngri en árinu áður.  

Þá fór ég að huga að matarræðinu fyrir alvöru og það er alveg klárt í mínum huga að það er það sem skiptir öllu máli varðandi þyngdarstjórnun.  Það er til alveg fullt af feitum hlaupurum sko.  Fólk sem hreyfir sig daginn út og daginn inn en er alltaf of þungt.  Ég veit ekki um neinn sem borðar hæfilega mikið af hollum mat sem er of feitur.  Alveg sama þó svo viðkomandi hlaupi ekki svo mikið sem á klósettið...   

Ég er svo fegin að vera ekki að dröslast lengur um með þá ranghugmynd að ég hafi verið sérstaklega óheppin að vera fitubolla, það firrir mann nefnilega ákveðinni ábyrgð.  Ég tek fulkomna ábyrgð á sjálfri mér og uppsker eins og ég sái.  Ég get ekkert óvart orðið feit aftur, eina leiðin fyrir mig til að verða feit aftur er að borða allt of mikið.  Ég þarf að bíta í tunguna á mér þegar fólk fer að útskýra að það varð svo feitt af því það skildi, missti einhvern, leið illa, varð atvinnulaust...   Eina leiðin til að verða of feitur er að innbyrgða meiri orku en þú eyðir.   Það er val, ekki örlög eða óheppni.

Svona sé ég þetta fyrir mig:
  • Ég borða hæfilega mikið af hollum mat vegna þess að ég hef tekið alvöru ákvörðun um að vera grönn restina af ævinni.
  • Ég hleyp, syndi, hjóla og sprikla eins mikið og ég get til að vera glöð og full af endorfíni.
  • Ef ég er glöð, þá er miklu auðveldara að borða hæfilega mikið af hollum mat sem er töluvert krefjandi verkefni fyrir þann sem hefur stútað í sér 'hættu að borða þegar þú er södd' tilfinningunni.
  • Ef ég borða hæfilega mikið af hollum mat þá er miklu auðveldara að hreyfa sig og ná sér í ennþá meira endorfín... :)

Þetta kallast "Win win situation".

2 ummæli: