29. okt. 2010

Everything's amazing :)

Ja ef einhver hefð sagt mér í gamla daga að ég ætti eftir að synda fjórsund þá hefði ég nú bara hlegið að þeim.  Það er nú samt raunin!  Á sundæfingunni í gær synti ég 3 * 100 m fjórsund en þá byrjar maður á flugsundi, skiptir yfir í bak skrið, svo er það bringusundið og að lokum skrið.  Fyrir tveimur mánuðum hafði ég aldrei synt bak skrið, né flugsund og nú finnst mér bæði gaman.  

Hlakka mikið til helgarinnar sem er rétt handan við hornið, fullt prógramm eins og venjulega og verulega fjölskyldumiðað.  Fimleikar í fyrramálið með skottunni minni og það er eiginlega komin hefð á kaffihúsaferð á eftir hjá okkur stelpunum.  Gabríel er að fara að keppa í körfubolta á Akranesi á laugardaginn og pabbi hans ætlar að vera honum til halds og traust, hvetja okkar mann til dáða.  Lilja hefur ekki úthald í svona marga tíma í íþróttahúsi svo við mæðgur finnum okkur eitthvað til dundurs á meðan.

Á sunnudaginn ætlum við hjónin að kíkja á Charlotte Böving í Iðnó, Þetta er lífið... om lidt er kaffen klar og ég hlakka svo mikið til.  Mér finnst hún stór skemmtileg, virkar bæði einlæg og raunsæ.

Ég hlakka líka til að komast í prjónana mína.  Eignaðist nýja lopablaðið í síðustu viku og nú er ég búin að prjóna/hekla flotta húfu og ætla að gera grifflur og vettlinga í stíl.  Ég er oft með einhver stór verkefni í gangi, peysur og svoleiðis, þannig að það er svo gaman að gera eitthvað sem tekur bara eina til tvær kvöldstundir.  Set inn myndir við tækifæri.

Fínt að fara inn í helgina með þakklæti og gleði í sálinni.  Sá þetta frábæra myndband á Youtube í gær, Everything's Amazing, Nobody's Happy,  got to love it!

27. okt. 2010

Gungur

Ó hvað ég á erfitt með gungur!  Kanski af því ég var einu sinni svo mikil gunga sjálf.  Ég er svo heppin í dag að þekkja heilan helling af flottu, hugrökku fólki sem gerir umburðarlyndi mitt gagnvart gungum enn minna...

Um helgina horfðist ég í augu við gungu.  Gungan lét persónulega innibyrgða reiði sína gagnvart mér, bitna á manninum mínum þar sem hann var að hvetja hlaupara í Haustþoninu.  Í staðinn fyrir að þakka stuðninginn eða bara láta hann afskiptalausan, snéri hann sér að honum, gretti sig ógurlega og setti þumalinn niður.  Krakkarnir voru sem betur fer á þeirri stundu komin niður í fjöru að leika sér.

Eftir hlaupið fékk ég að heyra af þessu og spurði gunguna hvort þetta væri satt og hvað henni gengi eiginlega til með þessari hegðun?  'Já, ég gerði það!', sagði hann hróðugur.  'Maðurinn þinn á stoppa þessi geðsjúku skrif þín á blogginu!!!'.   (Ég geri þá ráð fyrir að maðurinn sé að vísa í þetta eða þetta, nei það er sennilega þetta sem hann meinar þegar hann talar um geðsjúk skrif, án þess að vita það fyrir víst enda  skýrði hann það ekki nánar.)

Þegar ég stóð þarna með börnin mín tvö mér við hlið og horfði á afmyndað andlitið af reiði og hatri, hugsaði ég til þess að síðasta sumar ullaði sami maður á okkur hjónin í Laugardalnum þegar við vorum að hita upp fyrir Ármannshlaupið.

Já og ég hugsaði líka um tölvupóstana sem hann sendi og bað mig svo fyrir alla muni að birta ekki eftirá, sem var náttúrulega bara sjálfsagt.  Ég hef enga þörf fyrir að birta sorp.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér atvik úr síðasta Haustþoni þar sem ég var í hörku keppni í hálfa maraþoninu.  Við komum 3 konur í röð að drykkjarstöð á snúningspunkti, ég síðust.  Fyrstu tvær fengu drykki en þegar kom að mér að taka við mínum, rykkti starfsmaðurinn (og spúsa ullarans/gungunnar) að sér drykknum og neitaði að afhenda mér hann!  Ég þurfti að hlaupa aukakrók að drykkjarborðinu og ná mér í drykk sjálf en svei mér þá ef það var samt ekki skárra en þetta, þó svo ég hafi á sínum tíma verið verulega slegin.

Áður en ég labbaði í burtu frá gungunni á laugardaginn og tók við sigurlaununum í hálfa maraþoninu, horfði ég í augun á henni og sagði ósköp rólega og yfirvegað:  'Þú ert lítill maður'.

Hann og hans líkar geta aldrei framar gert mér mein.

P.s. Ástæðan fyrir því að ég skrifa þennan pistil er ekki sú að ég þurfi endilega að vera að velta mér upp úr þessu, mér hundleiðist þetta mál frá upphafi til enda.  En ég hef tekið persónulega ákvörðun um að líða hvorki einelti, né ofbeldi og þá er sama hver á í hlut.  Ég ætla ekki að þegja yfir svona uppákomum lengur.  Skömmin er ekki mín.

Ath. Ég birti ekki nafnlausar athugasemdir, takk samt.

24. okt. 2010

Allir á Esjuna

Fengum að sofa út og leyfðum okkur það aldrei þessu vant eftir tjúttið okkar.  Áttum frábært kvöld í miðbæ Reykjavíkur í gær, röltum á milli pöbba og enduðum svo á Austur en þar var þvílík stemmning.  Dönsuðum fram á rauða nótt (n.b. það er klukkan tvö hjá okkur) en þá vorum við búin að fá nóg og það var notalegt að hoppa beint upp í leigubíl og heim.  Mamma og pabbi buðu í brunch í dag og eftir mat drifum við okkur upp á Esju, hele familien.

Lilja er búin að suða um Esjuferð í fleiri vikur, alveg síðan ég fór um daginn, en það hefur einhvern veginn aldrei passað.  Hún var búin að plata pabba sinn til að kaupa fyrir sig nestisbox og brúsa fyrir Esjuferð og allt.  Í dag var bæði frábært veður og engin önnur plön.  Við dúðuðum okkur, pökkuðum niður nesti og lögðum í hann.  Allir þurftu að labba sjálfir í þetta sinn og krakkarnir stóðu sig eins og hetjur.  Fórum upp fyrir litlu brúnna og langleiðina upp steintöppurnar áður en við snérum niður aftur.  Við stoppuðum oft á leiðinni til að henda steinum í ánna eða skoða eitthvað.  Við sáum bílinn hans Orra bróður á bílastæðinu áður en við fórum upp og vourm svo heppin að hitta á hann og kærustuna hans á niðurleið.  Það gerði ferðina enn skemmtilegri.  

Vorum frekar dösuð og svöng eftir langa útiveru og settum slaufu á ferðalagið með ísbíltúr í Garðabæ enda búin að vinna vel fyrir því, nammi namm.  Nokkrar myndir úr ferðinni:

Gabríel upp á hól 
Allir í röð 
Við fundum flott klakalistaverk á leiðinni
Sææællll....  frekar fyndið.  Tungan er alveg eins og lítið hjarta þarna í miðjunni  :) 
Ríkasta kona í heimi!
Þarna snérum við við við við...

Jólakortamyndin komin?

p.s. það er hægt að smella á myndirnar til að stækka þær ;-)

23. okt. 2010

Haustþon 2010

Sumir dagar eru bara þannig að allt gengur upp.  Ég er var alveg pollróleg fyrir þetta hlaup, er bara rétt að komast á skrið eftir bak vesenið mitt og væntingarnar eftir því.  Ég var með eitt markmið fyrir daginn og það var að hlaupa þannig að það væri gaman.  Ég er ekki búin að gleyma vorþoninu þar sem ég fór of hratt af stað, ætlaði mér of mikið miðað við form og sprakk svona líka svakalega með tilheyrandi leiðindum.  

Ég ákvað að hlaupa þetta klukkulaus og fór mjög rólega af stað.  Var nú samt nokkuð fljót að sigla fram úr nokkrum konum og eftir km sá ég að ég væri sennilega 2. kona í hlaupinu.  Keppnisskapið er aldrei langt undan og ég ákvað að sjá hvort ég gæti ekki sigið hægt og örugglega í áttina að 1. konu.  Eftir 5-6 km náði ég  hennu.  Ég reyndi að missa hana ekki frá mér aftur og þó svo ég hafi dregist nokkrum sinnum aftur úr, næstu 10 km gat ég einhvern veginn alltaf lokað bilinu á milli okkar aftur.  

Ég var búin að ákveða með sjálfri mér að ef ég næði að hanga þangað til 5 km væru eftir þá myndi ég taka af skarið og reyna að stinga af.  Það tókst og við síðustu drykkjarstöðina tók ég sprettinn.  Náði Gutta og Trausta sem var að pace-a 1:30 og nú var bara að bíta á jaxlinn og halda út.  Kom sjálfri mér gjörsamlega á óvart með þvi að, annars vegar vinna hlaupið og ekki síður að hlaupa þetta á 1:29:45 sem er rétt við PB.  Þórólfur og krakkarnir voru á hliðarlínunni á Ægissíðunni að hvetja mig og svo tóku þau á móti mér í markinu.  



Sibba, Eva, Lilja og Margrét.
Allar stelpurnar í Asics liðinu á palli í dag!

Afi og amma í Norðurbrún voru búin að lofa krökkunum að gista hjá sér í kvöld, engin sérstök ástæða.  Hvað er aftur sagt..., þegar kötturinn sefur fara mýsnar á stjá.  Alla vega þá ákváðum við hjónin að gera okkur kvöldmun.  Pöntuðum okkur mat frá Austulandahraðlestinni, náðum okkur í rósavín og nú er bóndinn nýkomin úr sturtu og að gera sig sætan.  Við gömlu hjónin erum nefnilega á leiðinni í bæinn á tjúttið, toppiði það!!!

P.s.  Ég fór á vinnufund hjá Dale Carnegie á fimmtudagsmorguninn.  Ég tók eitt og annað með mér þaðan en það mikilvægasta fyrir mig var vídeó sem sýnir þjálfara sem er að stappa stálinu í liðið sitt fyrir úrslitaleik.  Ég drekk í mig svona hvatningu og í dag var mantran mín 'I am a champion'.  Hér er vídeó-ið.

20. okt. 2010

Ákvarðanir og ábyrgð

Ein af þeim ákvörðunum sem ég hef tekið er að vera að jafnaði í formi til að geta hlaupið 1/2 maraþon.  Mér finnst frábær tilfinning að vita að ég geti hvenær sem er hlaupið í 1 1/2 - 2 tíma án þess að finna fyrir því eða að geta hlaupið upp Esjuna án þess að blása úr nös (eða næstum því :þ ).

Önnur ákvörðun sem ég hef tekið, er að vera grönn restina af lífinu.  Á haustin fæ ég alltaf heilmikið af fyrirspurnum og beiðnum um ráðleggingar varðandi hreyfingu og matarræði.  Ég sé það þannig að það fyrsta sem maður þarf að gera er að skoða vel og vandlega hvað það er sem maður raunverulega vill.  Í framhaldinu þarf maður svo að taka ákvörðun um að láta það rætast.  Ef maður er með kristal tæra framtíðarsýn og kýr skýr markmið þá er hitt bara smá vinna.

Ég fæ oft spurninguna um hvort hlaupin hafi skipt sköpum í að ég náði tökum á þyngdinni og svarið er í rauninni nei.  Jú, jú ég léttist heilmikið þegar ég byrjaði að hlaupa vegna þess að ég fór að brenna meiru en ég var vön.  Þegar ég var komin í ákveðna rútínu með hlaupin byrjaði ég að þyngjast aftur, hægt en örugglega.  Ég vaknaði upp við vondan draum 2 árum eftir að ég byrjaði að hlaupa 7 kg þyngri en árinu áður.  

Þá fór ég að huga að matarræðinu fyrir alvöru og það er alveg klárt í mínum huga að það er það sem skiptir öllu máli varðandi þyngdarstjórnun.  Það er til alveg fullt af feitum hlaupurum sko.  Fólk sem hreyfir sig daginn út og daginn inn en er alltaf of þungt.  Ég veit ekki um neinn sem borðar hæfilega mikið af hollum mat sem er of feitur.  Alveg sama þó svo viðkomandi hlaupi ekki svo mikið sem á klósettið...   

Ég er svo fegin að vera ekki að dröslast lengur um með þá ranghugmynd að ég hafi verið sérstaklega óheppin að vera fitubolla, það firrir mann nefnilega ákveðinni ábyrgð.  Ég tek fulkomna ábyrgð á sjálfri mér og uppsker eins og ég sái.  Ég get ekkert óvart orðið feit aftur, eina leiðin fyrir mig til að verða feit aftur er að borða allt of mikið.  Ég þarf að bíta í tunguna á mér þegar fólk fer að útskýra að það varð svo feitt af því það skildi, missti einhvern, leið illa, varð atvinnulaust...   Eina leiðin til að verða of feitur er að innbyrgða meiri orku en þú eyðir.   Það er val, ekki örlög eða óheppni.

Svona sé ég þetta fyrir mig:
  • Ég borða hæfilega mikið af hollum mat vegna þess að ég hef tekið alvöru ákvörðun um að vera grönn restina af ævinni.
  • Ég hleyp, syndi, hjóla og sprikla eins mikið og ég get til að vera glöð og full af endorfíni.
  • Ef ég er glöð, þá er miklu auðveldara að borða hæfilega mikið af hollum mat sem er töluvert krefjandi verkefni fyrir þann sem hefur stútað í sér 'hættu að borða þegar þú er södd' tilfinningunni.
  • Ef ég borða hæfilega mikið af hollum mat þá er miklu auðveldara að hreyfa sig og ná sér í ennþá meira endorfín... :)

Þetta kallast "Win win situation".

18. okt. 2010

Mömmuleikur

Frábær helgi að baki þar sem áherslan var sett á mömmu hlutverkið samkvæmt nýja planinu mínu!  Fann að mig langaði meira að sinna ungunum en að keppa í hlaupum/tvíþraut og ég valdi vel.   

Gabríel tók þátt í fyrsta körfuboltamótinu sínu, þvílíkt gaman hjá honum.  Hann var að keppa einn flokk upp fyrir sig og stóð sig með prýði.  Þjálfarinn var mjög ánægður með hann, sagði að hann væri bæði snöggur og sterkur og ef hann stækkar eins og hann á ættir til þá gæti hann náð fínum árangri í íþróttinni.  Það er mjög fyndið að sjá stærðarmuninn á strákunum á þessum aldri, 12 - 14 ára, Gabríel hefði geta staðið inní sumum þeirra!  Næstu helgi er svo fyrsta mótið hjá honum þar sem hann keppir við sína jafnaldra.


Culver númer 34

Lilja er alveg sjúk í að fara í útilegu eða uppí sveit þessa dagana.  Hún suðar um að fara í sveitina á hverjum degi og ef það gengur ekki hvort hún megi þá ekki sofa í tjaldi út í garði...  'Mamma en mér verður ekkert kalt!  Mamma þú mátt líka sofa í tjaldinu! (jeiii),  Mamma gerðu það...".  Í gær tók hún til sinna ráða og fór í útilegu í herberginu sínu :)


15. okt. 2010

Powerade # 1 2010

Fyrir rúmri viku síðan var ég búin að blása af allar keppnir fram að áramótum, mér var illt í bakinu og ómöguleg.  Síðan þá er ég búin að taka þátt í tveimur keppnum og er að spá í tvær til viðbótar um helgina!!!  Ekki í lagi með mann.  Breytingin er samt sú að einhvers staðar í lok sumars þá týndi ég keppnisgleðinni, sennilega að setja of mikla pressu á mig en núna er þetta bara gaman og ég tek eina keppni í einu, skoða hvernig mér líður með að taka þátt og ef ég fæ gleði tilfinningu þá læt ég vaða.  Annars geri ég bara eitthvað annað sem mér finnst gaman.

Við hjónin erum í byrjun uppbyggingartímabils í hlaupunum núna og erum að taka erfiðar styrktaræfingar með hópnum okkar.  Hörku erfiðir sprettir á mánudaginn og þrek/sprettæfing á miðvikudag.  Skv. honum Þorláki þjálfara þá eigum við ekki að hvíla fyrir Powerade, heldur taka þau sem tempóæfingu vikunnar hverju sinni.  Það er alveg frábært finnst mér, tekur af manni alla pressu og maður er afslappaður og fínn á línunni.  

Hlaupið í gær var alveg frábært fyrir mig.  Fór rólega af stað, tók góðan millikafla og hélt svo fínum dampi, alveg án þess að sprengja mig síðustu 2-3 km.  Ég þarf að fara varlega í brekkunum á meðan ég er að jafna mig alveg í bakinu og notaði tækifærið til að hugsa um stílinn, öndunina og taktinn hjá mér.  Ég var ekki með klukku og var hoppandi glöð með tímann, 42:07 en það er mínútu betri tími en í Geðhlaupinu.  Held að þetta sé besta byrjunin mín í Powerade og þetta veit á góðan vetur.  Gaman.


Verð að setja inn þessa mynda af www.hlaup.is frá Geðhlaupinu.
Þvílíkt fagn, það mætti halda að ég hefði verið að vinna Ólympíuleikana!!!

12. okt. 2010

Notalegt...


...að koma heim eftir sundæfingu á fimmtudagskvöldið og finna fólkið sitt svona :)
Við Þórólfur eigum 9 ára 'Fyrsta koss' afmæli í dag og héldum upp á það með því að fá okkur æðislegan mat frá Austurlandahraðlestinni. Við eigum meira að segja mynd af 'atburðinum'.  Set hana kannski inn á 10 ára afmælinu :)

11. okt. 2010

Íslandsmeistaramót?

Er hægt að halda Íslandsmeistaramót í útlöndum?

Pæling.

9. okt. 2010

Geðhlaup og Viðey

Frábær dagur að baki og okkur tókst gera órúlega mikið og skemmtilegt.  Við Lilja byrjuðum daginn á fimleikum, henni finnst svoooo gaman, það er alveg frábært að fylgjast með henni blómstra þarna.  Afi Þór kom og sótti krakkana í hádeginu og bauð þeim á búlluna og tók þau með sér í heimsókn til ömmu Kollý en hún er á spítalanum núna. 

Þórólfur var ákveðinn í að vera með í Geðhlaupinu en ég var tvístígandi fram á síðustu stundu, ákvað svo að vera með til að styrkja gott málefni og taka þetta sem tempó æfingu.  Veðrið var alveg frábært en ég hafði dúðað mig full mikið út af kvefinu, var í þykkri svartri síðerma peysu og var ekki með neitt aukadót með mér.  Það var alveg steikjandi hiti og sól á ráslínu og mínútu fyrir start ákvað ég að rífa mig úr peysunni til þess að kafna ekki og hlaupa bara á toppnum!   Þetta er n.b. í fyrsta skipti sem ég hleyp bara á topp og það í október, nýstiginn upp úr pest...  Eftir 500 m dró fyrir sólu og mér var ekki alveg að lítast á þetta en sem betur fer varð mér ekkert kalt á leiðinni.  Mjög góð leið til að æfta magavöðvana, hljóp alveg teinrétt svo bumban (haust aukakílóið) færi ekki yfir strenginn þegar Torfi var að taka myndir.  Er búin að semja við hann um að paintshoppa sixpack á mig ef þess þarf!  Hlaupið var frábært, var klukkulaus og tók þetta bara á gleðinni, var með í huga að halda ca. hálf maraþon pace.  Endaði á rétt um 43 mínútum, alsæl með það og ekki verra að vera fyrsta kona í mark.  Þórólfur varð þriðji og við vorum leyst út með blómum, geisladiskum, usb lykli og viðurkenningarskjali.  Það er alltaf svo kósí að vera með í svona smærri hlaupum, þeir sem standa að þeim þykir svo svakalega vænt um það. 
Gömlu hjónin sátt með Geðhlaupið
Eftir snurfuss og búðarferð renndum við í heimsókn til Ástu systur og gátum losað okkur við annan blómvöndin þar, áður en við brunuðum heim og græjuðum okkur fyrir Viðeyjarferð.  Gabríel ákvað að vera heima með vini sínum en Lilja var til í tuskið.  Ótrúlega skemmtileg ferð og svo sannarlega ógleymanlegt kvöld hjá okkur.  Þakka bónda mínum þessa frábæru hugmynd.
Í bátnum á leiðinni í Viðey
Geðveikt gaman!
Lilja tók þessa mynd af mömmu og pabba!

Friðarsúlan

Lilja fann stafinn sinn

8. okt. 2010

Friðarsúlan

Aumingja þeir sem eru bakveikir segi ég nú bara, þeir eiga alla mína samúð!  

Á þriðja degi í hlaupahvíldinni minni fór ég að finna fyrir stífleika í bakinu og blótaði því í sand og ösku að hafa tekið hlaupahvíld píld skíld...  Ég var nú samt alveg róleg yfir þessu fyrstu dagana og beið átekta, át íbúfen en ég var alveg jafn slæm ef ekki verri eftir 3-4 daga.  Þrjár vikur af því að geta varla komist í sokkana, rétt svo geta staðið upp úr stól og ekki séns að lyfta börnunum mínum, þá var nóg komið og ég fór til hans Rúnars sjúkraþjálfara.  Þá var ég farin að ímynda mér að ég væri komin með brjósklos eða eitthvað þaðan af verra.  Hann potaði í bakið á mér og sagði ojjj... ekki myndi ég vilja éta svona kjöt!  Hmmm...  Ég var pikkstíf frá rassi og upp að herðablöðum, sérstaklega slæm hægra megin og þegar ég reyndi að vinda uppá mig gerðist bara ekkert.  Á bekkinn fór ég og Rúnar nuddaði, hnykkti efstu hryggjarliðunum og setti mig í stuttbylgjur.  Svo kom að mjóbakinu og það þurfti alveg sérstakar trakteringar í það.  Leggjast á hliðina á jaðarinn á bekknum, svo teygði hann hnéð í aðra áttina og öxlin í hina og svo 'Hadjahhhh....'.  Var pínulítið að spá í hvort ég hefði brotnað í tvennt eitt augnablik en hmmm... var ekkert verri eftir trakteringarnar.   Það er skemmst frá því að segja að daginn eftir fann ég varla fyrir nokkru og í gær var ég allt í einu komin í sokkana áður en ég vissi af.  Fór aftur til hans í dag af því ég átti tíma og hann kórónaði meðferðina með því að stinga í mig nokkrum nálum og tók svo eina umferð í viðbót af nuddi og hnykki.  Ekki nóg með að ég er orðin góð í bakinu núna, það sem meira er, ég er orðin góð í skapinu!  Það verður alveg ótrúlega stuttur í manni þráðurinn ef manni er alltaf illt einhvers staðar, gott að muna það.

Við tókum bleika daginn með trompi hérna á heimilinu.  Lilja fór í bleikt pils og bleika peysu, Gabríel fékk lánaða bleika skyrtu hjá mér og fór í henni í skólann og í afmæli (fannst það nú eiginlega merkilegast :), Þórólfur fór í bleika skyrtu og ég í skærbleikan kjól.  Fattaði bara ekki að taka mynd af okkur þegar tækifæri gafst í morgun, rækatlans.

Sé ekki betur en að það sé frábær helgi framundan.  Fimleikar hjá Lilju, hlaup hjá okkur, Esjuferð og jafnvel Viðeyjarferð ef allt gengur upp.  Okkur langar að fylgjast með þegar Friðarsúlan er kveikt.  Við erum miklir aðdáendur.  Bæði vegna þess að við sjáum hana beint út um dyrnar hjá okkur (notalegt að byrja daginn á því) og svo er kveikt á hennu á dánardægri hennar elsku tante Astrid, sem okkur þótti svo óendanlega mikið vænt.  Fyrir okkur er þetta ljósið hennar tante.


4. okt. 2010

Kryptonite

Ja ef ég er ofurkvendi, þá er einhver að sniglast í kringum mig með Kryptonite!

Átti frábæran laugardag sem byrjaði með 18 km skokki í blíðunni með Simma og Jóa í eyrunum á meðan Þórólfur fór með Lilju í fimleika.   Gabríel hafði fengið að gista hjá vini sínum, ásamt 4 öðrum guttum, þvílíkt gaman hjá þeim.  Tengdamamma átti afmæli og við kíktum til hennar með smá pakka eftir hádegið.  Drifum okkur svo í bæinn á kaffihús en við erum búin að uppgötva að ef við tökum með litabók og liti fyrir Lilju þá getum við dinglað okkur í góðan klukkutíma yfir kaffibolla, spjalli og kíkt í tímarit.  Það er notalegt.  Enduðum daginn á sundferð í Mosfellsbæ en þar er uppáhalds sundlaugin okkar, barnalaugarnar eru heitar og Lilja getur farið sjálf í rennibrautirnar og valið um 3 mismunandi leiðir.  Hún fer milljón ferðir og á meðan er maður vel haldinn í hlýrri laug til að taka á móti henni.  Algjör snilld.

Fann pestina læðast niður í hálsmálið á mér seint á laugardagskvöldið, kom svo sem ekkert svakalega á óvart, annar hvor maður í vinnunni búin að leggjast.  Ég átti von á tveimur bræðrum mínum og fylgifiskum í brunch á sunnudaginn og ákvað því að setja pestina á hold.  Brunchinn var frábær, ég spilaði út fullt af trompum sem ég hef pikkað upp hjá heilsusamlegu hlaupastelpunum mínum.  Bauð m..a. uppá ávaxtasalat með vanilludressingu, hummus með sólþurrkuðum tómötum, heimabakað Sibbubrauð (döðlubrauð :).  Bóndinn sá um desertinn að venju og töfraði fram dýrindis Creme Brulee.  Viðstödd tækjafrík fengu í hnén þegar þeir sáu brennarann sem hann notar til að bræða hrásykursskelina ofan á, úh la lahhh...  

Við vorum búin að plana leikhúsferð með krakkana seinnipartinn á sunnudaginn en ég þurfti að játa mig sigraða og skreið undir sæng.  Buðum Mirru litlu frænku í minn stað og Þórólfur fór með alla krakkana á 'Með horn á höfði'.  Sýndist allir vera ánægðir með sýninguna og Lilja var dugleg að segja mér frá öllu sem gerðist í sýningunni og leika það helst líka...

Var bara áfram eins og drusla fram eftir kvöldi en ákvað að reyna að hressa mig við, sjá hvort súrefnið myndi ekki gera mér gott.  Dúðaði mig og labbaði einn góðan hring um hverfið og leið skömminni skár á eftir.  Það dugði skammt, vaknaði með hausverk, sár í hálsinum og kvef í hausnum.  Er þess vegna heima í sjálfsvorukunnarkasti af því það er svoooo gott veður úti og ég kemst ekki út að sprikla.  Fæ alveg grænar af þessu væli í mér þegar ég sé það svona á prenti, díhhh...  Í hinu stóra samhengi er ég lukkunar pamfíll og veit það.  Góðar stundir :)


1. okt. 2010

Fjölskylduhrúga

 
Aðeins að taka til í Picasa og fann þessa mynd frá 2007 sem minnti mig á hvað ég hlakka til að eyða tíma með fjölskyldunni minni um helgina. 
Náði langþráðu markmiði í gærkvöldi.  Ég lærði að synda skriðsund fyrir tæpum fimm árum hjá honum Mads, sem var þá þjálfari ÞríR.  Ó hvað það var erfitt og ég veit ekki hversu oft ég hugsaði með mér að þetta væri nú ekkert fyrir mig, hæfileikar mínir lægju greinilega annars staðar.  Mads var endalaust að kalla mig upp á bakka, nei ekki svona, aðeins meira svona, vertu bein, hendurnar svona... og ég niðurlút eins og skömmustulegur krakki.  En á endanum komst ég í gegnum erfiðasta hjallan og náði þeim áfanga að geta synt eins lengi og mig langaði, bara ekkert svakalega hratt...
Einn daginn sagði Mads við mig að þegar ég gæti synt 100 m skrið á innan við 1:50, þá myndi hann hlaupa 10 km.  Korteri seinna var ég orðin ólétt af henni Lilju, fór að vinna í Rússlandi og sundið datt meira og minna upp fyrir hjá mér næstu árin.  Alla vega komst ég aldrei undir 1:50. 
Nú er ég búin að synda reglulega í mánuð og það er allt annað að byggja ofan á góðan grunn en að byrja frá grunni...  Þrjár æfingar í viku og í gærkvöldi fór ég í fyrsta sinn undir 1:50.  Það voru tveir 100 m sprettir í prógramminu, þann fyrri fór ég á 1:44 og seinni á 1:43.  Jibbííí!
Búin að senda Mads skilaboð á Facebook :)
Posted by Picasa